Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öldungar, takið alvarlega ábyrgð ykkar sem hirðar

Öldungar, takið alvarlega ábyrgð ykkar sem hirðar

Öldungar, takið alvarlega ábyrgð ykkar sem hirðar

„Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:2.

1. Hvers vegna er viðeigandi að sauðir séu látnir tákna menn sem Guð hefur velþóknun á?

 VEL á við að sauðir skuli notaðir sem tákn manna er njóta velvildar Jehóva Guðs! Sauðir eru meðfærilegar skepnur sem hlýða röddu hirðis síns og fylgja honum fúslega. Hið sauðumlíka fólk Guðs lætur líka góða hirðinn, Jesú Krist, leiða sig. Það þekkir hann, hlýðir röddu hans og tekur fagnandi forystu hans. (Jóhannes 10:11-16) Ef góðan fjárhirði vantar verða bókstaflegir sauðir auðveldlega ráðvilltir og hjálparvana. Því er ekki að undra að Jesús Kristur fann til með mönnum sem voru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ — Matteus 9:36.

2. Hvernig leit Jehóva á sauðumlíka menn sem þjáðust af völdum kærleikslausra hirða?

2 Jehóva Guð hefur einlægan áhuga á andlegri velferð hjartahreinna manna sem Ritningin kallar „sauði.“ Til dæmis kallaði Guð vei yfir „Ísraels hirða,“ þá sem áttu að næra sauðina en vanræktu þá, og ólu sjálfa sig í staðinn. En Jehóva ætlaði ekki að láta sauðumlíka menn þjást endalaust því að hann sagði: „Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika.“ — Esekíel 34:2-16.

3. Hvernig hefur Jesús Kristur sýnt sauðunum umhyggju?

3 Góði hirðirinn, Jesús Kristur, ber sams konar umhyggju fyrir sauðumlíkum mönnum. Áður en hann steig upp til himna lýsti hann því vilja sínum að sauðirnir fengju tilhlýðilega umönnun. Hann sagði Pétri postula: ‚Gæt þú lamba minna, ver hirðir sauða minna, gæt þú sauða minna.‘ (Jóhannes 21:15-17) Og til að tryggja sauðunum stöðuga og ástríka gæslu gaf hann ‚suma sem hirða, líkama Krists til uppbyggingar.‘ — Efesusbréfið 4:11, 12.

4. Hvað hvatti Páll postuli öldunga, skipaða af andanum, til að gera?

4 Þar eð bæði Guð og Kristur bera svona djúpan kærleika og umhyggju fyrir sauðumlíkum mönnum er það mjög mikið ábyrgðarstarf að vera undirhirðir í hjörð Guðs. Páll postuli hvatti því öldungana í Efesus, sem voru skipaðir af andanum, til að ‚vera hirðar safnaðar Guðs,‘ gefa honum þá athygli sem þyrfti. (Postulasagan 20:17, 28) Hvernig geta útnefndir öldungar risið undir þessari ábyrgð?

Hirðar fá leiðbeiningar

5. Hvaða ráð gaf Pétur samöldungum sínum?

5 Pétur postuli, sem Jesús fól að gefa sauðum sínum næringu, sagði meðöldungum sínum: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:1-3) Við skulum íhuga hvernig öldungar, skipaðir af heilagum anda, geta á fullnægjandi hátt farið eftir þessu ráði.

6. Með hvaða viðhorfi ættu öldungar að þjóna ‚hjörð Guðs‘?

6 Pétur hvatti samöldunga sína: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði.“ Þeir sem fá þau sérréttindi að vera andlegir hirðar ættu ekki að gera það með eftirtölum, eins og væru þeir þvingaðir til að gæta sauðanna. Þeir ættu ekki að láta sér finnast þeir neyddir til þess eins og væri það einhver sálardrepandi þrældómur eða eins og aðrir væru að ýta á eftir þeim með að gæta hjarðarinnar. Þess í stað ættu öldungarnir að þjóna með fúsleika. (Samanber Sálm 110:3.) Þegar maður er fús til að gera eitthvað fyrir aðra gerir hann það venjulega af heilu hjarta, leggur sig fram og leggur lykju á leið sína til að þjóna hagsmunum þeirra. Öldungur sem þjónar fúslega gefur örlátlega af tíma sium og kröftum. Hann veit að sauðirnir geta stundum villst frá hjörðinni og þráir að hjálpa þeim í líkingu við umhyggju Guðs fyrir sauðumlíkum mönnum. Svo mikil var umhyggja Jehóva fyrir Ísraelsmönnunum, sem lentu á villigötum, að hann sagði: „Ég sagði: ‚Hér er ég, hér er ég,‘ við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt“! — Jesaja 65:1.

7, 8. (a) Hvað felst í því að gegna umsjónarstarfinu án þess að sækjast eftir rangfengnum gróða? (b) Hvað merkir það að þjóna fúslega?

7 Pétur sagði að hjarðgæslan skyldi veitt „ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.“ Hinir útnefndu öldungar vilja ekki verða sauðunum til byrði. Það var viðhorf Páls postula, því að hann sagði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Þér munið, bræður, eftir erfiði voru og striti. Við unnum nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla, um leið og vér prédikuðum fyrir yður fagnaðarerindi Guðs.“ Hann minnti þá líka á þetta: „Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður, neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:9; 2. Þessaloníkubréf 3:7, 8.

8 Trúfastir hirðar hjarðar Guðs nú á dögum ágirnast ekki heldur það sem sauðirnir hafa né reyna að hafa rangfenginn ávinning á þeirra kostnað. (Lúkas 12:13-15; Postulasagan 20:33-35) Páll syndi fram á að sá sem vill vera hæfur sem umsjónarmaður má ‚ekki vera sólginn í ljótan gróða.‘ (Títusarbréfið 1:7) Þess í stað verður hann að þjóna fúslega, hafa brennandi áhuga á starfi sínu og efla hag sauðann sem honum er falin umsjón með. (Filippíbréfið 2:4) Á þennan hátt sýnir hirðirinn sauðunum óeigingjarna umhyggju í líkingu við Jehóva Guð og son hans Jesú Krist.

9. Hvers vegna má kristinn hirðir ‚ekki drottna yfir söfnuðinum‘?

9 Pétur sagði líka að öldungarnir ættu að gæta þjóna Jehóva ekki með því að „drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ Kærleiksríkur hirðir gætir þess að misbeita ekki valdi sínu og drottna yfir sauðunum. Dramb er ókristilegt og ber að forðast af öllum sem þrá að þóknast Jehóva. Orðskviðirnir 21:4 segja: „Drembileg augu og hrokafullt hjarta eru lampi óguðlegra, — allt er það synd.“ Og Jesús sagði fylgjendum sínum: „Þér vitið, að þeir, sem ráða yfir þjóðum, drottna fyir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ (Matteus 20:27) Öldungar verða að muna að þeir sem mynda hjörðina eru sauðir Guðs og að ekki má koma harðneskjulega fram við þá.

10. (a) Hvað gerðu sumir hirðar þjóðarinnar á dögum Esekíels? (b) Hvernig eru drottinhollir umsjónarmenn hjörðinni gott fordæmi?

10 Jehóva sagði við hina sérdrægu hirða á dögum Esekíels: „Þér komið ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðu ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðu ekki hins týnda, heldur drottnuðu þér yfir þeim með hörku og grimmd.“ Guð sagði einnig að þessir hörkulegu hirðar hafi ‚hrundið öllum veiku skepnunum frá uns þeir fengu hrakið þær út.‘ (Esekíel 34:4, 20, 21) Kærleiksríkir hirðar ‚hjarðar Guðs‘ nú á dögum hegða sér ekki þannig. Þeir flagga ekki valdi sínu og gæta þess að hneyskla engan af sauðunum. (Samanber Markús 9:42.) Þess í stað hjálpa þeir og hvetja með kærleikshug. Þeir reiða sig á Jehóva, leita til hans í bæn og leggja sig fram um að verða gott fordæmi „í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 4:12) Af því leiðir að sauðirnir finna til öryggis og ánægju, því að þeir vita að ástríkir, guðhræddir hirðar gæta þeirra.

Sauðirnir eru í hættu

11. Hvers vegna verða umsjónarmenn okkar tíma að gæta hjarðarinnar svo vel að sauðirnir finni til öryggis?

11 Sauðumlíkir menn nú á dögum þurfa að finna til öryggis vegna þeirrar athygli sem öldungarnir veita hjörðinni til að vernda hana. (Jesaja 32:1, 2) Það stafar ekki síst af því að kristnir menn standa frammi fyrir mörgum hættum á þeim ‚örðugu tímum‘ sem eru samfara hinum „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Sálmaritarinn Davíð stóð líka andspænis hættum en hann gat sagt: „[Jehóva] er minn hirðir . . . Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér.“ (Sálmur 23:1-4) Hirðar hjarðar Guðs nú á tímum ættu að annast sauðina svo vel að þeim finnast, eins og Davíð, Jehóva vera mjög nálægur. Þeir ættu að finna fyrir því öryggi sem það er að tilheyra skipulagi Guðs.

12. Hvaða stefnu þarf að vernda sauðina fyrir og hvernig geta öldungar hjálpað í því efni?

12 Ein af þeim hættum, sem hjörð Guðs þarf vernd gegn, er stefna heimsins í átt til siðlausrar breytni. Einkanlega vegna skemmtiefnis nútímans, annað hvort í gegnum sjónvarp eða aðra miðla, hafa margir tileinkað sér lífsstíl sem gengur í berhögg við þá staðla sem orð Guðs setur fram. Veita þarf traust, biblíuleg ráð innan safnaðarins til að vinna gegn því viðhorfi heimsins að allt sé leyfilegt og grófu siðleysi hans. Hirðar hjarðarinnar verða því að þekkja vel það sem Biblían kennir um siðferði. Þeir ættu auk þess að halda sauðunum stöðugt fyrir hugskotssjónum þá ábyrgð að vera hreinir í þjónustu Jehóva. — Títusarbréfið 2:13, 14.

13. (a) Gegn hvaða hættu eru holl ráð í bréfi Júdasar? (b) Hvaða afstöðu verða öldugnar að taka til fráhvarfsmanna?

13 Hætta getur líka stafað af fráhvarfsmönnum. Munum að fyrir nítján öldum höfðu nokkrir „óguðlegir menn,“ sem voru falskennarar, læðst inn í söfnuðinn. Þeir voru hættuleg „blindsker,“ falshirðar sem nærðu sjálfa sig, holdlegir menn sem ollu sundrungu og skorti andlegt hugarfar. Bréf Júdasar gefur holl ráð sem gera öldungum og öllum trúuðum fært að ‚berjast fyrir trúnni.‘ (Júdasarbréfið 3, 4, 12, 19) Enginn vafi leikur á að öldungar verða að taka einarðlega afstöðu gegn hverjum þeim sem reynir að valda sundrungu, því að Páll sagði: „Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.“ (Rómverjabréfið 16:17) Hirðar hafa því þá ábyrgð að vernda hjörðina fyrir þeim og öðrum ‚úlfum í sauðaklæðum.‘ — Matteus 7:15.

Sauðunum hjálpað á aðra vegu

14, 15. Hvernig geta öldungar hjálpað trúbræðrum sínum sem eru óvingjarnlegir hver við annan?

14 Að gæta „hjarðar Guðs“ getur falið í sér að hjálpa þeim að leysa ýmis vandamál sem geta komið upp innan safnaðarins. Stundum geta sauðir jafnvel farið að deila hver við annan. Smávægilegt atvik getur orðið til þess að einn fari að koma óvingjarnlega fram við annan. Þessir einstaklingar rægja kannski jafnvel hver annan og hætta að lokum að koma saman með þeim sem þeir áður þjónuðu Jehóva með — sjálfum sér til mikils, andlegs tjóns. — Orðskviðirnir 18:1.

15 Andlegir hirðar verða að vera mjög vakandi fyrir að hjálpa slíkum trúbræðrum. Til dæmis gætu öldungarnir þurft að benda á hversu rangt sé að rægja hver annan, og hvernig allir drottinhollir kristnir menn verði að vinna að því að vernda einingu safnaðarins. (3. Mósebók 19:16-18; Sálmur 133:1-3; 1. Korintubréf 1:10) Öldungar geta hugsanlega hjálpað með því að benda á aðvörun Páls: „Ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.“ — Galatabréfið 5:13-15; Jakobsbréfið 3:13-18.

16. Hvað verða öldungar að gera ef þeir taka eftir óheilnæmri þróun í söfnuðinum?

16 Öldungar, munið að djöfullinn „gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pétursbréf 5:8) Allir sannkristnir menn eiga í baráttu, ekki við hold og blóð heldur illskeyttar andaverur. (Efesusbréfið 6:10-13) Trúfastir þjónar vilja að sjálfsögðu ekki að Satan yfirbugi sauðina. Ef því einhver sauðanna fer að vanrækja kristnar samkomur ættu umhyggjusamir öldungar að reyna að ganga úr skugga um orsökina og bjóða þá andlegu hjálp sem þarf. Hirðar verða að þekkja útlit hjarðarinnar og hafa augun opin fyrir óheilnæmri þróun eða stefnu í söfnuðinum. (Orðskviðirnir 27:23) Ef þeir veita athygli einhverri tilhneigingu til að vanrækja þjónustuna á akrinum, láta einkanám sitt sitja á hakanum eða óhóflegri ástund afþreyingar eða sókn í lífsþægindi verða þeir að reyna að breyta henni. Í líkingu við Jehóva og góða hirðinn, Jesú Krist, veita öldungarnir, sem annast ‚hjörð Guðs,‘ persónulega hjálp og gefa stundum ráð og leiðbeiningar á samkomum. (Galatabréfið 6:1) Með þessum og öðrum hætti sýna kærleiksríkir öldungar merki þess að þeir taki alvarlega þá ábyrgð sína að gæta hjarðarinnar. — Postulasagan 20:28.

Hjarðgæsla er alvarlegt mál

17. Hvers er krafist til að vera hæfur sem öldungur?

17 Það er krefjandi starf að gæta „hjarðar Guðs“ sem öldungur. Hinar háu kröfur, sem uppfylla þarf til að vera hæfur fyrir slík sérréttindi, eru tíundaðar greinilega í 1. Tímóteusarbréfi 3:1-7, Títusarbréfinu 1:5-9 og 1. Pétursbréfi 5:1-4. Ekki getur hvaða bróðir sem er gegnt þessu starfi, því að einungis andlegir menn geta axlað ábyrgðina. (1. Korintubréf 2:6-16) Margir bræður, sem ekki eru öldungar núna, gætu orðið hæfir fyrir þessi sérréttindi, en þeir verða fyrst að ‚sækjast eftir umsjónarstarfi.‘ Þeir ættu að vera kostgæfir nemendur í orði Guðs til að þeir búi yfir djúpum skilningi á því. Þeir verða að sýna sig verðuga þess að fá meðmæli með því að uppfylla kröfur Biblíunnar til öldunga og hirða „hjarðar Guðs.“

18. Hvaða tilfinningar bar Páll í brjósti til safnaðana? Bera aðrir þá tilfinningu í brjósti?

18 Höfuð safnaðarins, góði hirðirinn, Jesús Kristur, þjónar undir stjórn Jehóva Guðs. (Jóhannes 10:11; 1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22, 23) Jesús hlýtur að gleðjast yfir því að eiga undirhirða innan hjarðarinnar sem leiða og vernda sauðina á réttan hátt! Þessir andlegu menn uppfylla þær háleitu kröfur sem Ritningin gerir til kristinna öldunga. Auk þess hafa þeir sömu djúpu umhyggjuna fyrir sauðunum og Páll postuli sem skrifaði: „Og ofan á allt annað [erfiðleika og þjáningar] bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum. Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?“ (2. Korintubréf 11:23-29) Páll ferðaðist mikið og hafði daglega ‚áhyggju fyrir öllum söfnuðunum‘ eins og farandumsjónarmenn okkar tíma. Útnefndir öldungar hinna einstöku safnaða hafa líka áhyggjur af sauðunum í þeirri hjörð sem þeim er falin umsjón með.

19. Hvaða afleiðingar hefur það þegar orðum Hebreabréfsins 13:17 er fylgt og öldungarnir halda áfram að taka alvarlega ábyrgð sína sem hirðar?

19 Að gæta „hjarðar Guðs“ er krefjandi starf en líka umbunarríkt. Þið hirðar hjarðarinnar, gætið vel þessara dýrmætu sérréttinda. Annist vel sauði Guðs. Og megi allir sauðumlíkir menn starfa fúslega með undirhirðunum sem skipaðir eru af heilögum anda. „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir,“ hvatti Páll postuli, „þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Þegar allir þeir sem eru af öllu hjarta vígðir Jehóva starfa saman sem einn maður, mun það halda áfram að veita mikla andlega blessun. Slík verður afleiðingin þegar kristnir öldungar þjóna í trúfesti og taka alvarlega ábyrgð sína sem hirðar.

Getur þú útskýrt?

◻ Hvers vegna ættu andlegir hirðar að þjóna fúslega?

◻ Hvers vegna mega öldungar ekki vera sólgnir í rangfenginn gróða?

◻ Hvers vegna væri rangt af öldungum að drottna yfir hjörð Guðs?

◻ Hvers vegna verða umsjónarmenn að vera fyrirmynd hjarðarinnar?

◻ Nefnið nokkrar hættur sem hirðar þurfa að vernda ‚hjörð Guðs‘ gegn.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 29]

Eins og umhyggjusamir fjárhirðar fyrri tíma ‚gæta öldungar okkar tíma hjarðar Guðs.‘