Besta tækifæri æskunnar
Besta tækifæri æskunnar
„Guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda. Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:8, 9.
1, 2. (a) Hvað skoða margir unglingar sem mikilvæg tækifæri og hvaða spurningar vakna? (b) Hvers vegna verður ungt fólk nú á dögum fyrir miklum þrýstingi?
HVERT er mesta og besta tækifærið sem lífið býður upp á? Nýlegar skoðanakannanir meðal ungs fólks leiða í ljós hvað flestir setja á oddinn. „Að fá vinnu sem mér líkar“ og „að vera mjög vel stæður“ voru nefnd sem mikilvægustu markmiðin. Vaxandi fjöldi ungs fólks hefur áhuga á að komast vel áfram í atvinnulífinu og mjög víða leggja fleiri en nokkru sinni áður fyrir sig háskólanám í von um að tryggja sér vellaunuð störf síðar. Margir líta á slík efnisleg tækifæri sem leiðina til að öðlast öryggi, styrk og lífsfyllingu. Ef þú ert ungur að árum, er þér þannig innanbrjósts? Hvernig lítið þið sem eruð foreldrar á slík tækifæri? Eru þau lykillinn að góðu lífi?
2 Ef ungt fólk hefur nokkurn tíma haft þörf fyrir styrk og lífsfyllingu er það núna á okkar „síðustu dögum“ með sínar ‚örðugu tíðir.‘ (2. Tím. 3:1-5) Unga fólkið, sem núna er að vaxa úr grasi, hefur alist upp við streitu og álag sem tæplega nokkur hefði getað ímyndað sér fyrir einni kynslóð. Hinar öru breytingar í þjóðfélaginu, svo sem upplausn fjölskyldulífs og versnandi siðferði, hafa komið miklu róti á tilfinningalíf fólks.
Þörfin fyrir styrk og lífsfyllingu
3, 4. Hvað sýnir að margt ungt fólk skortir innri styrk, og hvers vegna geta efnisleg gæði ekki veitt hann?
3 Í sívaxandi mæli finnst ungu fólki það bresta innri styrk til að mæta álagi lífsins. (Samanber Efesusbréfið 3:16.) Í nýlegri skýrslu bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að eitt af hverju fimm ungmennum þjáist af alvarlegu þunglyndi. * Frá 1961 til 1975 hefur sjálfsmorðum meðal ungs fólks í Bandaríkjunum fjölgað um meira en helming! Ár hvert svipta nálega 8000 ungmenni sig lífi þar, og 50 sinnum fleiri gera tilraun til slíks. Sumir líkja þessu vandamáli við faraldur. Skýrslur sýna einnig að ótrúlegur fjöldi ungs fólks er lagður inn á sjúkrahús vegna geðrænna vandamála. *
4 Að sjálfsögðu býr ekki allt ungt fólk við þær aðstæður að mögulegt sé að komast áfram efnalega. Þegar við leiðum hins vegar hugann að því að skýrslurnar, sem nefndar eru hér á undan, greina frá ástandi mála í fjölmennu landi þar sem mörg tækifæri eru til að koma sér áfram efnalega, má ljóst vera að það eitt saman dugir ekki til að ‚hrinda gremju burt frá hjarta ungs fólks og böli frá líkama þess.‘ (Prédikarinn 11:9, 10) Sá sem er þjakaður í hjarta sér af minnimáttarkennd, öryggisleysi eða sektarkennd fær lítinn styrk af því að vera í góðum efnum. Biblían segir: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ — Orðskviðirnir 24:10.
5, 6. Eru efnisleg gæði lykillinn að góðri framtíð? Lýsið með dæmi.
5 Geta efnisleg gæði ekki með tímanum veitt mönnum lífsfyllingu og tryggt þeim góða tilveru? Hin auðugi Salómon konungur játaði: „Er ég leit á öll verk mín, þáu er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 3:11) Þó að afrek hans hafi veitt honum einhverja ánægju fann hann samt fyrir því að þau voru innantóm, hégómi.
6 Margir lofsyngja æðri menntun sem einn lykilinn að því að tryggja sér góða tilveru. Fyrrum ríkisstjóri í einu ríki Bandaríkjanna sagði jafnvel að slík menntun væri „nauðsynleg til að búa yfir styrk og lífsfyllingu og komast af.“ En er það svo? Virtur háskóli fékk 846 fyrrverandi nemendur sína til að semja skýrslu um það hvernig þeim farnaðist tíu árum eftir að þeir útskrifuðust. „Þótt skýrslan sé full af gáska og glaðværð,“ sagði einn þeirra, „ber undirtónninn vott um svartsýni, beiskju og jafnvel örvæntingu.“ Einn nemandanna hafði, 25 árum eftir að hann útskrifaðist, náð „vissum fjárhagslegum markmiðum“ en viðurkenndi: „Það sem miður hefur farið í einkalífi mínu er svo miklu meira að vöxtum en velgengnin að það er miskunnarverk að skýra frá hvorugu.“ Er þetta þá það besta sem lífið býður upp á?
Besta tækifærið
7. Í hverju hefði Tímóteus getað menntað sig en hvað ráðlagði Pál?
7 Í sínu innblásna bréfi til kristna lærisveinsins Tímóteusar benti Páll postuli á nokkuð sem er miklu betra. Þessum unga manni hafði verið fengin þjónusta í Efesus sem var ein af stærstu verslunarmiðstöðvum þess tíma. Hann hlýtur að hafa séð margan manninn komast vel áfram í atvinnulífinu! Hann hefði sjálfur geta lagt kapp á að verða efnaður kaupmaður eða leitað sér frama, annaðhvort við skóla Týranusar eða í leikhúsinu. (1. Tímóteusarbréf 1:3; Postulasagan 19:1, 9, 29) Tímóteus hefði vafalaust geta aflað sér menntunar og hæfni til að komast í ábatasamt starf í heiminum, en Páll skrifaði: „Æf sjálfan þig í guðhræðslu. Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ Já, guðhræðsla er „til allra hluta nytsamleg.“ Þetta voru engar vangaveltur hjá Páli því að hann bætti við: „Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.“ Af eigin reynslu vissi Páll að það myndi opna leiðina að besta lífsveginum. — 1. Tímóteusarbréf 4:7-9; 2. Korintubréf 6:10.
8, 9. (a) Hvað er guðrækni? (b) Hvert er þitt mesta og besta tækifæri og hvers vegna þarf að leggja eitthvað á sig til að nota það?
8 Hvað er það sem hér er nefnt „guðhræðsla“ en „guðrækni“ í ýmsum öðrum Biblíum? (Ísl. bi. 1859; NW) Hún er persónuleg hollusta við Guð sprottin af hjarta sem metur mjög að verðleikum hina aðlaðandi eiginleika Guðs. Með orðunum ‚guðhræðsla‘ og ‚guðsótti‘ (Hebreabréfið 12:28) er fyrst og fremst átt við lotningarfullan ótta við að gera nokkuð það sem misþóknast Guði, en „guðrækni“ lýsir viðbrögðum hjartans sem koma mönnum til að lifa þannig að þeir þóknist Guði, vegna þess að þeir elska hann. * Slíkur eiginleiki hjartans leiðir til ‚vináttu Guðs,‘ náins, persónulegs sambands þar sem einstaklingurinn skynjar velþóknun og hjálp Guðs. (Jobsbók 29:4) Tækifærið til að eiga þetta persónulega vináttusamband við Guð er verðmætara en nokkuð annað sem þér kann að vera boðið. — Samanber Jeremía 9:23, 24.
9 Kemur þetta samband við Guð sjálfkrafa ef þú átt guðrækna foreldra eða lætur skírast sem kristinn maður? Nei, því að rækta þarf einlægni hjartans ásamt öðrum kristnum dyggðum. (2. Pétursbréf 1:5-8) Þú þarft að verða maður sem ‚hjartað knýr‘ til að iðka „guðrækni.“ (Samanber 2. Mósebók 36:2; 2. Pétursbréf 3:11; Kólossubréfið 3:22.) Þótt Tímóteus væri frá barnæsku alinn upp í vegi sannleikans þurfti hann að þroska með sér guðrækni. Það krefst einnig kostgæfrar viðleitni núna. Þessi guðrækni mun líka reynast „mikill gróðavegur.“ (1. Tímóteusarbréf 6:6) Á hvaða hátt?
Háleitur lífsvegur
10, 11. Hvaða áhrif hafði guðræknin á líf Tímóteusar?
10 Í Efesus iðkaði Tímóteus guðrækni meðal fólks sem gekk fram „í hégomleik hugskots síns.“ (Efesusbréfið 4:17, Ísl. bi. 1912) Það sem fyllti huga þess var því til einskis gagns: innantómt, hégómi. „Hvílík mynd!“ segir biblíufræðimaðurinn R. C. H. Lensky um Efesusbréfið 4:17. „Þarna voru menn með starfandi og viljugan huga, vitsmunaverur sem gengu í gegnum lífið eftir fyrirmælum huga sem leiddi þá skref fyrir skref og að lokum að engu marki, að stórkostlegu, hörmulegu skipbroti!“
11 Tímóteus gat séð að lífstefna Efesusmanna var innantóm og niðurlægjandi. Margir þeirra dýrkuðu gyðjuna Artemis, en ofstækisfull tilbeiðsla þeirra beindist að lífvana guðalíkneski. Hún fól í sér hömlulaust kynsvall og musterisvændi. (Postulasagan 19:23-34) Lífsvegur Tímóteusar var hins vegar háleitur, upphafinn yfir lífsveg þjóðanna sem voru „fjarlægir lífi Guðs . . . tilfinningalausir og [höfðu] ofurselt sig lostalífi.“ (Efesusbréfið 2:6; 4:18, 19) Þessi guðrækilega lífsbreytni, það að lifa „lífi Guðs,“ hafði aflað honum besta vinarins í öllum alheiminum! Tækifærið til að rækta þetta samband við hinn lifandi Guð með guðrækni er svo sannarlega dýrmætt! Getur þú höndlað það?
12. Hvað sagði ungur kristinn maður um þann ‚gróðaveg‘ sem guðræknin er? Hvað finnst þér sjálfum?
12 Margir nútímamenn dýrka kynlífið, listisemdir lífsins, auðæfi og æðri menntun af sama krafti og Efesusmenn til forna dýrkuðu Artemis. (Matteus 6:24; Efesusbréfið 5:3-5; Filippíbréfið 3:19) Þeir sem stunda guðræknina njóta samt sem áður miklu meiri lífsgæða. „Þegar ég virði fyrir mér krakkana, sem ég var með áður en ég fór að nema Biblíuna,“ segir 24 ára gamall kristinn maður, „kemst ég að raun um að helmingur þeirra er í fangelsi. Flestir neyta fíkniefna og margar stúlknanna hafa eignast börn utan hjónabands. (en ekki strákarnir, ó nei nei) Líf þeirra er í rústum. Nokkrir eru jafnvel dánir. Ég er svo þakklátur fyrir að geta virt fyrir mér líf mitt og verið stoltur af því sem ég sé.“ Aðrir ungir kristnir menn eru hjartanlega sammála.
13. Hvers vegna gefur það lífinu aukið innihald að fylgja boðinu í 2. Tímóteusarbréfi 4:5?
13 Þeir sem iðka guðrækni eiga þann fjársjóð sem þjónustan er. (2. Korintubréf 4:1, 7; 2. Tímóteusarbréf 4:5) Hún hefur bæði sannan tilgang og er mjög krefjandi. Í stað gervi spennunar sem hægt er að hafa út úr ástarsögu eða kvikmynd eru kristnir menn, sem þátt taka í þjónustunni, að heimsækja raunverulegt fólk til að hjálpa því. Þau taka því á við raunveruleg vandamál. Það er ólýsanleg gleði að sjá fólk, sem hefur verið siðlaust, ofbeldisfullt eða vonlaust, taka á móti biblíufræðslu og leggja á hilluna gamla ósiði, öðlast nýja sjálfsvirðingu og taka að þjóna Jehóva. Ekkert annað starf hefur jafnríkan tilgang né hefur jafnvaranlegt gildi!
Nægjusemi og hrein samviska
14, 15. Hvernig stuðlar nægjusemi í peningamálum að betri tilveru?
14 „Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. . . . Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja. En þeir, sem ríkir vilja verða, . . . hafa . . . valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:6-10) Könnun, sem birt var árið 1981 í tímaritinu Psychology Today, leiddi í ljós að ungt fólk hugsar „miklu meira“ um peninga en nokkur annar aldurshópur. En helmingur þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hugsuðu mest um peninga (bæði efnaðir og fátækir) kvörtuðu undan „stöðugum áhyggjum og kvíða.“
15 Ungum manni í Japan, sem byrjaði með tvær hendur tómar, tókst að komast í góð efni, en beið tjón á heilsu sinni í leiðinni. Síðar fór hann að nema Biblíuna og rækta með sér guðrækni. „Þegar ég lít um öxl til þess tíma þegar aðalmarkmið mitt í lífinu var að auðgast, verður því ekki jafnað saman hversu miklu hamingjusamari ég hef verið eftir að ég setti mér nýtt markmið,“ segir hann. „Ekkert getur jafnast á við þá lífsfýllingu sem fylgir því að nota líf sitt í þjónustu hins mikla skapara.“ * — Orðskviðirnir 10:22; Prédikarinn 5:10-12.
16. Hvaða afleiðingu hefur það að ‚varðveita ekki góða samvisku‘?
16 Páll hvatti Tímóteus til að ‚varðveita góða samvisku.‘ Hvernig átti hann að gera það? Meðal annars með því að umgangast konur „í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 1:19; 5:2) Slíkur hreinleiki er hins vegar svo til horfinn hjá stórum hluta ungs fólks sem er orðið brennimerkt á samvisku sinni. (1. Tímóteusarbréf 4:2) En siðleysi veitir hvorki innri frið né lífsfyllingu. Í niðurstöðu könnunar, sem gerð var á viðhorfum nokkur hundruð unglinga til kynlífs og hegðun þeirra þar að lútandi, var sagt um þá sem voru fjöllyndastir í kynferðismálum: „Þeim finnst þeir hafa lítinn tilgang og lífsfyllingu.“ Næstum helmingur þeirra sagði: „Eins og ég lífi núna fara flestir af hæfileikum mínum til ónýtis.“
17. Hvers vegna hjálpar ‚kærleikur af góðri samvisku‘ okkur að njóta lífsins sem allra best?
17 Ef fólk með tíð og tíma gengur í heiðvirt hjónaband mun það vera því til góðs að iðka ‚kærleika af hreinu hjarta og góðri samvisku.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:5) Árið 1984 skýrði tímaritið Journal of Marriage and the Family frá könnun, sem náði til 309 nýgiftra hjóna. Í ljós kom að samband var milli kynlífs fyrir hjónaband og „verulega minni ánægju beggja hjónanna með hjónabandið.“ Annað er uppi á teningnum hjá þeim sem hafa varðveitt hreinleika sinn! „Það er svo dásamleg tilfinning að geta litið um öxl og vita að ég varðveitti hreinleika minn,“ segir ung kristin eiginkona sem hefur nú verið í hamingjusömu hjónabandi í sjö ár. Já, hrein samviska er ríkuleg umbun til þess unga fólks sem er „fyrirmynd . . . í hreinleika.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:12.
Innri styrkur
18, 19. (a) Hvaða álag þurfti Tímóteus að standast? (b) Hvernig hjálpaði Guð honum?
18 Eflaust varð Tímóteus fyrir margvíslegum þrýstingi í Efesus. Freistingar þessarar auðugu og siðlausu borgar, þar sem mikil áhersla var lögð á leiki og skemmtun, gat verið mikinn þrýstingur utan frá. Tímóteus virðist hafa verið hlédrægur og átti auk þess við að stríða ‚tíð veikindi‘ og það hefur valdið þrýstingi innan frá. (1. Tímóteusarbréf 5:23) En Páll áminnti hann: „Ekki gaf Guð okkur anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:7.
19 Margir jafnaldra þinna þrá að hafa þennan mátt og styrk! Ungri konu tókst að snúa baki við vændi og fíkniefnaánauð. „Ég gat það aðeins með hjálp Jehóva,“ sagði hún. „Stöku sinnum sækir gamla tilfinningin á mig en ég fer þá hreinlega að biðja — strax. Að geta yfirstígið þessi vandamál er stórkostlegri lífsreynsla en nokkuð annað sem ég hef orðið fyrir í líi mínu!“ Enginn vafi leikur á að Guð getur ‚veitt þér kraft‘ og gefið þér styrk hið innra til að standast sérhvert álag og taka heilbrigðar ákvarðanir. — 2. Tímóteusarbréf 4:17.
20, 21. (a) Nefnið nokkuð af þeim gæðum sem eru guðrækninni samfara? (b) Hvað mun greinin á eftir fjalla um?
20 Guðræknin er þér því gagnleg á mjög marga vegu. Líf þitt öðlast tilgang og markmið sem er langtum æðra en nokkuð það markmið sem er eingöngu af efnislegum toga spunnið. (2. Tímóteusarbréf 3:10) Ungur kristinn maður, sem afþakkaði styrk til háskólanáms og gerðist fulltíma boðberi fagnaðarerindisins, sagði: „Ég hef fengið besta ævistarfið sem hægt er að óska sér, það að vera kennari fagnaðarerindisins og hjálpa öðrum að kynnast okkar elskuríka föður! Og ‚hlunnindin‘ — bættur persónuleiki — eru betri en nokkur annar gæti boðið upp á. Þar við má bæta þeirri umbun að fá að lifa að eilífu í paradís þar sem engar sorgir verða. Getur nokkur óskað sér betra líf en þetta?“
21 Þú spyrð kannski hvernig þú getir þroskað með þér guðrækni. Til að fá svar við því skaltu lesa greinina sem fylgir.
[Neðanmáls]
^ Margir sérfræðingar í þroska og hegðun unglinga álíta að slíkt þunglyndi sé veigamesta orsök alvarlegra unglingavandamála svo sem skróps og erfiðleika í skóla, misnotkun lyfja og áfengi, siðleysis, þungunar, brothlaups að heiman og sjálfsmorða,“ segir rithöfundurinn Kathleen McCoy í Coping With Teenage Depression.
^ Þótt dregið hafi úr fjölda innlagna allra aldurshópa samanlagðra á 13 ára tímabili, fjölgaði innlögnum fólks á aldrinum 15-24 ára um 19 af hundraði, og barna undir 15 ára að aldri um 158 prósent!
^ Gríska orðið eusebea er skilgreint í Lexicon eftir Edward Robinson sem „ósjálfráð tilfinning í hjartanu [gagnvart Guði].“ J. A. H. Tittmann bætir við í riti sínu Remarks on the Synonyms of the New Testament: „[Guðrækni] lætur í ljós þá lotningu fyrir guðdóminum sem sýnir sig í verkum, . . . en [guðhræðsla] gefur til kynna þá hneigð að óttast og forðast að gera nokkuð sem brýtur gegn því sem rétt er, . . . [guðrækni] er kraftur trúrækninnar í lífinu.“
^ Shozo Mima segir ævisögu sína í greininni „Finding Something Better Than Wealth“ í enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. mars 1978.
Manst þú?
◻ Hvers vegna hafa efnisleg tækifæri takmarkað gildi?
◻ Hvert er mesta og besta tækifærið sem þér stendur opið?
◻ Hvað getur guðræknin gefið þér sem er þér hjálp til að njóta lífsins sem allra best?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 18]
Hvað mun veita þér ósvikna hamingju?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Tímóteus æfði sig í guðrækni. Það gaf lífi hans gildi sem hinir siðlausu Efesusbúar þekktu ekki.