Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu ekki hluttakandi syndum annarra

Vertu ekki hluttakandi syndum annarra

Vertu ekki hluttakandi syndum annarra

„Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hef eigi umgengni við fláráða menn.“ — SÁLMUR 26:4.

1. Hvers vegna skrifaði Júdas kristnum bræðrum sínum um annað en hann ætlaði í upphafi?

 FYRIR nítján öldum hafði lærisveinninn Júdas ætlað sér að skrifa trúbræðrum sínum um ‚sameiginlegt hjálpræði þeirra,‘ en taldi nauðsynlegt að hvetja þá til að „berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.“ Hvers vegna? Vegna þess að „óguðlegir menn“ höfðu læðst inn í söfnuðinn og ‚misnotuðu náð Guðs vors til taumleysis.‘ — Júdasarbefið 3, 4.

2. Hvað verðum við stundum að íhuga með hjálp bænarinnar, þótt hressandi sé að ræða um hjálpræðið?

2 Það bæði hressir og hvetur að ræða um hið sameiginlega hjálpræði okkar. Að íhuga þann boðskap er uppspretta mikillar ánægju og við gleðjumst yfir allri þeirri blessun sem það hjálpræði mun hafa í för með sér. Stundum er eigi að síður nauðsynlegt að taka á öðrum alvarlegum málum, í stað þess að tala um hjálpræðið. Ef slíkt er ekki tekið réttum tökum og leiðrétt getur það brotið niður trú okkar og komið okkur til að tapa í kapphlaupinu um hið eilífa líf. Alveg eins og aðvörun Júdasar gegn rangri breytni var kröftug, eins verða kristnir menn núna stundum að hugleiða með hjálp bænarinnar biblíuleg heilræði sem eru bein og hnitmiðuð.

Okkar eigin syndir

3. Hvers vegna purfum við að fá aga og hvernig ætti að taka við honum?

3 Sálmaritarinn Davíð sagði: „Sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ (Sálmur 51:7) Við erum öll fædd syndarar. (Rómverjabréfið 5:12) Jóhannes postuli skrifaði: „Ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki synd,‘ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.“ (1. Jóhannesarbréf 1:8) Sem syndarar þurfum við stundum á aga að halda til að leiðrétta stefnu okkar. Slíkur agi kemur frá Jehóva í gegnum orð hans, Biblíuna, og skipulag. Agi hans leiðréttir okkur og hjálpar að ganga í ráðvendni frammi fyrir honum. Eins og Páll postuli sagði: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ (Hebreabréfið 12:11) Í ljósi hins friðsæla ávaxtar, sem slíkur agi veitir, ættum við tvímælalaust að taka við honum með þökkum.

4. Hvenær má veita aga og hvaða áhrif getur hann haft?

4 Stundum agar Jehóva okkur þegar við erum rétt í þann mund að fara út á braut sem gæti leitt til alvarlegri rangsleitni. (Galatabréfið 6:1) Stundum kemur aginn eftir að við erum komin lengra út á ranga braut. Slíkur agi getur þurft að vera alvarlegur, eins og til dæmis þegar Páll postuli hvatti Korintumenn eindregið til að grípa til aðgerða gegn saurlífismanni í söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:1-5) En á hvaða stigi sem aganum er beitt er markmiðið alltaf að hjálpa misgjörðarmanninum að iðrast, snúa við og taka örugga stefnu burt frá syndugum löngunum sem leiða til alvarlegrar rangsleitni. (Samanber Postulasöguna 3:19.) Þjónar Jehóva eru þakklátir fyrir slíkan aga, alveg eins og einstaklingurinn í Korintu, sem ávíturnar fékk, hafði gagn af og virðist hafa eignast aftur ástríkt samfélag við söfnuðinn. — 2. Korintubréf 2:5-8.

5. Hvað gerir kristinn maður venjulega hafi hann gerst sekur um alvarlega synd?

5 Ýfirgnæfandi meirihluti þeirra, sem eru vígðir Jehóva, gera sér mjög glögga grein fyrir nauðsyn þess að framganga í ráðvendni fyrir Guði. Ef þeir gerðust sekir um alvarlega synd myndu þeir í skyndingu snúa baki við hinni röngu breytni, leita til öldunganna og láta í ljós merki ósvikinnar iðrunar. (Jakobsbréfið 5:13-16) Sú staðreynd að tiltölulega fáir vottar Jehóva eru gerðir rækir úr söfnuðinum ár hvert ber þess merki að þeir hati þess sem illt er og þrái að gera það sem er gott. — Sálmur 34:15; 45:8.

Syndir annarra

6, 7. Hvernig reyna sumir syndarar að hafa áhrif á aðra?

6 Sumir sem virðast elska það sem rétt er virðast þó hafa leyft hjörtum sínum að draga sig á tálar, því að þeir virðast ekki hata það sem illt er. (Sálmur 97:10; Amós 5:15) Af því leiðir að þeir gerast sekir um syndsamlegt athæfi og hætta að berjast til að gera það sem rétt er. Stundum ganga þeir jafnvel enn lengra og reyna að lokka aðra með sér út á braut syndarinnar. Mikilvægt er að hafna slíkum tillögum afdráttarlaust! — Samanber Orðskviðina 1:10-15.

7 Þeir sem ekki hata hið illa tala stundum svo fagurlega, að í hjörtum þeirra sem á þá hlýða getur komið upp löngun til að gera það sem rangt er. Hvatningin er kannski í þá veru að taka þátt í siðleysi eða verknaði sem jaðrar við synd gegn Guði. Einnig getur gerst að einhver sé hvattur til að gerast hluttakandi í einhverju sem stofnar andlegu heilbrigði þeirra í voða. Þeir sem reyna að hafa slík áhrif á aðra fullyrða kannski að Jehóva sé ástríkur Guð sem sýni okkur miskunn þegar við syndgum. Slík sviksemi hjartans getur valdið varanlegu tjóni. (Jeremía 17:9; Júdasarbréfið 4) Tvímælalaust er mikilvægt að ‚halda fæti sínum frá stigum þeirra‘! — Orðskviðirnir 1:15.

Hlutdeild í syndum annarra

8. Hvaða spurningar purfum við að íhuga?

8 Setjum nú sem svo að einhver reyni að fá okkur út á braut sem við vitum að er röng. Erum við sjálfkrafa laus allrar ábyrgðar í málinu ef við vísum tillögum hans á bug? Ef við vitum að þeir sem reyndu að fá okkur út í syndugan verknað eru sjálfir sekir um synd, hvað ættum við þá að gera?

9. Hvers vegna skýra sumir ekki frá rangri breytni annarra og hvers vegna er það alvarlegt mál?

9 Sumir, sem vita um syndir annarra, hafa kannski tilhneigingu til að þegja yfir henni gagnvart þeim sem ber aðalábyrgð á að halda söfnuðinum hreinum. Hvers vegna? Kannski vegna þess að þeir vilja ekki vera þekktir fyrir að „kjafta frá.“ Einnig má vera að sökum misskilinnar hollustu þegji þeir yfir málinu eða segji þeim einum frá sem lofa að halda því leyndu. Slíkt er mjög alvarlegt. Hvers vegna? Vegna þess að það getur gert okkur hluttakendur í syndum annarra.

10, 11. (a) Hvað sagði Jóhannes postuli um það að eiga hlutdeild í syndum annarra? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur ef við kæmumst á snóðir um rangsleitni einhvers í söfnuðinum?

10 Jóhannes postuli sýndi fram á að hægt er að verða hluttakandi í syndum annarra. Hann skrifaði: „Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. . . . Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn. Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.“ (2. Jóhannesarbréf 9-11) Fráhvarfsmaður frá „kenningu Krists“ getur ekki skoðast sem viðeigandi félagi, og með því að heilsa honum ekki einu sinni myndu drottinhollir kristnir menn forðast að verða hluttakendur í vondum verkum hans.

11 Fyrst svo er um hann sem gerir fráhvarf frá trúnni viljum við auðvitað ekki verða hluttakendur í vondum verkum annarra, svo sem siðleysi, sem við fáum vitneskju um. Hvað eigum við þá að gera ef við vitum að einhver meðlimur safnaðarins hefur gerst sekur um þjófnað eða notar áfengi í óhófi? Erum við algerlega flekklaus ef við ekki hvetjum hann til að leita fyrirgefningar Jehóva og játa synd sína fyrir öldungunum? Nei, alvarleg ábyrgð hvílir á okkur.

Hreinleiki og vernd eru mikilvæg

12. Hvers vegna ber okkur að vera umhugað um andlegan hreinleika safnaðarins?

12 Sem einstaklingar verðum við að bera umhyggju fyrir andlegum hreinleika safnaðarins. Það kom vel fram þegar hinir útlægu Gyðingar voru um það bil að fara frá Babýlon á sjöttu öld f.o.t.! Boðorð Guðs hljóðaði svo: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan [úr Babýlon]! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva]!“ — Jesaja 52:11.

13. Hvernig sýndi Júdas fram á að okkur ber að vernda þjóna Jehóva fyrir rangindamönnum?

13 Við verðum líka að hafa áhuga á að vernda fólk Jehóva gegn þeim sem vilja tæla þá út á ranga braut. Hinir ‚óguðlegu menn‘ á dögum Júdasar reyndu að ‚misnota náð Guðs til lauslætis,‘ en hinn trúfasti lærisveinn aðvaraði trúbræður sína og verndaði þá þar með. Hann minnti þá á aðvarandi fordæmi úr sögu hinna ótrúu Ísraelsmanna, óhlýðinna engla og annarra. Við hvetjum þig til að lesa þetta innblásna bréf; þá sérð þú að drottinhollir kristnir menn geta ekki setið aðgerðarlausir þegar hreinleika safnaðarins er stefnt í voða eða fólk Guðs þarfnast verndar gegn siðlausum mönnum með óhrein markmið.

14. Hvernig getur Sálmur 26:4 hjálpað okkur að ákveða hvað við eigum að gera, ef syndarinn játar ekki synd sína fyrir öldungunum?

14 En gerum nú ráð fyrir að þú hafir hvatt syndara til að leita fyrirgefningar Guðs og játa synd sína fyrir öldungunum, en að hann dragi það á langinn eða sjái ekki nauðsyn þess að stíga þessi skref. Getum við þá látið málið niður falla? Sumir gætu hugsað með sér að þeir vilji ekki láta flækja sér í neitt. Þeir vilja ef til vill ekki hætta á að glata vináttu hins villuráfandi. Kannski vilja þeir ekki láta líta þannig á sig að þeir bregðist trausti vina sinn a með því að segja öldungunum frá. En þetta er ámælisverð röksemdarfærsla. Sálmaritarinn Davíð sagði: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hef eigi umgengni við fláráða menn.“ (Sálmur 26:4) Við viljum svo sannarlega ekki verða vitorðsmenn ‚fláráðra manna,‘ manna sem villa á sér heimildir.

15. Hvernig kemur fram í 3. Mósebók 5:1 hvað okkur ber að gera ef syndari hefur ekki leitað til öldunganna innan hæfilegs frests?

15 Eftir að við höfum gefið villuráfandi einstaklingi eðlilegan tíma til að snúa sér til öldunganna vegna syndar sinnar, er það því okkar ábyrgð frammi fyrir Jehóva að verða ekki hluttakendur í synd hans. Við þurfum að segja hinum ábyrgu umsjónarmönnum að viðkomandi einstaklingur hafi trúað okkur fyrir alvarlegri rangsleitni sem þeir þurfi að athuga. Það væri í samræmi við 3. Mósebók 5:1 sem segir; „Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt.“ Að sjálfsögðu verðum við að varast fljótfærni byggða á hreinni ágiskun um ranga breytni.

16. Hvað er miklu mikilvægara en hollusta við vin sem neitar að játa alvarlega synd fyrir öldungunum?

16 Í heimi nútímans er talinn eðlilegur hlutur að breiða fyrir rangindi annarra. Margir eru þögulir sem gröfin þegar þeim bæri að upplýsa þá sem vita ættu af rangri breytni annarra. Það krefst styrks kristins persónuleika að upplýsa öldungana um alvarlega synd trúbróður. En ef við eigum að njóta hylli Jehóva megum við ekki láta persónuleg vináttubönd blinda okkur fyrir rangri breytni annars einstaklings. Samband okkar við Guð er margfalt þýðingarmeira en hollusta við vin sem er sekur um alvarlega synd og neitar að játa hana fyrir öldungunum.

Mál sem öllum ber að íhuga

17. Hvað sýnir að sum ungmenni okkar á meðal þurfa að varast að verða hluttakendur í syndum annarra?

17 Það vandamál að vera hluttakandi í syndum annarra getur stundum komið upp meðal ungs fólks í söfnuðum okkar. Það þegir kannski og neitar að segja þeim sem vita ættu af frá hlutum sem gætu haft skaðleg áhrif á söfnuðinn og valdið vanþóknun Jehóva. Að breiða yfir ranga breytni annarra er mjög algengt í skólum heimsins, en þegar þetta sjónarmið nær fótfestu í söfnuðinum getur það haft í för með sér fjölmörg vandamál. Það hefur meira að segja gerst að unglingar hafi sameinast um að taka þátt í rangri breytni og svarið hver öðrum eið að því að halda henni leyndri, svo að öldungar og foreldrar fréttu ekki af. Það að láta undan þrýstingi jafnaldra og löngunin til að vera viðurkenndur af hópnum hefur valdið þessum unglingum, foreldrum þeirra og öðrum í söfnuðinum mikilli hryggð þegar hin ranga breytni hefur komið fram í dagsljósið. Við verðum að muna að „ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert,“ og að ein aðalábyrgð okkar frammi fyrir Jehóva er að stuðla að því að halda skipulagi hans hreinu. — Lúkas 8:17.

18. Hvað ættu kristnir foreldrar að gera ef börnin þeirra gerast sek um rangsleitni?

18 Allir þjónar Jehóva ættu að gæta þess mjög vel að eiga ekki hlutdeild í syndum annarra. Sumir foreldrar reyna að réttlæta ranga breytni barna sinna og halda hlífiskildi yfir þeim. En kristnir foreldrar ættu ekki að hafa það viðhorf að allir séu á móti börnunum þeirra ef þau gera eitthvað rangt. Guðhræddir foreldrar ættu þess í stað að hjálpa villuráfandi börnum sínum að fá, þiggja og njóta góðs af hverjum þeim nauðsynlega aga sem kveðið er á um í orði Guðs.

19. (a) Hvað mega kristin hjón ekki gera ef annað þeirra hefur framið alvarlega synd? (b) Hvað eiga öldungarnir að gera ef einn úr þeirra hópi eða safnaðarþjónn fremur alvarlega synd?

19 Kristin hjón þurfa líka að gæta þess að brjóta ekki lög Guðs með því að breiða yfir alvarlegar syndir hvors annars. Þau ættu að muna hvernig fór fyrir Ananíasi og Saffíru sem voru sammála um að breiða yfir alvarlega synd, þótt það mistækist raunar. (Postulasagan 5:1-11) Öldungar verða líka að gæta þess að halda ekki hlífiskildi hver yfir öðrum eða yfir safnaðarþjónum ef einhver þeirra hefur framið alvarlega synd sem gæti leitt til brottrekstrar. Þer ættu að fylgja þeirri meginreglu sem Páll postuli gaf: „Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.“ — 1. Tímóteusabréf 5:22.

Viskan í því að varðveita sig flekklausan

20. Hvað ættum við að gera í stað þess að breiða yfir eða verða hluttakendur í grófum syndum annarra?

20 Þjónar Jehóva ættu hvorki að taka þátt í eða líkja eftir vondum vegum þessa heims. Í bréfi til Gajusar sagði Jóhannes postuli: „Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.“ (3. Jóhannesarbréf 11) Hyggilegt er að láta hið áreiðanlega orð Guðs leiðbeina sér og gera það sem gott er! Í stað þess að breiða yfir eða eiga hlutdeild í grófum syndum annarra ættum við að vera einráðin í að skína sem ljósberar og vera flekklausir og hreinir. Sérhver þjónn Guðs ber ábyrgð á því að halda söfnuðinum hreinum og varðveita sjálfan sig óflekkaðan. (2. Pétursbréf 3:14) En hvað átt þú að gera ef þú ert í vafa um hvort verknaður einhvers annars sé alvarleg yfirtroðsla eða ekki? Þú ættir að tala óhikað við öldungana og leita leiðsagnar um rétta stefnu í málinu.

21. (a) Hvernig er kærleikur Krists til safnaðarins okkur fordæmi? (b) Hvaða ábyrgð ættum við að axla í sambandi við syndir annarra?

21 Kærleikur okkar til skipulags Jehóva ætti að líkjast þeim kærleika sem Jesús Kristur ber til andlegrar brúðar sinnar, safnaðarins. Hann „elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann, til þess fyrir vatnslaugina, með orðinu, að hreinsa hann og helga hann síðan, til þess sjálfur að framleiða handa sér dýrlegan söfnuð, sem ekki hefði blett né hrukku eða neitt þess háttar, heldur væri heilagur og lýtalaus.“ (Efesusbréfið 5:25-27, Ísl. bi. 1912) Eins ætti kærleikur okkar til skipulags Jehóva að fá okkur til að gera það sem við getum til að halda því hreinu. Megum við aldrei gera nokkuð sem vanheiðrar Guð eða skipulag hans, eða sjá í gegnum fingur við þá sem syndga í söfnuðinum. Við skulum þess í stað hvetja syndara til að færa breytni sína í rétt horf og leita hjálpar öldunganna. Ef þeir eru ekki búnir að því að eðlilegum tíma liðnum skulum við axla þá ábyrgð okkar að skýra umsjónarmönnunum frá. Á þann hátt munum við forðast að verða hluttakendur í syndum annarra og bera einhverja ábyrgð á rangri breytni þeirra.

22. (a) Hvað verðum við að gera til að hljóta hjálpræði? (b) Hvaða spurningar verða ræddar síðar?

22 Hið sameiginlega hjálpræði okkar er óviðjafnanlegur fjársjóður. Til að hljóta það verðum við að halda áfram að ganga í ráðvendni frammi fyrir Jehóva. Við skulum því hjálpa hvert öðrum að gera það og verða aldrei hluttakendur í syndum annarra. Jehóva hefur í karleika sínum komið á fót skipulagi til að hjálpa okkur við það, og þar gegna hinir útnefndu öldungar þýðingarmiklu hlutverki. En hvernig líkja þeir eftir Jehóva og syni hans, góða hirðinum? Hvaða aðstoð geta öldungarnir veitt okkur á veginum til lífsins? Greinin hér á eftir mun svara þessum spurningum.

Manst þú?

◻ Hvernig ættir þú að líta á aga?

◻ Hvað ættir þú að hvetja trúbróður þinn til að gera ef hann segði þér að hann hefði framið alvarlega synd?

◻ Hvað ættir þú að gera ef þú veist að syndari hefur ekki játað synd sína fyrir öldungunum?

◻ Hvernig getum við forðast hlutdeild í synum annarra, hvort sem við erum öldungar, hjón eða börn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Jóhannes postuli varaði við hlutdeild í syndum annarra.