„Brauð lífsins“ öllum aðgengilegt
„Brauð lífsins“ öllum aðgengilegt
„Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“ — JÓHANNES 6:51.
1. Hvaða sorglegt ástand blasir við mannkyninu?
MANNHEIMURINN hefur lengi nærst á brauði sem langalgengasta fæða jarðarbúa. Því er við hæfi að það skuli hafa verið kallað undirstaða lífsins. En hungur eftir brauði er nú orðin sorgleg staðreynd. Hungur og matvælaskortur nær nú til fjórðungs jarðarbúa. Fyrir nokkru sagði dagblaðið The Globe and Mail í Toronto í Kanada: „Hungurneyð er eins og stríð: þekkir engin landamæri.“ Blaðið hafði síðan eftir einum stjórnanda neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna í Afríku „einhvers mesta harmleiks, einhvers erfiðasta viðfangsefnis sem menn hafa nokkru sinni staðið frammi fyrir.“
2, 3. (a) Hvaða ‚tákni‘ er matvælaskortur hluti af? (b) Hvernig verður matvælavandinn leystur? (c) Hvers er þörf þar að auki og hvað fullvissar Jesja 25:8 okkur um?
2 Jesús spáði um að matvælaskortur yrði hluti af tákni nærveru sinnar sem konungur Guðsríkis. (Matteus 24:3, 7, 32, 33; 25:31, 32; Lúkas 21:11) Við getum fagnað því að þetta ríki skuli vera í nánd! Innan skamms mun þessi dýrlegi konungur gersigra alla óvini mannkynsins, vinna bug á pólitískum og efnahagslegum misrétti sem hefur valdið svo grimmilegum þjáningum. Þá munu allir menn fagna því að fá brauð sitt hvern dag. — Matteus 6:10, 11; 24:21, 22; Daníel 2:44; Orðskviðirnir 29:2.
3 Undir réttlátri stjórn mun okkar góða jörð geta gefið af sér „gnóttir“ fæðu, nóg til að seðja margfalt fleiri en nú byggja jörðina. (Sálmur 72:12-14, 16, 18) Jehóva mun búa fólki sínu „veislu“ mikilla gæða. (Jesaja 25:6) En þörf er á fleiru. Munu menn enn sem fyrr veikjast og deyja þegar árin líða? Jesaja 25:8 mælir þessi gleðilegu orð um Jehóva: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ Hvernig mun það gerast?
Ástrík ráðstöfun Jehóva
4. Hvaða kærleiksríka ráðstöfun gerði Jehóva í Egyptalandi?
4 Þegar Jósef fór með stjórn matvælamála í Egyptalandi var til meira en nóg af korni. Það kom til af því að eftir að Faraó skipaði Jósef til þess starfa bjó hann þjóðina af visku undir kreppuárin sjö, sem boðuð höfðu verið, og Jehóva lagði kærleiksríka blessun sína við. (1. Mósebók 41:49) Nóg var til fyrir alla og meira en það. Þegar Jakob, faðir Jósefs, bræður hans og fjölskyldur þeirra fluttust til hans til Egyptalands var þessi ráðstöfun Guðs þeim til mikillar blessunar. Vafalaust kynntust þessir Ísraelsmenn vel hveitibrauði bökuðu með geri, því það er talið upprunnið í Egyptalandi.
5. (a) Hvernig var Ísraelsmönnum séð fyrir viðurværi í eyðimörkinni? (b) Hverjir áttu hlut með Ísrael að þessari blessun og hvers vegna?
5 Síðar, þegar milljónir Ísraelsmanna fóru frá Egyptalandi og lögðu upp í ferð um Sínáieyðimörk, gerði Jehóva aðra, kærleiksríka ráðstöfun fyrir þjóna sína. Hvernig gat þessi mikli mannfjöldi fundið sér lífsbjörg í þessari beru, fjandsamlegu eyðimörk? Þótt Jehóva hafi reiðst vegna þess hversu þá skorti trú „opnaði [hann] hurðir himinsins, lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn.“ Hann „mettaði þá með himnabrauði“ í fjörutíu, löng ár. (Sálmur 78:22-24; 105:40; 2. Mósebók 16:4, 5, 31, 35) Gleymum því ekki heldur að Ísraelsmennirnir voru ekki einir um að eta manna. „Mikill fjöldi af alls konar lýð,“ sem ekki voru Ísraelsmenn, iðkaði trú á Jehóva og slóst í för með þeim út af Egyptalandi. Guð gaf þeim líka manna. — 2. Mósebók 12:38.
6. (a) Hvaða brýnni þörf hefur maðurinn og hvers vegna? (b) Hvað undirstrikuðu fórnir Ísraelsmanna og hvað voru þær fyrirmynd um?
6 En mannkynið hefur alltaf haft þörf sem er brýnni en þörfin í bókstaflegt, ‚himnabrauð.‘ Jafnvel þeir sem átu manna, sem gefið var vegna kraftaverks, eltust og dóu, því að hið arfgenga, synduga eðli mannsins gerir dauðann óhjákvæmilegan óháð mataræði. (Rómverjabréfið 5:12) Fórnir Ísraels voru leið til að viðhalda góðu sambandi við Guð, en þær undirstrikuðu líka syndugt eðli þjóðarinnar. Þær gátu „með engu móti numið burt syndir.“ Enn fremur voru þessar fórnir skuggi um hina komandi ‚einu fórn‘ sem er grundvöllur að því að afmá syndir „um aldur.“ Úr sinni háu stöðu á himnum getur Jesús nú miðlað verðmæti þeirrar fórnar. — Hebreabréfið 10:1-4, 11-13.
„Hið sanna brauð af himni“
7. (a) Í hvaða samhengi ber að skoða orð Jesú í Jóhannesi 6. kafla? (b) Hvers vegna ávítaði Jesús mannfjöldann?
7 Við skulum nú snúa okkur að Jóhannesi 6. kafla. Orð Jesú þar eru ekki framhald af því sem skráð er í 5. kafla. Samhengið er annað því að liðið er eitt ár í milli. Núna er komið árið 32. Hann er nú ekki lengur meðal hinna sjálfréttvísu Gyðinga í Jerúsalem heldur almenningi í Galíleu. Jesús er nýbúinn að vinna það kraftaverk að metta 5000 karlmenn með fimm byggbrauðum og tveim smáfiskum. Næsta dag fylgir mannfjöldinn Jesú og býst við annarri ókeypis mátíð. Jesús segir því: „Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðu mettir. Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs.“ Jesús hafði verið sendur af föður sínum til að gefa slíka fæðu öllum sem myndu iðka trú á hann. Það yrði „hið sanna brauð af himni“ sem hefði varanlegri áhrif en hið bókstaflega manna sem Ísraelsmenn til forna átu. — Jóhannes 6:26-32.
8. Hvernig er hægt að hljóta eilíft líf?
8 Jesús skýrir síðan það gagn sem hafa megi af þeirri „fæðu“ og segir: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, er til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. . . . Því sá vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúír á hann, hafi eilít líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi. — Jóhannes 6:35-40.
9, 10. (a) Í hverju er „brauð lífsins“ ólíkt manna? (b) Fyrir hverja gefur Jesús hold sitt samkvæmt Jóhannesi 6:42-51? (c) Hvernig ‚eta þeir hold hans‘?
9 Þessum Gyðingum, sem hugsa mest um hið efnislega, mislíka þessi orð. Í þeirra augum er Jesús ekkert annað en sonur Jósefs og Maríu. Jesús aðvarar þá: „Verið ekki með kurr yðar á meðal. Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“ Síðan endurtekur hann: „Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“ — Jóhannes 6:42-51.
10 Það var því „heiminum“ — öllum þeim mannheimi sem unnt var að endurleysa — „til lífs“ að Jesús gaf hold sitt. Og hver og einn af mannheiminum, sem í táknrænum skilningi etur þetta „brauð“ með því að iðka trú á endurlausnarmátt fórnar Jesú, getur komist inn á veginn til eilífs lífs. Hérna táknar hinn „mikli fjöldi af alls konar lýð,“ sem át manna í eyðimörkinni með Ísraelsmönnum, hinn mikla múg ‚annarra sauða‘ Jesú sem eta nú hold Jesú í táknrænni merkingu í félagi við smurðar leifar ‚Ísraels Guðs.‘ Þeir gera það með því að iðka trú á fórn hans. — Rómverjabréfið 10:9, 10; Galatabréfið 6:16.
11. Hvað annað, sem Jesús sagði, hneykslaði Gyðinga og hvers vegna?
11 Margir áheyrenda Jesú í Galíleu hneykslast á ræðu hans. Meðan hann er enn að ræða um hold sitt gengur hann því skrefi lengra og segir þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur.“ (Jóhannes 6:53-55) Svo sannarlega hneykslanlegt! Hugmyndin um mannát vakti viðbjóð þessara Gyðinga, auk þess að lögmálið bannaði skorinort í 3. Mósebók 17:14 að „neyta blóðs úr nokkru holdi.“
12. (a) Hvað er Jesús að leggja áherlsu á hér? (b) Hvaða ritningargreinar sýna að það er ekki takmarkað við samerfingja Jesú?
12 Að sjálfsögðu er Jesús hér að undirstrika að hver sá, sem vill öðlast eilíft líf, verður að gera það á þeim grundvelli að iðka trú á fórnina sem Jesús bar fram þegar hann fórnaði fullkomnum mannslíkama sínum og úthellti lífsblóði sínu. (Hebreabréfið 10:5, 10; 1. Pétursbréf 1:18, 19; 2:24) Þessi ráðstöfun er ekki takmörkuð við samerfingja Jesú. Hún nær líka til hins ‚mikla múgs‘ sem lifir af ‚þrenginguna miklu,‘ því að hann hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Trú þessa fólks á fórn Jesú, sem birtist einnig í ‚heilagri þjónustu‘ við Guð, verður til þess að það er varðveitt út í gegnum mestu hörmungatíð jarðarinnar. Á sama máta var Rahab lýst réttlát og bjargaðist þegar Jósúa lét eyða Jeríkó. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14, 15; Jósúa 6:16, 17; Jakobsbréfið 2:25.
„Lífið í yður“
13. (a) Hvað vekur athygli þegar borin eru saman orðin í Jóhannesi 5:26 og Jóhannesi 6:53? (b) Hvaða algengt orðfæri í grísku hjálpar okkur að skilja Jóhannes 6:53? (c) Hvað merkir það því að hafa „líf í sjálfum sér“ og við hverja eiga þessi orð?
13 Í Jóhannesi 6:53 og 54 leggur Jesús „eilíft líf“ að jöfnuð við það að hafa „lífið í yður.“ Í þessu samhengi virðast orðin „lífið í yður“ vera annarra merkingar en hliðstæð orð Jesú í Jóhannesi 5:26. Orðalag hliðstætt við „hafið . . . lífið í yður“ kemur víða fram í Grísku ritningunum. Tökum dæmi: „Hafið salt í sjálfum yður“ (Markús 9:50) og „tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld“ (Rómverjabréfið 1:27). * Þetta orðalag felur ekki í sér að búið sé yfir valdi til að gefa öðrum salt eða veita málagjöld. Þess í stað er átt við innri algerleika eða fyllingu. Samkvæmt samhengi Jóhannesar 6:53 merkja orðin „lífið í yður“ því að öðlast sjálfa fyllingu lífsins. Hin „litla hjörð“ erfingja Guðsríkis öðlast hana við upprisu sína til himna, og hinir ‚aðrir sauðir‘ eftir lok þúsund áranna þegar þeir hafa verið prófreyndir og lýstir réttlátir til eilífs lífs í paradís á jörð. — 1. Jóhannesarbréf 3:2; Opinberunarbókin 20:4, 5.
14. Hverjir aðrir munu njóta góðs af ‚brauðinu af himni‘ og hvernig?
14 Aðrir geta líka notið gagns af ‚brauðinu af himni.‘ Jesús sagði um þann sem ‚etur hold hans og drekkur blóð hans‘ en deyr: „Ég reisi hann upp á efsta degi.“ Við skiljum að smurðir kristnir menn, sem sofa dauðasvefni, eru vaktir upp þegar blásið er í „hinn síðasta lúður,“ en það á sér stað á tíma „endurkomu“ Jesú Krists í dýrð Guðsríkis. (1. Korintubréf 15:52; 2. Tímóteusarbréf 4:1, 8) En hvað um væntanlega „aðra sauði“ sem sofna dauðasvefni? Í því sambandi eru athyglisverðum orðum Mörtu rétt eftir að Lasarus var dáinn, því að á þeim tíma höfðu guðhræddir Gyðingar ekki von um annað en jarðneska upprisu. Trú Mörtu birtist í orðunum: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóhannes 11:24) Við sem lifum á tímum nærveru Krists getum því vonað að trúfastir menn af ‚múginum mikla‘ sem sofna dauðasvefni, muni fá snemma upprisu hér á jörð til að þeir geti aftur neytt ‚brauðsins af himnum‘ í von um eilíft líf. Þetta er stórkostleg von, von sem er trygð með því að Jesús var sjálfur reistur upp frá dauðum! — 1. Korintubréf 15:3-8.
Sameinaðir Kristi
15. Við hverja eiga orð Jesú um að ‚vera í Kristi‘ og hvers vegna svarar þú þannig?
15 Jesús heldur áfram: „Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.“ (Jóhannes 6:56) Þetta gildir um hvern þann sem iðkar trú á fórn Jesú með það í vændum að ‚hafa líf í sjálfum sér.‘ Allir sem láta í ljós slíka trú geta ‚verið í Jesú,‘ sameinaðir honum. Að sjálfsögðu er ‚múgurinn mikli,‘ sem hefur jarðneska von, ekki sameinaður Jesús í þeim skilningi að þeir séu samerfingjar með honum, meðlimir brúðar hans sem fær himneska upprisu eins og hann. (Rómverjabréfið 8:1, 10,; 1. Korintubréf 1:12; 2. Korintubréf 5:17; 11:2; Galatabréfið 3:28, 29; Efesusbréfið 1:1, 4, 11; Filippíbréfið 3:8-11) Samt sem áður geta, og raunar verða, allir sem hafa jarðneska von að vera fullkomlega samstilltir föðurnum og syninum í því að þekkja og gera hinn ‚fullkomna vilja Guðs‘ eins og litla hjörðin gerir. — Rómverjabréfið 12:2; samanber Jóhannes 17:21.
16. (a) Á hvaða mikilvæga vegu eru allir, sem iðka trú á fórn Krists, ‚í Jesú‘? (b) Hvernig birtist eining þeirra í tilgangi og verki?
16 Verðmæti hins fórnfærða holds og blóðs Krists er því algengilegt öllum nútímamönnum sem iðka trú, og allir sem notfæra sér það geta á mikilvæga vegu verið sameinaðir Jesú. Allir eiga að verða hluti af alheimsfjölskyldu Jehóva Guðs. Á þessum örðugu „síðustu dögum“ njóta þeir um allan heim einingar í trú, tilgangi og verki. Með því að iðka trú á Jesú geta þeir unnið „meiri verk,“ að því er varðar umfang, en Jesús vann hér á jörðunni. Og munum að þær milljónir, sem mynda ‚múginn mikla,‘ telja nú 99,7 af hundraði þeirra sem vinna verk Jehóva núna. (Jóhannes 14:12; Rómverjabréfið 10:18) Þessi eining í tilgangi og starfi birtist í hinum mikla vitnisburði um allan heim og fúsan stuðning við byggingarframkvæmdir Varðturnsfélagsins. (Sálmur 110:3) Hversu margir af heimi mannkynsins eiga eftir að taka trú og eignast hlutdeild í þessari dýrmætu einingu verður tíminn að leiða í ljós. Nýlegar skýrslur sýna að starfandi vottar telja 3.xxx.xxx.
17. Hvaða atriði ættu allir, sem sækja minningarhátíðina, að skilja?
17 Á minningarhátíðinni 1986 er vonast til að mikill fjöldi áhugasamra verði viðstaddur. Hinir ‚aðrir sauðir‘ verða viðstaddir í milljónatali ásamt hinum fækkandi þúsundum þeirra sem tilheyra ‚litlu hjörðinni.‘ Allir meta þeir mjög mikils hina ástríku ráðstöfun Jehóva í gegnum Jesú Krist, og gera sér ljóst hversu lífsnauðsynlegt hold og blóð Krists er. Allir ættu þó að hafa skýrt í sjónmáli hvar þeir standa. Það að neyta brauðsins og vínsins við minningarhátíðina veitir ekki eilíft líf. Hvorttveggja er tákn um fórn Jesú sem fyrst er beitt í sambandi við ‚nýja sáttmálann.‘ Hinir smurðu, sem eignast aðild að þeim sáttmála, og þeir einir, geta með réttu neytt brauðsins og vínsins. Annaðhvort á einstaklingurinn aðild að nýja sáttmálanum eða ekki. (1. Korintubréf 11:20, 23-26) Þeir sem ekki eru aðilar að nýja sáttmálanum og Jesús hefur ekki gefið hlutdeild í sáttmála um ríki, neyta ekki brauðsins og vínsins við minningarhátíðina, en þeir ættu samt sem áður að gera sér ljóst hversu þýðingarmikið hið fórnfærða hold og blóð Jesú er fyrir þá. (Lúkas 22:14-20, 28-30) Það er í gegnum þessa fórn sem þeir geta fengið eilíft líf á jörðinni.
18. Hvaða hamingja fylgir því að skilja greinilega allt sem fórn Jesú felur í sér?
18 Megum við því öll hugsa til minningarhátíðarinnar með skýra hugmynd um allt það sem fórn Jesú þýðir fyrir mannkynið. Megi þeir sem tilheyra ‚litlu hjörðinni‘ meta köllun sína sem fjársjóð, og megi hinn vaxandi mikli múgur ‚annarra sauða‘ fagna þeim framtíðarhorfum að eignast fullkomið ‚líf í sjálfum sér‘ á jörðinni. Megi þeir meta mikils þá einingu, sem þeir eiga núna, við föðurinn, soninn, og hinar smurðu leifar sem enn eru á jörðinni. Hvílíkt fagnaðarefni er okkur ekki að „brauð lífsins“ skuli núna vera öllum aðgengilegt!
[Neðanmáls]
^ Sjá einnig Matteus 3:9; 9:3; 13:21; Markús 5:30; 6:51; Lúkas 7:39, 49; 12:17; 18:4; Jóhannes 5:42; 11:38; Postulasöguna 10:17; 2. Korintubréf 1:9.
Til upprifjunar
◻ Hvaða tvenns konar manna talaði Jesús um árið 32 og hverjum var það gefið?
◻ Hverjum bíður Jesús að ‚eta hold sitt og drekka blóð sitt‘ og hvernig gera þeir það?
◻ Hvað merkir það að hafa „líf í sjálfum sér“ og hvernig og hvenær er því marki náð?
◻ Hvaða hamingju geta allir notið núna í sambandi við „brauð lífsins“?
[Spurningar]