Byggt til eilífrar framtíðar
Byggt til eilífrar framtíðar
„Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ — HEBREABRÉFIÐ 3:4.
1, 2. (a) Hver hannaði örkina og hversu ítarleg fyrirmæli voru gefin um smíði hennar? (b) Hvers vegna er lífsnauðsynlegt að vera hlýðinn eins og Nói?
UM það bil 4400 ár eru liðin síðan Jehóva bauð Nóa að smíða örkina sem varð til lífs þeim sem gengu inn í hana. En Guð lét ekki Nóa um að smíða bara eitthvað sem gat flotið. Hann gaf honum skýr fyrirmæli varðandi efni, innréttingu, lengd, breidd, hæð, loftræstingu og frágang hið ytra og innra. „Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mósebók 6:13-16, 22.
2 Þetta er afbragðsfordæmi nútímavottum Jehóva! Okkur er, eins og Nóa, trúað fyrir því að bjarga mannslífum, en núna er verið að vinna að hjálpræði ‚milljóna núlifandi manna sem þurfa aldrei að deyja.‘ Því er afar áríðandi að við séum hlýðin eins og Nói var! Mikilvægt er að við fylgjum fyrirmynd hans sem var meiri en Nói, Jesú Krists, með því að vera ‚prédikarar réttlætisins‘! — 2. Pétursbréf 2:5.
Andlegt byggingarstarf
3. (a) Hvað mun það að byggja á orðum Jesú hafa í för með sér? (b) Hvers vegna byggði prédikun Jesú upp trú?
3 Nú eru liðin 1956 ár síðan Jesús gerði Galíleumönnum bylt við með boðskap sínum: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ Hann sagði að hver sá sem hlýddi orðum hans og byggði á þeim væri „líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.“ Trú þess manns er traust, óhagganleg. Hún mun ekki bresta þótt á hana reyni. Prédikun Jesú byggði upp trú. Hún snerti hjörtu manna því hún var svo gerólík skinhelgu málrófi trúarleiðtoga Gyðinganna. Almenningur undraðist hvernig Jesús kenndi. Jafnvel hermenn, sem voru sendir til að handtaka hann, sneru aftur tómhentir og sögðu: „Aldrei hefur nokkurn maður talað þannig.“ — Matteus 4:17; 7:24, 25, 28; Jóhannes 7:46.
4. (a) Hvernig byggði Jesús til framtíðar? (b) Hvaða mikil byggingarframkvæmd átti sér stað á hvítasunnunni árið 33?
4 Jesús var að byggja til framtíðar. Hann safnaði um sig hópi samverkamanna, svo sem Pétri, einnig nefndur Kefas, en nafn hans merkir „steinn“. Jesús sagði við þennan lærisvein: „Þú ert Pétur, og á þessum kletti mun eg byggja söfnuð minn.“ Þegar tímar liðu varð Pétur einn hinna mörgu ‚lifandi steina‘ sem voru byggðir ofan á Jesú, ‚hyrningarsteini‘ safnaðarins. Þessi söfnuður var stofnaður á hvítasunnunni árið 33 þegar hinn upprisni Jesús, nú við hægri hönd Guðs á himnum, úthellti heilögum anda yfir lærisveinana sem biðu. — Matteus 16:18, Ísl. bi. 1912; 1. Pétursbréf 2:4-6; Postulasagan 2:2-4, 32, 33.
5. Við hvað er kristni söfnuðurinn önnum kafinn núna?
5 Núna er kristni söfnuðurinn önnum kafinn við að vinna að tilgangi Jehóva. Núna er tími ‚opinberunarinnar‘ þegar „það sem verða á innan skamms“ er opinberað „þjónum“ Guðs á jörðinni. (Opinberunarbókin 1:1-3) Núna er sá tími er þessir þjónar verða að ‚prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs um alla heimsbyggðina til vitnisburðar,‘ áður en hann fullnægir dóminum á illri skipan Satans. Núna er tími konungsins, Jesú Krists, sitjandi í hásæti á himnum, til að skilja hina auðmjúku, sauðumlíku menn frá þverúðugum mönnum, líkt við geithafra, sem ekki vilja að ríki hans komi, og til að safna þessum ‚sauðum‘ inn í söfnuð andlegra ‚bræðra‘ sinna áður en ‚þrengingin mikla‘ brýst út. — Matteus 24:14, 21; 25:31-40.
6. Hvað er „örkin“ nú á tímum og hvernig getum við komist lífs af?
6 Hver er örk björgunarinnar nú á tímum? Hún er hið andlega ástand sem vottar Jehóva hafa verið í frá 1914, andleg paradís. Líkt og Nói og fjölskylda hans verða þeir sem eftir eru af hinum smurðu og félagar þeirra að halda sér innan marka hennar, vinna hlýðnir og af heilu hjarta að því að ljúka hinu mikla andlega verki sem Jehóva hefur ákveðið að gert skuli. Þetta verk er að „safna öllu því, sem er á himnum [hófst árið 33 með hinum smurðu sem hafa himneska von], og því, sem er á jörðu [hófst af fullum krafti árið 1935 með hinum alþjóðlega ‚mikla múgi‘ sem á fyrir sér eilíft líf á jörðinni], undir eitt höfuð í Kristi.“ — Efesusbréfið 1:10; Opinberunarbókin 7:9, 14.
‚Byggt og gróðursett‘
7. Hvaða tvíþætt starf fer nú fram og hvernig getum við orðið hamingju aðnjótandi í líkingu við Nóa og Jeremía?
7 Jehóva hefur boðið þeim sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum á jörðinni, alveg eins og hann bauð spámanninnum Jeremía, að vera ‚yfir þjóðum og yfir konungsríkjum til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja.‘ Nú fer því fram tvíþætt starf: (1) að kunngera dóm Jehóva yfir illu heimskerfi Satans og (2) að byggja og treysta samfélag þjóna Guðs sem á að lifa af. (Jeremía 1:10; 24:6, 7; Jesaja 26:20, 21) Leifar hinna smurðu og vaxandi grúi félaga þeirra fagna því mjög að vinna saman að þessu verki núna! Þeir njóta sams konar hamingju og hinn ötuli Nói og fjölskylda hans hljóta að hafa gert á sínum tíma.
8. (a) Hvernig hefur boðberatalan vaxið síðastliðin 22 ár? (b) Í hvaða löndum var mestur vöxtur á síðasta ári samkvæmt þjónustuskýrslunni?
8 Munu milljónir manna lifa af reiðidag Jehóva? Já, margt bendir til þess eins og sjá má af þjónustuskýrslu votta Jehóva um árið 1985. Skýrslan er birt í heild í flestum erlendum úgáfum Varðturnsins á bls. 20-23, og í árbók votta Jehóva 1986. Hrífandi er að veita því athygli hversu hámarkstala verkamanna á akrinum hefur aukist. Hún er nú komin upp í 3.024.131 prédikara Guðsríkis. Tala boðbera náði einni milljón árið 1963, tveim milljónum árið 1974, og núna yfir þrem milljónum árið 1985. Á þessum 22 árum höfum við séð 200% aukningu. Við erum innilega þakklát Jehóva sem gefur vöxtinn með hjálp anda síns! — Sakaría 4:6; 1. Korintubréf 3:6.
9. (a) Hvers vegna er fjölgun brautryðjenda mjög athyglisverð? (b) Hvað eru allir, sem hafa tök á, hvattir til að gera og hvers vegna?
9 Enn eftirtektarverðari er fjölgun boðbera Guðsríkis í fullu starfi á sama árabili. Þrátt fyrir versnandi efnahagsástand út um allan heim hefur þessi hugdjarfi hópur „brautryðjenda“ rokið upp úr 38.573 árið 1963 í 322.821 árið 1985 — 737% aukning! Hvað gefur það til kynna? Að andi fórnfýsinnar hafi sterk ítök meðal þjóna Guðs, í samræmi við orð Jesú í Lúkasi 9:23. Oftast er nákvæm skipulagning og sjálfsafneitun nauðsynleg til að ná árangri í brautryðjandaþjónustu. En umbunin er mikil. — Rómverjabréfið 12:1, 2; Malakí 3:10.
10. (a) Fyrir hvað eiga safnaðarboðberar hrós skilið? (b) Hvaða þrem hápunktum er vakin athygli á hér og hvað gefa þeir til kynna?
10 Hinar rúmlega 2,7 milljónir safnaðarboðbera verða líka að berjast gegn þeim þrýstingi sem Satan og heimur hans beitir þá. En þeir færa Guði líka „lofgjörðarfórn.“ (Hebreabréfið 13:15; Rómverjabréfið 10:9, 10) Þær stundir sem þið, trúfastir safnaðarboðberar, skýrðuð frá í mánuði hverjum, hvort sem þær voru margar eða fáar, eru hluti hins nýja tímahámarks í þjónustunni árið 1985, samtals 590.540.205 klukkustundir. Þetta er 16,8% aukning miðað við árið 1984! Nýtt hámark endurheimsókna, 224.725.918, og heimabiblíunáma með áhugasömu fólki, 2.379.146, gefur til kynna að boðberar Guðsríkis kappkosti alls staðar að vera góðir kennarar og kostgæfir prédikarar. — Matteus 28:19, 20.
Byggt til ósvikins friðar og öryggis
11. Hvernig er hin sanna von um frið og öryggi kunngerð og í hvaða mæli?
11 Síðla árs 1985 lýstu Sameinuðu þjóðirnar árið 1986 vera alþjóðlegt friðarár. Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar haft margt um frið og öryggi að segja. En þýðingarmeiri boðskapur, vonarboðskapur Biblíunnar um frið og öryggi, náði miklum krafti árið 1985 þegar vottar Jehóva dreifðu á heimsmælikvarða 38.805.561 biblíu, bókum og bæklingum, svo og 300.545.609 tímaritum, og tóku 1.719.930 áskriftir að tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Með töluðu og prentuðu máli hefur stofnsett ríki hins raunverulega ‚friðarhöfðingja‘ fengið sinn mesta vitnisburð til þessa. Svo sannarlega mun ‚höfðingjadómurinn verða mikill og friðurinn engan enda taka.‘ — Jesaja 9:6, 7.
12. Hvaða þörf hefur komið upp við hinn mikla vöxt og hvernig hafa þjónar Jehóva sameinast við að fullnægja henni?
12 Hinn geysilegi vöxtur á akrinum hefur kallað á tilsvarandi skipulagslegan vöxt. Á árinu 1985 fjölgaði söfnuðum votta Jehóva í heiminum úr 47.869 í 49.716. Það hefur skapað þörf fyrir hundruð nýrra samkomustaða. Við getum fagnað því að í fjölmörgum löndum hafa vottarnir hlotið blessun í viðleitni sinni við að safna fé til að eignast og reka ríkissali! Þar sem þörf hefur verið á hafa bæði einstaklingar og söfnuðir stutt af fórnfýsi byggingarframkvæmdir annarra, þannig að „jöfnuður“ hefur orðið meðal hins alþjóðlega bræðrafélags. — 2. Korintubréf 8:14, 15.
13. Hvernig geta einstaklingar lagt sitt af mörkum til að reisa ríkissali?
13 Í löndum, þar sem skilyrði eru hagstæð, hafa útibú Varðturnsfélagsins einnig stutt byggingu ríkissala. Í Bandaríkjunum og Kanada leggja fjölmargir einstaklingar fé í sérstakan ríkissalasjóð sem hefur getað lánað fé til þess að reisa fleiri ríkissali. Aðrir hafa lagt fram krafta sína og kunnáttu þannig að jafnvel hefur verið hægt að reisa heilan ríkissal á einni helgi. Með því að vinna að slíkum verkefnum ‚af heilum huga eins og Jehóva ætti í hlut‘ geta vottar hans gert það sem aðrir telja ógerlegt. — Kólossubréfið 3:23.
14. Hvernig hefur þörfinni fyrir mótshallir verið fullnægt?
14 Í mörgum löndum hefur verið töluverðum erfiðleikum háð að fá hentug húsakynni fyrir svæðismót votta Jehóva sem haldin eru tvisvar á ári. Enn sem fyrr hafa vottarnir leyst vandann fagnandi og tekið að byggja í sama anda og þjónar Guðs til forna sýndu. Þegar til dæmis vantaði efni til að gera tjaldbúðina hlýddi söfnuður Ísraelsmanna sem einn maður boði Guðs: „Færið [Jehóva] gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf [Jehóva] til handa.“ Þessi söfnuður gaf miklu meira en þörf var á og verkinu var lokið á skömmum tíma. — 2. Mósebók 35:5-19; 36:7.
15. (a) Hvaða vöxtur hefur átt sér stað hjá útibúum Varðturnsfélagsins? (b) Hvernig er verkið unnið?
15 Eftir því sem þörfin fyrir biblíur og biblíurit hefur vaxið hafa mörg af hinum 94 útibúum Biblíufélagsins Varðturninn orðið að stækka og bæta húsakost og tækjabúnað. Enn sem fyrr eru langsamlega stærstu prentsmiðjurnar reknar í Brooklyn og á Varðturnsbúgörðunum, en 36 útibú prenta nú sín eigin blöð og 6 þeirra hafa auk þess búnað til að prenta og binda inn bækur. Þrjú þeirra síðastnefndu, í Þýskalandi, á Ítalíu og í Japan, prenta biblíur. Nýja prentsmiðjan í Selters í Þýskalandi vinnur nú með fullum afköstum. Í Ebina í Japan er verið að reisa sex hæða viðbyggingu við prentsmiðjuna og átta hæða viðbyggingu við Betelheimilið sem rúma mun 280 starfsmenn til viðbótar. Alveg eins og þjónar Jehóva studdu musterisbyggingu Salómons „af heilum hug,“ eins færa þjónar Guðs í hinum ýmsu löndum nú á dögum Jehóva „sjálfviljagjafir“ og hann leggur blessun sína við til að fullna megi verkið. — 1. Kroníkubók 22:14, 15; 29:7, 9.
16. Hvers vegna hefur þetta aukna byggingar- og skipulagsstarf verið nauðsynlegt?
16 Er allt þetta byggingar- og skipulagsstarf í rauninni nauðsynlegt? Það er það ef hinn „trúi og hyggni þjónn“ á að halda áfram að miðla andlegum „mat“ á réttum tíma. Slíkur matur er lífsnauðsynlegur til vaxtar ‚heimamanna Guðs‘ og til að prédikun Guðsríkis um allan hnöttinn á liðlega 200 tungumálum geti haldið áfram. (Matteus 24:45; Efesusbréfið 2:19; 4:15, 16) Þjónar Jehóva hafa sjálfir lagt fram kunnáttu sína til þróunar og smíði tölvubúnaðar (MEPS), notaður til að setja og búa rit til prentunar, sem nú hefur verið afhentur 26 af útibúum Varðturnsfélagsins. Með þessum búnaði hefur verið hægt að tryggja samræmda offsetprentun á heimsmælikvarða, og auk þess hefur það stuðlað að því að hægt væri að birta sama efnið samtímis víða um heim. — Samanber Jesaja 52:7-9.
17. Hvaða þörf er komin upp í aðalstöðvunum í Brooklyn og hvernig verður henni líklega fullnægt?
17 Ekki er að sjá að vöxtur skipulags Jehóva sé að stöðvast. Betelfjölskyldan í Brooklyn í New York, aðalstöðvum Félagsins, hefur nú vaxið svo að hún fyllir það húsnæði sem er til umráða. Sé það vilji Jehóva má vera að reist verði háhýsi fyrir þúsund Betelverkamenn í viðbót á lóð Félagsins við Columbia Heights. Ef ekki munum við leita frekari leiðsagnar Jehóva í því máli. Bænir og dyggur stuðningur hins alþjóðlega bræðrafélags við allan þennan vöxt og framkvæmdir er mikils metinn. — Samanber Postulasöguna 21:14; 2. Þessaloníkubréf 3:1.
18. Hvers vegna eru þjónar Jehóva svona önnum kafnir við að byggja enda þótt Harmagedón sé mjög nærri?
18 Sumum kann að vera spurn hvers vegna unnið sé að svona miklum framkvæmdum þegar haft er í huga að Harmagedón stendur fyrir dyrum. Því er til að svara að skipulag Jehóva hættir ekki starfsemi þegar Harmagedón gengur í garð. Það er einungis skipulag Satans sem verður að hætta starfsemi. Skipulag Jehóva byggir til eilífrar framtíðar. Óháð því hvort byggingar gerðar af mannahöndum munu standa af sér Harmagedón-stormviðrið, þá vitum við að skipulag Jehóva mun standa áfram og starfa af fullum krafti. Við vitum að Jehóva mun nota það og þá sem styðja það með hollustu, og koma á eilífum friði og öryggi í hinni dýrlegu jarðnesku paradís sem hann hefur heitið. — Opinberunarbókin 7:9, 14-17; 21:1, 4, 5.
Byggt í ákveðnum tilgangi
19. Hvaða áskorun er fólgin í tölu viðstaddra á minningarhátíðinni 1985?
19 Nói hafði ákveðinn tilgang með smíði sinni eða byggingu, og það verðum við líka að hafa. Eitt atriði í skýrslunni um þjónustu votta Jehóva árið 1985 er sérstaklega umhugsunarvert. Það er hin mikla aðsókn að minningarhátíðinni um dauða Jesú þann 4. apríl 1985. Viðstaddir hátíðina voru 7.792.109 sem er 375.135 fleiri en heildartala ársins áður. En í þessari tölu er fólgin viss áskorun. Þar eð hámarkstala boðbera var 3.024.131 þýðir það að talsvert yfir 4 milljónir annarra hafa samfélag við okkur, að minnsta kosti að einhverju leyti, en eiga enn eftir að byggja fyrir framtíðina með þátttöku í hinni kristnu þjónustu. Hvernig getum við hjálpað þeim?
20. Hvers vegna er mjög brýnt að takast á við það verkefni og hvernig getum við best gert það?
20 Við þekkjum flest af þessu áhugasama fólki persónulega. Sumt af því eru ættingjar, fólk sem við nemum Biblíuna með, áskrifendur að tímaritum okkar og svo mætti lengi telja. Þar við bætast þeir sem fengið hafa áhuga síðan síðasta minningarhátíð var haldin. Getum við lagt okkur sérstaklega fram til að næra þá andlega og byggja upp með biblíunámi, til að þeir geti leitað hælis í skipulagi Jehóva „uns voðinn er liðinn hjá“? (Sálmur 57:2) ‚Þrengingin mikla‘ mun verða réttlátur verknaður af hendi Jehóva og marka enn meiri þáttaskil en Nóaflóðið. Við viljum byggja upp þetta áhugasama fólk með sannindum lífsins til að það muni ‚ákalla nafn Jehóva‘ en ekki sópast burt. (Matteus 24:21, 22, 39; Sefanía 2:3; 3:8, 9) Við skulum því nema orð Guðs með þessu fólki, og nota til þess námsbókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð eða önnur biblíurit sem byggja upp trú.
21. Hvernig getum við byggt upp hjá sjálfum okkur og öðrum trú eins og Nói hafði?
21 Jehóva Guð er hinn mikli byggingarmeistari og gjafari allra góðra hluta. (Sálmur 127:1; 145:16; Prédikarinn 3:10-13) Það var hann sem gaf Nóa leiðbeiningar um gerð og smíði arkarinnar. Með fúsu samstarfi hins meiri Nóa, Jesú Krists, hefur hann greitt gjald til lausnar hlýðnum mönnum undan valdi syndar og dauða. Í gegnum þennan son hefur hann einnig byggt upp „örk“ okkar tíma, hinna blómlegu andlegu paradís þar sem trúaðir karlar og konur geta leitað verndar í von um eilíft líf. (Matteus 20:26-28; Jóhannes 3:16; 17:3) Megum við hjálpa mörgum fleiri að byggja upp trú og eignast náin tengsl við Jehóva og son hans. Megum við hjálpa þeim að elska réttlætið og hata ranglætið. (Hebreabréfið 1:9) Á þann hátt getum við haldið áfram að byggja sameiginlega til eilífrar framtíðar, hafandi sams konar trú og Nói. — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.
Nokkrar spurningar til upprifjunar
◻ Hvernig byggði Jesús til framtíðarinnar?
◻ Hvað finnst þér sérstaklega athyglisvert í þjónustuskýrslunni um árið 1985?
◻ Hvers vegna þarf skipulag Guðs að halda áfram að byggja?
◻ Hvernig getum við öll byggt í ákveðnum tilgangi?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 16]
Í söfnuði í Afríkuríki, þar sem starf Jehóva er bannað, eru 95 bobðerar sem allir taka þátt í þjónustunni í hverjum mánuði. Að meðaltali eru 130 viðstaddir samkomurnar og 160 hlýða á opinberu fyrirlestrana. Þar eru 3 reglulegir brautryðjendur og nýlega voru þar 8 aðstoðarbrautryðjendur. Á aðeins hálfs árs tímabili hóf 21 nýr boðberi að starfa á akrinum.
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 14, 15]
VÍÐTÆKT ‚BYGGINGARSTARF‘ VOTTA JEHÓVA
Yfir allan heiminn skýrði 322.821 brautryðjandi frá starfi í mánuði hverjum (24,7% aukning).
Boðberatalan í heiminum hækkaði í 3.024.131 (6,4% aukning).
Alls var farið í 224.725.918 endurheimsóknir til áhugasamra á árinu (14,8% aukning).
Haldin voru 2.379.146 heimabiblíunám á mánuði (16,2% aukning).
[Myndir]
Nokkrir brautryðjendur leggja af stað í starfið hús úr húsi í Brooklyn í New York.
Mót í Montreal í Kanada. Dagskrá var flutt á 14 tungumálum.
Borið vitni í Castle Comb í Wiltshire á Englandi.
Námshópur á eynni Yap í Míkrónesíu.
Nokkrar byggingar notaðar til stuðnings hinu víðtæka, andlega byggingarstarfi í heiminum.
Biblíur og biblíurit eru send frá þessari 93.000 fermetra byggingu við Furman Street 360 í Brooklyn.
Þessi Ríkissalur í Downpatrick á Norður-Írlandi var reistur á 31 klukkustund.
Þessi mótshöll í Róm er ein af fjölmörgum sem eru í notkun víða um heim.
Verið er að reisa þessa viðbyggingu við Betelheimilið í Japan.
[Tafla á blaðsíðu 17]
Átta lönd skýrðu frá yfir 100.000 boðbera hámarki árið 1985.
Bandaríkin 723.220
Brasilía 177.904
Mexíkó 173.037
Ítalía 127.526
Nígería 121.729
Þýskaland 115.604
Bretland 103.522
Japan 103.117