Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fegurð kristins persónuleika

Fegurð kristins persónuleika

Fegurð kristins persónuleika

„Íklæðist hinum nýja persónuleika sem var skapaður samkvæmt vilja Guðs í sönnu réttlæti og hollustu.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:24, NW.

1. Hvaða fegurð ætlum við að lýsa hér?

 TIL er máltæki sem segir: „Allir sem sjá líta þó ekki jafnt á.“ Fegurð er eitt af því sem menn leggja misjafnt mat á. Í hverju er fólgin fegurð kristins karlmanns og konu? Við ætlum að ræða það nánar núna.

Fegurð kristins karlmanns

2. Hvers vegna gerir líkamlegt atgervi mann ekki að guðsmanni?

2 Við skulum fyrst íhuga hvaða eiginleikar gera kristinn karlmann þannig að öðrum líði vel í návist hans. Líkamlegt atgervi eitt saman gerir hann ekki að ‚Guðs manni.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:11) Ytra útlit karlmanns, hversu fagurt sem það er, er lítils virði ef hugsun hans er innantóm. Ef hann er drambsamur, ruddalegur, óheflaður og fáfróður er hann ekki aðlaðandi heldur fráhrindandi. Ef hegðun hans sýnir að hann er vanþakklátur getur hann verið öðrum tilefni hneykslunar. Ef hann hefur aðeins áhuga á sjálfum sér, hvernig hann lítur út og kemur öðrum fyrir sjónir er hann ekki þess konar persóna sem aðrir vilja umgangast.

3, 4. (a) Nefnið nokkra af eiginleikum guðsmannsins eins og þeir birtust í fordæmi Jesú Krists. (b) Lýstu nánar hvernig sumir þessara eiginleika birtast.

3 Sá maður sem óttast Guð mun hafa ræktað með sér eiginleika svo sem réttvísi, miskunn, kærleika og góðvild. Jesús Kristur var ekki kunnur fyrir sinn fullkomna líkama heldur hollustu við meginreglur og sannleika. Hann kenndi af myndugleika eins og sá sem hefur vald frá Guði. (Matteus 7:28, 29; Jóhannes 7:46) Sá sem óttast Guð mun ekki láta löngun í völd eða stöðu spilla sér. Ekki er hægt að kaupa hann með gylliboðum um hlunnindi samfara einhverri stöðu. Hann býr yfir viljastyrk, elskar auðmýkt og lýgur ekki. Hann ber heilnæman ótta fyrir Jehóva. (Orðskviðirnir 22:4) Þetta eru nokkrir af þeim eiginleikum sem guðsmaðurinn hefur til að bera.

4 Guðsmaðurinn hefur til að bera samvisku, gott hjartalag og réttar hvatir. (1. Tímóteusarbréf 1:5; Orðskviðirnir 4:23) Hann gerir ekkert sem stríðir gegn samvisku hans og réttlátum meginreglum. Hann er ekki undirförull í samskiptum við aðra. (Hebreabréfið 13:18) Hann leyfir ekki óhreinu hátterni og hegðun að grafa undan góðum hvötum sínum. (Hósea 4:11) Hann agar sig stöðugt til að hjarta hans dragi hann ekki á tálar. Í orði og verki sker hann sig úr sem maður fastheldinn við réttar meginreglur. — Sálmur 15:1, 2.

5. Hvaða hlutverki gegnir hluttekning í lífi guðsmannsins?

5 Guðsmaðurinn getur fundið til með öðrum, er fús til að fyrirgefa og góðviljaður. Hann sýnir samúð, getur sett sig í spor annarra og er skilningsríkur þegar aðrir eiga við að glíma erfið vandamál sem valda þeim áhyggjum. Enn fremur er hann fús til að fyrirgefa þegar aðrir gera eitthvað á móti honum. Hann er hafinn yfir þá eðlislægu hvöt að gjalda illt með illu og illmæli með illmæli. Lýsingin í 1. Pétursbréfi 3:8, 9 á við hann. Með því að blessa í stað þess að bölva sýnir hann að hann er vingjarnlegur og hefur stjórn á þeim lítilmótlegu löngunum sem einkenna hinn þröngsýna og smásmugulega sem ekki getur sýnt öðrum samhug, fyrirgefið og verið góðviljaður. — Efesusbréfið 4:31, 32.

6. (a) Nefnið aðra áberandi eiginleika guðsmannsins. Hvað fela þeir í sér? (b) Hvernig munu kona hans og börn líta á hann?

6 Annar áberandi eiginleiki guðsmannsins er örlæti hans. Ef hann er kvæntur gerir sá eiginleiki hann að góðum eiginmanni og réttsýnum föður. Sem kvæntur maður hefur hann einstakt tækifæri til að hafa góð áhrif bæði á konu sína og börn og setja þeim gott fordæmi. (Kólossubréfið 3:19, 21) Þegar örlæti á í hlut fylgir slíkur maður hinu góða ráði Drottins Jesú Krists sem sagði: „Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur, mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúkas 6:38) Hann sér vel fyrir fjölskyldu sinni, en fylgir líka hinni góðu hvatningu í Efesusbréfinu 4:28 um að ‚gjöra það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.‘ Sem góður eiginmaður er hann konu sinni trúr. Hún getur borið fullt traust til þess að þau séu í sannleika eitt í órjúfanlegu hjónabandi. (Orðskviðirnir 5:18, 19) Ef þau eiga börn sýnir hann sig heiðarlegan föður, ekki svikulan eða óheiðarlegan í samskiptum við aðra. Þannig innrætir hann börnum sínum heiðarleika. (Orðskviðirnir 4:1-5) Hið góða fordæmi hans mun skilja eftir djúp spor í hugum barnanna og þau munu geta séð hann sem drottinhollan, ráðvandan mann. — Orðskviðirnir 11:3, 4.

7. Hvaða viðhorf mun hann hafa til peninga og skulda?

7 Sá maður, sem óttast Guð, varast einnig að fjölskylda hans safni þungri skuldabyrði, því að hann veit að slíkt getur haft í för með sér erfið vandamál. Það þýðir auðvitað að hann leyfir ekki sér og fjölskyldu sinni að lifa um efni fram. Hann er maður sem reiknar út kostnaðinn áður en hann hefst handa við erfið verkefni. (Lúkas 14:28-30) Hann getur neitað sér um ýmislegt núna sakir framtíðarinnar; sleppt því sem sést vegna þess sem ekki sést ef svo má að orði komast. (Samanber Hebreabréfið 11:8-10.) Á þennan hátt varðveitir guðsmaðurinn sína kristnu samvisku í hinu daglega lífi.

8. Hvernig mun slíkur maður bregðast við óþægilegum aðstæðum í lífinu?

8 Allir menn þurfa, vegna syndar sinnar og ófullkomleika, að horfast í augu við óþægilegar kringumstæður af og til. Guðsmaðurinn er hugrakkur og stefnufastur við slíkar kringumstæður, eftir því fordæmi sem Jesús gaf. (Jóhannes 16:33) Með styrk frá Guði sínum, Jehóva, getur hann tekist hugrakkur á við erfiðleikana og reitt sig á hjálp og leiðsögn Jehóva. — Orðskviðirnir 18:10.

9. Lýstu siðferði þess manns sem þráir að þóknast Jehóva.

9 Sá maður sem óttast Guð í sannleika er húsbóndi líkama síns, það er að segja, hann hefur stjórn á löngunum sínum og ástríðum, þess minnugur að líkami hans er góður þjónn en mjög slæmur húsbóndi. Hann hefur alltaf í huga innblásin orð Pás postula: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Hann leitast því alltaf við að rækta ávexti „andans,“ þar á meðal sjálfstjórn, og forðast það sem myndi spilla honum. (Galatabréfið 5:22, 23) Hann veit að siðlausar hugsanir geta leitt til siðlausra verka. Í því efni sem öðrum reiðir hann sig á Guð sinn, Jehóva, og þann styrk sem hann veitir. — Filippíbréfið 4:13.

10, 11. (a) Hvað gerir sá maður sem óttast Guð þegar honum verða á mistök? (b) Hvaða fordæmi mun höfuð fjölskyldunnar fylgja í sambandi við nám hennar í Biblíunni?

10 Að síðustu getur guðsmaðurinn játað mistök sín og beðist fyrirgefningar, bæði frammi fyrir maka sínum og öðrum sem hann kann, vegna ófullkomleika síns, að móðga eða særa á einhvern hátt. Hann getur gengið fram fyrir Jehóva með hreinu hjarta og beðið um fyrirgefningu synda sinna, því að hann hefur beðið konu sína, náunga og börn að fyrirgefa sér. Það er karlmannlegt, eitt af einkennum þess manns sem óttast Guð, að geta sagt: „Mér þykir þetta leitt, ég hafði rangt fyrir mér.“ — Orðskviðirnir 18:21, 22; Markús 11:25.

11 Álítur þú ekki að karlmaður, eiginmaður og faðir gæddur þessum eiginleikum njóti hjálpar Jehóva? (Sálmur 54:6) Hann er vel í stakk búinn til að takast á við vandamálin sem þessi heimur teflir gegn okkur öllum að undirlagi Satans, sem hefur það markmið að spilla öllu sem gott er, þar á meðal hjónabandi og hamingjusamri fjölskylduheild. Slíkur eiginmaður og fjölskyldufaðir gefur gaum að andlegu hugarfari fjölskyldu sinnar og hefur forgöngu um reglulegt nám hennar í orði Guðs og bænagerð, eftir fyrirmynd trúfastra þjóna Guðs frá biblíutímanum. — 5. Mósebók 11:18-21; Orðskviðirnir 7:1-3.

12. Hverju munum við lýsa þessu næst?

12 Eiginkonan gegnir líka þýðingarmiklu hlutverki í að glíma við vandamál fjölskyldunnar. Við skulum nú beina athygli okkar að þeim eiginleikum sem hún þarf að rækta í lífi sínu. — Orðskviðirnir 19:14.

Fegurð kristinnar konu

13, 14. Hvað getur kona gert til að afla sér hylli Jehóva, og fjölskyldu sinnar ef hún er gift, og hvaða leiðbeiningar gaf Pétur postuli konum í 1. Pétursbréfi 3:1-5?

13 Orðskviðirnir segja okkur ýmislegt um guðhrædda konu: „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast [Jehóva], á hrós skilið.“ (Orðskviðirnir 31:30) Hvernig ávinnur kona sér þá eiginleika sem gera hana hjartfólgna manni sínum og börnum, eða þá öðrum ef hún er einhleyp, eiginleika sem valda því að öðrum líður vel í návist hennar? Í fyrsta lagi þarf hún að vera göfuglynd, þar er að segja örlát, óðfús að hjálpa öðrum á hvern þann hátt sem hún getur, efnislega eða andlega. Þegar einhver er einhvers þurfandi er hún meðal þeirra fyrstu til að vilja hjálpa, því að hún hefur einlægan áhuga á öðrum. Að sjálfsögðu lætur hún þann áhuga þó vera í jafnvægi við þá umhyggju og athygli sem hún þarf að veita sinni eigin fjölskyldu, ef hún er gift. — Títusarbréfið 2:3-5.

14 Slík kona er auðmjúk, ekki drambsöm; hlýleg, ekki önuglynd, snyrtileg, ekki ósnyrtileg, skilningsrík, ekki deilugjörn. Ef hún er gift kappkostar hún að fylgja heilræðum postulans í 1. Pétursbréfi 3:1-5.

15. (a) Hvaða markmið ætti kristin kona að hafa og hvernig getur hún náð því? (b) Hvernig getur hún stutt mann sinn? (c) Hvers vegna heldur fjölskylda hennar áfram að elska hana?

15 Sú kona sem óttast Guð leggur ekki kapp á að vera veraldarvís heldur að rækta sitt andlega hugarfar. Hún er iðin við lestur Biblíunnar og umhugað að fylgja meginreglum hennar í lífinu. (Sálmur 119:66) Hún gerir það ekki aðeins sjálfrar sín vegna, aðeins til að vilja sjálf búa yfir þekkingu, heldur hefur hún fremur í huga að láta aðra njóta góðs af því sem hún lærir, bæði í hinni kristnu þjónustu og daglegum samskiptum við nágranna, ættingja og vini. Kristinn eiginmaður metur mikils konu sem hann getur rætt við um andleg mál, konu sem er fylling hans og hjálparhella, metur mikils andleg mál og vill vaxa með honum í þekkingu á Jehóva. (Orðskviðirnir 9:9, 10) Kona sem óttast Guð er skarpskyggn og skilningsrík. Ef hún er gift kann hún skil á hlutverki sínu sem fylling og hjálparhella mannsins. Hún styður mann sinn í að veita börnunum andlega tilsögn, einkanlega þegar hann er að heiman. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 1:2, 5; 2. Jóhannesarbréf 1, 2.) Hún heldur áfram að vera elskurík og elskuð innan vébanda fjölskyldunnar löngu eftir að fegurð æskunnar er fölnuð. Eiginmaður hennar getur treyst á skynsamlegar athugasemdir hennar, heilbrigðar skoðanir og einlæga hvatningu, því að hún er elskurík og skynsöm. (Orðskviðirnir 25:11) Þegar Abígail hafði sýnt góða dómgreind og snarræði sagði Davíð: „Blessuð séu hyggindi þín.“ — 1. Samúelsbók 25:32, 33.

16. Hvers konar orð og verk einkenna þá konu sem þóknast Guði?

16 Hæversk áhrif góðrar eiginkonu til stuðnings manni sínum birtast ekki í nöprum, bitrum eða hæðnislegum orðum. Hún ávinnur sér velvild með vingjarnlegum svipbrigðum, vel völdum orðum, nærgætni, kærleiksverkum, iðjusemi, mildi, góðvild og skilningi. (Samanber Orðskviðina 25:11; 31:10-28; 1. Þessaloníkubréf 2:7.) Lítillæti, trú og hógværð eru þeir eiginleikar sem afla guðhræddri konu varanlegrar tryggðar annarra. — Sálmur 37:11; Hebreabréfið 11:11, 31, 35; Orðskviðirnir 11:2.

17. Hversu verðmætur er kærleikur þeirri konu sem óttast Guð?

17 Annar áberandi eiginleiki guðhræddrar konu er hæfni hennar til að sýna samúð og ástúð. (Rómverjabréfið 12:10) Hið fegursta skart hennar er kærleikur sem kemur í veg fyrir að hún sé óviðfelldin í smáum atriðum. Kærleikanum er fagurlega lýst í 1. Korintubréfi 13:4-7. Þessi vers hljóða svo samkvæmt Lifandi orði: „Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður. Hann er aldrei öfundsjúkur eða montinn eða þykist vera öðrum meiri. Hann er aldrei yfirlætislegur, eigingjarn og ókurteis. Hann krefst ekki réttar síns, reiðist ekki og er ekki langrækinn né smámunasamur við aðra. Hann gleðst aldrei yfir ranglæti heldur fagnar þegar sannleikurinn nær fram að ganga. Elskir þú einhvern ert þú honum ætíð trúr hvað sem það kostar. Þú munt treysta honum í hvívetna, ávallt vænta hins besta af honum og verja hann hvenær sem ástæða er til.“

Hvernig erum við?

18. Hvaða spurninga þarf eitt og sérhvert okkar nú að spyrja sig, og hvað mun slík sjálfsrannsókn leiða í ljós?

18 Sú spurning blasir nú við hvort það sé auðsætt að við erum kristnir menn, hvort sem við erum einhleyp eða í hjónabandi. Sjáum við þörf á að bæta okkur á einhverjum sviðum til að þóknast Jehóva og náunga okkar? Það er meira en líklegt að hver sú sjálfsrannsókn, sem við gerum, leiði í ljós að við getum bætt okkur á ýmsa vegu. En það veitir okkur mikla gleði að geta séð slíkar framfarir í fari sjálfra okkar, og ekki síður að aðrir skuli veita eftirtekt þeim breytingum sem við gerum til að fylgja orði Guðs og kenningu þess sem nákvæmast! — 2. Korintubréf 13:5; 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.

19. Hvernig ættum við að leysa vandamál sem við stöndum frammi fyrir í viðleitni okkar til að vera friðsamir, guðhræddir menn?

19 Meðan við erum einhleyp er hyggilegt að leggja góða rækt við þessa eiginleika. (1. Korintubréf 7:32) Þegar sá dagur kemur að við ákveðum að ganga í hjónaband munu slíkir eiginleikar koma þeim í góðar þarfir sem hefur ræktað þá. Þeim sem er þegar í hjónabandi mun veitast mikil hamingja og gleði þegar hann heldur áfram að rækta kristnar dyggðir. (Filippíbréfið 4:8, 9) Þegar hjón þurfa að leysa vandamál þurfa þau bæði að leggja sig fram. Vilji til að viðurkenna og breyta óþægilegum venjum getur verið stórt skref í þá átt að íklæðast aðlaðandi, kristnum persónuleika. (Kólossubréfið 3:8-10) Mundu líka að eitt af einkennum kristins manns eða konu er að geta sagt: „Mér þykir þetta leitt. Viltu fyrirgefa mér.“ Við gerum öll mistök. Þegar við játum þau er það merki þess að við séum að rækta með okkur hæversku og auðmýkt í auknum mæli. — Míka 6:8; Jakobsbréfið 3:2.

20. Hvaða orð Páls postula í Kólossubréfinu 3:12-17 eru hjálpleg og viðeigandi fyrir alla?

20 Þau orð sem Páll skrifaði söfnuðinum í Kólossu eiga vel við hér: „Þá ættuð þið að venja ykkur á að sýna öllum góðvild og miskunnsemi. Reynið ekki að sýna mannlega yfirburði heldur verið reiðubúnir að þola mótlæti með þögn og þolinmæði. Sýnið hógværð. Verið fúsir að fyrirgefa og berið ekki kala til nokkurs manns. Minnist þess að Drottinn hefur fyrirgefið ykkur og því verðið þið einnig að fyrirgefa öðrum. En umfram allt, látið kærleikann ráða í lífi ykkar, því að þá verður fullkomið samstarf og eining í söfnuðinum. Látið frið Krists búa í hjörtum ykkar, það er skylda ykkar og jafnframt forréttindi sem hluta af líkama hans, og verið þakklátir. Minnist alls þess sem Kristur kenndi því að orð hans lífga og auka skilning og hyggindi. Fræðið hvern annan í orði hans og flytjið það í sálmum, söngvum, andlegum ljóðum og lofsyngið Drottni með þökk í huga. Og hvað sem þið svo gerið eða segið þá gerið allt sem fulltrúar Drottins Jesú, með þökk til Guðs föður fyrir hann.“ — Kólossubréfið 3:12-17, Lifandi orð.

21. Hvernig getur breytni okkar og verk verið öðrum til hvatningar?

21 Hin góðu dæmi, sem er að finna í Biblíunni, svo og í kristna söfnuðinum núna, ættu að hvetja eitt og sérhvert okkar til að halda áfram að rækta hinn nýja persónuleika. (Efesusbréfið 4:22-24) Með því að gera það munu við vera blessun öllum sem við umgöngumst. Þar að auki munu þeir mörgu, sem við boðum boðskapinn um ríkið, taka eftir og fá hvatningu, ekki aðeins af orðum okkar heldur líka kostgæfni og góðri breytni sem þeir sjá í heimsfjölskyldu votta Jehóva. — Jóhannes 13:34, 35.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvaða eiginleika á guðsmaðurinn að rækta?

◻ Hvernig annast kristinn maður konu sína og fjölskyldu?

◻ Hvaða dyggðir prýða kristna konu?

◻ Hvernig geta einhleypingar byggt viturlega með framtíðina í huga?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Andlegur maður lætur í ljós eiginleika sem eru aðlaðandi fyrir aðra.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Guðhrædd kona elskar og er elskuð.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Einhleypir kristnir menn geta ræktað hinn nýja persónuleika og lifað auðugu lífi.