Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lætur þú sannleikann ganga þér úr greipum?

Lætur þú sannleikann ganga þér úr greipum?

Lætur þú sannleikann ganga þér úr greipum?

FÆSTIR myndu sennilega gefa mikinn gaum landslagi og staðháttum eftir nauðlendingu í Amasón-frumskóginum. Rólyndur og sívökull maður meðal farþega gerði það samt sem áður. Hann var jarðfræðingur og veitti því athygli að bletturinn, sem þyrlan hafði lent á, var óvenjulega ber og gróðurlaus. Hann lét þetta tækifæri ekki ganga sér úr greipum heldur skoðaði nánar þennan gróðursnauða blett. Á skammri stundu gerði hann sér ljóst að það sem aðrir hefðu álitið ósköp venjulegan, auðan blett var í raun einhver auðugasti blettur jarðarinnar af verðmætum jarðefnum — stórauðugt forðabúr járngrýtis, báxíðs, mangans, eirs og gulls sem átti eftir að verða kallað hið „nýja El Dorado.“

Þeir menn heyra til undantekninga sem kunna að notfæra sér hentug tækifæri. Lítum til dæmis á Pontíus Pílatus, rómverska landsstjórann sem uppi var á fyrstu öld okkar tímatals. Honum gafst alveg einstakt tækifæri. Leiðtogar Gyðinga færðu honum mesta kennara sannleikans sem til hafði verið á jörðinni, Jesú Krist. Reyndu að gera þér í hugarlund þær spurningar sem Pílatus hefði getað lagt fyrir hann! Hugsaðu þér hversu verðmæt sannindi hann hefði getað lært af honum! Og Pílatus virtist raunar forvitinn þegar Jesús var leiddur fyrir hann. Gyðingar sökuðu hann um að segjast vera „konungur Gyðinga“ og Pílatus spurði: “Ert þú konungur Gyðinga?“

Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. . . . Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ Nú var komið hið gullna tækifæri Pílatusar. Frammi fyrir honum stóð maður sem var lifandi vitnisburður þess að fyrirheit Guðs væru sönn, maður sem var fús og fær um að upplýsa hann á þann veg sem enginn annar gæti. En hverju svaraði Pílatus? „Hvað er sannleikur?“ Og án þess að bíða svars „gekk hann aftur út til Gyðinga.“ — Jóhannes 18:33-38.

Já, Pílatus lét sannleikann ganga sér úr greipum. Og margir gera sömu mistökin nú á dögum. Þetta tímarit sem þú ert að lesa, Varðturninn, er gefið út til að upplýsa fólk um sannleikann. En margir vilja ekki einu sinni lesa það. Sumir lesa blaðið gjarnan en láta þar við sitja. Getur hugsast að þeir séu að láta sannleikann ganga sér úr greipum, eins og Pílatus?