Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Riddarar Opinberunarbókarinnar – hvernig reið þeirra hefur áhrif á þig

Riddarar Opinberunarbókarinnar – hvernig reið þeirra hefur áhrif á þig

Riddarar Opinberunarbókarinnar – hvernig reið þeirra hefur áhrif á þig

MÁNUDAGURINN 1. april 1985 var ólíkur öllum öðrum dögum fyrir marga þeirra sem nota reglulega neðanjarðarlestir borgarinnar til að komast til og frá vinnu. Hótað hafði verið að sprengja neðanjarðarbrautirnar í loft upp. Hvers vegna? Til að beina athygli manna að því sem sagt var vera tilraun, mörgum árum áður, til að útrýma armeníumönnum í Tyrklandi, nokkuð sem tyrkneska stjórnin hefur margsinnis neitað.

Sjálfsagt vissu fæstir, sem ferðuðust með neðanjarðarbrautunum, nokkuð um þetta margra ára gamla mál. Samt sem áður máttu þeir þola talsverð óþægindi og áhyggjur. Við verðum oft fyrir áhrifum af atburðum sem við vitum harla lítið um.

Á öðrum áratugi 20. aldarinnar fóru að gerast merkisatburðir sem uppfylltu athyglisverðan spádóm Biblíunnar sem er að finna í Opinberunarbókinni 6:1-8. Eins og opinberað var hinum kristna postula Jóhannesi áttu að ríða fram riddarar á hestum á hinum síðustu dögum. Þótt milljónir manna viti ekki af þessari reið knapana í Opinberunarbókinni hefur hún áhrif á alla jarðarbúa. Hún hefur líka áhrif á þig. En hvernig? Við skulum komast að niðurstöðu um það þegar við ræðum um riddarana hvern fyrir sig.

Rauði hesturinn

Einn reiðskjótanna, sem Jóhannes sá, var „annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.“ — Opinberunarbókin 6:4.

Hið ‚mikla sverð‘ þessa riddara táknar hernað. Í samræmi við þetta tákn hafa 69 milljónir manna fallið í tveim heimsstyrjöldum frá og með 1914. Hvílíkt manntjón! Gífurlegur skari ekkna og munaðarleysingja geta borið vitni um að riddarinn á rauða hestinum, sem táknar stríð á alþjóðavettvangi, hefur haft bein áhrif á líf þeirra.

Stöðugar styrjaldir og stríðshótanir liggur þar að auki eins og mara á herðum yngri kynslóðarinnar. Í löndum þar sem stríð eru háð eru það unglingar sem heyja töluverðan hluta bardagana. Áhrif styrjalda á þetta unga fólk koma vel fram í þessari spurningu sem borin var fram af stjórnarformanni mannréttindasamtaka: „Hvernig geta þeir vaxið úr grasi sem andlega heilt og öfgalaust fólk?“

Æskufólk í ýmsum löndum, sem finna fyrir beinum áhrifum styrjalda, hafa lært að telja tímann í klukkustundum og dögum í stað mánaða og ára. Það spyr: „Seinna, hver hugsar um það sem gerist seinna? Getur þú ábyrgst að ekki verði skotið sprengikúlu inn í herbergið mitt í kvöld þegar ég fer að hátta?“

Hvað um börnin í þeim löndum þar sem friður ríkir? Finna þau fyrir áhrifum riddarans á stríðshestinum? Já, hin uggvænlega kjarnorkustyrjaldarógnun hefur haft djúp áhrif á sálarlíf þeirra. Kennari einn sagði um þá örvæntingu sem birtist í lífi nemenda hans: „Aftur og aftur, þegar ég heyrði þessar athugasemdir, var ég hreinlega gagntekinn af vantrú. Þessi ungu börn voru haldin örvæntingu sem ég leyfi mér ekki að finna til.“ Dr. Richard Logan í Quebec í Kanada bætir við: „Vanmáttarkennd er hin sálfræðilega skilgreining þunglyndis. Við sjáum hana hjá miklum fjölda ungs fólks.“

En hvað ef þú býrð ekki í stríðshrjáðu landi eða finnst þessi vandi ekki hafa áhrif á tilfinningalíf þitt? Knapinn á rauða hestinum hefur eftir sem áður áhrif á líf þitt. Á hverri mínútu er eytt 1,3 milljónum bandaríkjadala af almennu skattfé til hermála — um 660 þúsund milljónir bandaríkjadala í heiminum á ári. Hver ber þennan gífurlega kostnað? Almenningur. Hvar sem þú býrð hefur riddarinn á rauða hestinum einhver áhrif á líf þitt.

Svarti hesturinn

Jóhannes lýsir öðrum hesti í sýninni með þessum orðum: „Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá sem á honum sat hafði vog í hendi sér. Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: ‚Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu.‘“ — Opinberunarbókin 6:5, 6.

Milljónir manna svelta. Þeir finna fyrir beinum áhrifum riddarans á svarta hestinum sem táknar hungur og matvælaskort. Á hverri mínútu deyja 30 börn vegna skorts á fullnægjandi fæðu eða lyfjum — yfir 15 milljónir á ári! Þar að auki búa hundruð milljónir manna við aumkunarverðar aðstæður. Að sögn fyrrverandi forseta Alþjóðabankans, Robert MacNamara, eru þeim „slík takmörk sett vegna ólæsis, vannæringar, sjúkdóma, hárrar dánartíðni ungbarna og skammra lífslíka að möguleikar þeirra arfbera, sem þeir fæðast með, fá aldrei notið sín.“

Á undanförnum mánuðum hafa myndir af sveltandi körlum, konum og börnum í Afríku verið algeng sjón. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Perez de Cuellar, sagði um umfang þessara miklu þjáninga: „Fleira fólk kann að deyja suður af Sahara í Afríku en féllu í allri síðari heimsstyrjöldinni. Jafnvel þeir sem lifa af kunna að hafa beðið varanlegt tjón, annað hvort líkamlega eða hugarfarslega.“ Þessi fórnarlömb verða fyrir beinum áhrifum af för svarta hestsins.

Líklega líður þú ekki hungur, en hin hörmulega neyð þeirra sem gera það hefur eigi að síður haft áhrif á þig. Að því er sagði í ritstjórnargrein í New York Times þann 20. mai 1985 var þá þegar búið að leggja fram sem svaraði einum milljarði bandaríkjadala til að afla hjálpargagna handa hinum sveltandi. Þótt þú hafir kannski ekki lagt neitt af mörkum beint hafa stjórnir sumra ríkja látið stórar fjárhæðir af hendi rakna af opinberu skattfé. Já, reið knapans á svarta hestinum hefur bæði bein og óbein áhrif á alla jarðarbúa.

Bleiki hesturinn

Sýninni, sem Jóhannes sá, heldur áfram með lýsingu á enn einum hesti og þeim sem situr hann: „Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ — Opinberunarbókin 6:8.

Dauðinn ríður bleika hestinum og „drepsótt“ er aðeins ein af mörgum aðferðum þessa riddara til að drepa. Þrátt fyrir framfarir læknavísindanna á heimurinn enn í höggi við sjúkdóma á öllum vígstöðvum. Þótt ekki geysi núna jafn umfangsmiklar farsóttir og hin svonefnda spænska veiki, sem fylgdi í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, kosta krabbamein, hjartasjúkdómar og fjöldi annarra sjúkdóma gífurlegan fjölda mannslífa. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin áætlar til dæmis að 5,9 milljónir nýrra krabbameinstilfella komi upp í heiminum ár hvert. Árblinda, mýrakalda, sniglahitasótt, kólera og fjöldi annarra sjúkdóma eru í hópi þeirra plága sem enn hrjá mannkynið.

En þú segir kannski sem svo að þú hafir engan þessara sjúkdóma. Það kann að vera rétt en reið knapans á bleika hestinum snertir þig engu að síður. Það kostar ekki lítið að reka sjúkrahús og halda uppi heilbrigðisþjónustu. Mjög víða er hún kostuð af almennu skattfé en annars staðar kaupa menn sérstakar sjúkratryggingar til að mæta hugsanlegum sjúkrakostnaði. Og hugsaðu um hið gífurlega vinnutímatap sem verður af völdum veikinda og lendir að síðustu á þér í hækkuðu vöruverði. Já, reið knapans á bleika hestinum snertir þig.

Það sem hvíti hesturinn hefur í för með sér

Eftir að hafa hugleitt hin skaðlegu áhrif af reið þessara þriggja riddara er hughreystandi að veita því eftirtekt sem Jóhannes sagði um hvíta hestinn og þann sem situr hann, en hann ríður fyrir hinum. Postulinn sagði: „Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ — Opinberunarbókin 6:2.

Jesús Kristur ríður hvítum hesti. (Opinberunarbókin 19:11) Himnesk stjórn hans hófst árið 1914 með hrífandi atburðum. Stríð braust út á himni sem lyktaði með því að djöflinum og englum hans var varpað niður til jarðarinnar. Eftir það heyrðist rödd á himni sem sagði: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Þessi yfirlýsing markaði upphafið á reið riddarana. — Opinberunarbókin 12:7-12.

En hvernig hefur reið Jesú Krists áhrif á þig? Í tengslum við stjórn sína spáði Jesús: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Í meira en 200 löndum og eyjum hafsins boða vottar Jehóva núna hið stofnsetta ríki Krists. Hafa þeir knúið dyra hjá þér? Þá hefur reið þessa riddara snert þig.

Jesús lýsti áfram hvaða áhrif stjórn hans myndi hafa á fólk. Hann spáði: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri.“ — Matteus 25:31-33.

Af völdum þessa aðgreiningarstarfs, sem fram fer um leið og Jesús ríður fram á hvíta hestinum, er öllu mannkyni skipt í ýmis sauði eða hafra. Tökum eftir hvernig fer fyrir þeim. Hafrarnir „munu fara til eilífrar refsingar [tortímingar], en hinir réttlátu [sauðirnir] til eilífs lífs.“ (Matteus 25:46) Viðbrögð þín við prédikun boðskaparins um Guðsríki mun því hafa annað hvort líf eða dauða í för með sér fyrir þig.

Jafnvel þótt þú hafir ekki fram til þessa velt fyrir þér þeim áhrifum, sem riddarar Opinberunarbókarinnar hafa á þig, hvetjum við þig til að gleðjast yfir þeim góðu fréttum að reið þeirra mun brátt taka enda. Eftir það mun jörðin njóta margvíslegrar blessunar undir stjórn Jesú, riddarans á hvíta hestinum. Í spádómi lýsir Biblían sumum þeirra svo: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og [þegar riddarinn á rauða hestinum er horfinn] gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. Gnóttir korns munu vera í landinu [þegar riddarinn á svarta hestinum er horfinn], á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:7, 16.

Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann mönnum þann mátt sem Guð hafði gefið honum yfir hræðilegustu sjúkdómum og meira að segja dauðanum. Þessi máttur hans mun birtast í langtum umfangsmeiri mæli þegar hann ríkir sem konungur og mun losa jörðina af öllum plágum sínum, hungursneyðum og styrjöldum. Þar með mun riddarinn á hvíta hestinum binda enda á þá tortímingu sem er samfara reið hinna riddarana í Opinberunarbókinni.

[Rammi á blaðsíðu 3]

Hverjir eru riddararnir?

Þann 1. janúar sýndi Varðturninn fram á hvernig reið riddarana í Opinberunarbókinni hófst.

HVÍTI HESTURINN: Jesús Kristur ríður þessum hesti sem nýkrýndur konungur á himnum. Honum er lýst sem réttlátum sigurvegara frá því að hann settist í hásæti árið 1914.

RAUÐI HESTURINN: Riddarinn á þessum hesti táknar hernað. Friðurinn er tekinn burt frá jörðinni og heimsstyrjöld brýst út.

SVARTI HESTURINN: Riddarinn á þessum hesti táknar matvælaskort og hungur. Samtímis og milljónir manna svelta geta aðrir enn keypt sér munaðarvörur.

BLEIKI HESTURINN: Dauðinn ríður bleika hestinum. Hann táknar ótímabæran dauða, meðal annars af völdum drepsótta.