Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dagar eins og „dagar Nóa“

Dagar eins og „dagar Nóa“

Dagar eins og „dagar Nóa“

„Jörðin fylltist glæpaverkum . . . hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.“ — 1. MÓSEBÓK 6:11, 12.

1, 2. (a) Hvers konar glæpir og ofbeldi blasa við vottum Jehóva nú á dögum? (b) Við hvaða tækifæri hafa þjónar Guðs leitað hughreystingar í upprisuvoninni?

 GLÆPAVERK og ofbeldi! Eins og á dögum Nóa er ofbeldi og glæpir núna orðið daglegt brauð. Jafnvel þeir sem ganga með hinum sanna Guði, eins og Nói, eru ekki óhultir fyrir þeim. Athygli heimsins var vakin harkalega á því þann 21. júlí á síðastliðnu ári þegar einn af ríkissölum votta Jehóva í Sydney í Ástralíu var gereyðilagður af völdum sprengju meðan verið var að flytja opinbera biblíuræðu um hollustu við Guð og fjölskylduna. Einn vottur lét lífið. Yfir 40 voru fluttir á spítala. Þeir hafa allir náð sér en sumir bera þó ljót ör eftir þetta glæpaverk. Rannsóknarlögreglumaður sagði: „Það voru 110 manns í húsinu, og það er hreint kraftaverk að ekki skuli vera 110 látnir.“

2 Í öðrum löndum heims — svo sem á Norður-Írlandi, Líbanon og El Salvador — boða vottar Jehóva „fagnaðarerindið“ undir stöðugu ofbeldisástandi. Fáeinir hafa fallið, sumir þegar þeir voru úti í þjónustunni. Í ýmsum löndum hafa „tími og tilviljun,“ svo sem slys og jarðskjálftar, líka kostað dýrmæt mannslíf. Þjónar Jehóva hafa þá látið upprisuvonina hughreysta sig. — Prédikarinn 9:11; 1. Þessaloníkubréf 4:13, 14.

3. (a) Hvað getur komið fyrir suma af þjónum Jehóva eins og Lúkas 21:16 og nýlegir atburðir gefa til kynna? (b) Hvaða tryggingu höfum við fyrir vernd Guðs í ‚þrengingunni miklu‘?

3 Þess er skemmst að minnast að skæður jarðskjálfti varð í Mexíkó. Alls 23 vottar og félagar voru í hópi þeirra 5000 sem létu lífið. Á Púertó Ríkó létust um 300 af völdum flóða og skriðufalla, þeirra á meðal 7 vottar og félagar. Gefur þetta til kynna að Jehóva hafi brugðist í því að veita sumum af þjónum sínum vernd? Engan veginn. Við erum ekki ónæmir fyrir slysum og hörmungum. Jesús aðvaraði lærisveina sína í sambandi við ofsóknir og sagði: „Sumir yðar munu líflátnir.“ Hundruð bræðra okkar féllu fyrir glæpahendi hins nasíska Hitlers. Jehóva mun minnast allra slíkra þjóna sinna í upprisunni. Þegar hin „mikla þrenging,“ sem boðuð er, steypist yfir jörðina mun Jehóva hins vegar sýna að hann er fær um að bjarga þeim sem ákalla nafn hans eins og hann gerði á dögum Nóa. — Lúkas 21:16-19; Matteus 24:14, 21, 22, 37-39; Jesaja 26:20, 21; Jóel 2:32; Rómverjabréfið 10:13.

4. Hvernig er ástandið núna í samanburði við það sem lýst er í 1. Mósebók 6:11, 12?

4 Allt frá 1914 hefur ofbeldi og glæpir verið í algleymingi á jörðinni. Hundruð milljónir manna hafa fallið í styrjöldum og hamförum þessarar aldar. Sjórán, flugrán, sprengjuárásir hryðjuverkamanna, fjöldamorð og kynþáttahatur hefur verið sem plága á mannkyninu, og stórauknar birgðir kjarnorkuvopna hafa ógnað tilveru þess. Svo sannarlega eru þetta „örðugar tíðir“ með „angist þjóða, ráðalausra.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Lúkas 21:25) Allt í kringum þjóna Jehóva nú á dögum geisar hins vegar önnur plága sem er miklu skæðari en glæpir og ofbeldi, þótt hún sé oft tengd slíku. Rekja má sögu hennar meira en 4300 ár aftur í tímann til daga Nóa. Hvaða plága er það?

Trú Nóa mitt í spillingunni

5, 6. (a) Hvernig spillti Satan mannkyninu? (b) Á hvaða hátt skáru Nói og fjölskylda hans sig úr heiminum umhverfis?

5 Allt frá uppreisninni í Eden hefur Satan djöfullinn verið ákveðinn í að ‚afvegaleiða alla heimsbyggðina.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Jehóva hefur boðið karli og konu að nota kynfæri sín og kynhvöt á heiðvirðan hátt innan vébanda hjónabands, í því skyni að ‚uppfylla jörðina‘ sinni tegund. (1. Mósebók 1:28; Hebreabréfið 13:4) En djöfullinn tók til við að spilla mannkyninu með ónáttúrlegu kynlífi. Hvernig? Sumir andasona Guðs slógust í lið með Satan í uppreisn hans. Þeir urðu ‚illir andar‘ og áttu sér Satan að ‚höfðingja.‘ (Lúkas 11:15) Og í hverju fólst starfsemi illu andanna þá? Þeir stigu niður til jarðar, mynduðu sér efnislíkama og höfðu mök við hinar fríðu dætur mannanna. Afleiðingarnar urðu skelfilegar!

6 Þetta samband olli því að til urðu kynblendingar, holdlegir risar sem voru að hálfu djöflar og að hálfu menn. Þetta voru hinir morðgjörnu ‚risar.‘ Frásagan segir um áhrif þeirra: „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.“ Ofbeldi, glæpir og siðspilling var svo útbreidd að einungis Nói fékk þennan vitnisburð: „Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.“ Eiginkona hans, synir og konur þeirra — og þau ein af öllu mannkyninu — sýndu trú og guðsótta. Ljóst er að fjölskylda Nóa hafði ekki spillst af siðspillingu samtíðarinnar. — 1. Mósebók 6:4, 9-12.

7. Hvernig dæmir Jehóva vonda og réttláta eins og í ljós kom á dögum Nóa? (Samanber Matteus 25:40, 45, 46.)

7 Jehóva afmáði þennan ofbeldisfulla, kynóða og djöfullega heim. Með því að senda flóðið mikla skolaði hann öllu hinu illa burt. Hinir risavöxnu kynblendingar og spilltir menn sópuðust í dauðann, en fyrrverandi synir Guðs, sem orðnir voru illir andar, forðuðu sér yfir á hið andlega tilverusvið — til að bíða dóms Guðs yfir sér. Þó fórust ekki allir! Nóa og fjölskyldu hans var þyrmt. Og hvers vegna? Vegna trúar sinnar sem birtist í verkum með smíði arkarinnar og því að prédika réttlæti í þessum fordæmda heimi. — 2. Pétursbréf 2:4, 5.

Nútímamenn, varið ykkur!

8. Á hvaða vegu eru dagar Nóa táknmynd um okkar daga?

8 Dagar Nóa fyrirmynda okkar daga. Hvernig vitum við það? Jesús sagði fyrir sams konar ofbeldi, lögleysi og kærleiksleysi sem vera myndi hluti ‚táknsins‘ um að við stæðum við þröskuld þeirrar ‚miklu þrengingar, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘ Hann sagði líka: „En þann dag og stund veit enginn, . . . nema faðirinn einn.“ Síðan bætti hann við: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:3-21, 36-39.

9. Hvernig forðumst við sama hlutskipti og þeir sem ‚vita ekki af‘?

9 Já, „þeir vissu ekki,“ gáfu engan gaum því sem í vændum var. En þú þarft ekki að líkjast þeim. Þú getur komist undan þegar Drottinn Jesús opinberast af himni og fullnægir dómi Guðs með því að tortíma eilíflega ‚þeim sem þekkja ekki Guð og hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.‘ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Þú þarft ekki að vera eins og fólkið í heiminum sem hugsar fyrst og fremst um að þjóna sjálfu sér, komast í álit eða efni en hugsar alls ekkert um Guð. Segja má með sanni að ‚Guð þeirra sé maginn.‘ — Filippíbréfið 3:19.

‚Hatið hið illa‘

10, 11. (a) Hvaða lesti þarf að forðast til að hljóta hylli Guðs? (b) Hvaða hertygjum verðum við að klæðast og hvers vegna?

10 Á hinum síðustu dögum snýst líf margra um kynlíf innan eða utan hjónabands. Hjónaskilnaðir og ógilding hjónabanda eru daglegt brauð. Í trássi við afdráttarlausa aðvörun lærisveina Jesú iðka margir innan kristna heimsins kynvillu. Nú þegar taka sumir þeirra „út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar“ í mynd ónæmistæringar og annarra samræðissjúkdóma. En jafnvel slíkt fólk gæti öðlast von um hjálpræði. Munum að Jesús fór lofsamlegum orðum um vændiskonur sem hættu spilltu líferni og tóku trú á hann, ólíkt hinum stoltu, iðrunarlausu trúarleiðtogum samtíðarinnar. — Rómverjabréfið 1:26, 27; 2. Pétursbréf 2:9, 10; Júdasarbréfið 6, 7; Matteus 21:31, 32.

11 Hver sá af þjónum Jehóva, sem hefur smitast af eða finnst freistandi að gefa sig að siðlausum athöfnum, verður að vakna og klæðast öllum þeim hertygjum sem Guð sér fyrir! (Efesusbréfið 6:11-18) Okkar tímar eru svo sannarlega ‚eins og dagar Nóa.‘ Hið „öskrandi ljón,“ djöfullinn, og spilltir, illir andar hans vinna dag og nótt að því að reyna að einangra þjóna Guðs og hremma í gildru. Við verðum að standa gegn þessum óvinum, stöðugir í trúnni. — 1. Pétursbréf 5:8, 9.

12. Hvers vegna er mikilvægt að fylgja ráðinu í Sálmi 97:10?

12 Þótt ótrúlegt kunni að virðast hafa meira að segja nokkrir, sem verið hafa áberandi í skipulagi Jehóva, gerst sekir um siðleysi, þar á meðal kynvillu, konuskipti og kynferðisafbrot gagnvart börnum. Rétt er að nefna einnig að á síðastliðnu ári þurfti að gera 36.638 einstaklinga ræka úr kristna söfnuðinum, meirihlutann fyrir að stunda siðleysi. Halda verður skipulagi Jehóva hreinu! (1. Korintubréf 5:9-13) Núna er nauðsynlegt fyrir safnaðaröldunga, safnaðarþjóna, og raunar alla bræður okkar og systur, að forðast hverjar þær kringumstæður sem gætu leitt til siðleysis. Jehóva mun umbuna þjónum sínum hollustu við staðla sína eins og Sálmur 97:10 segir: „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.“

13. Hvaða heilræði gefa postularnir Páll og Pétur?

13 Í síðasta lagi í ‚þrengingunni miklu‘ verða allir ‚viðurstyggilegir‘ fjarlægðir. Við verðum að gæta þess vendilega að hata, já, fyrirlíta og forðast spillingu heimsins! Við verðum að ‚flýja saurlifnaðinn‘! (Opinberunarbókin 21:8; 1. Korintubréf 6:9, 10, 18) Eftir að Pétur postuli hefur varað við fráhvarfsmönnum, sem sá efasemdum, minnir hann á hversu öruggt sé að ‚dagur Jehóva‘ komi og hvetur okkur til að „ganga fram í heilagri breytni og guðrækni.“ Hann bætir við: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr. Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.“ Það mun veita okkur mikla gleði að komast inn á hina ‚nýju jörð‘ þar sem Guð mun ‚gera alla hluti nýja‘ og hreina! — 2. Pétursbréf 3:3-7, 10-14; Opinberunarbókin 21:1, 4, 5.

Lærum af öðrum ‚aðvarandi fordæmum‘

14. Hvers vegna var hreinsunin í flóðinu aðeins tímabundin?

14 Eftir að flóðið mikla hafði hreinsað jörðina af öllum saurugleik af völdum illra anda og manna endurtók Jehóva þá tilskipun, sem hann hafði í fyrstu gefið Adam, og sagði við Nóa og syni hans: „Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ (1. Mósebók 9:1) Þeir urðu ættfeður hinna 70 ‚ættkvísla‘ — en sú tala táknar fullkomleika — sem taldar eru upp í 10. kafla 1. Mósebókar. Mannkynið leið þó enn fyrir áhrif erfðasyndarinnar frá Adam, og bersýnilega leiddu áhrif illra anda það aftur út í siðspillingu.

15. Hvað lærum við af dómi Guðs yfir Sódómu?

15 Að því kom að „vinur Jehóva,“ Abraham, fluttist ásamt frænda sínum, Lot, til Kanaansvæðisins. Lot kaus að setjast að á Jórdansléttlendinu sem var ‚eins og aldingarður [Jehóva].‘ En var þetta líka siðferðileg paradís? Því fer fjarri. Borgin Sódóma, þar sem Lot settist að, og grannborgin Gómorra voru djúpt sokknar í kynvillu. Ekki fundust einu sinni tíu réttlátir menn þar. Af þeirri ástæðu leiddi Jehóva „hegningu eilífs elds“ yfir þessar siðspilltu borgir. Þær verða aldrei endurreistar! Jesús vísaði til dóms Guðs yfir Sódómu, ásamt þess sem gerðist „á dögum Nóa,“ til að undirstrika nauðsyn þess að vera á varðbergi! — 1. Mósebók 13:10; 18:32; Júdasarbréfið 7; Lúkas 17:26-30.

16. Hvaða starfsemi illra anda kallar á harða baráttu fyrir trúnni?

16 Látum ekki villast! Satan og illir andar hans leika enn lausum hala! Þótt þessum spilltu öndum hafi verið steypt niður í „myrkrahella“ og sé meinað að íklæðast líkama af holdi eru þeir enn sem fyrr einráðnir í að spilla mönnum, og þó einkum þjónum Jehóva. (2. Pétursbréf 2:4-6) Enginn vafi leikur á að illir andar höfðu áhrif á Kanaan og komu honum til að fremja siðlausan verknað sinn gagnvart afa sínum, Nóa. (1. Mósebók 9:22-25) Þeir hljóta að hafa valdið þeirri siðspillingu sem varð ‚háttur Kanaanlands‘ og olli því að landið spjó að síðustu íbúum sínum. (3. Mósebók 18:3-25) Á sama hátt ýta illir andar undir óeðlilegar kynferðisathafnir sem hrjá svo mörg samfélög nú á dögum. Í hinni hörðu baráttu trúarinnar verðum við að verjast sérhverri árás þessara föllnu engla sem gerð er í því skyni að koma mönnum til að ‚drýgja saurlifnað og stunda óleyfilegar lystisemdir.‘ — Júdasarbréfið 3, 6, 7.

Byggt til verndar

17. Hvernig getum við, eins og Nói og fjölskylda hans, sýnt að við tilheyrum ekki heiminum?

17 Hvernig getum við fundið leiðina til björgunar ef haft er í huga hversu alvarlegir okkar tímar eru? Nú, hvað gerði Nói og fjölskylda hans til að bjargast? „Fyrir trú . . . dæmdi [Nói] heiminn.“ (Hebreabréfið 11:7) Eins er það núna að vottar Jehóva ‚heyra ekki heiminum til.‘ Auk þess höfum við látið í ljós trú okkar með því að vígja líf okkar Jehóva og láta skírast í vatni til að verða lærisveinar Jesú Krists. — Jóhannes 17:14, 16; Matteus 28:19.

18. Hvað táknaði smíði arkarinnar?

18 Enn fremur tökum við þátt í starfi Jehóva, sem vinna á nú á dögum, andlegu byggingarstarfi stjórnað af hinum meiri Nóa, Jesú Kristi. Örkin var á sínum tíma staður öryggis og björgunar, og hún táknar þá andlegu paradís sem Jehóva hefur verið að byggja upp meðal dýrkenda sinna frá árinu 1919. Þetta er ástand fólgið í endurheimt friðsælla samskipta við Guð. Það er ráðstöfun hans til verndar fjölskyldu hins meiri Nóa í gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ — Matteus 24:21; 1. Korintubréf 3:9, 11; 2. Korintubréf 12:3, 4; Opinberunarbókin 7:13, 14.

19. Hvað fyrirmyndar Nói, fjölskylda hans og starf þeirra?

19 „Nói fann náð í augum [Jehóva].“ Hann er ágætt tákn um Jesú Krist sem gekk í auðmýkt með Guði hér á jörðinni og gerði ekkert af sjálfum sér! (1. Mósebók 6:8; Matteus 17:1, 5; Jóhannes 8:28) Báðir voru prédikarar réttlætisins — góð fyrirmynd öllum vottum Jehóva. Og við getum verið viss um að kona Nóa, táknmynd hinna smurðu leifa sem nú eru á jörðinni, var pýðisfyrirmynd um undirgefni. (2. Pétursbréf 2:5; Lúkas 4:14-19; Efesusbréfið 5:21-24) Þegar við hugleiðum hversu risavaxið verkefni það var að smíða örkina, sem þau björguðust í, getum við gert okkur í hugarlund hversu glaður hinn aldraði Nói hlýtur að hafa verið yfir því að hafa sér til aðstoðar þrjá atorkusama syni og konur þeirra! Þau eru viðeigandi táknmynd hins ‚mikla múgs‘ okkar tíma sem bera að stórum hluta uppi hið andlega byggingarstarf nú við síðustu ‚rástalningu‘ þess sem flóðið táknaði. — Opinberunarbókin 7:9, 15.

20, 21. (a) Hvaða framtíð bíður dýrkenda Jehóva á hreinsaðri jörð? (b) Hvaða gleði er hægt að njóta nú þegar?

20 Þegar þessi jörð hefur verið hreinsuð og bíður þess að verða breytt í paradís, má vera að þeir sem synir Nóa og tengdadætur táknuðu geti um tíma eignast börn í réttlæti. Þá mun það kraftaverk sem upprisan er uppfylla jörðina endanlega. Öllum sem þiggja þau sérréttindi að verða ‚aðrir sauðir‘ Jesú verður lyft upp til fullkomleika, og þegar þeir standast lokaprófunina eftir að Kristur afhendir föðurnum ríkið verða þeir lýstir réttlátir til eilís lífs. — Jóhannes 5:28, 29; 10:16; 1. Korintubréf 15:24-26; Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 20:7, 8.

21 Trúfastir dýrkendur Jehóva eiga mikla gleði í vændum! En nú þegar er mikil gleði fólgin í hugheilli þátttöku í smíði þeirrar „arkar“ sem verða mun til björgunar nú á tímum. Hvernig miðar því verki? Námsgreinin hér á eftir mun svara því.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig ættu atburðir fyrir flóðið að vera okkur aðvörun?

◻ Hvaða lærdóm ættum við að draga af Matteusi 24:37-39?

◻ Hvers vegna er svona mikilvægt að ‚hata hið illa‘?

◻ Hvernig getum við átt þátt í að byggja upp það sem örkin var fyrirmynd um?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 8]

EINS OG ‚DAGAR NÓA‘

„Aðeins 40 af hundraði háskólakennara í trúfræðum . . . telja kynmök ógiftrar konu og karlmanns siðlaus.“ — Saturday Oklahoman & Times 29. desember 1984.

[Rammagrein á blaðsíðu 9]

Eru lög Biblíunnar virt?

Biskupakirkjuprestur hlýddi á útfararræðu sem einn votta Jehóva flutti. Í boði prestsins áttu tveir þjónar orðsins frá Varðturnsfélaginu viðræðufund eftir á með nokkrum klerkum í Brooklyn Heights í New Yorkborg.

Kynvilla var eitt af því sem kom til umræðu. Vottarnir bentu á að Biblían banni slíkt og að þeir rækju úr söfnuðum sínum þá sem iðka einhvers konar siðleysi. (Rómverjabréfið 1:23-27; 1. Korintubréf 6:9, 10; Júdasarbréfið 7) Vottarnir spurðu síðan klerkana um afstöðu þeirra til þessa máls og fengu eftirfarandi svör:

Prestur Safnaðarkirkjunnar: „Ég held að við höfum bannfæringarregluna einhvers staðar í kirkjulögunum, en hamingjan góða, ég man ekki til að við höfum nokkurn tíma beitt því ákvæði!“

Prestur Biskupakirkjunnar: „Ef við framfylgdum þessum lögum yrðu engin sóknarbörn eftir.“

Prestur kaþólsku kirkjunnar: „Ef við framfylgdum þessum lögum yrðu engir prestar eftir.“

Vera má að þessir prestar hafi tekið fulldjúpt í árinni, en hvað sem því líður fagna vottar Jehóva því að hafa skýra og ákveðna stefnu í því að halda söfnuðinum hreinum. Þeir ‚heyra ekki heiminum til.‘ — Jóhannes 15:19.

[Rammi á blaðsíðu 10]

EINS OG ‘DAGAR NÓA‘

„Opnaður hefur verið á Manhattan í New Yorkborg ríkisskóli fyrir kynvillta.“ Kennari við skólann sagði: „Við vildum skapa umhverfi þar sem kynhverfir krakkar yrðu ekki skotspónn óþroskaðra táninga.“ — The New York Times, 6. júní 1985.

[Rammi á blaðsíðu 11]

EINS OG ‚DAGAR NÓA‘

„Meðlimir Riverside-kirkjunnar tóku í gær þá afstöðu að viðurkenna kynvillusambönd sem eðlilegan þátt í kristnu fjölskyldulífi.“ — New York Post, 3. júní 1985.