Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Safnaðarþjónar varðveitið gott álit!

Safnaðarþjónar varðveitið gott álit!

Safnaðarþjónar varðveitið gott álit!

„Þeir sem veita góða þjónustu afla sér góðs álits og mikillar djörfungar í trúnni sem er tengd Kristi Jesú.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:13, NW.

1. Hvaða markmið ætti safnaðarþjónn að hafa eftir að hann hefur hlotið útnefningu, og hvað ættu aðrir í söfnuðinum að vilja gera?

 KARLMENN, sem eru safnaðarþjónar núna, hafa verið „fyrst reyndir.“ (1. Tímóteusarbréf 3:10) En útnefning þeirra var ekkert endimark í sjálfri sér. Takmark þeirra er að „afla sér góðs álits“ með því að rækja skyldur sínar vel. (1. Tímóteusarbréf 3:13, NW) Sérhver meðlimur hins sameinaða kristna safnaðar mun vilja styðja þá í að ná þessu marki.

2. Hvernig hefur það sem safnaðarþjónarnir gera áhrif á aðra í söfnuðinum?

2 Páll postuli gaf til kynna að allir meðlimir hins andlega líkama Krists njóti góðs af því að vinna saman og annast hver annan. (1. Korintubréf 12:12-31) Þegar safnaðarþjónar rækja vel það starf, sem Guð hefur falið þeim, er það hinum kristna söfnuði nútímans til góðs á sama hátt. En þegar safnaðarþjónar eiga við að stríða vandamál, sem hindra þá í að rækja skyldur sínar fyllilega, getur það valdið öllum í söfnuðinum erfiðleikum.

3. (a) Hvaða vandamál eru sameiginleg öllum þjónum Jehóva? (b) Hvað leiðir könnun, sem gerð var nýlega, í ljós?

3 Allir þjónar Jehóva eiga í sömu baráttunni, „ekki við menn af holdi og blóði, heldur . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Auk þess eiga allir þjónar Jehóva í baráttu við sinn eigin ófullkomleika og syndugar tilhneigingar. Sem hópur standa safnaðarþjónarnir hins vegar frammi fyrir vissum vandamálum sem meira ber á hjá þeim en gengur og gerist meðal votta Jehóva. Könnun, sem gerð var fyrir skömmu í landi í Vestur-Evrópu, lýsir því vel, en þar eru liðlega 320 söfnuðir og 1360 safnaðarþjónar.

Einhleypi og hjónaband

4. Hvernig ættu ókvæntir safnaðarþjónar að líta á einhleypi sitt, og hvaða hvatningu geta aðrir gefið þeim?

4 Af þeim safnaðarþjónum, sem könnun var gerð hjá, voru liðlega tíu af hundraði enn þá einhleypir. Þar með eru þeir lausir við ýmsar skyldur sem eru sameiginlegar hinum nálega 90 af hundraði sem eru kvæntir. En einhleypir bræður verða að gæta þess vel að nota ekki þetta frelsi til óhóflegrar afþreyingar eða félagslífs. Þeir ættu ekki heldur að láta hina eðlilegu löngun til að kvænast ganga fyrir öllu öðru í lífinu. (Matteus 6:33) Ekki mega þeir heldur láta þrýsting frá vinum sínum, sem eru í hjónabandi, koma sér til að hlaupa út í vanhugsað eða óskynsamlegt hjónaband. Og vissulega hljóta kristnir menn, sem láta sér annt um hvern annan, að virða einhleypi ógiftra trúbræðra sinna og hvetja þá til að færa sér í nyt frelsið samfara því til að helga guðræðislegum málefnum meiri tíma, hugsanlega að taka upp fulltímaþjónustu.

5. Á hverju er meiri hætta hjá kvæntum safnaðarþjónum en einhleypum?

5 Samkvæmt áðurnefndri könnun eiga um 62 af hundraði safnaðarþjónanna börn. Hjá þeim er meiri hætta en hjá einhleypum bræðrum að hjörtu þeirra „þyngist“ af ‚áhyggjum þessa lífs.‘ (Lúkas 21:34-36) Þegar Páll mælti með einhleypi sagðist hann því vilja að kristnir bræður væru „áhyggjulausir.“ Hann hélt áfram: „Ókvæntur maður getur nýtt tíma sinn til að vinna verk Drottins og reynt að þóknast honum. Kvæntur maður á ekki eins auðvelt með það, hann verður að hugsa um jarðneska ábyrgð sína og hvernig hann geti þóknast konu sinni. Áhugamálum hans er skipt. . . . Þannig gerir sá vel sem giftist þótt sá sem ekki giftist geri jafnvel enn betur.“ — 1. Korintubréf 7:32-38, Lifandi orð.

6. Hvað þurfa kvæntir safnaðarþjónar að gera og hverjir geta hugsanlega gefið þeim góð ráð?

6 Þótt þjónar Jehóva trúi ekki að hjónabönd séu stofnuð á himnum vita þeir að himneskrar visku er þörf til að leysa hjúskaparvandamál. (Sálmur 19:8; Orðskviðirnir 3:5, 6) Kvæntir safnaðarþjónar þurfa því að fylgja eins gaumgæfilega og unnt er heilræðunum í orði Guðs. Þeir verða að leitast við að ná réttu jafnvægi í að rækja skyldur sínar gagnvart fjölskyldunni, án þess þó að nota þær nokkru sinni sem afsökun fyrir því að vanrækja guðræðislegar skyldur í söfnuðinum. Meðal annars er þörf á þaulhugsaðri stundaskrá. Eldri og reyndari hjón geta hugsanlega gefið yngri hjónum gagnlegar tillögur um slíkt þegar leitað er eftir þeim.

7. (a) Hvernig getur fjölskylda safnaðarþjóns haft áhrif á viðleitni hans og andlega framför? (b) Hvað ætti safnaðarþjónn, sem áformar að ganga í hjónaband, að hafa í huga?

7 Stuðningur fjölskyldunnar er kvæntum safnaðarþjóni mikil hjálp. Ef einhver í fjölskyldunni gerir óhóflegar kröfur til tíma hans eða um efnislega hluti getur það auðvitað staðið í vegi fyrir andlegum framförum hans, en það er blessun þegar öll fjölskylda hans styður viðleitni hans við að „veita góða þjónustu.“ (1. Tímóteusarbréf 3:13, NW) Sannarlega er því mikilvægt að ókvæntur safnaðarþjónn reyni að ganga úr skugga um hvort líklegt sé að væntanleg eiginkona muni stuðla að andlegum framförum þeirra, áður en hann stofnar til tilfinningalegra tengsla við hana!

Atvinna og efnishyggja

8. (a) Hvaða hætta tengd veraldlegri vinnu getur blasað við safnaðarþjónum? (b) Hugleiðing um hvaða ritningargreinar getur hjálpað í baráttu gegn efnishyggjunni?

8 Átta af hverjum tíu safnaðarþjónum, sem voru spurðir, voru undir sextugsaldri. Flestir þeirra vinna enn veraldlegt starf til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Nálega helmingur þeirra er milli tvítugs og fertugs — á þeim aldri þegar karlmenn í heiminum eru til jafnaðar að tryggja sér atvinnu og ævistarf, keppast um að komast áfram og tryggja fjárhagslegt öryggi sitt. Ef þú ert safnaðarþjónn í þessum aldurshópi skalt þú aldrei vanmeta hættuna á því að með þér geti þróast veraldleg viðhorf og efnishyggja sem geta veikt þig andlega. Hafðu þess í stað hugfast það sem Páll sagði: „Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:8) Jesús gaf líka góð ráð sem geta hjálpað okkur öllum að berjast gegn efnishyggju. Lestu þau sjálfur í Matteusi 6:19-34.

9. Hvað er viturlegt, einkum af ungum safnaðarþjónum, í samræmi við Matteus 16:26?

9 Þið safnaðarþjónar, sem eruð í yngri aldursflokknum, ættuð sérstaklega að gefa gætur mönnum sem „vegnar vel“ á framabraut heimsins eða safna sér auði, en láta Jehóva standa með öllu utan við fyrirætlanir sínar. (Samanber Orðskviðina 16:3; 19:21.) Hversu viturlegt væri af þér að móta líf þitt eftir óandlegum, efnishyggjufullum mönnum sem verða bráðlega þurrkaðir út í ‚þrengingunni miklu‘? (Matteus 24:21) Hvaða þjónn Jehóva myndi skipta um hlutverk við þá? „Hvað stoðar það manninn,“ sagði Jesús, „að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“ (Matteus 16:26) Vissulega er það viturlegt að byggja sér örugga framtíð með skipulagi Jehóva í stað mjög óöruggrar og skammlífrar með þessum deyjandi heimi sem liggur í valdi Satans. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Hollusta við ríki Guðs

10. Hvaða afstöðu tekur hið sívaxandi ‚æskulið,‘ þeirra á meðal safnaðarþjónarnir, gagnvart stjórnmálum?

10 Í spádómi var sagt um messíasarkonung Jehóva: „Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.“ (Sálmur 110:3) Þessi spádómur hefur verið að rætast frá 1914, og hið sívaxandi ‚æskulið‘ gerir sér ljóst að hollusta þess þarf fyrst og fremst að vera gagnvart ríki Guðs með hinn dýrlega gerða Jesú Krist sem konung. Þótt þessir vígðu menn, þeirra á meðal safnaðarþjónarnir, sýni „yfirvöldum“ afstæða undirgefni, verða þeir „framar . . . að hlýða Guði en mönnum“ þegar hagsmunir rekast á. (Rómverjabréfið 13:1; Postulasagan 5:29) Eins og Jesús sagði ‚heyra fylgjendur hans ekki heiminum til.‘ (Jóhannes 15:19; 18:36, Ísl. bi. 1912) Þeir varðveita hlutleysi gagnvart stjórnmálum þjóðanna og gera sér ljóst að þeir yrðu að öðrum kosti drottinsvikarar gagvart ríki Guðs.

11. Hverju mega bræður, sem þjást vegna kristilegs hlutleysis, treysta?

11 Hvað þá ef safnaðarþjónar eða aðrir missa atvinnuna eða jafnvel frelsi sitt vegna kristinnar hlutleysisafstöðu sinnar? (Jesaja 2:2-4; Jóhannes 17:16) Þá vita þeir að andlegir bræður þeirra og systur munu veita þeim allan hugsanlegan stuðning andlega, og, ef nauðsyn krefur, efnislega, vegna þess að fólk Jehóva ber ástríka umhyggju hvert fyrir öðru. — Samanber Jóhannes 13:34, 35; 1. Korintubréf 12:24, 25.

Þörfin fyrir aukna reynslu

12. Hvað felst í því að „afla sér góðs álits“?

12 Hér um bil þriðjungur safnaðarþjónanna, sem þátt tóku í könnuninni, hafa verið vottar Jehóva í innan við tíu ár. Augljóst er að þessir menn hafa þegið hjálp og leiðsögn þeirra sem reyndari eru í söfnuðinum. En að „afla sér góðs álits“ hlýtur að fela í sér að halda áfram að læra af öðrum og afla sér reynslu. Það hlýtur líka að fela í sér að setja sér í sífellu persónuleg markmið og leitast samviskusamlega við að ná þeim. Ef þú í einlægni þráir að gegna nytsamlegu hlutverki sem safnaðarþjónn eða ert að keppa eftir þeim sérréttindum, hefur þú þá sett þér einhver persónuleg markmið? Hvernig væri til dæmis að ákveða að vera búinn að lesa í gegnum alla Biblíuna fyrir ákveðinn dag eða vera aðstoðarbrautryðjandi vissa mánuði?

13. Hvaða ráð, gefin Tímóteusi, eru gagnleg bróður sem vill verða safnaðarþjónn eða er það nú þegar?

13 Ef þú ert ungur að árum eða reynslu getur þér orðið að gagni það sem segir í 1. Tímóteusarbréfi 4:12-15. Þótt þessum orðum hafi verið beint til hins unga umsjónarmanns Tímóteusar, er margt af því sem Páll sagði þar um tal og breytni gagnlegt sérhverjum bróður sem langar til að verða safnaðarþjónn eða er nú þegar orðinn það. Postulinn skrifaði: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika. Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn við að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna. Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna. Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ Hverju þarft þú sérstaklega að vinna að til að „framför þín sé öllum augljós“? Leggðu fyrir Jehóva í bæn hvað þú þurfir að gera, og gerðu það síðan með hans hjálp!

Tekist á við kjarkleysi

14, 15. (a) Hvaða hvatningu frá Ritningunni fá safnaðarþjónar sem eru orðnir aldurhnignir eða heilsutæpir? (b) Hvernig geta þeir uppörvað aðra í söfnuðinum?

14 Mikill fjöldi safnaðarþjóna þarf ekki lengur að takast á við þau vandamál sem ungir menn eiga við að etja. Þeir standa frammi fyrir háum aldri eða slæmri heilsu sem getur dregið úr þeim kjark. En þeir sem halda sér andlega sterkum geta hlotið hughreystingu af orðum Páls við smurða, kristna bræður sína: „Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Vér horfum ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.“ (2. Korintubréf 4:16-18) Þjónar Jehóva, sem hafa jarðneska von, eiga sér líka mjög hvetjandi og gleðiríkar framtíðarhorfur — um eilíft líf í jarðneskri paradís. — Lúkas 23:43; Jóhannes 17:3.

15 Þeir safnaðarþjónar, sem geta ekki gert eins mikið og aðrir vegna slæmrar heilsu eða aldurs, hafa því fullt tilefni til að halda gleði sinni og jákvæðum viðhorfum. Það endurspeglar að þeir kunni að meta sannleikann og hafi sterka trú á það sem eilíft er. Slíkur andi, tengdur auðmjúkri þjónustu, mun vera öllum í söfnuðinum til mikils gagns og hvatningar.

16. Hvers vegna ætti safnaðarþjónn ekki að verða niðurdreginn þótt hann sé ekki útnefndur öldungur?

16 Ef þú ert safnaðarþjónn skaltu halda áfram að ‚sækjast eftir umsjónarstöðu‘ með því að þroska kennsluhæfni þína og andlega hæfileika. (1. Tímóteusarbréf 3:1) En láttu það ekki draga úr þér kjark þótt þú sért ekki útnefndur fljótt öldungur. Mundu að sem safnaðarþjónn, sem rækir skyldur sínar vel, þjónar þú nytsamlegu hlutverki og ert söfnuðinum til mikillar blessunar. Það eru mikil sérréttindi að þjóna með einhverjum hætti innan skipulags Jehóva og hjálpa trúbræðrum sínum að inna af hendi það ætlunarverk að prédika Guðsríki. — Matteus 24:14; 28:19, 20.

Hvernig aðrir geta hjálpað

17. Hvernig getur safnaðarþjónn fengið hjálp frá konu sinni og börnum?

17 Allir þjónar Jehóva ættu að gera sér ljóst hversu jákvæðu hlutverki safnaðarþjónarnir gegna og vilja styðja þá í starfi sínu. Til dæmis mun það vera slíkum manni auðveldara að halda áfram að ‚veita góða þjónustu‘ ef kona hans og börn gera sig ánægð með nauðsynjar lífsins, en krefjast ekki munaðar sem myndi útheimta að hann eyddi meiri tíma og kröftum í veraldlega vinnu. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.

18. (a) Hvernig geta öldungar hjálpað safnaðarþjónum? (b) Hvers vegna eru góð skoðanaskipti og samræður nauðsynlegar milli öldunga og safnaðarþjóna?

18 Öldungar geta hjálpað safnaðarþjónum með því að gefa þeim leiðbeiningar og ráð um það sem þarf. Og þegar þeir hafa tekið framförum ætti alltaf að hrósa þeim einlæglega. Meðal annars geta öldungar farið með safnaðarþjónum út í þjónustuna á akrinum, aðstoðað þá við að undirbúa ræður og látið þá njóta góðs af sínum kristna lífsreynslufjársjóði. Að því er virðist hefur slíkur áhugi og samskipti stundum verið vanrækt. Þegar til dæmis farandhirðir spurði safnaðarþjón einn að því hvers vegna starfsskýrsla hans væri ekki sem best svaraði hann: „Hví spyrðu? Hún hefur verið léleg svo árum skiptir en þú ert sá fyrsti sem nefnir það á nafn.“ Öldungar, sem gefa safnaðarþjónum uppbyggileg, kærleiksrík ráð og hjálpa þeim þolinmóðir að leysa vandamál sín, hljóta oft þá gleði að sjá framúrskarandi árangur af erfiði sínu.

19. Hvernig geta allir í söfnuðinum hjálpað safnaðarþjónunum að viðhalda sínu góða áliti?

19 Í rauninni getur hver einasti safnaðarmeðlimur hjálpað safnaðarþjónum að varðveita sitt góða álit. Hvernig? Með því að vera samstarfsfúsir við þá og með því að sýna hjartans þakklæti fyrir erfiði þeirra. Eins og allir hlutar mannslíkamans vinna til jafnaðar saman að því að vernda heilsuna, þannig verða allir meðlimir safnaðarins að vinna saman að því að tryggja góða, andlega heilsu hans. (Samanber 1. Korintubréf 12:24, 25.) Til að svo geti orðið er mikið starf unnið af iðjusömum safnaðarþjónum sem varðveita gott álit. Megi þeir, og allir drottinhollir vottar Jehóva, horfa fram til eilífrar hamingju og vinna sem einn maður saman að því að gleðja hjarta ‚hins sæla Guðs.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Ísl bi. 1912; Orðskviðirnir 27:11.

Útskýrðu eftirfarandi

◻ Hvaða vandamálum geta safnaðarþjónar staðið frammi fyrir?

◻ Hvað geta eiginkonur og börn safnaðarþjóna gert til að hjálpa þeim?

◻ Hvað geta öldungar gert til að aðstoða safnaðarþjóna?

◻ Hvað getur sérhver meðlimur safnaðarins gert til að hjálpa safnaðarþjónum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 14]

Safnaðarþjónar verða að rækja trúlega skyldur sínar innan safnaðarins, svo og í því að gera menn að lærisveinum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Safnaðarþjónar, sem farnir eru að reskjast, geta átt ríkulegan þátt í að hjálpa söfnuðinum og uppörva.