Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu barni þínu að rækta með sér guðrækni

Kenndu barni þínu að rækta með sér guðrækni

Kenndu barni þínu að rækta með sér guðrækni

„Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 22:6.

1. Hvert þarf að ná til að uppeldi barns takist vel og hvers vegna?

 LISTAMAÐUR í fjölleikahúsi, sem var að reyna að kenna syni sínum að leika listir í fimleikarólu, tók eftir að hann átti erfitt með að komast yfir stöngina. „Ef þú bara kastar hjartanu yfir stöngina,“ stakk hann upp á, „mun líkaminn fylgja á eftir.“ Þeir sem eru að fræða og ala upp börn sín til að verða guðrækið fólk, verða líka að ná til hjartans. Það er sérstaklega erfitt á táningaárunum. — Orðskviðirnir 4:23.

2. Hvers vegna eru táningaárin erfið og hvernig geta foreldrar hjálpað?

2 „Í mörg ár var ekki erfitt að komast að því hvað drengirnir mínir hugsuðu innst inni,“ segir kristinn faðir í Þýskalandi, „en það breyttist á svipstundu þegar þeir komust á gelgjuskeiðið.“ Á þessu breytingarskeiði, þegar barn breytist í fullvaxta mann, orka margar nýjar og spennandi langanir, örvaðar af breytingum líkams- og hórmónastarfseminnar, hjarta unglingsins. En allt of oft er fegurð þessara ára spillt með sársaukafullum mistökum. Jafnvel hinn trúfasti Job harmaði það að þurfa að „erfa misgjörðir æsku“ sinnar. (Jobsbók 13:26) Tilfinningaálag getur orsakað „hjartasorg“ hjá ungum manni eða konu og Orðskviðirnir 12:25 segja að hún ‚beygi manninn en vingjarnlegt orð gleðji hann.‘ (Ísl. bi. 1859) Með opinskáaum samræðum og skoðanaskiptum getur þú hjálpað barni þínu á þessum þýðingarmiklu árum. En hvernig?

Samræður og skoðanaskipti

3, 4. (a) Hvernig báru Elíhú og þrír „vinir“ Jobs sig ólíkt að þegar þeir gáfu honum ráð? (b) Hvað getur hindrað opinskáar samræður og skoðanaskipti?

3 Taktu eftir muninum á því hvernig Élíhú og hinir þrír „vinir“ Jobs báru sig að við að gefa honum ráð. Þetta dæmi sýnir ljóslega hvað stuðlar að opnum samræðum og skoðanaskiptum og hvað ekki. Elíhú hlustaði vel og vandlega. Á meðan hinir voru fálegir og viðurkenndu í engu mannlega veikleika sinn sagði hann: „Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði, og ég er myndaður af leiri.“ Hann hvatti Job til að „svara,“ að segja eins og honum bjó í brjósti og vera ekki hræddur. (Jobsbók 33:5-7) „Vinirnir“ þrír létust hins vegar hafa samúð með Job og vilja hughreysta hann, en þeir voru búnir að gera upp hug sinn áður en þeir hlustuðu á hann. „Heyrið átölur mínar og hlustið á ásakanir vara minna,“ bað Job — en án árangurs. (Jobsbók 13:6) Já, eins og þeir höfðu borið sig að höfðu þeir reist „múr“ milli sin og hans.

4 Ef foreldrar eru eki varkárir geta þeir reist sams konar múr án þess að gera sér það ljóst. Þú skalt því leyfa barni þínu að tala út. (Orðskviðirnir 18:13) Hugleiddu vandlega hvaða skilning barnið mun leggja í svar þitt. „Þvaður sumra manna er sum spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ (Orðskviðirnir 12:18) Að vísu geta viðhorf og/eða orð unglingsins stundum verið til skapraunar. Mundu þó að á bak við slík orð getur verið hjarta fullt af tilfinningum sem togast á. Notaðu tunguna á tillitssaman hátt til að lækna. — Jobsbók 6:2, 3

5. (a) Hvað getur hjálpap foreldrum að fá börnin til að segja hvað þeim býr í hjarta? (b) Hvernig getur það hjálpap foreldrunum að rifja upp efni í ritum Félagsins?

5 Með því að hlusta gaumgæfilega og bera fram háttvíslegar spurningar er hægt að hjálpa barninu og gera því auðveldara að segja frá því sem því liggur á hjarta. (Orðskviðirnir 20:5) „Ótal sinnum hóf sonur minn máls á einhverju, að því er virtist á óheppilegu augnabliki, og sagði síðan bara eina eða tvær setningar, ef til vill um eitthvað sem gerðist í skólanum,“ sagði móðir 18 ára drengs, „en það var síðan undir mér komið að draga fram það sem honum bjó í hjarta með spurningum svo sem: ‚Hvað gerðist svo?‘ eða ‚Hvað fannst þér um það?‘ eða ‚Hvað sagðir þú eða gerðir?‘ Það var þetta sem hann hafði verið að bíða eftir og hann sagði mér hvað honum lá á hjarta. En þetta tók mikinn tíma!“ Taktu þér slíkan tíma til að tala við barn þitt! Reyndu, til dæmis þegar þið farið saman í langa gönguferð eða slakið á í sameiningu, að finna út hvað er að gerast í huga barnsins. Það er reynsla margra foreldra að það hafi hjálpað þeim að skilja börnin sín betur og eiga við þau gagnlegar samræður, að rifja upp efnið sem birst hefur á liðnum árum í ritum Varðturnsfélagsins. Slíkt hefur oft gert samræður og skoðanaskipti innan fjölskyldunar opinskárri og betri. En samræður og skoðanaskipti duga ekki ein sér til að rækta guðrækni.

Gefðu barninu andlega næringu

6, 7. Hvað tókst móðir Tímóteusar og hvernig geta foreldrar líkt eftir henni?

6 Móðir Tímóteusar sat ekki auðum höndum þar sem um var að ræða andleg mál sem hafa myndu lífið í för með sér fyrir son hennar. Um hann er ritað: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar Ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Eins er það núna að foreldrar barna, sem þroska með sér guðrækni, hafa lifandi áhuga á andlegri næringu barna sinna. Þeir kenna þeim á unga aldri og nema upp á eigin spýtur.

7 Hefur þú séð til þess að barnið þitt eigi sín eigin biblíurit og búi sig undir samkomur safnaðarins? Hvetur þú það eindregið til að taka sér tíma til að grafa eftir fjársjóðunum í orði Guðs? (Orðskviðirnir 2:1-5; 1. Jóhannesarbréf 2:14) Situr þú hjá barni þínu á samkomunum til að örva huga þess — og hjarta — til að fara ekki á reik? Hvetur þú barnið til að taka þátt í samkomunum? (Hebreabréfið 10:23-25) Heldur þú reglulegt biblíunám með fjölskyldunni þar sem barninu er veitt þekking í samræmi við þarfir sínar? Hugleiddu þessar spurningar. — Orðskviðirnir 24:5.

‚Gerðu Jehóva raunverulegan‘

8. Hvar er grundvöllur guðrækninnar lagður, samkvæmt 5. Mósebók 11:18, 19, og hvernig geta foreldrar fylgt þeim leiðbeiningum núna?

8 Þótt hugurinn sé fylltur þekkingaratriðum þýðir það ekki sjálfkrafa að hjarta og samviska séu snortin af þeim. Til að barnið geti þroskað samvisku sem er áreiðanlegur leiðarvísir, þarf það að sjá að Jehóva er raunveruleg persóna, kraftmikill og hefur brennandi áhuga á því og því sem það gerir. En fyrst þarf kærleikur til Jehóva að fylla þitt eigið hjarta og koma þér til að tala reglulega um ástríka gæsku hans og mikilleik. Þú verður að elska sannleikann og lifa eftir honum. Þegar móðir á Englandi var að því spurð hvernig börnin hennar, bæði kristniboðar í fullu starfi, hefðu þroskað með sér svona sterkan kærleika til Guðs, svaraði hún: „Ég hef talað við þau um það hversu raunverulegur Jehóva er. Hann hefur hjálpað mér svo mikið að ég get ekki annað en gert Jehóva raunverulegan fyrir þeim. Allt snýst um hann.“ Kenndu barninu þínu líka að tala við Jehóva ‚með alls konar bæn og beiðni og biðja á hverri tíð í anda.‘ (Efesusbréfið 6:18, Ísl. bi. 1912) Láttu barnið heyra einlægar, hjartanlegar bænir þínar og ræddu við það um innihald þess eigin bæna. — 5. Mósebók 11:1, 2, 18, 19; Orðskviðirnir 20:7.

9. Hvernig geta foreldrar þjálfað samvisku barna sinna með dæmum úr daglega lífinu?

9 Samviska barna getur orðið fyrir djúpum áhrifum af atvikum úr hinu daglega lífi. (Samanber 1. Korintubréf 8:10.) Af og til heyrir þú kannski af einstaklingum sem líða fyrir það að hafa brotið lög Guðs. Án þess að tala í ásökunartón gætir þú rætt um slík dæmi við barnið þitt og hjálpað því þar með að skilja sannleikann í orðum Páls: „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Jákvætt dæmi er að finna í hinni hrífandi frásögn guðspjallanna um ævi Jesú. Þú munt hjálpa barni þínu að tileinka sér „huga Krists.“ (1. Korintubréf 2:16) En þú verður að gæða frásögurnar lífi! Hvettu barnið til að sjá fyrir sér hina áhrifamiklu atburði og íhuga hversu meistaralega Jesús tók á málum. Veldu efni úr biblíuritum sem fjalla um ævi og eiginleika Jesú og hafðu það með í fjölskyldunámi þínu endrum og eins til að auka fjölbreytnina. *

10. Hvernig getur þú hjálpað barni þínu að ‚þekkja kærleika Krists‘?

10 Barnið þitt þarf líka að kosta kapps um að líkja eftir fordæmi Krists. Þá aðeins mun það af eigin reynslu ‚kynnast kærleika Krists sem gnæfir yfir alla þekkingu.“ (Efesusbréfið 3:19) Hvettu barnið því til að líkja enn betur eftir hatri Jesú á lögleysinu, kærleika hans til fólks, kostgæfni hans vegna tilbeiðslunnar á föður sínum, miskunn hans og göfuglyndi og fúsleika til að þola háð og spott. (Hebreabréfið 1:9; Markús 6:3; Jóhannes 4:34; Lúkas 23:34; 1. Pétursbréf 2:23) Hrósaðu barninu þínu hlýlega þegar það fylgir hvatningarorðum þínum. Barnið þarf að skilja að þótt við séum ófullkomin mun hamingja okkar aukast og samviskan verða næmari í sama mæli og við fylgjum fyrirmynd meistarans. Við eignumst líka nánara samband við Guð því að Jesús endurspeglar persónuleika föður síns. (Jóhannes 14:6-10) Minntu barnið þitt stöðugt á gildi þessa sambands. Kristin móðir, sem á fjögur börn í sannleikanum, segir: „Maðurinn minn lætur aldrei dag líða án þess að leggja handlegginn utan um sérhvert af börnunum og segja þeim hversu vænt honum þyki um þau og hversu stoltur Jehóva hljóti að vera af hegðun þeirra. ‚Jehóva elskar ykkur,‘ segir hann, ‚ekki valda honum vonbrigðum.‘“ — Orðskviðirnir 27:11.

Þörfin fyrir ástríkan aga

11. Hvers vegna hafa öll börn þörf fyrir aga?

11 Þrátt fyrir að Davíð hafi verið fræddur af Guði „frá æsku“ bað hann samt sem áður: „Minnst eigi æskusynda minna og afbrota.“ (Sálmur 71:5, 17; 25:7) Já, „fíflska“ situr föst í hjarta hvers einasta barns en „vöndur agans [mun] koma henni burt þaðan.“ (Orðskviðirnir 22:15) Þessi „vöndur,“ sem foreldrarnir beita valdi sínu með, getur í mörgum tilfellum einungis verið leiðrétting eða ákveðnar hömlur sem barninu eru settar. Þegar svikult hjarta barnsins langar til að gera eitthvað skaðlegt er nauðsynlegt að sýna festu og segja nei! — Jeremía 17:9; Orðskviðirnir 29:17, 19, 21.

12, 13. Hvernig er hægt að aga með áhrifaríkum hætti?

12 Þegar agi er veittur, einkum ef beitt er refsingu, ber að fylgja fordæmi Jehóva sem leiðréttir eftir því sem rétt er. Jesaja 28:26-29 bendir á að hann sé eins og bóndi sem lætur dómgreindina segja sér hvaða verkfæri eigi að nota til að þreskja mismunandi tegundir korns og hversu lengi, ekki ‚halda stöðugt áfram að þreskja það.‘ Því skaltu spyrja sjálfan þig: Eru hömlurnar sanngjarnar með hliðsjón af aldri og þroska barnsins? Er refsingin í réttu hlutfalli við alvarleika yfirsjónarinnar? Er ég sjálfur mér samkvæmur eða refsa ég barninu af því að ég er í slæmu skapi? Og veit barnið í raun og veru hvers vegna því er refsað? — Jobsbók 6:24.

13 Ósanngjarnar hömlur eða stefnulaus agi mun skaprauna eða ergja barnið. * (Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21) Kærleikur ásamt festu mun hins vegar vernda barn þitt fyrir kringumstæður sem geta eyðilagt allt hið góða sem þú hefur kennt barninu og fyllt hjarta þess með. Einkum er þetta mikilvægt í sambandi við félagsskap barnsins. (Orðskviðirnir 13:20; 28:7) En hvað ef barnið lendir í alvarlegum erfiðleikum þrátt fyrir allt sem þú hefur gert til að hjálpa því?

Þegar erfiðleikar bera að garði

14. Hvers vegna ættu foreldrar ekki að vera fljótir til að gefast upp þegar barn lendir í alvarlegum erfiðleikum?

14 Sársaukafullt vonbrigði hafa komið sumum foreldrum til að gefast einum of fljótt upp á villuráfandi barni. Þótt Jehóva hafi gefið þjóð sinni til forna, Ísraelsmönnum, sem einu sinni var honum eins og „sonur,“ viðeigandi refsingu og áminningu var hann ekki fljótur til að gefast upp á henni. (Hósea 11:1; 2. Krónikubók 36:15, 16; Sálmur 78:37, 38; Nehemía 9:16, 17) Alveg eins og þjálfarar til forna gátu bundið um sár og sett saman brotin bein, þegar íþróttamaður meiddist, verða foreldrar núna að ‚rétta úr máttvana höndum og magnþrota knjám til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.“ — Hebreabréfið 12:12, 13.

15. Hvernig geta foreldrar farið eftir Galatabréfinu 6:1 við að hjálpa villuráfandi barni?

15 Til að leiðrétta barn, sem er orðið ‚fatlað‘ andlega og koma í veg fyrir að ástandið versni, þarf að leiðrétta hugsun barnsins. „Ef einhver misgjörð kann að henda mann [eða barn],“ ráðlagði Páll, „þá leiðréttið þér sem andlegir eruð, þann mann með hógværð.“ (Galatabréfið 6:1) Gríska orðið, sem þýtt er „leiðréttið,“ var notað á læknamáli á tímum Páls um að setja saman brotin bein. Þessi sársaukafulla aðgerð hlaut að krefjast mikillar leikni til að koma í veg fyrir að beinbrotið hefði í för með sér ævilanga fötlun. Sama grunnorð er þýtt „bæta“ (net) og „bæta úr.“ (Markús 1:19, Ísl. bi. 1912; 1. Þessaloníkubréf 3:10) Til að „bæta“ hjarta unglings þarf að beita kennslulist til að ná til hans. Í stað þess að munnhöggvast við hann skaltu fylgja þessari hvatningu Biblíunnar: ‚Vertu ljúfur, þolin í þrautum, hógværlega agandi þá sem skipast í móti ef Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:24-26; 3: 16; 4:2.

16. (a) Hvaða breytningar geta verið nauðsynlegar til að ávinna barn sem stígið hefur víxslspor? (b) Hvað ætti að gera barninu ljóst?

16 Ef foreldri á að geta leiðrétt ranga hugsun barns síns þarf það að leggja sig sérstaklega fram við fræðsluna. Foreldri getur þurft að gera breytingu á daglegu lífi sínu til að veita barninu fullnægjandi athygli. Í dæmisögu, sem sýnir hversu mikið væri viðeigandi að leggja á sig til að fá ‚einn syndara‘ til að snúa við, segir Jesús frá konu sem nánast lagði allt annað til hliðar til að finna drökmu sem hún týndi. (Lúkas 15:7-10) Barn, sem alið er upp í guðrækni, getur verið svo yfirtekið af sektarkennd þegar synd þess kemur í ljós að því finnast það einskis virði, og foreldri getur þurft að leggja sig fram um að fullvissa barnið um ást sína. Hjálpaðu barninu að sjá að það er breytni þess, en ekki það sjálft, sem þér mislíkar, og að hægt sé að leiðrétta það sem úrskeiðis hefur farið. — Júdasarbréfið 23.

17, 18. (a) Hvað gerði faðir einn til að hjálpa syni sínum? (b) Hvað skilar venjulega góðum árangri?

17 Faðir einn, sem varð fyrir því að sonur hans var agaður af söfnuðinum fyrir siðleysi, byrjaði að fara nokkru sinnum í viku í langar gönguferðir með honum og eiga við hann löng samtöl. Hann valdi einnig biblíurit sem áttu sérstaklega við þarfir sonar hans. Faðirinn nam þessi rit með honum auk þess að láta drenginn vera með í náminu sem faðirinn hafði með allri fjölskyldunni. Faðirinn gerði auk þess breytingu á starfsálagi sínu sem safnaðaröldungur til að geta gefið syni sínum alla þá athygli sem hann þarfnaðist. Drengurinn náði sér aftur á strik andlega.

18 En stundum getur svo farið að sonur eða dóttir gerir algera uppreisn og jafnvel ‚fyrirlíti hlýðni.‘ * (Orðskviðirnir 30:17) Til allrar hamingju eru slík tilfelli fágæt meðal þjóna Guðs. Það er sannarlega hvetjandi að vita að í langflestum tilvikum skilar það góðum árangri þegar foreldrar gefast ekki einum of auðveldlega upp á börnum sínum heldur reyna með þolinmæði að ná til hjartna þeirra — þó að þeir sjái ekki í gegn um fingur við þau vegna rangrar breytni.

Það er erfiðisins virði

19. Hvernig getur þú líkt eftir fordæmi Maríu í sambandi við að sjá fyrir fjölskyldu þinni?

19 Uppeldi barna, einkanlega nú á hinum „síðustu dögum,“ er mikið og erfitt verk. Foreldrar, sem taka slíka ábyrgð alvarlega, eiga hrós skilið! Leggðu stöðugt mat á það hverju þú gefur mestan forgang í lífi þínu. Láttu aldrei áhyggjur af því að sjá ástvinum þínum fyrir „mörgu“ af efnislegu tagi koma í veg fyrir að þú takir þátt með þeim í andlegum iðkunum. Mundu að Jesús sagði Mörtu að ‚þörf væri á fáeinu eða aðeins einu.‘ (NW) Já, einföld máltíð nægði. Vertu eins og María sem naut andlega auðgandi samverustundar með Jesú. Veldu „góða hlutskiptið“ fyrir fjölskyldu þína með því að taka þátt með henni í andlegum athöfnum. — Lúkas 10:38-42.

20. Hvaða umbun býður kristinna foreldra sem ala börn sín upp í sannleikanum?

20 Nokkrum árum eftir að móðir hafði komið á legg sex börnum sem elskuðu Jehóva fékk hún kort frá einu þeirra. Á því stóð meðal annars: „Mamma, ég elska þig mjög heitt, miklu heitar en þú munt nokkurn tíma skilja. Takk fyrir að gefa mér ráð og leiðbeiningar . . . þú gafst mér bestu vonina í heimi og það er sannleikurinn. Þakka þér fyrir að bjarga lífi mínu.“ Nærri má geta að þetta gladdi móðirina! Eins og Orðskviðirnir 23:24, 25 segja: „Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son [eða dóttur], gleðst af honum [eða henni]. Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.“ Megi slík hamingja falla þér í skaut með hjálp Jehóva!

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Höndlið hið sanna líf“ í Varðturninum (á íslensku) þann 1. júlí 1973 þar sem æviágripi Jesú hér á jörð eru gerð skil. Greinin „Prove Yourselves To Be True Disciples of Christ“ í Varðturninum (á ensku) þann 1. júlí 1977 ræðir mörg af persónueinkennum hans, svo og Aid To Bible Understanding (útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.) bls. 927-32.

^ Gerð var athugun með 417 ungmenna og niðurstöður hennar birt í tímaritinu Adolescence. Niðurstöðurnar voru þessar: „Mjög strangt heimili leiðir til vonbrigða og árásarhneigðar, en mjög undanlátssamt heimili til vonbrigða, þar eð barnið veit ekki hvers foreldrarnir vænti af því, sem síðan leiðir til árásarhneigðar í leit að einhverjum staðli.“

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í enskri útgáfu Varðturnsins þann 1. maí 1960 bls. 287-8.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig geta foreldrar bætt samræður og skoðanaskipti við börn sín?

◻ Hvað mun hjálpa barni að þroska með sér samvisku sem er áreiðanlegur leiðarvísir?

◻ Hvað mun gera aga áhrifaríkan?

◻ Hvernig er hægt að koma villuráfandi barni á rétta braut?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Með því að hlusta af athygli, jafnvel þegar illa stendur á, má hvetja til opinna samræðna og skoðanaskipta.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Ef barn þitt hefur stígið alvarlegt víxslspor er það krefjandi verkefni að fullvissa það um ást þína og ná til hjarta þess.