Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Friður, öryggi og ‚líkneski dýrsins‘

Friður, öryggi og ‚líkneski dýrsins‘

Friður, öryggi og ‚líkneski dýrsins‘

„Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn.“ — OPINBERUNARBÓKIN 17:3.

1. Hvers vegna hefur sýn Jóhannesar um sjöhöfða, tíhyrnt dýr þýðingu fyrir okkur?

 JÓHANNES postuli sá þetta ógnvekjandi dýr í sýn sem var innblásin af Guði. En Jóhannes er ekki sá eini sem hefur séð það, því að þú hefur að öllum líkindum séð það líka eða að minnsta kosti lesið um það í dagblöðunum. Veist þú hvað það er?

2, 3. Hvað sá Jóhannes auk þess í sýn sinni?

2 Þegar við sjáum þetta villidýr nú á dögum hefur það auðvitað ekki sama útlit eins og Jóhannes lýsti. Það sem Jóhannes sá var tákn um það sem verða myndi á jörðinni „á Drottins degi.“ (Opinberunarbókin 1:10) Núna sjáum við uppfyllingu þess. Hin fráhrindandi lögun dýrsins, sem Jóhannes sá, lýsir því hvernig Jehóva lítur á það sem það táknar — það er honum viðurstyggilegt! Jóhannes hafði þegar séð í sýn sinni að Satan djöflinum var kastað niður til jarðarinnar „í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Hann hafði líka séð stjórnmálakerfið í heimi Satans í gervi hrikalegs villidýrs með sjö höfuð og tíu horn sem steig upp úr mannhafinu. (Opinberunarbókin 13:2; 17:15; Jesaja 57:20; Lúkas 4:5, 6) Þetta dýr fór með vald yfir öllu mannkyninu, og fólk var þvingað til að bera ‚merki dýrsins‘ á hægri hönd sér eða enni, til tákns um stuðning við það. — Opinberunarbókin 13:7, 16, 17.

3 Jóhannes hafði séð mennina gera sér líkneski af þessu dýri. (Opinberunarbókin 13:14, 15) Það er þetta líkneski sem hann sá í áðurnefndri sýn, lýst í Opinberunarbókinni 17. kafla. Þetta sjöhöfða, tíhyrnda „líkneski“ mun gegna veigamiklu hlutverki í atburðum framtíðar, svo að þýðingarmikið er að við vitum hvað það merkir. Hvernig getum við gert það?

„Líkneski“ dýrsins núna

4, 5. Hvað táknuðu höfuð dýrsins í sýninni?

4 Engillinn gaf Jóhannesi ýmsar upplýsingar sem hjálpa okkur. Hann sagði: „Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar. Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.“ (Opinberunarbókin 17:9, 10) Að hér skuli minnst á ‚konunga‘ og „fjöll“ — sem í Biblíunni geta oft táknað pólitísk veldi — gefur til kynna að höfuð dýrsins eru tákn um stjórnir. (Jeremía 51:25) Hvaða sjö stjórnir er um að ræða?

5 Eins og engillinn sagði voru fimm þegar fallnar á dögum Jóhannesar, ein var enn uppi og ein ókomin. Í sögu Biblíunnar höfðu fjögur stór heimsveldi blómgast, kúgað þjóð Guðs og síðan fallið fyrir daga Jóhannesar: Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía og Grikkland. Á dögum Jóhannesar hafði Rómaveldi tögl og hagldir. Mörgum öldum eftir dauða Jóhannesar hvarf Rómaveldi af sjónarsviðinu sem ráðandi heimsveldi og breska heimsveldið tók að lokum sæti þess. Fljótlega hlutu nýlendur þessa heimsveldis í Vesturheimi sjálfstæði og mynduðu, með Bretlandi, ensk-ameríska heimsveldið. Það er ‚konungurinn‘ sem var „ókominn“ á dögum Jóhannesar. Hvert var samband þess dýrs, sem Jóhannes sá, og heimsveldanna sjö sem höfuð þess táknuðu? „[Það] er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö.“ — Opinberunarbókin 17:11.

6. (a) Hvaða merkingu hafa hornin tíu? (b) Á hvaða hátt höfðu þau „eigi tekið konungdóm“?

6 Mundu líka að dýrið hafði tíu horn. Um þau sagði engillinn: „Hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu.“ (Opinberunarbókin 17:12) Í Biblíunni táknar talan tíu fyllingu þess sem á jörðinni er. Þessi horn tákna því öll stjórnmálaöfl um allan heim sem styðja dýrið um stuttan tíma („eina stund“) á „Drottins degi.“ Í þeirra hópi er sjöunda heimsveldið, svo og allar þær nútímastjórnir sem eru komnar af hinum sex ‚höfðum dýrsins,‘ þótt þau sex séu ekki lengur heimsveldi. Þessir „konungar“ voru ekki til á dögum Jóhannesar. * Nú hafa þeir fengið vald og „máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu.“ — Opinberunarbókin 17:13.

7, 8. (a) Hvað merkir dýrið sem Jóhannes sá og lýsir í 17. kafla Opinberunarbókarinnar? (b) Hvernig er það tengt höfðinu og hornunum?

7 Gerir þú þér ljóst núna hvert dýrið er? Já, það er hið sama og „viðurstyggð eyðingarinnar“ sem birtist fyrst í mynd Þjóðabandalagsins og er núna uppi í mynd Sameinuðu þjóðanna. (Matteus 24:15; Daníel 12:11) Hvernig má segja að þessi samtök ‚séu af heimsveldunum sjö‘? Í sama skilningi og allt hið dýrslega skipulag, eins og áttunda heimsveldi, varð til af stjórnum sem þegar voru við lýði með ensk-ameríska heimsveldið sem sinn fremsta stuðningsaðila.

8 Auk þess, eins og engillinn sagði Jóhannesi, gefa „hornin tíu“ öll „máttinn og vald sitt . . . dýrinu.“ (Opinberunarbókin 17:13) Án stuðnings þeirra stjórna, sem höfðuðin og hornin tákna, væri dýrið valdalaust. Hvers vegna? Vegna þess að það er einungis líkneski. (Opinberunarbókin 13:14) Eins og öll líkneski er það aflvana eitt sér. (Jesaja 44:14-17) Hvert það líf, sem það hefur, kemur frá þeim sem styðja það. (Opinberunarbókin 13:15) Stundum hafa sum þeirra notfært sér Sameinuðu þjóðirnar til beinna aðgerða, eins og til dæmis í Kóreustríðinu.

9. Hvað staðfestir að við höfum borið kennsl á dýrið?

9 Ýmis fleiri smáatriði, sem engillinn nefndi, staðfesta að við höfum borið kennsl á þetta dýr: „Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar.“ (Opinberunarbókin 17:8) Þetta hefur nú þegar ræst að hluta. Síðari heimsstyrjöldin gekk í reynd af Þjóðabandalaginu dauðu. Árið 1942, þegar vottar Jehóva fengu glöggan skilning á þessum spádómi, var hægt að segja um Þjóðabandalagið, villidýrið: „[Það] er ekki.“ * En árið 1945 ‚steig það upp frá undirdjúpinu‘ sem Sameinuðu þjóðirnar. Mun því takast ætlunarverk sitt að koma á friði og öryggi? Spádómurinn svarar því neitandi. Í staðinn mun það „fara til glötunar.“

Konan sem ríður dýrinu

10, 11. (a) Hver reið dýrinu í sýn Jóhannesar? (b) Hvernig uppfyllist þessi þáttur sýnarinnar á okkar tímum?

10 Tókst þú eftir öðru atriði í sambandi við dýrið? Því ríður ‚kona‘ sem táknar heimsveldi falskra trúarbragða, „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.“ (Opinberunarbókin 17:3-5, 15) Hafa trúfélög kristna heimsins ‚riðið‘ bæði Þjóðabandalaginu og Sameinuðu þjóðunum og reynt að ráða stefnu þeirra? Já, einkum trúfélög kristna heimsins.

11 Til dæmis lýsti hollenksur fréttaritari að nafni Pierre van Paassen „næstum trúarlegri hrifningu“ fulltrúa mótmælendakirknanna frá Ameríku, Bretlandi og Norðurlöndum sem sátu fundi Þjóðabandalagsins. Árið 1945 gaf Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku þessa yfirlýsingu: „Vér erum einráðnir í að vinna að vexti og viðgangi hinna læknandi og skapandi starfa Sameinuðu þjóðanna.“ Árið 1965 sagði Páll páfi VI að hann sæi í samtökunum „endurskin hinnar ástríku og stórfenglegu ætlunar Guðs til framfara mannkynsins á jörðinni — endurskin þar sem vér sjáum boðskap guðspjallanna, sem er himneskur, verða jarðneskan.“ Svo sannarlega hafa trúarleiðtogarnir fyllt þessi samtök „guðlöstunar nöfnum.“ — Opinberunarbókin 17:3; samanber Matteus 24:15; Markús 13:14.

Ekki afl til friðar

12. Hvert hefur verið viðhorf þeirra sem styðja Sameinuðu þjóðirnar til Guðsríkis?

12 Sameinuðu þjóðirnar eiga ekki gott samband við Guðsríki. Satt að segja eru stuðningsmenn þeirra andsnúnir Guðsríki. Engillinn sagði Jóhannesi: „[Hornin tíu] munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá.“ (Opinberunarbókin 17:14) Eins og þessi spádómur segir hafa þjóðirnar stöðugt ‚háð stríð við lambið‘ út í gegnum tíma endalokanna, staðið á móti og ofsótt þá sem eru sendiherrar ríkis hans. Lambið er hins vegar ósigrandi, og hið sama gildir um þjóna hans á jörðinni sem halda áfram að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs þrátt fyrir bönn, fangelsisvist og jafnvel dauða. — Matteus 10:16-18; Jóhannes 16:33; 1. Jóhannesarbréf 5:4.

13. Hvers vegna geta Sameinuðu þjóðirnar aldrei komið á sönnum friði?

13 Sameinuðu þjóðunum getur aldrei tekist að koma á sönnum friði. „Babýlon hin mikla,“ sem ríður þeim, hefur öðrum fremur æst til styrjalda í sögu mannkynsins, og hún er „drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta.“ (Opinberunarbókin 17:6) Styrjaldir háðar af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafa gegndreypt jörðina blóði. (Matteus 24:6, 7) Og aflið að baki þeirra, Satan djöfullinn, ‚drekinn mikli,‘ er enginn friðsemjandi. (Opinberunarbókin 12:9, 17; 13:2) Mannkynið mun aldrei njóta öryggis svo lengi sem þessi öfl eru til. Þau verða að víkja.

Nauðsynleg skref til friðar

14. (a) Hvernig fór fyrir konunni á dýrinu í sýn Jóhannesar? (b) Hvernig mun það rætast?

14 Fyrst verður falstrúarbrögðunum rutt úr vegi með mjög óvæntum hætti. Atburðarásinni er lýst þannig: „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ Hvílíkt áfall fyrir mannkynið! (Opinberunarbókin 17:16; 18:9-19) Það eru hin þjóðernissinnuðu eyðingarhorn, sem mikið ber á innan vébanda Sameinuðu þjóðanna, sem munu eyða henni. Þetta er eftirtektarverð samsvörun við spádóm Jesú um að „viðurstyggð eyðingarinnar“ myndi leggja „Jerúsalem“ í rúst! (Markús 13:14-20; Lúkas 21:20) Enda þótt það séu þjóðirnar sem framkvæma þessa aftöku eru þær í reyndinni að fullnægja dómi Guðs yfir „skækjunni miklu,“ þar á meðal kristna heiminum. Það mun hafa þær afleiðingar að „engar menjar skulu eftir verða“ af falstrúarbrögðunum. — Opinberunarbókin 17:1; 18:21.

15, 16. (a) Hvað er ‚þrengingin mikla‘? (b) Hvaða afleiðingar mun hún hafa? (c) Hvernig verður Satan hindraður í að eyðileggja friðarhorfur mannkynsins?

15 Jesús sagði að eyðing kristna heimins yrði upphaf ‚mikillar þrengingar sem engin hefði þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og myndi aldrei verða.‘ (Matteus 24:15, 21) Í þeirri þrengingu mun ríki Guðs fullnægja dómi yfir öllum stjórnmála- og viðskiptaöflum í skipulagi Satans. (Daníel 2:44) Jóhannes sér nú konunginn að verki: „Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.“ Hinar pólitísku þjóðir jarðarinnar og ‚líkneski dýrsins‘ standa fylktu liði gegn honum. Hvernig mun stríðinu lykta? Enn sem fyrr verður þeim tortímt sem spilla friðinum! — Opinberunarbókin 19:11, 19-21.

16 Þá stendur eftir aðeins ein stór hindrun í vegi friðarins: Satan djöfullinn sjálfur. Jóhannes heldur áfram og lýsir hvernig þessi mesti óvinur mannkynsins verður gerður óskaðlegur: „Nú sá ég engill stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.“ — Opinberunarbókin 20:1-3.

Nú þarf að taka ákvörðun

17. Hvaða skref ættu þeir sem þrá sannan frið að stíga núna?

17 Þetta eru tímar gífurlegra breytinga fyrir mannkynið! En þótt samtökum, stofnunum og stjórnum sé rutt úr vegi eru örlög einstakra manna að mestu leyti í þeirra eigin hendi. Sem merki um kærleika sinn ákvað Jehóva að ‚fyrst yrði að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið‘ áður en þrengingin mikla hæfist. (Markús 13:10) Öllu friðelskandi fólki er boðið að ‚ganga út‘ úr Babýlon hinni miklu. (Opinberunarbókin 18:4) Þeir sem eru í kristna heiminum eru hvattir til að ‚flýja til fjallanna.‘ (Lúkas 21:21) Þeir sem beygja sig undir ríki Guðs verða að forðast að fá á sig ‚merki dýrsins.‘ (Opinberunarbókin 14:9-12; Jóhannes 17:15, 16) Mikill múgur slíkra réttsinnaðra manna mun ‚koma út úr þrengingunni miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:9-14) Í rauninni þarf enginn að farast með kerfi Satans. — Orðskviðirnir 2:21, 22.

18, 19. (a) Hvað má segja um það hvenær þrengingin mikla brýst út? (b) Hvernig búa kristnir menn sig núna undir þann tíma?

18 Hvenær munu þessir stókostlegu atburðir gerast? Því er til að svara að núna er verið að prédika ‚fagnaðarerindið‘ út um allan heiminn. „Viðurstyggð eyðingarinnar“ stendur nú „á helgum stað.“ (Matteus 24:14-16) ‚Líkneski dýrsins‘ er meira að segja á síðara tilveruskeiði sínu og á aðeins eftir að „fara til glötunar.“ (Opinberunarbókin 17:8) Uppfylling ‚táknsins‘ sýnir að við höfum lifað tíma nærveru Jesú í næstum 72 ár, frá 1914. (Matteus 24:3) Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ (Matteus 24:33, 34) ‚Þrengingin mikla‘ hlýtur því að vera mjög nálæg. Getum við tímasett hana af meiri nákvæmni? Nei, ekki á þessari stundu.

19 Páll postuli sagði: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ (1. Þessaloníkubréf 5:3) Þrengingin mikla mun því koma mannkyninu í heild algerlega í opna skjöldu. Hún mun þó ekki koma kristnum mönnum á óvart. Þeir vita að hún er í vændum og þeir fylgja heilræði Jesú: „Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á.“ — Lúkas 21:36.

20. Hvers vegna geta kristnir menn ekki sagt til um það núna hvenær þrengingin mikla kemur?

20 Kristnir menn geta þó ekki sagt fyrirfram nákvæmlega hvenær þrengingin mikla dynur yfir. Jehóva hefur ekki opinberað „þann dag eða stund.“ (Markús 13:32; Matteus 24:42) Þegar til dæmis Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1986 „alþjóðlegt friðarár“ fylgdust kristnir menn af athygli með þeim atburði, en þeir geta ekki sagt fyrirfram hvaða tengsl það hefur við uppfyllingu orða Páls sem hér er vitnað í. Þeir eru þó Jehóva þakklátir fyrir að hann skuli hafa gert þeim kleift að skilja hvað ‚líkneski dýrsins‘ og „viðurstyggð eyðingarinnar“ tákna. Af þeim sökum hafa þeir sömu afstöðu og Jehóva til þessara samtaka, og láta ekki tilraunir þeirra til að viðhalda friði villa sér sýn.

21. (a) Hvaða friðar njóta kristnir menn nú þegar? (b) Hvers geta þeir horft fram til með trúartrausti?

21 Þeir sem ‚vaka‘ og beygja sig undir ríki Guðs njóta friðar nú þegar. Jehóva, „Guð friðarins,“ er með þeim og gefur þeim ‚frið Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ (Filippíbréfið 4:7, 9) Auk þess hlakka þeir til þess tíma, sem ekki er ýkja fjarlægur, að öll jörðin muni sjá rætast hinn fagra spádóm Jesaja: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.“ (Jesaja 32:16-18) Þetta öryggi mun ríkja um allan heiminn. (Jesaja 11:9) Og þetta verður sannur friður því að Jehóva sjálfur er höfundur hans.

[Neðanmáls]

^ Hið pólitíska sjónarsvið er núna gerólíkt því sem var á dögum Jóhannesar. Mjög fá af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna voru til á þeim tíma. Því má með sanni segja að þau hefðu ‚enn eigi tekið konungdóm.‘ Til eru fáeinar undantekningar, svo sem Egyptaland, en jafnvel í þeim ríkjum hefur valdakerfið breyst svo mikið í aldanna rás að orð engilsins standa óhögguð: Stjórnirnar, sem nú eru við völd, höfðu ‚enn eigi tekið konungdóm‘ á dögum Jóhannesar.

^ Þann 20. desember 1942, þegar síðari heimsstyrjöldin var enn að stigmagnast, flutti forseti Varðturnsfélagsins ræðu á „Guðræðismóti nýja heimsins“ sem vottar Jehóva héldu. Hún nefndist: „Friður — getur hann varað?“ Í henni sýndi hann fram á, út af 17. kafla Opinberunarbókarinnar, að síðari heimsstyrjöldin myndi ekki leiða út í Harmagedónstríðið eins og margir bjuggust við. Fyrst yrði ‚friðardýrið‘ að rísa upp úr undirdjúpi athafnaleysisins til að ríkja um táknræna ‚eina stund‘ með stjórnmálaöflunum.

Manst þú?

◻ Nefndu nokkur af einkennum dýrsins í Opinberunarbókinni 17. kafla.

◻ Hvað táknar þetta dýr?

◻ Hvers vegna getur þetta táknræna dýr aldrei komið á friði?

◻ Hvernig mun Guðsríki að lokum koma á friði og öryggi á jörðinni?

◻ Hvernig geta einstakir menn hafa gagn af þessari vitneskju?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 25]

Páll páfi VI sá í Sameinuðu þjóðunum „endurskin hinnar ástríku og stórfenglegu ætlunar Guðs til framfara mannkynsins.“

[Mynd á blaðsíðu 27]

Friðelskandi fólk er hvatt til að ‚ganga út úr‘ Babýlon hinni miklu.