Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verkamenn vantar til uppskerunnar!

Verkamenn vantar til uppskerunnar!

Verkamenn vantar til uppskerunnar!

Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — LÚKAS 10:2.

1. Hvernig gætir þú hugsað um orð Jesú í Lúkasi 10:2, en hvað væri ráðlegt að þú gerðir?

 ÞEGAR þú lest þessi orð Jesú, finnst þér þau snerta þig? Þar eð þau voru töluð fyrir liðlega nítján öldum hefur þú kannski tilhneigingu til að hugsa sem svo að þau hafi ekki lengur þýðingu. Slík ályktun væri í senn fljótfærnisleg og röng. Til að gera okkur fulla grein fyrir þýðingu orða Jesú skulum við athuga nánar það sem gerðist þegar orðin voru fyrst töluð, og síðan skoða stöðu okkar nú á dögum. — Samanber 1. Korintubréf 10:11.

2. Hvaða kringumstæður, sem kölluðu á skjótar aðgerðir, blöstu við Jesú árið 32, og hvað gerði hann?

2 Að lokinni laufskálahátíðinni árið 32 voru aðeins sex mánuðir eftir þar til Jesús átti eftir að mæta dauða sínum á kvalastaur. Til að hraða prédikunarstarfinu sendi Jesús út sjötíu lærisveina „á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til.“ Þeir lögðu af stað með orð Jesú ómandi í eyrum sér: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — Lúka 10:1, 2.

Mikil uppskera í kjölfarið

3. Lýsið sumum af þeim árangri sem aukin prédikun skilaði á síðustu mánuðum þjónustu Jesú.

3 Hver var árangur þessarar auknu prédikunar? Við lesum: „Nú komu þeir sjötíu aftur með fögnuði og sögðu: ‚Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni.‘“ Máttur Guðs yfir illu öndunum birtist með stórfenglegum hætti! Þessi góða þjónustuskýrsla gladdi Jesús greinilega því hann sagði: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu.“ (Lúkas 10:17, 18, neðanmáls) Jesús vissi að Satan og illum öndum hans yrði kastað niður af himnum eftir fæðingu messíasarríkisins á himnum. Meðan hann var enn á jörðinni veitti það honum aukna fullvissu um þennan gleðiríkan atburð framtíðarinnar, að menn skyldu geta rekið út ósýnilega, illa anda. Hann talaði því um hið komandi fall Satans af himnum sem örugga vissu. — Opinberunarbókin 12:5, 7-10.

4. Hver var tilgangur uppskerustarfsins sem Jesús og lærisveinar hans unnu fyrir 14. nísan árið 33?

4 Uppskeran, sem Jesús talaði um, var ekki korn- eða ávaxtauppskera heldur fólk, sauðumlíkir menn sem bregðast myndu jákvætt við boðskapnum um Guðsríki. Ávextir slíkra uppskeru voru þegar farnir að sýna sig. En með því uppskerustarfi, sem Jesús og fylgjendur hans unnu á þessum fáeinu mánuðum fyrir 14. nísan árið 33, var einungis verið að leggja grundvöll að margfalt umfangsmeiri uppskeru eftir dauða og upprisu Jesú. — Samanber Sálm 126:1, 2, 5, 6.

5. Hvaða spennandi atburðir gerðust á hvítasunnunni árið 33 og hvaða áhrif höfðu þeir á uppskerustarfið sem fylgdi?

5 Á hvítasunnudeginum árið 33 voru um 120 af fylgjendum Jesú samankomnir í Jerúsalem. „Var þá skyndilega knýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. . . . Þeir fylltust allir heilögum anda og fóru að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ Þetta var upphaf einstæðrar uppskeru! „Þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.“ (Postulasagan 1:15; 2:1-4, 41) „Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum . . . lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En [Jehóva] bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.“ (Postulasagan 2:46, 47) Síðar lesum við: „Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottinn, fjöldi karla og kvenna.“ Og enn síðar: „Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúnna.“ — Postulasagan 5:14; 6:7.

6. Hvaða áhrif hafði andstaða við prédikunarstarfið á ávöxt Guðsríkis?

6 Andstaða gegn boðskapnum um Guðsríki jókst nú til muna. Hægði það á uppskerustarfinu? Nei, því að „þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.“ Filippus fór til Samaríu.Þar hlýddi mikill mannfjöldi á hann með ákefð, og þeir sem haldnir voru illum öndum, lamaðir og haltir voru læknaðir. Ekki er að undra að „mikill fögnuður varð í þeirri borg.“ — Postulasagan 8:1-8.

7. Í hvaða mæli var boði Jesú til lærisveinanna í Postulasögunni 1:8 framfylgt?

7 Hinn upprisni Jesús hafði sagt lærisveinum sínum: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Svo gríðarstór var starfsakurinn að brýn þörf var á fleiri verkamönnum! Nú mátti búast við mikilli uppskeru lærisveina sem þegar var byrjuð að sýna sig. Það var að þakka leiðsögn heilags anda Guðs. Eftir að hinn grimmi Sál hafði snúist til trúar er okkur sagt: „Nú hafði söfnuðurinn frið um alla Júdeu og Galíleu og Samaríu, uppbygðist og gekk fram í ótta [Jehóva], og jókst við uppörvun heilags anda.“ (Postulasagan 9:31, Ísl. bi. 1912) Þegar meiri skriður komst á uppskeru hinna sauðumlíku er enginn vafi á að þessir lærisveinar höfðu stöðugt í huga orð Jesú: „Biðjið . . . herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Svaraði Jehóva, „herra uppskerunar,“ þeirri bæn? Svo sannarlega! Að öðrum kosti hefði tæpast verið hægt að skrifa að ‚von fagnaðarerindisins hafði verið prédikuð fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ — Kólossubréf 1:23.

Enn brýnni þörf núna

8. Hvers vegna er brýnni þörf fyrir fleiri verkamenn á þessum áratug en nokkru sinni fyrr?

8 Núna, á níunda áratug þessarar aldar, er þörfin á fleiri verkamönnum til uppskerunnar meiri en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna? Vegna þess að akurinn, sem er heimurinn, er margfalt umfangsmeiri. Þar af leiðandi er uppskeran, sem safna þarf, margfalt meiri að vöxtum. Það er í samræmi við það sem Jesús spáði. Hann sagði að fylgjendur hans myndu vinna enn meiri verk en hann hefði unnið á jörðinni, að því er varðaði prédikun fagnaðarerindisins. — Jóhannes 14:10.

9. (a) Hvernig kemur fram í sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni 7:1-3 hversu áríðandi prédikunarstarfið er núna? (b) Hvaða þýðingarmikla ályktun má draga af orðunum „frumgróði handa Guði og handa lambinu“ í Opinberunarbókinni 14:4?

9 Hversu mikið liggur á að prédika fagnaðarerindið núna kemur vel fram í þeirri stórbrotnu umgerð sem lýst er í sýn Jóhannesar, skráð í Opinberunarbókinni 7:1-3. Þar sér hann „fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar“ og „héldu fjórum vindum jarðarinnar.“ Hversu lengi eiga þeir að halda hinum „fjörum vindum“ föstum? Aðeins þar til sett hefur verið „innsigli á enni þjóna Guðs vors.“ Hversu langan tíma mun það taka? Það má ráða af því að við minningarhátíðina þann 15. apríl 1984 játuðu aðeins 9081 sig tilheyra hinum 144.000. Þeir smurðu á okkar dögum eru hinir síðustu af þeim sem Opinberunarbókin 14:4 segir vera ‚leysta út úr hóp mannanna, frumgróða handa Guði og handa lambinu.‘ Það lítur því út fyrir að mestu af ‚frumgróðanum‘ hafi verið safnað saman. En merkir orðið „frumgróði“ að annar gróði eða ávextir eigi að fylgja á eftir? Að sjálfsögðu! Það var vel táknað með þeirri ríkulegu uppskeru annarra ávaxta sem safnað var við lok uppskeruárs Gyðinganna í náunda við laufskálahátíðina. — 5. Mósebók 16:13-15.

10. Hvaða tvíþætt uppskerustarf hefur verið í gangi nú á okkar tímum, og hvernig undirstrikar það hina brýnu þörf á fleiri verkamönnum?

10 Því er ljóst að þegar nálgaðist lok uppskeru leifa hinna smurðu átti að hefjast uppskerustarf af öðru tagi. Birtist það ekki í því sem Jóhannes sá þessu næst í sýn sinni? „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Jóhannesi var sagt: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Einungis takmarkaður tími er eftir til að ljúka samansöfnun hins ‚mikla múgs.‘ Þegar hinum „fjórum vindum jarðarinnar“ er sleppt lausum sem merki þess að ‚þrengingin mikla‘ sé hafin, verður það um seinan! Gerir þú þér ekki ljóst hversu brýn þörf er á fleiri verkamönnum til að safna saman þeim mikla mannfjölda sem enn er ófundinn?

Þúsundir bregðast nú jákvætt við

11. (a) Í hvaða mæli taka ‚aðrir sauðir‘ Jesú þátt í upppskerustarfinu? (b) Hvað gefur aðsóknin að minningarhátíðinni 1985 til kynna?

11 Jesús sagði fyrir um að færðar yrðu út kvíarnar í samansöfnun hinna sauðumlíku: „Ég á líka aðra sauði, sem ekki eru úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ (Jóhannes 10:14, 16) Þegar hafa yfir þrjár milljónir þessara ‚annarra sauða‘ skipað sér í hina ‚einu hjörð‘ með virkum stuðningi. Þar af létu 189.800 skírast á þjónustuárinu 1985! Aðsókn að minningarhátíðinni var hins vegar 7.792.109. Hvað segir það okkur? Að margir fleiri hafi heyrt rödd hirðisins en hafi enn ekki, af einni eða annarri ástæðu, þegið hið hlýlega boð Jesú: „Fylg þú mér!“ — Lúkas 5:27.

12. Hvaða mikilvægra spurninga ættum við nú að spyja okkur?

12 Hvar stendur þú gagnvart þessu mikilvæga uppskerustarfi nú við ‚endi veraldar‘? (Matteus 13:39) Telst þú til þess hamingjusama mannsafnaðar sem tekur núna þátt í gleði uppskerunar? Ert þú kannski enn þá áhorfandi, veigrar þér við að þiggja opinberlega boð góða hirðisins: „Fylg þú mér“? Enginn ætti núna að vilja að afsaka sig eins og mennirnir þrír í Lúkasi 9. kafla sem rætt var um í greininni á undan. Leiddu hugann að því sem þessir þrír menn fóru á mis við — gleðina af þjónustunni við Guðsríki, þar á meðal hugsanlega hlutdeild í að frelsa suma sem voru haldnir illum öndum! — Lúkas 9:57-62; 10:17.

13. Hvaða þýðingarmiklu hlutverki gegnir trú í því að þú sért fús verkamaður í uppskerunni?

13 Páll postuli sagði: „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði].“ (Hebreabréfið 11:6) Já, trúar er krafist til að setja eigin hagsmuni til hliðar og vígja fúslega líf sitt Guði sem verkamaður við uppskeruna. Til dæmis gæti verið að þú ættir við að stríða alvarlegan heilsubrest; kannski er einhver í fjölskyldu þinni hatrammur andstæðingur votta Jehóva; kannski finnst þér þú vera of gamall til að gera nauðsynlegar breytingar á lífi þínu, eða þá af því þér finnist þú ófær um að horfast í augu við þrýsting frá skólafélögum þínum. Hverjar sem kringumstæður þínar eru skaltu aldrei gleyma að Jehóva skilur vandamál þín betur en nokkur annar. Hann er líka reiðubúinn að nálæga sig þér og styrkja ásetning þinn að þjóna honum, ef þú aðeins stígur ákveðinn, nauðsynleg skref sjálfur. — Sálmur 103:13, 14; Jakobsbréfið 4:8.

Trú flytur „fjöll“

14. Útskýrið hvað Jesús átti við með orðunum í Matteusi 17:20.

14 Jesús sagði: „Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn.“ Sú hefur verið reynsla margra af þeim hundruð þúsunda sem hafa brugðist jákvætt við kallinu eftir fleiri verkamönnum á níunda áratug 20. aldarinnar. Persónuleg vandamál og erfiðleikar, sem þeim hafa virðst fjallhá, hafa verið yfirstiginn með hjálp Jehóva. (Matteus 17:20; 19:26) Lestu eftirfarandi reynslufrásagnir:

15, 16. Lýsið hvernig ungur maður í Bandaríkjunum og kaþólskur eiginmaður í Brasilíu yfirstigu erfið vandamál sem stóðu í vegi þess að þeir gætu látið skírast.

15 Ungur maður í Californíu í Bandaríkjunum var alvarlega fatlaður af völdum lömunarveiki og mjög vanræktur af fjölskyldu sinni. Einn votta Jehóva, sem var að fara hús úr húsi, hitti hann. Biblíunám var hafið. Hann var hins vegar svo feiminn að þegar votturinn kom, til að halda námið, renndi hann hjólastólnum sínum út í horn og sneri til veggjar til að ekki sæist framan í hann. Það tók þennan unga mann marga mánuði að yfirstiga sum af vandamálum sínum. Hann gerði það samt sem áður og er núna hamingjusamur, skírður vottur.

16 Kaþólsk hjón í Brasilíu voru óánægð með trú sína og hófu að síðustu að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Nú fannst þeim andlegu þörfum sínum fullnægt en eitt stort, fjallhátt vandamál var við að glíma. Eiginmaðurinn, Antóníó, var rótgróinn reykingamaður. Hann hafði reykt í 48 ár, frá því hann var sjö ára gamall! Í gegnum árin hafði hann árangurslaust reynt að hætta reykingum. En þessu sinni voru viðhorfin breytt eins og Antóníó segir: „Núna var mér ljóst að ef ég vildi þóknast Guði og vígja líf mitt því að gera vilja hans, yrði ég að hætta. Eftir margar og langar bænir tókst mér það loksins.“ Hann var mjög hamingjusamur að geta tjáð vígslu sína til Jehóva með vatnskírn! — Sálmur 66:19; Markús 11:24.

17. (a) Hvaða ill áhrif, sem Jesús og lærisveinar hans tókust á við, eru sterkari nú en nokkru sinni fyrr? (b) Hvernig tóku Jesús og lærisveinar hans á fyrstu öld á ásókn illra anda, og hvernig er tekið á henni núna?

17 Bólfesta illra anda meðal Gyðinga var vandamál sem Jesús og lærisveinar hans stóðu margsinnis frammi fyrir. Sumu illu áhrifin eru að verki núna, einkum eftir að Satan og illum öndum hans hefur verið varpað af himnum niður til jarðarinnar. (Opinberunarbókin 12:7-9, 12, 17) Ólíkt því er kristnin var á bernskuskeiði hefur Jehóva ekki gefið þjónum sínum núna undravert afl til að reka út illa anda. Hin andlegu herklæði, sem hann hefur gefið kristnum mönnum, geta hins vegar verið vernd gegn áhrifum illra anda, og má einnig beita til að losa fólk undan stjórn þeirra. (Efesusbréfið 6:10-18) Þessi frásaga er frá Ghana: „Vegna einbeitni bræðranna eru margir frelsaðir úr greipum illra anda. Vottur einn hitti konu í þjónustunni, og jafnskjótt og farið var að tala um Biblíuna „fór konan að gráta.“ Hvað var að? Votturinn segir svo frá: ‚Hún var haldin illum anda sem kom henni til að gráta, og hverjir þeir peningar, sem hún hafði á sér, hurfu.‘ Reglulegt biblíunám hjálpaði henni að losna undan ásókn illra anda og vígja sig Jehóva. — Jóhannes 8:32.

18. Hvaða reynslufrásögn sýnir að englar eru að starfi við að stjórna prédikunni?

18 Vandamál eins og þau, sem lýst er hér á undan, geta orðið svo stór í huga manns að honum detti í hug að svipta sig lífi. Tökum sem dæmi unga konu á Nýja-Sjálandi. Votturinn, sem fyrstur kom til hennar, veitti því athygli að hún var „taugaspennt og greinilega æst út af einhverju.“ Síðar játaði þessi kona að „hún hefði ætlað að svipta sig lífi og ákveðið að biðja fyrst til Guðs um að hann hjálpaði henni.“ Á sama augnabliki knúði votturinn dyra hjá henni svo að hún „þakkaði Guði fyrir að svara bæn sinni.“ Var þetta tilviljun? Ef svo var, hvers vegna eiga svipuð atvik sér stað svo oft? Hvað sagði Jesús? Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann . . . skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ (Matteus 25:31, 32; sjá einnig Opinberunarbókina 14:6.) Englar hjálpa Jesú við hjarðgæsluna og beina ‚samverkamönnum‘ meistarans til þeirra sem grátbiðja hann um hjálp. — 1. Korintubréf 3:6, 9; sjá Postulasöguna 8:26-39; 16:9, 10.

19. Hvaða ástand ríkir núna í heiminum og hvða kröfu gerir það til okkar?

19 Hvar sem við búum í heiminum nú á dögum er að finna þúsundir manna sem eru þjakaðir sömu vandamálunum og margir af þjónum Jehóva hafa nú þegar yfirstigið. Sumir þeirra búa kannski í næsta húsi við þig! Þeim liggur mikið á að fá hjálp. Eins og Jesús sagði: „Uppskeran er mikil.“ Við biðjum herra uppskerunar nú að senda enn fleiri verkamenn til uppskerunar árið 1986. Megi hjarta þitt koma þér til að bregðast jákvætt við kvaðningunni um að áríðandi sé að fá fleiri verkamenn til uppskerunar!

Spurningar til upprifjunar

◻ Hver er herra uppskerunar?

◻ Hvaða tvenns konar uppskerustarf hefur farið fram?

◻ Hver eru hin meiri verk sem Jesús sagði að fylgjendur sínir myndu vinna?

◻ Hvers vegna þurfa allir verkamenn við uppskeruna að hafa trú?

[Spurningar]