Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Æfðu sjálfan þig með guðrækni sem markmið

Æfðu sjálfan þig með guðrækni sem markmið

Æfðu sjálfan þig með guðrækni sem markmið

„Æfðu sjálfan þig með guðrækni sem markmið.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:7, NW.

1. Hvað varð til þess að góður hlaupari tapaði keppni?

 HÚN varð besti hlaupari keppnisliðsins í sinni grein. Hún hafði oft sigrað og var talin í flokki bestu hlaupara þjóðarinnar. Því var búist við að hún bæri sigur úr býtum á þessu mikla móti. En þjálfara sínum, félögum og sjálfri sér til mikilla vonbrigða stóð hún sig ver en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna? „Ég sló slöku við æfingar og hætti minni ströngu þjálfun,“ játaði unga konan niðurlút. „Þjálfari minn reyndi að fá mig til að gera erfiðari æfingar og aðvaraði mig en ég hlustaði ekki.“ Það að hún skyldi vanrækja æfingar kostaði hana sigurinn sem hún stefndi að.

2. Í hverju verða kristnir menn að æfa sig og hvers vegna ættum við að vilja vita hvernig á að fara að því?

2 Ef þú ert kristinn maður, einkum ef þú ert ungur, þarft þú líka að stunda þýðingarmiklar æfingar. „Æfðu sjálfan þig með guðrækni sem markmið.“ (1. Tímóteusarbréf 4:7, NW) Gríska orðið, sem er þýtt „æfðu“ (gymnaso), lýsir erfiðum og oft sársaukafullum æfingum sem íþróttamenn gerðu í íþróttahúsinu. Með guðræknina og launin, sem hún veitir, í huga bætti Páll postuli við: „Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð.“ (1. Tímóteusarbréf 4:10) Þessi nauðsynlegi eiginleiki kemur ekki af sjálfum sér eða gengur í arf frá guðhræddum foreldrum. Hvað þarft þú sjálfur að gera? Kristnir menn á öllum aldri ættu að vilja að vita það.

Gott samband við Guð

3. (a) Hvers vegna er einkanám svona mikilvægt? (b) Hvaða eiginleikar Guðs laða þig að honum?

3 Þar eð guðrækni felur í sér að meta í hjarta sér eiginleika Jehóva þarft þú að vita hvernig hann raunverulega er. Jehóva kemur því á framfæri í Biblíunni. En þú þarft sjálfur að nema orð hans gaumgæfilega, svo og rit sem útskýra Biblíuna, og þar með ‚næra þig af orði trúarinnar og góðu kenningunni.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:6) Slíkt nám mun hjálpa þér að „skoða yndisleik [Jehóva].“ — Sálmur 27:4.

4. Hvaða reynslufrásagnir sýna fram á gildi einkanáms og hvaða spurningar ættir þú að íhuga alvarlega?

4„Því meira sem ég læri um Jehóva, þeim mun nánari bönd finnst mér tengja okkur,“ segir 22 ára brautryðjandi (prédikari í fullu starfi). „Þegar ég les spádóma og sé hvernig þeir rætast fyllist ég lotningu fyrir honum. Einkanám er mér svo sannarlega mikil hjálp.“ Sextán ára unglingur, sem hafði átt við að stríða alvarlegt þunglyndi, skrifaði um eina af greinunum í greinarröðinni „Ungt fólk spyr“ sem birtist í tímaritinu Vaknið!: „Einmitt þegar ég hafði gefið upp alla von kom þessi grein. Ég var svo spenntur að ég gat ekki lagt blaðið frá mér! Mér fannst ég standa miklu nær Jehóva og gerði mér ljóst að hann skilur og ber mjög djúpa umhyggju fyrir okkur. Nú finnst mér ég geta tekist á við vandann.“ * Er það ásetningur þinn að lesa hvert tölublað tímarita okkar? Tekur þú þér tíma til að næra huga þitt og hjarta með einkanámi í Biblíunni, þótt það kosti þig átak? Með því að rannsaka sjálfur og brjóta hlutina til mergjar getur þú sannað fyrir sjálfum þér að þú hafir sannleikann. Þegar slík vitneskja nær til hjartans er nánast tryggt að hún hvetji þig til verka, því að hún er það „sem guðrækni vor kennir.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:3; Rómverjabréfið 12:2.

5, 6. Hvers konar bænir draga þig nær Guði? Nefndu dæmi.

5 Gott samband við Guð felur einnig í sér innilegar og skýrar bænir. Þær stuðla að því að byggja upp persónulegt vináttusamband við Jehóva. Þegar þér verða á mistök skaltu vera fús til að biðja eins og Davíð: „Minnst eigi æsku synda minna og afbrota.“ (Sálmur 25:7, 11) Þú mátt vera viss um að hann muni fyrirgefa þér ef þú ert iðrunarfullur. Lærðu að gefa þér góðan tíma til að biðja og úthella hjarta þínu. Ung stúlka, sem var alin upp á guðræknu heimili, hafði leyft málhellti að hindra þátttöku sína í sannri guðsdýrkun. „Þá gerðist það eitt kvöld,“ segir hún, „að ég sárbændi Jehóva: ‚Hjálpaðu mér að vilja að þjóna þér, ekki bara af því að öldungarnir og foreldrar mínir vilja það.‘“ Frá þeirri stundu varð breyting á lífi hennar! Þrátt fyrir að hún stamaði tók hún að leggja sig fram í þjónustunni. Hún er núna 22 ára og segir með gleðibragð: „Ég treysti miklu meira á Jehóva núna vegna þess að ég veit að hann hjálpar alltaf.“ — Sálmur 62:9.

6 Ung kristin stúlka bað sérstaklega til Jehóva um að geta látið áform sín um að verða brautryðjandi rætast. Þegar bænum hennar var svarað sagði hún: „Ég vissi að Jehóva væri raunverulegur og lét sér annt um okkur! Áður hafði ég haldið að ég hefði samband við hann, en núna er hann meira eins og vinur — besti vinur minn.“ Jehóva mun ekki alltaf svara bænum okkar á mjög áberandi hátt, en ef við erum einlæg og breytum í samræmi við bænir okkar munu við fá að reyna ástríka handleiðslu hans. —Sálmur 145:18.

Hafðu góða samvisku

7. Hvað er samviskan og hvers vegna verður þú að varðveita góða samvisku?

7 Þegar Páll hvatti Tímóteus til að halda áfram að ‚varðveita góða samvisku‘ vissi postulinn að það myndi útheimta staðfasta viðleitni. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Hvers vegna? Samviskan er hæfileiki sem Guð hefur gefið okkur til að rannsaka okkur og fella dóm um það sem við höfum gert eða ætlum okkur að gera. Samviskan getur annað hvort ‚ásakað‘ okkur, fordæmt stefnu okkar á sársaukafullan hátt, eða ‚afsakað‘ okkur með því að leggja blessun sína yfir það sem við gerum. (Rómverjabréfið 2:15) En ef samviskan verður fyrir tjón getur hún fellt rangan dóm. Sumir með skaddaða samvisku geta hegðað sér eins og skynlausar skepnur án þess að ‚röddin hið innra‘ ‚ásaki‘ þá. Þeir geta jafnvel opinberlega ‚sagst þekkja Guð en afneita honum með verkum sínum.‘ Hvernig getum við verndað okkur fyrir því að samviska okkar spillist? — Títusarbréfið 1:10-16.

8. Hvernig ‚vörpuðu sumir frá sér‘ góðri samvisku á fyrstu öldinni?

8 Páll hafði sagt Tímóteusi að sumir kristnir menn hefðu „frá sér varpað“ sinni góðu samvisku með því að ‚gefa sig að ævintýrum‘ og ‚vanheilögum hégómaræðum.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:4, 19, 20; 6:20; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Það að hlusta á slíkt hafði grafið undan trú þeirra og orðið þess valdandi að þeir hlutu andlegt skipbrot. En Páll sýndi fram á að ýmislegt annað, auk fráhvarfskenninga, væri „gagnstætt . . . hinni heilnæmu kenningu.“ Í 1. Tímóteusarbréfi 1:9, 10 nefnir hann meðal annars morð, saurlifnað og kynvillu.

9, 10. (a) Hvað má læra af kristnum hjónaleysum sem varðveittu ekki góa samvisku? (b) Hvernig getum við hindrað að samviska okkar verði ónæm?

9 Núna gagnsýra ofbeldi og siðleysi bæði kvikmyndir, sjónvarpsefni og prentað mál. Ef við nærum hugann á slíku getur samviska okkar smám saman glatað næmleika sínum. Þannig fór fyrir ungum, kristnum hjónaleysum sem gerðust sek um siðleysi skömmu fyrir brúðkaupsdaginn. „Ég held að það hafi átt rætur sínar að rekja til þess sem við höfðum verið að horfa á í sjónvarpi,“ játaði unga konan. „Þar er fólk sífellt í faðmlögum og að gæla hvert við annað svo að það virðist ekki neitt alvarlegt. Maður venst því og við fórum líka að gera það. Ef ég bara hefði hugsað meira um hversu alvarlegt það væri!“ Áður en hún vissi af var hún búin að missa sína góðu samvisku. Ungi maðurinn bætti við: „Ég hafði líka iðkað sjálfsfróun, og það gerir samviskuna ónæma svo að það er ekki erfitt að fara að faðmast og kyssast og að síðustu fremja skírlífisbrot.“ Þótt þau virtust í augum annarra setja gott fordæmi hafði það sem þau horfðu á sér til skemmtunar, ásamt leyndum, óhreinum ávana smám saman slæft samvisku þeirra alveg eins og tilfinningin hverfur smám saman frá hörundi sem er brennimerkt aftur og aftur með glóandi járni. — 1. Tímóteusarbréf 4:2.

10 Gæti samviska þín á sama hátt slóvgast á því sem þú horfir á eða lest þér til skemmtunar? Ef þú átt við að glíma einhvern slæman ávana sem getur saurgað samvisku þína, leggur þú þig þá kappsamlega fram um að sigrast á honum? Þér til verndar gætir þú leikið varnarleik með því að lesa — jafnvel oftar en einu sinni — biblíuleg rit sem fjalla beinlínis um þitt vandamál, eða með því að ræða vandann við öldung. Góð, hrein samviska er dýrmæt gjöf frá Guði sem mun hjálpa þér að rækta með þér guðrækni. Láttu ekkert koma þér til að glata henni!

Veldu þér rétta félaga

11, 12. (a) Hvaða aðvörun er gefin í 2. Tímóteusarbréfi 2:20, 21? (b) Hvernig getur þú farið eftir þessari aðvörun?

11 Páll postuli skrifar: „Á stóru heimili [í söfnuðinum] eru ekki einungis gull ker og silfurker, heldur og treker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota. Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 2:20, 21) Tilfinningar okkar og hegðun verða fyrir miklum áhrifum af þeim sem við veljum okkur að vinum. Augljóst er að þeir sem ekki eru í trúnni eru ekki bestu félagarnir. En Páll bendir hérna hreinskilnislega á að jafnvel innan safnaðarins gæti verið fólk sem ekki væri æskilegt að velja sér að félögum. Að vísu gæti þér fundist gaman að vera með þeim, en áhrif þeirra munu aldrei hjálpa þér að ‚flýja æskunnar girndir‘ eða þroska með þér guðrækni. Leitaðu þér að guðræknum félögum innan safnaðarins. Páll heldur áfram í versi 22: „Stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottinn af hreinu hjarta.“ — Samanber Filippíbréfið 3:4, 8, 9.

12 Við skulum taka sem dæmi unga kristna stúlku sem var sífellt að lenda í klandri þótt hún hafði fengið guðrækilegt uppeldi. „Það stafaði aðallega af þeim sem ég hafði félagsskap við,“ sagði hún. Þegar henni var ljóst að það hallaði undan fæti hjá henni valdi hún sér nýja vini. Hún segir: „Ef við veljum okkur vini sem elska Jehóva hjálpar það okkur að hafa næma samvisku og lenda ekki í vandræðum. Þegar þeir láta í ljós fyrirlitningu á rangri breytni fær það okkur til að hugsa eins.“ Með því að hætta að vera í óæskilegum félagsskap er hún orðin „ker helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ Eftir að hafa verið brautryðjandi í 10 ár segir hún: „Nú hefur Jehóva notað mig til að hjálpa öðrum.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:21; Orðskviðirnir 15:31.

13. Hvernig getur þú gengið úr skugga um hverjir séu góðir félagar, og hvaða áhrif geta þeir haft á þig?

13 Leggðu því raunsætt mat á þá sem þú velur þér að félögum. Leggja þeir stund á réttlæti, trú, kærleika byggðan á meginreglum og frið? Eru þeir fullir kristinnar kostgæfni? Með því að velja þér slíka að nánum félögum getur þú sjálfur orðið fordæmi í tali, breytni, kærleika, trú og hreinleika eins og Tímóteus, hinn náni samstarfsmaður Páls. Þetta merkir ekki að þú eigir að verða kuldalegur eða óvingjarnlegur gagnvart þeim sem síður eru til fyrirmyndar. Fordæmi þitt og gleði getur líka verið þeim hvöt til að láta fætur sína troða beinar brautir. — 1. Tímóteusarbréf 4:12; Hebreabréfið 12:12-15.

Færðu Guði fórnir

14, 15. (a) Hvers var krafist af íþróttamönnum til forna? (b) Hvaða starf krefst fórna og hvaða góð fordæmi höfum við?

14 Á dögum Tímóteusar urðu íþróttamenn, sem voru að þjálfa sig til keppni, að ‚neita sér um allt,‘ iðka sjálfstjórn og neita sér um margs konar réttmæta skemmtun. (1. Korintubréf 9:25) Þeir urðu að vera á sérstöku fæði. Að sögn Hóratíusar, ljóðskálds frá fyrstu öld f.o.t., héldu þeir sér „frá konum og víni“ til að „ná hinu langþráða markmiði.“ Eins er það núna að færa þarf fórnir til að æfa sig með guðhræðsluna að markmiði. Páll sagði um Tímóteus: „Ég hef engan honum líkan, . . . allir leita þess sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. — En . . . hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér.“ — Filippíbreið 2:19-22.

15 Tímóteus var boðið: „Gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ (2. Tímóteusarbréf 4:5) Óháð því hversu eftirsóknarverð einhver af persónulegu áhugamálum Tímóteusar kunna að hafa virst fórnaði hann þeim til að fullna verk Guðs. Ert þú fús til að gera slíkt hið sama? Sum kristin ungmenni, sem ekki hafa þurft að axla þunga, biblíulega ábyrgð, hafa farið út í æðri menntun eða vellaunað, fullt starf í heiminum í stað hinnar kristnu þjónustu. Ungur kristinn maður beið spenntur eftir slíku starfi. En áður en hann hóf störf þáði hann boð um að starfa með brautryðjendahjónum á akrinum allt sumarið. Og hann naut þess. Afleiðingin var sú að hann fórnaði hinu fulla starfi, sem hann hafði sókst eftir, og fékk sér síður áhugavert hlutastarf til að geta verið brautryðjandi. Í þessum sama Tímóteusar-anda þjónar hann nú á aðalstöðvum votta Jehóva. Viljinn til að færa fórnir er merki um ósvikinn kærleika, og fórnirnar gera þann kærleika enn sterkari eins og hann komst að raun um.

16. Nefnið dæmi um fórnir sem ungt fólk getur þurft að færa?

16 Sem „prédikari og postuli“ lagði Páll áherslu á að háttvísi í klæðaburði væri mjög æskilegt. Værir þú fús til að fórna ákveðnum fatastíl eða hártísku sem gæti hneykslað aðra eða verið þér dragbítur sem prédikari? (1. Tímóteusarbréf 2:7-10) Páll postuli hélt áfram: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega . . . munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Ert þú fús til að verja sannleikann þegar það getur haft í för með sér háð og spott og kostað þig vinsældir meðal bekkjarfélaga þinna? Allar slíkar fórnir, færðar af réttu tilefni, munu hjálpa þér að rækta með þér guðrækni og samtímis kenna þér að treysta á Jehóva og taka tilfinningar hans fram yfir allt annað.

Haltu áfram að taka framförum

17. Hvernig var Tímóteus fordæmi ungum þjóni orðsins í því að taka framförum?

17 Að rækta með sér guðrækni krefst stöðugrar vinnu og viðleitni. Páll sagði Tímóteusi: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Ungum bræðrum getur fundist að þeir geti ekki tekið framförum fyrst þeir séu of ungir til að vera safnaðarþjónar eða öldungar. Þeir ímynda sér að framfarir séu einungis mældar í ábyrgð og sérréttindum innan safnaðarins. Að vísu var Tímóteus orðinn hæfur til að vera öldungur, ekki aðeins vegna andlegra framfara heldur líka vegna aldurs. En Tímóteus átti að halda áfram að leggja sig fram, og í því efni setti hann gott fordæmi öllum ungum þjónum orðsins, óháð því á hvaða sviði þeir geta tekið framförum. — 1. Tímóteusarbréf 4:12, 13.

18. Á hvaða vegu geta ungir kristnir menn tekið framförum með guðræknina að markmiði þrátt fyrir erfiðið sem að krefst?

18 Þið ungu þjónar Jehóva getið, eins og Tímóteus, verið „fyrirmynd trúaðra“ með því að láta sannleikann hafa djúp áhrif á hvernig þið lifið lífi ykkar og með því að taka framförum í þjónustunni. Þið getið núna lagt kapp á að taka framförum með því að læra að rækta eiginleika svo sem hófsemi í venjum, reglufestu, gestrisni og íhugul viðhorf. Með því að vera reiðubúin að aðstoða öldungana og taka alvarlega hvert það verk, sem þeir biðja þig að vinna, getur þú unnið að því að sýna fram á hæfni þína. (1. Tímóteusarbréf 3:1, 2, 8-10) Jafnvel þótt þér þyki aðrir ekki veita framförum þínum skjóta athygli mátt þú treysta að Jehóva sjái þær. Aðrir munu líka koma augu á þær með tímanum. — 1. Tímóteusarbréf 5:25.

19. Hvers vegna ættir þú að æfa þig með guðræknina að markmiði, þrátt fyrir erfiðið sem það krefst?

19 Gleymdu aldrei að með því að þroska með þér guðrækni getur þú eignast gott, persónulegt samband við Jehóva. Ef þú vanrækir það að æfa þig og þjálfa andlega mun það verða til miklu meira tjóns fyrir þig en hinn sneyfti hlaupari, sem nefndur var í greinarbyrjun, varð fyrir. Það er erfið vinna að rækta með sér guðrækni, en út um allan heiminn hrópar heill skari ungs fólks glöðum rómi: ÞAÐ ER ERFIÐISINS VIRÐI! Ef þú ræktar með þér þennan eiginleika veitir það þér lífsfyllingu núna, og þig mun einskis iðra, og það veitir þér von um eilífa hamingju. Haltu því áfram að æfa þig. Haltu áfram að gera þitt besta, jafnvel þegar þér finnst það erfitt. Leitaðu huggunar í því að ‚Guð allrar náðar mun fullkomna þig, styrkja og öflugan gjöra. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.‘ — 1. Pétursbréf 5:10, 11.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Why Do I Get So Depressed?“ í enskri útgáfu Vaknið!, sem er förunautur Varðturnsins, þann 22. ágúst 1982.

Getur þú svarað?

◻ Hvað þarf að leggja á sig til að halda góðu sambandi við Guð?

◻ Hvað er fólgið í því að varðveita góða samvisku?

◻ Hvernig eiga orðin í 2. Tímóteusarbréfi 2:20-22 við um að þroska með sér guðrækni?

◻ Hvernig geta kristin ungmenni tekið framförum?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 23]

Nokkrir eiginleikar okkar ástríka Guðs

◼ Hann er tilfinninganæmur. Þess vegna geta verk okkar annaðhvort ‚hryggt‘ hann eða glatt. — Sálmur 78:40; Orðskviðirnir 27:11.

◼ Menn líta oft aðeins á útlit hvers annars en hann „lítur á hjartað.“ — 1. Samúelsbók 16:7.

◼ Honum er annt um okkur og bíður okkur að varpa áhyggjum okkar á hann því að hann er „athvarf á degi neyðarinnar.“ — Nahúm 1:7; 1. Pétursbréf 5:7.

◼ Hann er kallaður ‚hinn sæli Guð‘ og ‚ann þjónum sínum heilla.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:11; Sálmur 35:27.

◼ Hann er aldrei ranglátur né hlutdrægur. — Jobsbók 34:10; Postulasagan 10:34, 35.

◼ Þótt hann loki ekki augunum fyrir rangri breytni er hann „fús til að fyrirgefa“ þegar við iðrumst mistaka eða veikleika, og hann ‚breytir ekki við okkur eftir syndum okkar‘ né ‚geldur okkur eftir misgjörðum okkar.‘ — Sálmur 86:5; 103:8-14.

◼ Við getum leitað til hans og hann hvetur drottinholla þjóna sína til að nota þá hæfileika sem þeir hafa. Þrátt fyrir óendanlega visku sína hlýðir hann á óskir þeirra eða tillögur. „Lítillæti þitt gjörði mig mikinn,“ skrifaði Davíð konungur. — Sálmur 18:36; 1. Konungabók 22:19-22.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Margir kristnir menn hafa dýpri gleði af þjónustunni en vellaunuðu starfi.