Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þjóðin“ sem gefur sveltandi milljónum fæðu

„Þjóðin“ sem gefur sveltandi milljónum fæðu

„Þjóðin“ sem gefur sveltandi milljónum fæðu

1, 2. (a) Hvaða þörf ættu jarðarbúar að finna fyrir? (b) Hvaða þjóð getum við veitt athygli í þessu sambandi?

 ÞÁ MILLJARÐA, sem byggja jörðina, ætti að hungra eftir „fæðu“ sem getur nært þá til eilífs lífs hér á jörðinni þegar henni verður breytt í paradís. En hvert eiga þeir að snúa sér? Lýðveldið Ísrael gerir enga tilraun til að uppfylla spádóm Biblíunnar í Jesaja 27:6 um að fylla jörðina „ávöxtum“ til varanlegs gagns fyrir mannkynið.

2 Á fyrstu öld okkar tímatals missti Ísraelsþjóðin þau sérréttindi að geta verið öllu mannkyni til blessunar. Það voru því aðeins litlar leifar Gyðinga að holdinu sem Messías ávarpaði svo: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, . . . sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:18-20) En hver er staða mála núna, nítján öldum síðar? Hverjir beina nú á tímum huga sínum að uppfyllingu Jesaja 27:6? Hvernig snertir það þig og ástvini þína?

3. Hverjir hafa á okkar öld fundið fyrir „reiði“ Guðs sem nefnd er í Jesaja 27:4?

3 Þótt nokkrir áratugir séu liðnir síðan fyrri heimsstyrjöldin var háð er rétt af okkur að athuga vissa atburði sem þá gerðust. Á þeim tíma hafði Jehóva Guð gilda ástæðu til að vera „reiði“ í hug gegn þjóðum kristna heimsins fyrir þátttöku þeirra í blóðsúthellingum styrjaldarinnar. (Samanber Jesaja 27:4.) Þær börðust hver við aðra í stað þess að afsala sér fullveldi sínu í hendur hinum hæsta Guði þegar ríki hans var sett á stofn á himnum árið 1914 í höndum hins dýrlega gerða sonar hans, Jesús Krists. Þær helltu olíu á eld reiði hans með því að ofsækja leifar hinnar andlegu Ísraelsþjóðar og hindra af ásetningi þessa trúu, kristnu biblíunemendur í að boða frjálst og óhindrað hið stofnsetta ríki hans. En margir af leifum andlegu Ísraelsmannanna gáfu sig reyndar undan álagi heimsins og risu ekki undir þeirri ábyrgð að vera þjónar Guðs, útvaldir úr þessu veraldlega heimskerfi. Þeir skildu ekki á þeim tíma nægilega vel nauðsyn þess að vera algerlega hlutlausir gagnvart deilumálum þessa heims, þannig að þeir leiddu yfir sig einhverja blóðskuld og verðskulduðu um tíma „reiði“ Guðs.

4. Hvaða áhrif hafði „reiði“ Guðs á kristna þjóna hans og hvaða lærdóm má draga af því?

4 Ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma, hvernig heldur þú að þú hefðir brugðist við því álagi sem var stríðinu samfara? Þú ættir að íhuga það, því að þannig getur þú styrkt ásetning þinn um hvað þú ætlir að gera þegar þú verður fyrir einhverju álagi í framtíðinni. Á þeim tíma kann að hafa virst best að láta staðar numið við boðun Guðsríkis og láta ekki á sér kræla. Margir voru þannig sinnaðir og fannst réttast að bíða einfaldlega eftir því að þeir yrðu gerðir dýrlegir með Jesú Kristi þá innan tíðar. (Lúkas 22:28-30) Það að sannkristnir menn á þeim tíma skyldu finna að einhverju marki fyrir „reiði“ Jehóva var þeim ögun og þjónaði sínum tilgangi. Hún styrkti þá fyrir það starf, sem beið þeirra, að kunngera hefndardag Guðs þeim sem spámaðurinn Jesaja kallar „Levjatan“ í Jesaja 27:1. Þar lesum við:

5. Hvernig hefur Jehóva á okkar tímum beint athygli sinni að „Levjatan“ sem nefndur er í Jesaja 27:1?

5 Á þeim degi mun [Jehóva] með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu. Forðum daga beindi Jehóva athygli sinni að þeim sem höfðu hneppt þjóna hans í fjötra. Eins og við höfum áður nefnt voru það heimsveldið Babýlon, svo og Egyptaland og Assýría. (Jesaja 27:12, 13) Kemur þú auga á hvernig hin táknþrungnu orð í Jesaja 27:1 eiga við nú á tímum? Þjónar Guðs voru ekki í fjötrum neinnar einnar þjóðar eða heimsveldis í kringum fyrri heimsstyrjöldina. Samt sem áður þurfti Jehóva að beina athygli sinni að táknrænum Levjatan, það er að segja Satan djöflinum. Hann lætur sig líða kænlega um mannhafið og notar það sem á jörðinni er til að leggja stein í götu þjóna Guðs eða stofna þeim í hættu. — Samanber Opinberunarbókina 17:15.

6, 7. (a) Hverju má nú á tímum líkja við „þyrna og þistla“? (b) Hvers megum við vænta þar að lútandi í framtíðinni?

6 Þegar leifar hinnar andlegu Ísraelsþjóðar tóku með ákefð að prédika Guðsríki aftur árið 1919 var tímabært af Jehóva að segja:

 Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku. — Jesaja 27:4.

7 Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var Þjóðabandalaginu komið á fót, og það jafngilti því að verið væri að hafna Guðsríki í höndum Krists. Við getum líkt þessu við „þyrna og þistla“ lagða í götu Jehóva Guðs í þeim tilgangi að hefta för hans eða hræða. Núna eru Sameinuðu þjóðirnar komnar í stað Þjóðabandalagsins. Í gegnum Sameinuðu þjóðirnar láta hin ýmsu aðildarríki í ljós þann ásetning að standa gegn hinu boðaða ríki Krists, og þá ætlun sína að halda í heimsyfirráðin. Í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón mun hann í táknrænum skilningi troða niður alla „þyrna og þistla,“ brjóta þá og síðan brenna til ösku. Þannig mun hann sýna hver sé raunverulega drottinvaldur alheimsins. Af þessu sérð þú að jafnvel þótt þú hafir ekki verið uppi meðal hinna smurðu kristnu manna á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar verður þú fyrir áhrifum — þér til góðs eða ills — af þeim atburðum sem eru hliðstæður Jesaja 27:1. — Opinberunarbókin 16:14-16; 17:1-18:4.

‚Leitað hælis hjá Jehóva‘

8. Hvað reiða margar þjóðir sig á?

8 Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna treysta á mátt sinn og megin og það hæli sem þau hafa gert sér. Þó hefur traust þeirra ekki dugað þeim til að koma í veg fyrir að þau fyndu upp hættulegasta gereyðingarvopn mannkynssögunnar, kjarnorkusprengjuna. Það eru tæpast Sameinuðu þjóðirnar heldur óttinn við að þeim verði goldið í sömu mynt sem kemur í veg fyrir að þær beiti einhverjum af kjarnorkuvopnum sínum.

9, 10. Hvers vegna er viturlegt af okkur að ‚leita hælis‘ annars staðar?

9 Eins og bent hefur verið á stendur þjóðunum þó mest ógn af ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Hvers geta þjóðirnar vonast til að vera megnugar gegn hinum alvalda Guði, honum sem bjó atómið þeirri firnaorku sem raun ber vitni? Þú þarft ekki að vera í vafa um að skaparinn er óendanlega máttugri en þjóðirnar með öllum sínum vopnum. Þeir sem skilja og viðurkenna þessa staðreynd — og það gera vottar Jehóva — eiga aðeins um eitt að velja. Það kemur fram í eftirfarandi orðum Jehóva:

 Nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig. (Jesaja 27:5)

 Enginn stofnun mannanna er öruggt hæli til verndar fjölskyldum jarðar eða þess megnug að koma í veg fyrir styrjöld.

10 Þú veist líklega að margir láta dragast út í deilur og hreyfingar tengdar kjarnorkuvopnum og afvopnun. Því miður leiðir það athygli þeirra frá því að það er hið óhjákvæmilega stríð Guðs hins alvalda við Harmagedón sem ógnar öllum þjóðum með tortímingu. Ef þér er sá veruleiki ljós er hyggilegt af þér að snúa þér til Jehóva. Allir ættu að leita skjóls í ‚hæli‘ hans, það er að segja hinum ótæmandi mætti hans. Þótt allt skipulag Satans taki á öllu sem það á til mun það ekki geta yfirbugað hinn einstaka kristna mann sem hefur leitað „hælis“ hjá Jehóva.

11. Hvernig getum við heimfært orð Jesú í Lúkasi 14:31-33 þegar við ‚leitum hælis‘ hjá Guði?

11 Jehóva og hersveitir hans eru nú, ef svo má að orði komast, á hergöngu undir stjórn hershöfðingjans Jesú Krists. Heilbrigð skynsemi og sönn viska segir okkur að gera út „sendisveit“ til að semja frið, meðan þessi her er enn í nokkurri fjarlægð, sökum þess hversu öflugur hann er. Hinn ósigrandi foringi hersveita Jehóva ráðlagði okkur að taka slíka stefnu þegar hann var hér á jörðinni. (Lúkas 14:31-33) Og ef þú skoðar náið það sem Jesús sagði þar uppgötvar þú að hann setti það í samband við ‚allt sem við eigum.‘ Við ættum að grandskoða viðhorf okkar hvar sem við búum í heiminum, hvort sem það er í háþróuðu iðn- og velmegunarríki eða í einhverju landi þriðja heimsins þar sem það er stöðug barátta að hafa í sig og á. Spyrðu sjálfan þig: Reiði ég mig í raun og sannleika á styrk Jehóva eða læt ég ‚allt sem ég á‘ sitja í fyrirrúmi? Lestu í þessu sambandi Lúkas 12:15-21.

12. Hvað sýnir að margir leita nú styrks hjá Jehóva?

12 Út um alla jörðina hafa mörg þúsund vottar Jehóva nú þegar snúið sér skilyrðislaust til Jehóva og leitað eftir friði við hann. Margir koma einkamálum sínum í það horf að þeir geti notað tugi klukkustunda í mánuði hverjum til að gera menn að lærisveinum. Hver sá sem leggur sig kappsamlega fram í að þjóna Jehóva er í aðstöðu til að geta notið ‚friðar Guðs‘ sem er æðri allri mannlegri hugsun og skilningi. (Filippíbréfið 4:7) Meðan enn er tími til hjálpa þeir öðrum að eignast aðild að þessum friði við hersveitir Jehóva. Hversu stóran hlut á slíkt björgunarstarf í lífi þínu?

‚Jarðarkringlan‘ fyllt með „ávöxtum“

13. Hvers megum við vænta á okkar dögum að því er Jesaja 27:6 gefur til kynna?

13 Hvert átti að verða hlutverk hins andlega Ísraels eftir að hafa endurheimt hylli Guðs eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar? Við fáum vísbendingu um það í þessum hvetjandi orðum Jesaja 27:6:

 Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.

 Þú getur sjálfur kynnt þér hvernig þessi orð hafa ræst nú á dögum. Það mun gefa þér aukið tilefni til að verða hluti af fólki Guðs eða, ef þú ert það nú þegar, styrkja þann ásetning þinn að vera meðal sannra guðsdýrkenda, óháð þeim prófraunum eða þrengingum sem kunna að verða á vegi þínum.

14. Hvernig hefur Jesaja 27:6 ræst á þjónum Guðs?

14 Þau skilyrði, sem spáð er um í Jesaja 27:6, hefur í vaxandi mæli verið að finna meðal dýrkenda Jehóva frá og með árinu 1919 þegar vottar Jehóva héldu sitt fyrsta almenna mót í Cedar Point í Ohio. Til dæmis var það skömmu eftir þetta mót að Varðturnsfélagið fór að prenta sitt nýja tímarit, The Golden Age, sem nú er nefnt Vaknið! Það var eins og hinn andlegi Júda væri þá að festa rætur.

15. Hvaða hrífandi framtíðarhorfur var sönnum guðsdýrkendum bent á frá og með 1918?

15 Á fyrstu árunum eftir að sannkristnir menn hlutu frelsi og endurheimtu velvild Jehóva byrjuðu þeir þannig að blómstra sem ‚plantan Jehóva.‘ (Jesaja 61:3) Árið 1918, á síðasta styrjaldarárinu, flutti J. F. Rutherford hina athyglisverðu ræðu „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja.“ Var þetta ekki fulldjúpt í árinni tekið þegar haft er í huga að einungis litlar leifar andagetinna lærisveina hins ríkjandi konungs, Jesú Krists, voru eftir á jörðinni til að vinna það verk sem Guð hafði falið þeim?

16. (a) Hvernig brugðust þessar leifar við þeim framtíðarhorfum? (b) Hvaða „ávöxtum“ glöddust þær yfir og með hvaða afleiðingum?

16 Hvernig myndi Jehóva nota slíka kristna menn til að „fylla jarðarkringluna með ávöxtum“? Leifar hins andlega Ísraels tóku frumkvæðið, en hvað um ‚ávextina‘ sem átti að fylla jörðina með? Leifunum þóttu ‚ávextirnir,‘ sem meðal annars fólu í sér fagnaðarerindið um hið stofnsetta ríki Jehóva í höndum Krists, svo bragðgóðir og nærandi að þeir vildu deila þeim með náunga sínum. Jehóva hafði sagt fyrir að hinn minnsti myndi verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð, og það var engin reikningsskekkja af hans hálfu. (Jesaja 60:22) Innan skamms slóst í lið með leifum hins andlega Ísraels „mikill múgur“ af ‚öðrum sauðum‘ góða hirðisins, Jesú Krists. — Opinberunarbókin 7:9-17; Jóhannes 10:16.

17, 18. Hvað getur þú staðfest varðandi það að „fylla jarðarkringluna með ávöxtum“?

17 Þér kann að vera ljóst hver er staða sannrar kristni nú á dögum. Biblíufélagið Varðturninn hefur nú 94 útibú út um allan heiminn. Hinir starfsömu, skipulögðu söfnuðir votta Jehóva telja nú rúmlega 49.000, og þá er að finna í rúmlega 200 löndum. Hinum sanna Guði ber allur heiður af því, og þessi athyglisverða þróun færir sönnur á að hið óbrigðula orð hans rætist, þótt „endirinn,“ sem boðaður er í Matteusi 24:14, sé enn ekki kominn.

18 Núna starfa um þrjár milljónir kristinna manna í tengslum við Biblíufélagið Varðturninn út um allan heim. Þessar milljónir tilheyra aðallega ‚öðrum sauðum Krists‘ sem hafa lengi borið hita og þunga vitnisburðarstarfsins í heiminum, og ‚gleði Jehóva hefur verið hlífiskjöldur þeirra eða hæli.‘ (Nehemía 8:10) Við höfum því öll tækifæri til að vera vel nærð andlega og taka þátt í að „fylla jarðarkringluna með ávöxtum.“

19. Hvaða gleði getur þú notið í sambandi við hið frjósama land, og hvað finnst þér um það?

19 Við megum vera viss um að Jehóva mun aldrei leyfa að hinir núverandi ‚ávextir‘ þessa frjósama lands, athafnasviðs vottanna, verði eyðilagðir. Starf hinna prédikandi votta hans mun aldrei verða að engu gert! Hinir andlegu ‚ávextir,‘ eins og þeir eru ræktaðir af sannkristnum mönnum, eru til þess ætlaðir að næra alla þá sem vilja færa sér þá í nyt. Það mun, þegar þar að kemur, ná til þeirra milljarða látinna manna sem munu fá upprisu undir þúsund ára stjórn Jesú Krists. Reyndu að ímynda þér hvað það getur þýtt fyrir þig í framtíðinni! Þegar þar að kemur munu margir hinna fornu Ísraelsmanna að holdinu hljóta upprisu. Sumir þeirra munu hafa átt hlutdeild í fyrri uppfyllingu spádómsins í Jesaja 27. kafla. Væri ekki hrífandi fyrir þig að vera uppi á þeim tíma og geta sagt frá því hvernig þú áttir þátt í hinni meiri, nútímalegu uppfyllingu þess að „fylla jarðarkringluna með ávöxtum“? — Samanber Opinberunarbókina 22:2, 3.

„Levjatan“ líður undir lok

20. Hvað á „Levjatan“ í vændum og hvaða áhrif mun það hafa í tengslum við drottinvald Guðs?

20 Þá mun hið táknræna Egyptaland, hið núverandi óguðlega kerfi sem Satan djöfullinn hefur drottnað yfir eins og Guð, ekki vera til. Jehóva mun hafa beint athygli sinni að hinum táknræna Levjatan, hinum slóttuga höggormi sem er á sveimi um mannhafið. Hann og þjóðirnar, jafnvel þjóðafylkingar, verða horfnar. Hann mun ekki lengur vera frjáls ferða sinna til að spilla mannkyninu sem Jesús Kristur dó fyrir. (Jesaja 27:1) Já, Satan djöfullinn verður fjötraður í undirdjúpi meðan þúsund ára stjórn Jesú Krists, sonar Davíðs og hins réttmæta erfingja ríkisins, stendur yfir. Hinir 144.000 andlegu Ísraelsmenn verða samerfingjar á himnum með honum, hinu táknræna ljóni af Júdaættkvísl. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 5:5, 9, 10; 7:1-4) Jehóva Guð hinn hæsti mun hafa hlotið eilífa upphafningu sem drottinvaldur alheimsins. Alheimsskipulag Jehóva á himni og jörð mun njóta fagnaðar, varanlegs friðar og eindrægni. Um alla eilífð mun Jehóva geta glaðst yfir sínu sameinaða alheimsskipulagi.

Manst þú?

◻ Hvers vegna fundu sannkristnir menn fyrir „reiði“ Jehóva fyrr á þessari öld, og hvað getum við lært af því?

◻ Hvernig getum við, ólíkt þjóðunum, ‚leitað hælis hjá Jehóva‘? (Jesaja 27:5)

◻ Hvernig hefur ‚jarðarkringlan‘ fyllst „ávöxtum“ á okkar tímum? (Jesaja 27:6)

◻ Hvernig megum við treysta á uppfyllingu Jesaja 27:1 í framtíðinni?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Sumir vona að menn geti afstýrt kjarnorkuvá, en vitrir einstaklingar úr öllum þjóðum ‚leita hælis hjá Jehóva.‘

[Myndir á blaðsíðu 30]

Fjölgun hinna vel nærðu kristnu manna endurspeglast í því að útibú Biblíufélagsins Varðturninn stækka.

Spánn

Brasilía

Kanada