Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekki sannleikann ganga þér úr greipum

Láttu ekki sannleikann ganga þér úr greipum

Láttu ekki sannleikann ganga þér úr greipum

VERA kann að Pílatus hafi gert sér ljóst að það myndi kosta hann eitthvað að taka á móti sannleikanum. Hefði hann gerst fylgjandi Krists hefði hann þurft að viðurkenna hann sem konung og vafalaust þurft að söðla um í siðferðismálum. Samt sem áður sagði Salómon í Orðskviðunum 23:23: „Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi.“

‚Kaupa sannleika?‘ spyrð þú undrandi. Já, Biblían segir okkur hérna að það kosti eitthvað að afla sér sannleika, visku og hygginda! Sannleikur er hins vegar eitthvað það verðmætasta sem hægt er að hugsa sér. Salómon ráðlagði: „Sel hann ekki“! Það jafngildir því að segja að ekkert annað geti jafnast á við hann að verðmæti.

‚En hvað er eiginlega sannleikur?‘ spyrja margir og enduróma þar með spurningu Pílatusar. Í hugum margra er mjög erfitt að henda reiður á hvað „sannleikur“ sé. Til dæmis sagði Albert Einstein einu sinni: „Það er erfitt jafnvel að gefa nákvæma merkingu hugtakinu ‚vísindalegur sannleikur.‘ Merking orðsins ‚sannleikur‘ er því breytileg eftir því hvort við fjöllum um atburð, stærðfræðisetningu eða vísindakenningu. ‚Trúarsannleikur‘ segir mér alls ekki neitt.“ (Ideas and Opinions eftir Albert Einstein) En merkir sú staðreynd að Einstein tókst ekki að henda reiður á sannleikanum að þú þurfir að láta hann ganga þér úr greipum? Alls ekki.

Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jóhannes 14:6) Já, „sannleikurinn“ fjallar um Krist Jesú og hlutverk hans í tilgangi Jehóva Guðs, sem þann er uppfyllir spádómana og endurleysir syndugt mannkyn, er útnefndur konungur Guðsríkis og æðsti prestur og fullnægir dómi á hinum óguðlegu. (Rómverjabréfið 15:8; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Jóhannes 3:16; Efesusbréfið 1:20-22; Daníel 7:13, 14; Matteus 6:9, 10; Hebreabréfið 4:14; Opinberunarbókin 19:11-21; 2. Þessaloníkubréf 1:7-9) En hvernig er hægt að „kaupa“ þennan sannleika?

Öflun þekkingar

Menn byrja að kaupa sannleikann með því að fara eftir orðum Jesú í Jóhannesi 17:3: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Það væri óárennilegt verk ef við ættum að gera það á eigin spýtur. Á fyrstu öldinni reyndi eþíópskur hirðmaður að gera það. Þegar Filippus trúboði veitti því athygli að hirðmaðurinn átti í vandræðum með að skilja erfiðan biblíuspádóm spurði hann: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ Maðurinn svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ (Postulasagan 8:28-31) Kannski er þér eins innanbrjósts.

Vottar Jehóva bjóðast því til að nema Biblíuna með þér heima hjá þér. * Slíkt nám er ókeypis. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té,“ sagði Jesús. (Matteus 10:8) Að kaupa sannleika mun hins vegar kosta þig eitthvað í öðrum skilningi — það mun kosta þig tíma og viðleitni. Mundu þó að Jesús Kristur — sem lifir og starfar á himnum — vill hjálpa þér að læra sannleikann. (Samanber Lúkas 5:13.) Hann hét fyrstu lærisveinum sínum að andi Guðs myndi leiða þá „í allan sannleikann.“ (Jóhannes 16:13) Í víðara samhengi getur það líka náð til þín. Láttu þér því ekki finnast að það verði of erfitt fyrir þig að læra sannleikann.

Vottar Jehóva hafa gefið út fjölmörg hjálpargögn til biblíunáms sem auðvelda til muna alvarlegt nám í Biblíunni. Titlar nokkurra þeirra ættu að nægja til að örva andlega matarlyst þeirra sem eru í einlægni að leita sannleikans: Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, Er Biblían í raun og veru orð Guðs?, Til komi þitt ríki, Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði og Lífið — varð það til af völdum þróunar eða sköpunar? svo nokkrar séu nefndar. *

Þessi rit útskýra Ritninguna hlutlægt á auðskildu máli og höfða bæði til rökhyggju þinnar og hjarta. Þau byggja á ítarlegum rannsóknum og veita hagnýt ráð og hreinskilin. Það gefur þeim greinilegan sannleiksblæ. Þegar þú lærir sannindi Biblíunnar með hjálp þessara rita verður þér ljóst hvað Jesús átti við þegar hann sagði: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Orðið ‚sannleikur‘ á hér við allar hinar kristnu kenningar í heild sinni sem nú er að finna í rituðu sannleiksorði Guðs — Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 2:15; Efesusbréfið 1:13) En hvernig getur sannleikurinn frelsað fólk?

Íhugaðu til dæmis að ‚ótti við dauðann hefur selt mannkynið undir þrælkun alla sína ævi,‘ þrátt fyrir að flestir láti í ljós einhverja óljósa von um himneska sæluvist eftir dauðann. (Hebreabréfið 2:15) Sannindi Biblíunnar frelsa fólk undan slíkum sjúklegum ótta. Menn læra að hinir dánu kveljast ekki í eldi og brennisteini því að „hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5, 10; sjá einnig Sálm 146:4 og Prédikarann 3:19, 20.) Biblían bendir líka á að maðurinn hafi ekki meðfædda löngun til að deyja og fara til himna. Þess í stað hefur Guð ‚lagt eilífðina í brjóst mannsins‘ þannig að sérhvern venjulegan og heilbrigðan einstakling langar til að lifa að eilífu! — Prédikarinn 3:11; sjá einnig Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

Þessari löngun verður fullnægt á ‚nýrri jörð‘ sem Biblían nefnir svo. (2. Pétursbréf 3:13; samanber Matteus 6:9, 10.) Jesús gaf til kynna að þeir sem fengju að lifa á ‚nýju jörðinni‘ myndu búa í „paradís.“ (Lúkas 23:43) Aðrar ritningargreinar sýna okkur að sá heimur verður laus við kvöl og tár! (Opinberunarbókin 21:4; Jesaja 11:6-9) Reyndu að gera þér í hugarlund hversu mikið þessi von gæti breytt lífi þínu! En fyrst þarft þú að afla þér þekkingar.

Leggðu stærilæti til hliðar

Í Sálmi 25:9 segir Biblían: „Hann lætur þá hógværu gánga í sínum rétti, og kennir þeim auðmjúku sinn veg.“ (Ísl. bi. 1859) Guð gefur ekki sannleikann þeim sem eru stærilátir og drambsamir. „Guð stendur gegn dramlátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (1. Pétursbréf 5:5) Hugsanlegt er að Pontíus Pílatus hafi verið forvitinn um sannleikann, en fornir rithöfundar lýsa honum sem hrokafullum manni. Í augum Rómverja voru Gyðingar fyrirlitlegt fólk með undarlega trú sem þeir vildu gjarnan bæla niður! Dramb og pólitísk metnaðargirni virðist hafa verið þrándur í götu Pílatusar. — Orðskviðirnir 16:18.

Margir eru líka forvitnir um boðskap votta Jehóva nú á dögum. Þeir veita hins vegar kannski athygli að margir votta Jehóva hafa litlu úr að spila, að látlausir samkomusalir þeirra (Ríkissalir) standast engan veginn samjöfnuð við íburðarmiklar kirkjur kristna heimsins, og að fáir vottar geta stært sig af æðri menntun. En taktu eftir því sem Biblían segir í 1. Korintubréfi 1:26-29: „Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir. En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða. Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er, til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.“

Það getur því kostað mann stolt hans að læra sannleikann af svona ‚venjulegu‘ fólki. En er það of hátt verð fyrir sannleikann?

Þekkingin birtist í framkvæmd

Það eitt að tileinka sér þekkingu — jafnvel sannleikann — er ekki nóg. Þess vegna erum við hvött til að ‚kaupa visku.‘ (Orðskviðirnir 23:23) Viska er hagnýt notkun þekkingar! Salómon sagði meira að segja: „Viskan er mikilvægust.“ (Orðskviðirnir 4:5-7, NW) Já, að hvaða gagni kemur þekking ef henni er ekki beitt? Eftir að hafa lært vegu Guðs, boð, lög, áminningar og leiðbeiningar skalt þú því læra að nota þau í lífi þínu. „Spekin sannast af verkum sínum,“ sagði Jesús. — Matteus 11:19.

Pontíus Pílatus hafnaði sannleikanum. Þú ættir hins vegar ekki að gera þau mistök. Það væri mikil flónska að láta stærilæti, metnaðargirnd eða ást á einhverjum ósið koma þér til að láta sannleikann ganga þér úr greipum. Vertu eins og sálmaritarinn sem bað: „Veit mér skyn, að ég megi lifa.“ (Sálmur 119:144) Já, sá sem er fús til að greiða það verð sem þarf til að tileinka sér sannleika og visku getur hlotið líf, því að sá sem kaupir sannleika og visku „finnur lífið og hlýtur blessun af [Jehóva].“ — Orðskviðirnir 8:35.

Maður, sem fór að nema Biblíuna með vottum Jehóva, sagði: „Það er blessun að geta sagt að sannleikurinn hafi breytt lífi okkar.“ Hann getur breytt þínu lífi líka. Láttu því sannleikann ekki ganga þér úr greipum! Gríptu þetta einstæða tækifæri til að kaupa sannleika, visku og skilning. Þig mun aldrei iðra þess.

[Neðanmáls]

^ Þér er velkomið að skrifa útgefendum þessa tímarits ef þig langar til að nema Biblíuna með þessum hætti. Við munum gjarnan sjá um að hæfur þjónn orðsins heimsæki þig.

^ Bækurnar eru gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. Þrjár síðastnefndu eru ekki fáanlegar á íslensku.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Pontíus Pílatus lét sannleikann ganga sér úr greipum, ef til vill sökum stærilætis.