Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum
Orð Guðs er lifandi
Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum
SKAPARI okkar vill að við njótum hinnar dýrmætu gjafar sem lífið er. Í þeirri bók Biblíunnar, sem nefnist Prédikarinn, segir hann: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, . . . og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast.“ Sú stefna sem þú tekur í æsku þinni, til að fullnægja löngunum hjartans og augnanna, mun samt sem áður hafa áhrif á það hvernig Guð dæmir þig. Ungt fólk fær því þessa hvatningu hér: „Hrind gremju [eða tilefni áhyggna] burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum.“
Hvernig geta unglingar forðast að láta ‚böl koma nærri líkama sínum,‘ og hlotið réttlátan dóm — til ‚eilífs lífs‘? (Rómverjabréfið 6:23) Í hvatningunni, sem á eftir kemur, er sýnt fram á hvernig ungt fólk getur gert það: „Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma.“
Hverjir eru „vondu dagarnir“ eða árin þegar þeir sem ekki muna eftir skapara sínum segja: „Mér líka þau ekki“? Ritari Prédikarans átti við elliárin þegar líkaminn veiklast og líffærin byrja að gefa sig og hætta að starfa rétt og vel. Prédikarinn lýsir þessum ‚vetri‘ lífsins með táknmáli — eins og til dæmis að sólin, tunglið og stjörnurnar myrkvist og ský alls kyns krankleika hrannist upp og auki erfiðleika mannsins.
Þessu tímabili ævinnar er einnig lýst þannig: „Þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana, og dyrunum út að götunni er lokað, . . . og engispretturnar dragast áfram.“
Áttaðir þú þig á þessari samlíkingu? Hið táknræna ‚hús‘ er mannslíkaminn. Þeir sem „hússins geyma,“ gæta þess, eru handleggir og hendur sem verða óstyrkar og skjálfandi í ellinni. Fótleggirnir — „sterku mennirnir“ — eru bognir á elliárunum og eiga erfitt með að halda líkamanum uppi. Tennurnar — „kvarnarstúlkurnar“ — eru ekki lengur færar um að vinna verk sitt. Þær „hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar.“
Hvað um augu hins aldraða? Orðið er „dimmt“ að líta út um þessa ‚glugga‘ líkamans þar eð sjóninni hrakar. ‚Dyr‘ munnsins opnast ekki mikið framar til að lýsa því sem býr í húsinu eða líkamanum. Sökum ellihrörnunar getur gamall maður líkst nokkuð engisprettu þegar hann mjakar sér áfram með erfiðismunum.
Þegar dauðann ber að garði slitnar „silfurþráðurinn . . . og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina.“ Með ‚silfurþræðinum‘ virðist átt við mænuna og „gullskálin“ er heilinn. „Skjólan“ táknar hjartað sem tekur við lífsblóðinu og viðheldur hringrás þess um líkamann. Ellin hefur áhrif á öll þessi líffæri. Að síðustu hnígur maðurinn látinn í duftið. — Prédikarinn 11:9-12:7.
Hinir vondu dagar ellinnar yfirbuga fljótt þann mann sem hefur sólundað lífi sínu með því að eltast við það sem fánýtt er — ‚aumasta hégóma‘! (Prédikarinn 12:8) Því er hyggilegt af þér að muna eftir skapara þínum meðan þú ræður yfir nægu þreki og þrótti. Sýndu þig vera trúfastan þjón Guðs; þá mun hann minnast þín með hagstæðum dómi, já, til eilífs lífs. — Matteus 6:19-21; Hebreabréfið 6:10-12; Prédikarinn 12:13, 14.