Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hvenær?
Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hvenær?
ÞAÐ er næstum eins og að lesa nýjustu dagblöðin — styrjaldir, jarðskjálftar, drepsóttir, sjúkdómar, hungur, glæpir og ótti! Um allt þetta og margt fleira er spáð í Biblíunni. Þessir atburðir auðkenna þá tíma, sem við lifum, sem ‚hina síðustu daga.‘ Með því er átt við það tímabil sem er undanfari hinna yfirvofandi og fyrirheitnu heimsslita Opinberunarbókarinnar. Hvernig getum við verið viss um það?
Þú ert sjónarvottur að uppfyllingu biblíuspádómanna núna. „Þú verður að horfast í augu við staðreyndirnar,“ segir Biblían, „síðustu tímar þessa heims eiga að vera erfiðleikatímar. Menn munu ekkert elska nema peninga og sjálfa sig; þeir verða hrokafullir, raupsamir og lastmálir; bera enga virðingu fyrir foreldrum, hafa ekkert þakklæti til að bera, enga guðrækni, enga eðlilega ástúð; þeir verða . . . ókunnir allri góðvild, . . . uppblásnir af sjálfbirgingshætti. Þeir verða menn sem setja skemmtun í stað Guðs, menn sem halda hinu ytra formi trúarinnar en eru stöðug afneitun þess að hún sé raunveruleg. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, The New English Bible) Blasir ekki þetta ástand við hvert sem litið er?
Margir núlifandi menn, kannski meira að segja þú, muna þá tíma þegar ástand mála var ekki jafnslæmt og það nú er. Fólk var tillitssamara hvert við annað. Börn báru
meiri virðingu fyrir foreldrum sínum og þeim sem eldri voru. Karlar, konur og börn voru ekki hrædd við að ganga um göturnar, meira að segja að nóttu til. En tímarnir breytast ört. Jafnvel þótt ástandið virðist ekki að öllu leyti slæmt þar sem þú býrð hefur möguleikinn á kjarnorkustyrjöld — af völdum valdafíknar mannsins — áhrif á okkur öll.Já, alveg eins og Guð hefur í gegnum orð sitt, Biblíuna, spáð skýrt og greinilega um hina ‚síðustu tíma þessa heims,‘ eins hefur hann gefið okkur upplýsingar um það hvenær heimsslitin verði þegar Jesús kemur til að fullnægja dómi.
Nær en margir halda
„Nú boða ég nýja hluti,“ segir Guð, „og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.“ (Jesaja 42:9) Já, hann hefur í Biblíunni greint okkur frá þeim helstu atburðum sem verða munu skömmu fyrir heimsslitin.
Til dæmis talaði Jesús um boðskap sem fluttur yrði um allan heim og tengdist heimsslitunum. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessi „endir“ felur í sér heimsslitin. Vottar Jehóva verja nú hundruðum milljóna klukkustunda ár hvert við að boða boðskapinn um Guðsríki kostgæfilega hús úr húsi og með hverjum öðrum aðferðum, sem gerlegt er, í liðlega 200 löndum um allan hnöttinn!
Jesús dró upp athyglisverða hliðstæðu til gagns fylgjendum sínum, þegar hann líkti tímanum fyrir heimsslitin við dagana fyrir Nóaflóðið. Á tímum Nóa voru menn svo niðursokknir í að eta og drekka og skemmta sér að þeir „vissu ekki,“ tóku ekki eftir boðskap Nóa um hina yfirvofandi eyðingu. Þeir létu aðvaranir hans sem vind um eyru þjóta. — Matteus 24:37-39.
Okkar dagar eru mjög hliðstæðir því ástandi sem ríkti fyrir flóðið! Fólk er svo upptekið af sínu daglega amstri að það gefur ekki gaum aðvörunum og sönnunargögnum þess að heimsslitin nálgist.
Heimsslitin eru samt sem áður nær en margir halda. Talandi um táknin um hina síðustu daga sagði Jesús: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ (Matteus 24:34) Hvaða kynslóð var Jesús að tala um?
Kynslóðin frá 1914
Fyrrum forsætisráðherra Breta, Harold Macmillan, talaði einu sinni um hið „tiltölulega friðsama og hagstæða Viktoríutímabil á Stóra-Bretlandi,“ og sagðist hafa álitið ‚þann heim, sem hann fæddist í,‘ hafa farið stöðugt batnandi. En „skyndilega, óvænt, morgun einn árið 1914 leið þetta allt saman undir lok.“ Macmillan sagði að fyrri heimsstyrjöldin hefði bundið enda á „hundrað ár friðar og framfara,“ og markað „endalok aldar“ og „upphaf ringulreiðar sem enn er við lýði.“ Margir fleiri, einkum þeir sem lifðu fyrri heimsstyrjaldarárin og eru enn á lífi, geta staðfest það.
Eins og þetta tímarit hefur vakið athygli lesenda sinna á um áraraðir hníga öll rök að því að kynslóðin frá 1914 sé sú kynslóð sem Jesús talaði um. * Því mun „þessi kynslóð . . . ekki líða undir lok, uns allt þetta [þar á meðal heimsslitin] er komið fram.“
Jafnvel þótt yfir sjö áratugir séu liðnir frá 1914 er enn á lífi fólk sem lifði þann tíma. Að sögn tímaritsins The American Legion Magazine frá desember 1984 eru enn á lífi í Bandaríkjunum um 272.000 uppgjafahermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni. Allnokkur fjöldi er einnig á lífi í öðrum löndum. Þeim fækkar þó ört. Hve langt er þangað til síðasti uppgjafahermaður úr fyrri heimsstyrjöldinni hverfur af sjónarsviðinu?
Þótt þessar upplýsingar beini athygli okkar að því að kynslóðin frá 1914 á
skammt eftir, brennur sú spurning á vörum okkar hvort við getum ekki tímasett heimsslitin nákvæmar.„Sem þjófur á nóttu“
Biblían aðvarar: „Um tíma og tíðir hafið þér . . . ekki þörf á að yður sé skrifað. Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu.“ (1. Þessaloníkubréf 5:1, 2) Tæplega er við því að búast að þjófur sendi símskeyti til að tilkynna hvenær hann ætli að brjótast inn hjá þér.
Jesús ráðleggur okkur því í sambandi við daginn og stundina: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Markús 13:32-37) Samt sem áður höfum við séð að Jesús lýsti ýmsum atburðum sem auðkenna nákvæmlega kynslóðina frá 1914. Biblían lýsir auk þess ókomnum atburðum sem munu verða merki þess að heimsslitin vofi yfir. Hvers megum við vænta?
Óvænt atburðarás
Páll postuli sagði: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ (1. Þessaloníkubréf 5:3) Þegar við nálgumst lokaþátt hinna ‚síðustu daga‘ megum við því búast við að ‚friði og öryggi‘ verði sérstakur gaumur gefinn, eins og orð Páls bera með sér. Hvað tekur svo við?
Spádómar Biblíunnar lýsa því að trúmálaheimsveldið, nefnt „Babýlon hin mikla,“ verði skyndilega fyrir árás stjórnmálaafla jarðarinnar og hljóti snöggleg endalok! (Opinberunarbókin 17:5, 16; 18:10, 17) Þá er runnin upp „sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) En hvaða áhrif mun þetta hafa á þá sem hafa ‚vakað‘ og verið á verði fyrir heimsslitunum?
Sannkristnir menn geta treyst því að Jehóva muni frelsa þá. (2. Pétursbréf 2:9) Svo lengi sem þeir þekkja Jehóva Guð og þjóna honum í óeigingirni þurfa þeir ekkert að óttast þegar Guð og Kristur ganga fram til að heyja Harmagedónstríðið. — Opinberunarbókin 11:17, 18; 16:14, 16.
Þessu næst munu heimsslitin hafa í för með sér að Satan djöfullinn og ósýnilegar sveitir hans verða teknar úr umferð og tengslum við mannkynið. (Opinberunarbókin 20:2, 3) Já, hin komandi reiði mun ekki láta við það sitja að losa jörðina við fólk sem ekki vill þjóna Guði. Jafnvel illir andar, sem nú hafa áhrif á heiminn umhverfis okkur, munu fjarlægðir. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Það mun hafa í för með sér eilífa blessun fyrir þá sem lifa heimsslitin af.
Heimsslitin — undanfari paradísar
Opinberunarbók Biblíunnar segir okkur að Guð muni „þerra hvert tár af augum“ jarðarbúa. „Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Biblían opinberar okkur að við þurfum ekki að óttast skuggalegan eftirleik heimsslitanna heldur munu þau opna manninum leið til að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Sálmur 37:9-11, 29.
Paradís? Eilíft líf á jörðinni? Reyndu að sjá fyrir þér fullkomlega heilbrigt, hamingjusamt fólk af öllum kynþáttum sem nýtur þess til hins ýtrasta að lifa og vera til! ‚Hvernig gætu heimsslitin haft það í för með sér?‘ spyrð þú kannski. Guð hefur gefið okkur loforð fyrir því. Það verður með það eins og samskipti Guðs við Ísraelsþjóðina þegar „ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim er [Jehóva] hafði gefið . . . Þau rættust öll.“ — Jósúa 21:45.
Enginn veit því nákvæmlega hvaða dag eða stund heimsslitin verða, en öll rök eru á þá lund að við lifum núna heimsslitatímann. Þegar þau koma, megum við þá vera vakandi og ‚vör um okkur,‘ því að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — Markús 13:33, 37; 1. Jóhannesarbréf 2:17; Matteus 24:36.
[Neðanmáls]
^ Nánari upplýsingar um 1914 er að finna í bókinni Let Your Kingdom Come, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., 14. kafla.