„Þjóðin“ sem fyllir jarðarkringluna með ávöxtum
„Þjóðin“ sem fyllir jarðarkringluna með ávöxtum
„Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.“ — JESAJA 27:6.
1. Hvernig talar Pétur postuli um hina andlegu Ísraelsþjóð?
SKÖMMU fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70 að okkar tímatali skrifaði Pétur postuli eftirfarandi orð um fæðingu safnaðar lærisveina Krists sem ‚þjóðar‘ árið 33: „En þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir ‚Guðs lýður‘. Þér, sem ‚ekki nutuð miskunnar‘, hafið nú ‚miskunn hlotið‘.“ (1. Pétursbréf 2:9, 10) Hvílík miskunn af hálfu Guðs!
2, 3. Hvaða skyldukvöð hvílir á hinni andlegu Ísraelsþjóð, sem er sérstakur eignarlýður Jehóva Guðs, og hvað líkti Jesús Kristur henni við í 15. kafla Jóhannesar?
2 Núna, nítján öldum eftir að Pétur skrifaði þessi orð, eru enn á jörðinni leifar þessarar andagetnu ‚þjóðar.‘ Núna eru eftir af þeim innan við 10.000 einstaklingar samkvæmt skýrslum um hina árlegu kvöldmáltíð Drottins. Þeir eru ‚sérstakur eignarlýður Jehóva‘ og sem slíkir verða þeir að víðfrægja dáðir Jehóva Guðs sem ‚kallaði þá frá veraldlegu myrkri til síns undursamlega ljóss.‘ Þetta ‚ljós‘ hefur skinið einkanlega síðan ‚tímum heiðingjanna‘ eða ‚tilteknum tíðum þjóðanna‘ lauk árið 1914. * (Lúkas 21:24, Ísl. bi. 1981; NW) Sem sérstakur „eignarlýður“ hins guðlega gjafara þessa undursamlega ljóss eru þeir honum mjög dýrmætir. Þeir eru honum eins og andlegur víngarður.
3 Við munum hér hvað Jesús Kristur sagði postulum sínum en þeir voru eins og tákn allra sem áttu eftir að verða andagetnir fylgjendur hans: „Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.“ — Jóhannes 15:1-5.
4. (a) Hvaða lýsingu í 27. kafla Jesajabókar minnir líking Jesú á? (b) Hvenær fær þessi spádómur nútímalega uppfyllingu og á hverjum rætist hann? (c) Hvernig lítur Guð ekki lengur á þjóna sína?
4 Þessi samlíking eða dæmisaga Jesú Krists minnir okkur á orð Jehóva í Jesajabók 27:2-4 þar sem við lesum:
Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð: Ég, [Jehóva], er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell. Mér er ekki reiði í hug.
Hinum ‚yndislega víngarði‘ okkar tíma á jörðinni má líkja við leifar greinanna á þessum táknræna ‚vínviði‘ sem andagetnir kristnir menn af hinni ‚heilögu þjóð‘ eru ávaxtaríkar greinar á. Sú skyldukvöð hvílir því á þeim að bera mikinn ávöxt. (Jóhannes 15:5) Samkvæmt spádómi Jesaja átti að syngja um „hinn yndislega víngarð“ á þeim tíma þegar fólk Jehóva endurheimti hylli hans. (Samanber Jesaja 27:13.) Það tímasetur nútímalega uppfyllingu þessa hrífandi spádóms eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1919, og sögulegar staðreyndir færa sönnur á uppfyllingu hans allt fram til þessarar stundar. Jehóva er engin „reiði“ í hug núna gegn þjónum sínum, hvorki gegn leifum sinnar ‚heilögu þjóðar,‘ ‚eignarlýð sínum,‘ né gegn drottinhollum kristnum mönnum sem hlakka til eilífs lífs á jörðinni. Í miskunn sinni hefur hann veitt þeim hyllli sína sem er ástæðan fyrir andlegri velsæld þeirra og vexti.
5. Hvað kemur frá þessum táknræna víngarði, sem hefur glatt fólk, og hverju getur það sagt frá um hann?
5 Þessi andlega „þjóð,“ ásamt iðjusömum félögum sínum, hefur verið eins og frjósamur víngarður sem gefur af sér mikið vín. Hér er um að ræða andlegt vín sem hefur glatt hjarta Jehóva og mannsins. (Dómarabókin 9:13) Af þessu tilefni getur það fólk, sem hefur glaðst við það að drekka þennan andlega drykk, sungið fagnandi og sagt frá öllu því sem hinn guðlegi ræktandi þessa táknræna ‚víngarðs‘ hefur gert fyrir hann. Lýst á táknmáli hefur hann svo sannarlega ‚vökvað‘ þennan „víngarð“ jafnt og stöðugt, til að hann gæti borið safaríka og gómsæta ávexti sem eru til gleði.
Hinn ólíki ‚vínviður jarðarinnar‘
6. Hvernig mun fara fyrir ‚vínviði jarðarinnar‘ samkvæmt 14. kafla Opinberunarbókarinnar?
6 Allt annað hefur verið uppi á teningnum í sambandi við það sem síðasta bók Biblíunnar kallar „vínvið jarðarinnar.“ Innan skamms mun himnesk aftökusveit fá eftirfarandi skipun frá Guði: „Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.“ Síðan lýsir hin spádómlega Opinberunarbók því hvernig „engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu. Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af vínþrönginni, svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.“ (Opinberunarbókin 14:18-20) Þannig mun fara fyrir stjórnum jarðarinnar sem heyra til sýnilegu skipulagi djöfulsins hér á jörð; hann hefur ræktað þennan ‚vínvið‘ sem rís á móti ‚hinum sanna vínviði‘ sem Jehóva Guð hefur ræktað. ‚Vínviður jarðarinnar‘ mun aldrei vaxa upp aftur!
7-9. Hvaða tvíþætta uppfyllingu fær Jesaja 27:7-13 og á hvaða tímum?
7 Spádómurinn í 27. kafla Jesajabókar er samt sem áður spádómur um endurreisn, fyrst Ísraelsþjóðarinnar að holdinu og síðan hins andlega Ísraels nú á 20. öldinni. Það er ljóst af því sem spádómurinn segir í 7. versi til og með 13. versi, en þar lýkur kaflanum. Þessi vers hljóða svo:
8 Hefir [Jehóva] lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, er lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir? Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði. Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar. Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti. Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.
9 Á þeim degi mun [Jehóva] slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu, og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja [Jehóva] á fjallinu helga í Jerúsalem.
10. Hvaða heimsveldi réði lögum og lofum þegar spádómur Jesaja var borinn fram, og hvernig fór fyrir því þegar það reyndi að ráðast á höfuðborg Júdaríkis?
10 Þegar Jesaja bar þennan spádóm fram var Assýría orðið voldugasta ríki þess tíma, heimsveldi, og hafði tekið þann sess af fyrsta heimsveldinu af þeim sjö, enda þótt Egyptaland væri enn við lýði sem minniháttar ríki. Hið tíu ættkvísla Ísraelsríki hafði brotist undan stjórn konungsættar Davíðs af Júdaættkvísl. Assýríukonungur fór í herför til Jerúsalemborgar og krafðist skilyrðislausrar uppgjafar, ella yrði borgin jöfnuð við jörðu. En Jehóva barðist fyrir Júdamenn með þeim afleiðingum að hinn drambsami Sanherib Assýríukonungur mátti forða sér skjögrandi heim eftir smánarlegan ósigur. — Jesaja 36. og 37. kafli.
11. Konungi hvaða heimsveldis var leyft að kollvarpa Júdaríkinu, og hvernig lýsir 27. kafli Jesajabókar því?
11 Það var ekki fyrr en næsta heimsveldi, Babýlon, var komið til valda að Jehóva leyfði að hin helga borg Jerúsalem og musteri hennar væru jöfnuð við jörðu. Af Biblíunni má ráða að það hafi gerst árið 607 f.o.t. þegar Nebúkadnesar konungur var við völd. Það var hann sem flutti með sér bandingja til Babýlonar sem skyldu vera í útlegð þar í 70 ár. Vegna hinnar yfirvofandi eyðingar Jerúsalemborgar og þess að bandingjar yrðu fluttir í 70 ára útlegð til Babýlonar að hægt var með réttu að spyrja:
Hefir [Jehóva] lostið lýðinn [Ísraelsþjóðina] annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? (Jesaja 27:7)
Árið 607 f.o.t. var þjóð Guðs lostin þyngra höggi en nokkru sinni fyrr í sögu sinni frá 1513 f.o.t., höggi sem næstum þurrkaði þjóðina út. Mikill manndauði varð í hinni umsetnu Jerúsalemborg. Jehóva hafði séð að þessar róttæku aðgerðir voru nauðsynlegar; þær urðu að eiga sér stað. Hann sá að óhjákvæmilegt var að berjast við þá sem hefðu átt að vera vinir hans, þá sem hann hafði gert við lagasáttmálann fyrir milligöngu Móse.
12. Hvaða spurningu gat Jehóva látið spámanninn Jesaja bera fram um Ísrael, og hvernig varð samband Ísraels við Jehóva?
12 Jehóva gat því spurt áfram:
Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir? (Jesaja 27:7)
Nú var nauðsynlegt að Jehóva gengi fram í dóm gegn þjóðinni, sem áður hafði notið hylli hans, ræki hana frá sér undan herafla þriðja heimsveldis biblíusögunnar, Babýlonar. Orð Guðs hljóðar svo:
Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn [sem gefur til kynna hvaðan herópið myndi gjalla] geisaði. (Jesaja 27:8)
Þannig myndi hann vísa frá sér hinni ótrúu þjóð sem áður hafði verið honum eins og táknræn eiginkona, sýnilegt skipulag hans á jörð. Nú rak hann hana burt úr heimalandi sínu, sem hann hafði gefið henni, og lét hina babýlonsku sigurvegara flytja hana með sér í fjarlægt land, rétt eins og væri hann skilinn við hana að sinni. — Samanber Jesaja 50:1.
13. Hvernig átti Ísraelsþjóðin, samkvæmt spádómi Jesaja, að friðþægja fyrir það að hún skyldi hafa brotið sáttmála Guðs?
13 Nú var kominn tími til að Ísraelsþjóðin, Jakob, friðþægði fyrir „misgjörð“ sína með dýrmætari fórn en dýrafórnunum sem færðar voru á altarinu í musterinu í Jerúsalem. Jehóva gaf þessi fyrirmæli um skipulag sitt, líkt eiginkonu:
Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar. (Jesaja 27:9)
Þessi spádómur myndi uppfyllast með því að Guð gæfi réttmætri reiði sinni útrás! Aldrei framar skyldu helgar súlur eða reykelsisaltari til skurðgoðadýrkunar rísa í landi þessarar tyftuðu þjóðar.
14. Hvernig átti að fara fyrir Ísraelslandi, og hvernig færi fyrir þjóðinni sem líkt var við tré?
14 Til að lýsa þeirri miklu eyðingu, sem skyldi koma yfir Ísrael fortíðarinnar, bætir Jehóva við:
Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni.
Landið, sem áður hafði verið þéttbýlt, skyldi verða að beitilandi um tíma.
Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti. Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. (Jesaja 27:10, 11)
Svo yrði komið fyrir þjóðinni, sem var táknræn eiginkona Jehóva, að hún yrði eins og eldiviður sem konur gætu áreynslulítið safnað saman. Sannarlega yrði illa komið fyrir Ísraelsþjóðinni, skipulaginu sem líkt var eiginkonu! En hvers vegna ætlaði eiginmaðurinn, Jehóva, að grípa svona róttækt inn í gang mála? Við lesum:
15. Hvernig hefði Ísraelsþjóðin átt að reynast, í ljósi hinnar sérstöku meðferðar Jehóva, en hvers vegna varð hún eins og þjóðirnar umhverfis sem dýrkuðu skurðgoð?
15 Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur. (Jesaja 27:11) Í ljósi alls þess sem Jehóva hafði gert til að mennta og upplýsa það skipulag, sem þjóð hans myndaði, hefði Ísraelsþjóðin átt að vera mjög skynsöm og vitur. Hún hefði átt að vera nógu skörp og skynug til að sjá í gegnum hégóma hjáguðadýrkunar, nógu skynug til að sjá hversu fánýt skurðgoðadýrkun hinna fáfróðu þjóða utan sáttmálasambandsins við hinn eina lifandi og sanna Guð, Jehóva, var. En hann sem hafði skapað og myndað þjóðina var himneskur og ósýnilegur, og þjóðin glataði trúnni og kaus að leita á náðir sýnilegra guða gerðra af mannahöndum — og það varð henni að falli. Af þeim orsökum sýndi Guð þessari einþykku þjóð ekki frekari velvild né miskunn.
Frelsun úr útlegð
16. Hvert þurfti Jehóva að beina athygli sinni til að leysa þjóð sína úr haldi?
16 Til að guðsdýrkun Ísraelsmanna yrði aftur endurreist í heimalandi þeirra myndi Jehóva nú þurfa að beina athygli sinni að Babýlon sem áin mikla, Efrat, rann um. Hann myndi líka beina athygli sinni til suðurs, alla leið til Egyptalands, því að þangað var sumt af þjóð hans komið vegna ögunar hans. Til að svo yrði þurfti Jehóva að uppfylla það sem hann sagði þessu næst:
Á þeim degi mun [Jehóva] slá kornið úr axinu, allt frá straumi Efrats til Egyptalandsár, [að farveginum við suðvesturlandamæri fyrirheitna landsins], og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! — Jesaja 27:12; samanber 4. Mósebók 34:2, 5.
17. Hvernig leysti Jehóva þjóna sína úr útlegðinni?
17 Til að senda þjóðina aftur heim í land sitt, Júda, þyrfti Jehóva að slá útlæga þjóna sína lausa eins og korn úr axi. Það gerði hann með því að kollvarpa Babýloníuveldi og láta fjórða heimsveldi biblíusögunnar, Medíu-Persíu, taka völdin. Tilskipun Kýrusar mikla, Persakonungs, við upphaf valdaferils síns var gefin til að frelsa útlæga þjóna Jehóva svo að þeir gætu snúið aftur heim þangað sem Jerúsalem hafði staðið, og endurreist musteri Jehóva. Þessi heimför átti sér stað þegar lauk hinum 70 útlegðarárum Gyðinga árið 537 f.o.t. — Jesaja 45:1-7.
18. Hver hljóta að hafa verið viðbrögð hinna útlægu við tilskipuninni um frelsun sína?
18 Hinir öguðu Ísraelsmenn í Babýloníu, svo og í Assýríu og Sýrlandi, voru eign Jehóva og hann hafði rétt til að hrista þá lausa, eins og táknrænan ávöxt, úr útlegð sinni og dreifingu, og sýna þeim þannig miskunn og óverðskuldaða náð. Þessir Ísraelsmenn hljóta að hafa fagnað tilskipun Kýrusar; þeir hljóta að hafa verið kostgæfir og ákafir að grípa þetta stórkostlega tækifæri sem þeim bauðst! Hvað var sagt um þennan dýrlega ‚dag‘?
19. (a) Fyrir hverjum áttu Ísraelsmennirnir, sem höfðu verið í Assýríu og Egyptalandi, að beygja sig? (b) Hvað myndi það þýða í sambandi við tilbeiðsluna á Jehóva á hinu upprunalega musterisstæði, og hvaða samband hefur það við hina andlegu Ísraelsþjóð okkar tíma?
19 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja [Jehóva] á fjallinu helga í Jerúsalem. (Jesaja 27:13) Hvað annað gat þetta þýtt en að fyrirheitna landið yrði aftur tekið til ábúðar og musterið í Jerúsalem endurreist til að þar mætti dýrka á ný hann sem hafði skapað, myndað og endurlífgað Ísraelsþjóðina? Það varð að gerast samkvæmt því sem spámaðurinn Jesaja hafði sagt í 6. versinu. Land hinnar heimkomnu þjóðar skyldi aftur verða þéttbýlt og iða af mannlífi þeirra sem í sameiningu dýrkuðu Guð í musteri hans, jafnvel þótt þessi endurreisti tilbeiðslustaður hefði ekki til að bera sama ljóma og musterið sem Salómon konungur reisti. Á þennan hátt var gefin fyrirmynd um nútímalega, andlega uppfyllingu tengda „Ísrael Guðs“ sem fyllir „jarðarkringluna“ lífgefandi „ávöxtum.“ — Galatabréfið 6:16; Jesaja 27:6.
[Neðanmáls]
^ Athyglisvert er að Oxford NIV Scofield Study Bible (1984) segir um Lúkas 21:24: „‚Tímar heiðingjanna‘ hófust með hernámi Júdaríkis undir stjórn Nebúkadnesars (2. Kron. 36:1-21). Frá þeim tíma hefur Jerúsalem, eins og Kristur sagði, verið ‚fótum troðin af heiðingjum.‘“
Hverju svarar þú?
◻ Hvenær og hvernig voru Ísraelsmenn ‚lostnir‘ eins og sagt var fyrir í Jesaja 27:7?
◻ Hvernig ‚festu‘ Ísraelsmenn „rætur“? (Jesaja 27:2, 6)
◻ Hverjir nú á tímum eiga þátt í uppfyllingu spádómsins í Jesaja 27. kafla?
◻ Hvernig eru þeir orðnir eins og frjósamur víngarður sem gefur af sér mikið vín?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 25]
Árið 607 f.o.t. greiddi Jehóva Ísraelsmönnum þungt högg af hendi Babýloníumanna.