Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Keppt sameiginlega að takmarkinu sem er lífið

Keppt sameiginlega að takmarkinu sem er lífið

Keppt sameiginlega að takmarkinu sem er lífið

„En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — JÓHANNES 17:3.

1. (a) Við hvaða tækifæri talaði Jesús fyrst um „eilíft líf“? (b) Hverjir geta ná því marki?

 HANN kemur laumulega, óséður í skjóli náttmyrkurs. Þetta er Níkódemus. Táknin, sem Jesús gerði í Jerúsalem um páskana árið 30, hafa snert hann djúpt. Það er við þennan farísea að sonur Guðs nefnir í fyrsta sinn, samkvæmt skráðum heimildum, „hið eilífa líf,“ og hann bætir við: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:15, 16) Hvílíkt tækifæri var nú að opnast þeim mannheimi sem hlotið gat endurlausn! Jafnvel stoltur farísei gat auðmýkt sig til að ná því marki.

2. (a) Við hvaða kringumstæður talaði Jesús aftur um „eilít líf“? (b) Hverjir eiga þess kost að fá lífgandi vatn?

2 Skömmu síðar er Jesús á ferð frá Jerúsalem til Galíleu. Hann staldrar við hjá brunni í Samaríu meðan lærisveinar hans skreppa frá til að kaupa matvæli. Kona kemur til að sækja vatn. Jesús segir við hana. „Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóhannes 4:14) Hvers vegna vekur Jesús athygli þessarar konu á svona dýrmætri von, fyrst Gyðingar fyrirlitu Samverja? Auk þess veit Jesús að þessi kona hefur átt fimm eiginmenn og lifir nú siðlausu lífi með manni sem ekki er eiginmaður hennar. Samt segir Jesús að jafnvel þeir úr mannheiminum, sem eru fyrirlitnir, skuli geta fengið hið lífgandi sannleiksvatn ef þeir aðeins iðrist og taki upp hreint líferni. — Samanber Kólossubréfið 3:5-7.

3. (a) Hvers konar „mat“ mælir Jesús með? (b) Hvernig hefur Jóhannes 4:34-36 ræst?

3 „Eilíft líf“! Jesús vinnur nánar úr þessu stefi þegar lærisveinar hans koma til baka og hvetja hann til að matast. Hann segir þeim: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ Hvaða verk er það? Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem uppsker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs.“ Slík uppskera var í vændum, jafnvel meðal hinna lítilmótlegu Samverja, og hún varð að gleðilegum veruleika eins og frásagan sýnir. (Jóhannes 4:34-36; Postulasagan 8:1, 14-17) Uppskerustarf til eilífs lífs heldur áfram allt fram á þennan dag, en núna er akurinn heimurinn. Lærisveinar Jesú Krists hafa enn kapp nóg að gera í starfi Drottins. — Matteus 13:37, 38; 1. Korintubréf 15:58.

„Gjöf lífsins“

4. Hvernig svaraði Jesús Gyðingum í sambandi við það að halda hvíldardaginn heilagan?

4 Ár líður. Nú er komið að páskum árið 31. Að venju er Jesús í Jerúsalem til að halda hátíðina. En Gyðingar fara að ofsækja hann fyrir það kærleiksríka verk að lækna á hvíldardegi. Hverju svarar Jesús þeim? Hann segir: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ Þeir reyna þá að drepa hann. — Jóhannes 5:17, 18.

5, 6. (a) Hvaða dýrmætu einingarbandi lýsir Jesús núna? (b) Í hvaða skilningi hefur Jesús „líf í sjálfum sér“?

5 Jesús tekur þá hins vegar til að lýsa mjög dýrmætu sambandi — þeirri einingu, þeim einhug sem ríkir með honum og föður hans. Hann segir þessum Gyðingum: „Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðulostnir.“ Hann lætur í ljós að faðirinn hafi fengið honum óvenjulegan mátt og segir: „Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stíginn yfir frá dauðanum til lífsins.“ — Jóhannes 5:20, 24.

6 Já, jafnvel þeir sem eru „dauðir“ í augum Guðs vegna arfgengrar syndsemi sinnar geta ‚heyrt raust Guðs sonarins‘ og lifnað. En hvernig? Jesús skýrir það: „Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.“ En það má líka þýða að hafa „í sér gjöf lífsins.“ (Jóhannes 5:25, 26, NW Ref. bi., neðanmáls) Jesús er því fær um að gefa mönnum góða stöðu frammi fyrir Guði. Auk þess er hann fær um að reisa upp og gefa líf þeim sem sofa dauðasvefni. — Jóhannes 11:25; Opinberunarbókin 1:18.

7. (a) Hvað segir Sálmur 36:6, 10 okkur um Guð? (b) Hvernig hefur Jehóva umbunað ráðvöndum syni síum?

7 Jehóva hefur alltaf haft líf í sjálfum sér. Um hann er ritað: „Hjá þér er uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:6, 10) En núna hefur faðirinn vakið ráðvandan son sinn upp frá dauðum sem ‚frumgróða þeirra sem sofnaðir eru.‘ Með því að Jesús hefur „í sér gjöf lífsins“ hefur honum verið gefið vald til að fyrirgefa syndir, dæma og reisa upp dauða svo að þeir eigi eilíft líf í vændum. — 1. Korintubréf 15:20-22; Jóhannes 5:27-29; Postulasagan 17:31.

Gleðirík eining

8, 9. (a) Hvernig getum við haft markið í sjónmáli? (b) Hvaða ráðstafanir gerir Guð í sambandi við eilíft líf? (c) Hverjir eignast hlutdeild í þessari blessun og hvernig?

8 Lærisveinn Jesú, Júdas, áminnir okkur því: „Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 21) Svo sannarlega er þetta dýrmætt markmið — eilíft líf! Og það á að vera líf sem fullkomnir menn samkvæmt vilja okkar fullkomna skapara og þeirri ráðstöfun sem hann gerir fyrir milligöngu sonar síns. Það líf mun vera laust við þann sálardrepandi þrældóm sem oft fylgir lífsbaráttunni í núverandi heimskerfi. Í hinni komandi heimsskipan munu sorg, sjúkdómar, lögleysi, spilling, meira að segja dauðinn, heyra fortíðinni til! — Míka 4:3, 4; 1. Korintubréf 15:26.

9 Hverjir eiga að fá hlut í uppfyllingu þessara fyrirheita? Og hvar? Það eru þeir sem iðka munu trú á fórn Jesú og láta guðrækin verk vera henni samfara. Þeir verða hluti af sameinuðu bræðrafélagi kristinna manna, sem nær um allan heiminn, sameinað í trúnni. — Jakobsbréfið 2:24; Efesusbréfið 4:16.

10. (a) Hvað er fyrst í röðinni í „stjórnsýslu“ Guðs? (b) Hvað er næst í röðinni?

10 Guði hefur þóknast sú ráðstöfun „að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Efesusbréfið 1:8-10) Þetta er heimilisráðstöfun Guðs sem hefst með því að safna saman 144.000 samerfingjum Krists. Þeir eru „leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu [Jesú Kristi].“ Þeir eiga hlut í „fyrri [himnesku] upprisunni“ til að þeir geti þjónað með Kristi sem konungar og prestar um þúsund ár. Næst tekur stjórn Guðs til við að safna saman „því, sem er á jörðu,“ og það byrjar með ótöldum ‚miklum múgi af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Þessir þjónar Guðs munu koma úr „þrengingunni miklu“ og eiga í vændum að hljóta eilíft líf á ‚nýrri jörð.‘ — Opinberunarbók 14:1, 4; 20:4, 6; 7:4, 9-17; 21:1, 4.

11. (a) Hvaða dýmæta einingu á Efesusbréfið 1:11 við? (b) Hvernig á Jóhannes 15:4, 5 við um þessa einingu?

11 Hinir andasmurðu synir Guðs, ‚það sem er á himnum,‘ eiga mjög innilegt samband við Jesú og föðurinn. Þeir hafa ‚öðlast arfleifð‘ sem meðerfingjar Jesú að ríkinu. (Efesusbréfið 1:11) Jesús hvatti þá til að vera sameinaðir sér, alveg eins og greinar eru sameinaðar vínviði, til að bera mikinn ávöxt. Sé þessu dýrmæta sambandi við Krist Jesú ekki viðhaldið geta greinarnar „alls ekkert gjört.“ — Jóhannes 14:10, 11, 20; 15:4, 5; 1. Jóhannesarbréf 2:27.

‚Aðrir sauðir‘ eiga nú hlutdeild

12. (a) Hvert er samband hinna ‚annarra sauða‘ við ‚litlu hjörðina‘? (b) Hvernig á 1. Jóhannesarbréf 2:1-6 við um hvorn hópinn?

12 En hvað um þær milljónir annarra sauðumlíkra manna sem hafa verið aðgreindir frá veraldlegum „höfrum“ síðastliðin 50 ár? (Matteus 25:31-40) Þeir eru ekki af ‚lítilli hjörð‘ Jesú sem er gefið ríkið, heldur eru þeir ‚aðrir sauðir‘ sem slást í hóp þeirra og mynda með þeim stóra hjörð sem þjónar í einingu með föðurnum og syninum. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Jóhannes postuli fullvissar okkur um að Jesús Kristur sé „friðþæging fyrir syndir vorar [þeirra sem mynda ‚litlu hjörðina‘] og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ Þessir ‚aðrir sauðir,‘ safnað út úr heimi mannkynsins, geta þannig einnig átt dýrmætt einingarband við Guð og Krist. Það er eins og Jóhannes segir í framhaldinu: „Hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.“ Sú skyldukvöð er lögð á herðar fyrst ‚litlu hjörðinni,‘ síðan ‚öðrum sauðum,‘ að ganga eins og Jesús gerði. — 1. Jóhannesarbréf 2:1-6.

13. (a) Hvað bað Jesús um í Jóhannesi 17:20, 21? (b) Hvað sýnir að þessi bæn er ekki takmörkuð við samerfingja Krists?

13 Báðir hóparnir, hinn himneski og hinn jarðneski, eru því núna ‚sameinaðir föðurnum og syninum‘ — fullkomlega samtaka þeim um að fullgera verk Guðs. Jesús bað: „Allir séu þeir [sameinaðir], eins og þú, Faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkar.“ Þessi eining er ekki takmörkuð aðeins við hina sameiginlegu arftöku, því að augljóslega verða lærisveinar Jesú ekki hluti af ‚líkama Jehóva‘ eða ‚samerfingjar Jehóva.‘ Þeir eru sameinaðir á þann hátt að þeir eru einhuga og samtaka í verki, með „einu hjarta og einni sál“ bæði með Jehóva og Kristi þegar þeir bera vitni fyrir heimi mannkynsins. — Jóhannes 17:20, 21.

14. Með hvaða sérsökum hætti er hinn himneski hópur sameinaður Jesús, og hvernig gera þeir sem mynda hann sér það ljóst?

14 Hinn smurði himneski hópur nýtur þó þessarar einingar núna á sérstakan hátt, því að þeir sem mynda hann hafa verið lýstir réttlátir vegna fórnar Krists. Því er hægt að geta þá með andanum með það í vændum að verða samerfingjar með Kristi Jesú. Þeir viðurkenna sonartöku sína með því að segja: „Sjálfur andinn [andi Guðs sem getur þá] vitnar með vorum anda [ríkjandi tilhneigingu], að vér erum Guðs börn.“ — Rómverjabréfið 3:23, 24; 5:1; 8:15-18.

15. Hvers njóta þeir sem hafa jarðneska von núna og hvað eiga þeir í vændum?

15 Þeir sem eiga jarðneskt líf í vændum eru nú lýstir réttlátir að því er varðar vináttu við Guð, alveg eins og Abraham, Rahab og fleiri til forna. Í þúsundáraríki Krists verður þeim smám saman lyft upp til mannlegs fullkomleika þannig að ‚sjálf sköpunin verður leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ (Rómverjabréfið 8:19-21; Jakobsbréfið 2:21-26) Hlýðnir menn verða því lýstir réttlátir til eilífs lífs á jörð. — Samanber Jóhannes 10:10; Jesaja 9:7; 11:1-9; 35:1-6; 65:17-25.

16. (a) Í hvaða tilliti eru ‚litla hjörðin‘ og hinir ‚aðrir sauðir‘ sameinuð? (b) Hvers vegna á Jóhannes 3:3-5 aðeins við ‚litlu hjörðina‘?

16 Sem einstaklingar sýna þeir sem mynda ‚litlu hjörðina‘ og þeir sem mynda hinn fjölmenna hóp ‚annarra sauða,‘ sambærilega gleði og kostgæfni gagnvart þjónustu Guðs. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16; Títusarbréfið 2:13, 14) Flestir þeirra sem eftir eru af hinum smurðu eru bæði mun eldri og auðugari að kristinni reynslu, en báðir hóparnir láta í ljós kristinn persónuleika og bera ávexti andans. (Efesusbréfið 4:24; Galatabréfið 5:22, 23) Þó er munur á þeim eins og Jesús lét í ljós við Níkódemus jafnvel áður en hann minntist á eilíft líf. Hann sagði: „Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ (Jóhannes 3:3-5) Þeir skírðu, kristnu menn sem Guð kallar til að vera samerfingjar með Jesú í ríki hans, endurfæðast því andlega. (1. Korintubréf 1:9, 26-30) Hinir ‚aðrir sauðir‘ þarfnast engrar slíkrar endurfæðingar, því að takmark þeirra er eilíft líf í endurreistri paradís á jörð sem þegnar Guðsríkis. — Matteus 25:34, 46b; Lúkas 23:42, 43.

Minningarhátíðin — og nýi sáttmálinn

17. (a) Hvers vegna ættu allir sem hafa lífið að markmiði að koma saman við fólki Guðs þann 24. mars? (b) Hverju veitum við athygli varðandi minningarhátíðina árið 1985?

17 Þann 24. mars eftir sólsetur munu vottar Jehóva um allan heim halda minningarhátíðina um dauða Jesú árið 1986. Athyglinni verður beint að því er Jesús fórnaði fullkomnum mannslíkama sínum og lífsblóði í þágu syndugs mannkyns og til að upphefja nafn föður síns og tilgang. (1. Korintubréf 11:23-26) Því munu allir sem hafa lífið að markmiði (hvort sem er á himnum eða jörð) vilja koma saman með fólki Guðs um allan heim til þessarar gleðiríku hátíðahalda. Árið 1985 minntust alls 7.792.109 manns dauða Jesú. Þeir sem tóku af minningarhátíðarbrauðinu og víninu, sem tákna mannslíkama Jesú og blóð, voru aðeins 9051 talsins. Hvers vegna svona fáír?

18, 19. (a) Hvaða sáttmála á Jesús við í Lúkasi 22. kafla? (b) Hvaða tilgangi þjónar hvor sáttmáli fyrir sig? (c) Hvernig þjónar Jesús núna sem ‚einn meðalgangari‘ eins og Móse var fyrirmynd um?

18 Nú, hvað sagði Jesús kvöldið sem hann stofnsetti minningarhátíðina um dauða sinn? Eftir að hafa rétt lærisveinum sínum brauðið bauð hann þeim vínið á sama hátt og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthelt.“ Síðar undirstrikaði hann fyrir þeim hvers vegna hann gæfi þeim aðild að nýja sáttmálanum og sagði: „Þér eruð þeir, sem sem stöðugir hafa verið með mér í freistingum mínum. Og ég fæ yður ríki í hendur, eins og faðir minn hefir fengið mér, til þess að þér getið etið og drukkið við borð mitt í ríki mínu; og þér skuluð sitja í hásætum og dæma þær tólf ættkvíslir Ísraels.“ — Lúkas 22:19, 20, 28-30, Ísl. bi. 1912.

19 Spámaðurinn Jeremía hafði sagt fyrir um hinn nýja sáttmála og að í gegnum hann myndi Jehóva fyrirgefa misgjörð og synd þjóna sinna, til að þeir gætu ‚þekkt Jehóva‘ mjög innilega og náið. (Jeremía 31:31, 34) Alveg eins og Móse var ‚meðalgangari‘ lagasáttmálans við Ísrael að holdinu, eins verður Jesús „meðalgangari [þessa] betri sáttmála“ sem Guð gerir við hinn andlega „Ísrael Guðs.“ Það er gert til að endurkaupa þá sem eru kallaðir til að verða erfingjar Guðsríkis með Kristi. Þannig geta þeir „öðlast hinnar eilífu arfleifð.“ (Galatabréfið 3:19, 20; 6:16; Hebreabréfið 8:6; 9:15; 12:24) Það er einkanlega í þessum biblíulega skilningi að Kristur Jesús er hinn ‚eini meðalgangari milli Guðs og manna.‘ — 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

20. (a) Hverjir neyta réttilega brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (b) Hvers vegna er það svo?

20 Hverjir geta þá réttilega neytt brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? Einungis sá hópur sem Guð gefur aðild að nýja sáttmálanum sem gerður er á grundvelli fórnar Jesú. (Sálmur 50:5) Tilgangur þessa sáttmála er að lýsa hina 144.000 samerfingja Jesú réttláta gagnvart mannlegu lífi núna, þannig að þeir geti fórnað þessum lífsrétti og verið teknir inn í hið himneska ríki. (Rómverjabréfið 4:25; 2. Tímóteusarbréf 2:10, 12) En hvað um hina ‚aðra sauði‘?

21. (a) Hvernig er það hinum ‚öðrum sauðum‘ til gagns að vera áhorfendur að minningarhátíðinni? (b) Að hverju beinir minningarhátíðin athyglinni og hvaða spurning vaknar því?

21 Þeir sem mynda hóp hinna ‚annarra sauða‘ eiga ekki aðild að nýja sáttmálanum og taka því ekki af brauðinu og víninu. Samt sem áður hafa þeir allir ríkulegt gagn af því að sækja minningarhátíðina sem áhorfendur er bera virðingu fyrir þessari hátíð. Það mun brýna jákvætt mat þeirra á andlegum málum í samræmi við orð Jesú í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf, að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Mundu að minningarhátíðin beinir athyglinni að holdi og blóði Jesú. Hið fórnfærða hold og blóð Krists er afar þýðingarmikið öllum sem keppa að því marki sem eilíft líf er. Hvernig gildir það um hina ‚aðra sauði‘ sem ekki hafa fengið aðild að nýja sáttmálanum og neyta því ekki bauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? Við skulum íhuga það í greininni á eftir.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig veitti Jesús smám saman skilning á voninni um eilíft líf?

◻ Hvernig hefur Guð unnið að „stjórn sinni“?

◻ Hvers vegna má segja að hinir ‚aðrir sauðir‘ séu sameinaðir föðurnum, syninum og bræðrum Krists?

◻ Hvers vegna neyta aðeins smurðir kristnir menn brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

[Spurningar]

‚Litla hjörðin‘ og hinir ‚aðrir sauðir‘ eru sameinaðir — vinna verk Guðs eins og Jesús gerði.