Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lestu Kroníkubækurnar — og lærðu af þeim

Lestu Kroníkubækurnar — og lærðu af þeim

Lestu Kroníkubækurnar — og lærðu af þeim

„HVERS vegna ætti ég að lesa Kroníkubækurnar?“ Margir nemendur Biblíunnar hafa spurt þessarar spurningar þegar þeir hafa verið að lesa í gegnum Biblíuna í fyrsta sinn. Þeir hafa lesið Samúelsbækurnar og Konungabækurnar þar sem saga þjóna Guðs á konungatímanum er sögð með meistaralegum, lifandi hætti. Núna eru þeir komnir að Kroníkubókunum tveim: níu löngum köflum með ættarskrám og af þeim tekur við endurtekning á mörgu af því sem þeir hafa lesið áður. Eerdman’s Bible Handbook segir: „Við fyrstu sýn virðast Kroníkubækurnar endurtaka með dauflegri og öllu siðavandari hætti það sem við höfum fyrir í 2. Samúelsbók og Konungabókunum.“

En það er aðeins á yfirborðinu. Hin fjögur guðspjöll kristnu Grísku ritninganna hafa í aðalatriðum öll að geyma sama efnið, en hvert um sig skoðar það frá sínu sjónarhorni og bætir við upplýsingum sem ekki er að finna annars staðar. Ritari Kroníkubókanna fer líka í aðalatriðum yfir sama efnið og er í bókunum á undan, en hann hefur sína eigin heildarsýn yfir það og segir frá ýmsu sem ekki er sagt frá annars staðar. Hann skrifar sögu sína fyrir menn á ákveðnu tímaskeiði og hefur skýr markmið með því. Þegar við skiljum það getum við notið þess að lesa bækurnar og lært af þeim ýmislegt sem er okkur hjálplegt nú á dögum.

Þær fullnægðu þörf

Kroníkubækurnar voru skrifaðar fyrir Gyðingana sem sneru heim til fyrirheitna landsins að loknum útlegðarárunum sjötíu í Babýlon. Ritarinn var að öllum líkindum Esra. Eftir að hafa sagt frá stjórn Davíðs og Salómons og skiptingu þjóðar Guðs í tvær þjóðir, einbeitir ritarinn sér að suðurríkinu Júda, og segir sögu þess með ákveðnum hætti sem orðið gat lærdómur hinum heimkomnu útlögum. Hann rakti þróun hinnar þýðingarmiklu konungsættar Davíðs, og um leið svarar hann mikilvægum spurningum: Hvers vegna leyfði Jehóva að útvalin þjóð hans yrði send í útlegð til heiðins lands? Og hvernig gátu hinir heimkomnu Gyðingar (svo og sannkristnir menn núna) forðast að gera þau mistök sem leiddu til þessarar refsingar?

Hinar þýðingarmiklu ættarskrár

Í fyrstu níu köflum 1. Kroníkubókar eru langar ættarskrár. Hvers vegna lét ritarinn þær fljóta með? Vegna þess að ættarskrár voru þýðingarmiklar í Ísrael. Erfðir og þjónustusérréttindi voru tengd þeim. Sumir hinna heimkomnu Ísraelsmanna, þeirra á meðal sumir af prestaættum, gátu ekki fært sönnur á ættir sínar og það olli töluverðum óþægindum. (Esra 2:59-63) Þessar mjög svo ítarlegu ættarskrár voru því einkar áhugaverðar fyrir þá.

En hvað um lesanda Biblíunnar nú á dögum? Ætti hann að hlaupa yfir þessa níu kafla og hefja lestur 1. Kroníkubókar með frásögunni af dauða Sáls í 10. kafla? Nei, þessar ættarskrár eru hluti ‚allrar ritningar‘ sem er „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Í fyrstu 9 köflum 1. Kroníkubókar eru gullvæg og hrífandi fróðleikskorn.

Til dæmis lesum við hvergi annars staðar um Jaebes, afkomanda Júda sem reyndist með afbrigðum heiðursverður. (1. Kroníkubók 4:9, 10) Þar finnum við líka gagnlega skrá um konungsætt Davíðs sem segir okkur þá mikilvægu staðreynd að Serúbabel, landstjóri Gyðinganna eftir heimkomuna frá Babýlon, hafi verið af þeirri ætt. — 1. Kroníkubók 3:10-19.

Þær segja okkur meira um Davíð

Þeir kaflar, sem eftir eru af 1. Kroníkubók, gefa frásögum bókanna á undan aukna fyllingu, einkanlega með því að fullkomna þekkingu okkar á Davíð konungi. Í bókunum á undan kynnist lesandi Biblíunnar Davíð sem dyggum þjóni Jehóva, dugandi hermanni, ljóðskáldi og góðum forystumanni. Í 1. Kroníkubók komumst við að því að hann var líka snjall skipuleggjandi. Hann skipulagði þjóðina, herinn og tilbeiðsluna í musterinu, þar sem hann skipaði tuttugu og fjóra flokka presta, levíta og söngvara. — 1. Kroníkubók 23:1–27:22.

Önnur Samúelsbók lýsir ákafri löngun Davíðs til að byggja „hús“ eða musteri fyrir sáttmálsörkina. (2. Samúelsbók 7:2-5) Jehóva leyfði ekki Davíð að hrinda fyrirætlunum sínum í framkvæmd og 1. Kroníkubók skýrir hvers vegna. Davíð hafði úthellt miklu blóði. Musterið skyldi reisa arftaki Davíðs, friðsamur maður. (1. Kroníkubók 22:8-10) Önnur Samúelsbók segir okkur líka hvernig það atvikaðist að Davíð keypti þreskivöllinn þar sem musterið var síðar reist. (2. Samúelsbók 24:18-25) Fyrri Kroníkubók bætir þar við með því að lýsa hinu gríðarmikla framlagi Davíðs og öllum þeim ráðstöfunum sem hann gerði, þannig að allt yrði til reiðu fyrir Salómon þegar hann hæfist handa við musterisbygginguna. (1. Kroníkubók 22:6-19) Jehóva gaf Davíð meira að segja uppdrátt að musterinu sem var trúfastlega látinn berast Salómon. — 1. Kroníkubók 28:9-21.

Blessun Jehóva . . .

Þegar þú kemur að síðari Kroníkubók í lestri þínum veitir þú því athygli að stef bókanna fer að skera sig úr: Þegar Júdakonungar sýndu Jehóva fullkomið traust hlutu þeir blessun. Þegar þeir gerðu það ekki þjáðist þjóðin. Þegar til dæmis Abíam, sonur Rehabeams konungs, háði stríð gegn Ísrael, náði Jeróbóam, herkonungur Norðurríkisins, yfirhöndinni með kænskubrögðum. Her Abíams var algerlega umkringdur og þá „hrópuðu þeir til [Jehóva], og prestarnir þeyttu lúðrana.“ Með hvaða árangri? „Þá laust Guð Jeróbóam og allan Ísrael í augsýn Abía [Abíams] og Júda.“ — 2. Kroníkubók 13:14, 15.

Eins sigraði Asa, sonur Abía, milljón manna her Eþíópíumanna vegna þess að hann treysti á Jehóva. (2. Kroníkubók 14:9-12) Sonur Asa, Jósafat, bjargaðist frá sameiginlegri árás Ammoníta, Móabíta og Edómíta, og mörgum árum síðar var afkomanda hans, Hiskía konungi, bjargað undan voldugum her Assýríu vegna þessa sama trúartrausts. — 2. Kroníkubók 20:1-26; 32:9-23.

. . . og vanþóknun

En margir konunganna sýndu ekki þetta trúartraust, og venjulega voru ástæðurnar með þrennu móti. Sú fyrsta var að margir féllu í snöru skurðgoðadýrkunar. Jóas, sonar-sonarsonur Jósafats, fór vel af stað en snerist síðan til skurðgoðadýrkunar. Jehóva tók frá honum vernd sína og Jóas beið ósigur í bardaga við Sýrlendinga og var að lokum ráðinn af dögum. (2. Kroníkubók 24:23-25) Hjá Amasía, syni Jóasar, kom fram hversu lokkandi skurðgoðadýrkun getur verið. Í upphafi var Amasía til fyrirmyndar í að sýna trú á Jehóva. Síðan, eftir að hafa unnið sigur í stríði við Edómíta, tók hann guði þeirra og fór að dýrka þá, svo ótrúlegt sem það var! (1. Kroníkubók 25:14) Jehóva tók því vernd sína aftur frá konunginum.

Líklega er Manasse ljótasta dæmið um skurðgoðadýrkun. Konungur lét ekki nægja að dýrka falska guði heldur ofsótti beint þá sem héldu sér við tilbeiðsluna á Jehóva. Sökum þess að „hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði“ fastréð Jehóva að eyða Júda. ‚Jehóva vildi ekki fyrirgefa.‘ (2. Konungabók 21:11; 23:26; 24:3, 4) Þótt ótrúlegt kunni að virðast var Manasse sonur Hiskía, þess konungs Gyðinga sem sýnt hafði einhverja mesta trúfesti. Meira að segja kom fæðing hans til af kraftaverki því að hann var fæddur eftir að Jehóva hafði með kraftaverki lengt líf föður hans, Hiskía. (Jesaja 38:1-8; 2. Kroníkubók 33:1) Og síðasta undrunarefnið er það að Manasse skyldi iðrast og enda ævi sína sem þjónn Jehóva, eftir að hafa ofsótt tilbiðjendur Jehóva í mörg ár! — 2. Kroníkubók 33:1-6, 12-17.

Annað, sem var Júdakonungum til trafala, var bandalag við aðrar þjóðir. Það kom hinum góða konungi Asa í erfiðleika, svo og Akasi sem ekki var góður konungur. (2. Kroníkubók 16:1-5, 7; 28:16, 20) Hjá Jósafat komu skýrt fram hinar slæmu afleiðingar þess að gera bandalag við aðrar þjóðir. Þessi góði þjónn Jehóva var svo óhygginn að gera bandalag við Baalsdýrkandann Akab konung í Ísrael. Hann fór með Akab í óskynsamlega hernaðarleiðangra og leyfði Jóram, syni sínum, að kvænast Atalía, dóttur Akabs. Atalía hafði slæm áhrif á Jóram, mann sinn, og á Ahasía, son sinn, þegar að þeim kom að taka við konungdómi. Síðan, þegar Ahasía dó, sölsaði hún undir sig hásætið og myrti flesta hugsanlega keppinauta. Til allrar hamingju sá Jehóva svo um að konungsætt Davíðs varðveittist, en ónauðsynlegt samband við erlenda aðila hafði hörmulegar afleiðingar!

Þriðja snaran, sem sumir konunganna féllu í, var drambsemi. Hún spillti síðustu árum hins góða konungs Asa, og hennar vegna varð Ússía konungur, sem var hernaðarsnillingur, að eyða síðustu æviárum sínum sem einangraður holdsveikisjúklingur. Jafnvel hinn trúfasti Hiskía konungur féll í þessa snöru þegar til hans komu sendimenn frá Babýlon, og stoltur í bragði sýndi hann þeim fjársjóði musterisins. — 2. Kroníkubók 32:25, 26; Jesaja 39:1-7.

Lestu þær og lærðu af þeim

Já, Kroníkubækurnar tvær eru mikill fróðleikssjóður. Þær sýna fram á hvers konar breytni sé þóknanleg Jehóva og að jafnvel konungar geti orðið syndinni að bráð. Það er alvarleg aðvörun til okkar, einkum þeirra sem fara með yfirvald í kristna söfnuðinum. Skurðgoðadýrkun okkar tíma er jafnlævís og skurðgoðadýrkun var á tímum Ísraelskonunga, og við verðum að vera staðráðin í að forðast hana. (Efesusbréfið 3:19; Kólossubréfið 3:5; Opinberunarbókin 13:4) Við verðum líka að forðast að flækja okkur að óþörfu í samböndum við heiminn. (Jóhannes 17:14, 16; Jakobsbréfið 4:4) Og vissulega er stolt eða drambsemi veikleiki sem við þurfum enn að heyja baráttu gegn. — Orðskviðirnir 16:5, 18; Jakobsbréfið 4:6, 16.

Að lesa og læra af Kroníkubókunum tveim mun styrkja ásetning okkar að þjóna Jehóva, með því að fylgja fordæmi góðra manna og forðast að breyta eftir slæmum mönnum sem saga Gyðinga greinir frá. Það mun hvetja okkur til að breyta eftir hinu góða og forðast hið illa til að ‚við fyrir þolgæði og huggun Ritninganna höldum von okkar.‘ — Rómverjabréfið 15:4.

[Rammagrein á blaðsíðu 30]

Hvernig á 1. Kroníkubók þátt í að sanna að Jesús fæddist ekki 25. desember?

Samkvæmt 1. Kroníkubók skipaði Davíð konungur prestana í 24 „flokka,“ og var hverjum flokki falið að þjóna í viku í senn í musterinu. Hver flokkur þjónaði því tvisvar á ári í musterinu með hér um bil sex mánaða millibili.

Fyrsti flokkurinn hóf þjónustu sína strax eftir lok laufskálahátíðarinnar, síðla í september eða snemma í október. Áttundi hópurinn, nefndur eftir Abía, þjónaði í vikutíma seint í nóvember eða snemma í desember, og síðan jafnlengi síðla í júní eða snemma í júlí. Hvers vegna skiptir þjónustutími þessa flokks máli? Vegna þess að samkvæmt frásögn Lúkasar tilheyrði faðir Jóhannesar skírara, Sakaría, „sveit Abía,“ og hann var við þjónustu í musterinu þegar engill birtist honum og boðaði væntanlega fæðingu Jóhannesar. — Lúkas 1:5, 8, 9.

Eins og frásögn Lúkasar ber með sér var Jóhannes getinn mjög skömmu eftir það. Hann var því fæddur níu mánuðum síðar, annaðhvort snemma í september eða snemma í apríl. Frásögn Lúkasar sýnir líka að Jesús var sex mánuðum yngri en Jóhannes. (Lúkas 1:26) Þetta smáatriði í 1. Kroníkubók sýnir þannig að Jesús fæddist annaðhvort snemma í mars eða snemma í október, en ekki í desemberlok. Aðrar ritningargreinar sýna okkur að síðarnefndi tíminn er sá rétti. — Nánari upplýsingar er að finna í enskri útgáfu Varðturnsins frá 15. júní 1954, bls. 382.

[Rammagrein á blaðsíðu 31]

Hvers vegna var Jósef faðir tveggja ættkvísla Ísraels en bræður hans aðeins einnar hver?

Fyrri Kroníkubók hjálpar okkur að fá svar við þessari spurningu. Jósef var gefinn tvöfaldur hlutur eins og frumgetningi bar. Að vísu var Jósef næstum yngstur hinna tólf sona Jakobs, en hann var sá eldri af tveim sonum uppáhaldskonu Jakobs, Rakelar. Frumburðarrétturinn hefði átt að koma í hlut elsta sonar Jakobs, Rúbens, frumgetins sonar með Leu. En eins og 1. Kroníkubók segir okkur fyrirgerði Rúben þessum rétti vegna alvarlegrar syndar. Frásagan segir: Rúben var „frumgetningurinn . . . en er hann hafði flekkað hvílu föður síns, var frumgetningsrétturinn veittur sonum Jósefs, sonar Ísraels.“ Frásagan heldur áfram: „Því að Júda var voldugastur bræðra sinnar, og einn af niðjum hans varð höfðingi, en frumgetningsréttinn fékk Jósef.“ — 1. Kroníkubók 5:1, 2.