Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hver eru þau?

Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hver eru þau?

Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hver eru þau?

„HEIMSSLIT Opinberunarbókarinnar!“ Hvað dettur þér í hug þegar þú sérð eða heyrir þessi orð? Dómsdagur? Alheimsbál? Þriðja heimsstyrjöldin? Heimsendir? Ef þetta kemur upp í huga þér ert þú ekki einn um það. Fjölmiðlar og vísindi draga upp dökka mynd af framtíð mannkynsins. Það er því tæpast nokkur furða að margir skuli setja heimsslit Opinberunarbókarinnar í samband við einhverjar stórkostlegar hamfarir.

„Heimsslit nú á dögum eru ekki bara lýsing í Biblíunni heldur mjög raunverulegur möguleiki,“ aðvaraði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Pérez de Cuéllar í innsetningarræðu sinni. „Aldrei áður í sögunni hefur okkur verið stillt upp á hvassa brún sem skilur á milli hörmulegra endaloka og björgunar.“ Hvað var hann að tala um? Hann var að tala um átök, þar sem beitt yrði kjarnorkuvopnum, er kæmu til af hinu aukna vígbúnaðarkapphlaupi okkar tíma. Til að undirstrika aðvörun sína til Sameinuðu þjóðanna sagði hann að „500.000 vísindamenn út um allan heim helgi kunnáttu sína leitinni að háþróaðri og banvænni vopnum.“

Margir fleiri gera sér ljóst hvert ástand mála er. Hans Jonas, fyrrum prófessor í heimspeki við New School for Social Research, segir að mest af öllu óttist hann „yfirvofandi heimsslit af völdum þess hvers eðlis hin óviljandi öfl tæknisiðmenningarinnar eru.“ Hann setur heimsslitin í samband við ‚þurraustur, mengun og eyðileggingu reikistjörnunnar, svo og ógnunina um skyndilega eyðingu af völdum atómsprengjunnar.‘

Sagnfræðingurinn Golo Mann tók í sama streng: „Við megum ekki við annarri heimsstyrjöld. Styrjöld er ekki rétta orðið. Við ættum að banna orðin ‚þriðja heimsstyrjöldin‘ og segja í staðinn heimsslit eða alheimsbál.“ — Die Zeit í Hamborg þann 30. ágúst 1985.

Já, mönnum er ljóst að mannkynið rambar á barmi sjálfstortímingar. En mun maðurinn hleypa af stað heimsslitum Opinberunarbókarinnar? Ekki að sögn Biblíunnar sem segir að ‚Jehóva Guð, hinn alvaldi‘ — ekki maðurinn — muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:17, 18) Skilningur á því hvað Biblían á við með hugtakinu heimsslit getur því gerbreytt viðhorfum þínum og gefið þér nýja og betri von en þú hafðir áður.

Það sem þau raunverulega eru

Heimsslitunum er lýst í bréfi til Þessaloníkumanna. Þar segir Páll postuli: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.

Heimsslitin eru því opinberun Jesú sem verður samtímis ‚þrengingunni miklu.‘ (Matteus 24:21) Samkvæmt An Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine er gríska orðið apokalypsis, sem á ýmsum tungumálum er annað heiti Opinberunarbókarinnar og merkir einnig heimsslit, notað um „Drottin Jesú Krist þegar hann kemur til að fullnægja dómi Guðs.“ Annars staðar lýsir Biblían opinberun hans sem ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21. *

Að því er heimsslit Biblíunnar varðar höfum við að vísu séð að hún talar um „þrengingu“ og „hegningu.“ En hún talar líka um „hvíld“ til handa því saklausa fólki sem hefur mátt þola þrengingar. Orð Guðs lofar að ‚innan stundar verði engir guðlausir til framar.‘ (Sálmur 37:10) Heimsslit Opinberunarbókarinnar munu því losa mannkynið við öll ill áhrif. Þau munu verða straumhvörf til hins betra fyrir hjartahreint fólk — ekki atburður sem það þarf að óttast.

Heimsslitin verða því ekki gereyðing, alger útrýming, heldur réttlát lausn á vandamálum mannkynsins. Höfðar ekki sú hugmynd til þín og fjölskyldu þinnar að lifa nýja tíma — tíma réttlætis, friðar og þæginda?

En eru heimsslit Biblíunnar í nánd? Ef svo er, getum við þá vitað nákvæmlega hvenær þau koma?

[Neðanmáls]

^ Sjá einnig greinina um Megiddó á bls. 21-24 í enskri útgáfu Varðturnsins þann 15. febrúar 1986.