Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Viðurstyggð“ mistekst að koma á friði

„Viðurstyggð“ mistekst að koma á friði

„Viðurstyggð“ mistekst að koma á friði

1, 2. (a) Hvers vegna munu menn aldrei koma á friði með hjálp samtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar? (b) Hvernig mun Guð koma á friði á jörðinni?

 HVERSU mjög sem menn reyna að koma á friði og öryggi í gegnum stofnanir svo sem Sameinuðu þjóðirnar mun þeim aldrei takast það. Hvers vegna? Vegna þess að mannkynið hefur ekki frið við Guð, og varanlegt öryggi getur aðeins byggst á því að maðurinn eigi frið við skapara sinn. (Sálmur 46:2-10; 127:1; Jesaja 11:9; 57:21) Hvernig má leysa þennan vanda? Til allrar hamingju hefur Jehóva sjálfur nú þegar tekið málið í sínar hendur. Friður og öryggi mun komast á hér á jörð í gegnum Guðsríki í höndum sonar hans, Jesú, enda sungu englar við fæðingu hans: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:14; Sálmur 77:7.

2 Á fyrstu öldinni boðaði Jesús ríki Guðs og gaf friðsömum mönnum kost á að verða synir Guðs og meðstjórnendur með honum í því ríki. (Matteus 4:23; 5:9; Lúkas 12:32) Atburðirnir, sem fylgdu í kjölfarið, eru mjög líkir atburðum á okkar öld. Með því að skoða þá getum við fengið margvíslegar upplýsingar um það sem gerast mun í tengslum við stofnun manna til „friðar og öryggis,“ Sameinuðu þjóðirnar.

Gyðingarnir velja

3. Hver reyndi að viðhalda friði og öryggi á alþjóðavettvangi á dögum Jesú, og hvers vegna gat það aldrei tekist fullkomlega?

3 Á dögum Jesú réði Rómaveldi yfir stórum hluta jarðarinnar og hafði sínar eigin hugmyndir um frið og öryggi. Fyrir tilstyrk herja sinna hafði það knúið fram pax romana (hinn rómverska frið) um verulegan hluta þess heims sem þá var þekktur. En pax romana gat aldrei verið varanlegur friður, því að hið heiðna Rómaveldi og hersveitir þess gátu aldrei komið á sáttum milli manna og Guðs. Ríkið, sem Jesús boðaði, skaraði því langt fram úr.

4. Hvernig brugðust flestir Gyðingar við prédikun Jesú? Hvað þróaðist samt smám saman á fyrstu öldinni?

4 Samt sem áður hafnaði meirihluti samlanda Jesú Guðsríki. (Jóhannes 1:11; 7:47, 48; 9:22) Leiðtogar þjóðarinnar litu á Jesú sem ógnun við þjóðaröryggi, framseldu hann til aftöku og sögðu: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 11:48; 19:14, 15) Sumir Gyðingar, og síðar fjölmargir menn af þjóðunum, viðurkenndu þó Jesú sem útvalinn konung Guðs. (Kólossubréfið 1:13-20) Þeir prédikuðu og sögðu frá honum í fjölmörgum löndum og Jerúsalem varð miðpunktur alþjóðasamfélags kristinna manna. — Postulagsagan 15:2; 1. Pétursbréf 5:9.

5, 6. (a) Hvernig breyttist sambandið milli Gyðinga og Rómaveldis? (b) Hvaða aðvörun gaf Jesús og hvernig bjargaði hún lífi kristinna manna árið 70?

5 Þrátt fyrir það að Gyðingar hefðu tekið keisarann fram yfir Krist versnaði brátt samband Jerúsalem og Rómar. Sílótagyðingar háðu skæruhernað gegn heimsveldinu sem endaði með því að opið stríð braust út árið 66. Rómverskar hersveitir reyndu að koma aftur á pax romana og Jerúsalem var brátt umsetin. Fyrir kristna menn hafði þetta sérstaka þýðingu. Mörgum árum áður hafði Jesús aðvarað: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt.“ (Lúkas 21:20, 21) Jerúsalem var nú umkringd og kristnir menn biðu færis á að flýja.

6 Þeir þurftu ekki að bíða lengi. Rómverjar voru að grafa undan musterisveggnum og fjölmargir Gyðingar voru reiðubúnir til uppgjafar þegar rómverski hershöfðinginn Cestíus Gallus hvarf óvænt á brott með hersveitir sínar. Sílótar notuðu tækifærið til að endurskipuleggja varnir sínar en kristnir menn yfirgáfu hina dæmdu borg. Árið 70 var rómverskur her aftur kominn á staðinn, setti upp búðir umhverfis múra Jerúsalem og núna var borgin jöfnuð við jörðu. Hvernig snertir þessi sögulegi harmleikur okkur? Á þann hátt að aðvörun Jesú, sem bjargaði lífi fylgjenda hans, hefur líka þýðingu fyrir okkur núna.

Fleiri en ein uppfylling

7-9. (a) Hvernig vitum við að spádómur Jesú um að Jerúsalem yrði umkringd herfylkingum átti að rætast oftar en einu sinni? (b) Hvernig styður það þennan skilning að lesa bók Daníels af skilningi?

7 Þessi aðvörun var hluti af löngum spádómi sem Jesús bar fram til svars við mikilvægri spurningu. Fylgjendur hans höfðu spurt: „Hvenær verður þetta [eyðing musteris Gyðinga]? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Í svari sínu lýsti Jesús margþættu tákni, þar á meðal að Jerúsalem yrði umsetin. (Matteus 24; Markús 13; Lúkas 21) Á árunum eftir dauða Jesú rættust mörg atriði þessa spádóms sem náði hámarki þegar Jerúsalem var lögð í rúst og kerfi Gyðinga leið undir lok árið 70. — Matteus 24:7, 14; Postulagsagan 11:28; Kólossubréfið 1:23.

8 En lærisveinarnir höfðu líka spurt um „komu“ eða nærveru Jesú sem Biblían setur í samband við endalok alls heimskerfisins. (Daníel 2:44; Matteus 24:3, 21) Með því að nærvera Jesú í andanum og endalok alls heimskerfisins átti sér ekki stað á fyrstu öldinni, mátti búast við meiriháttar uppfyllingu spádóms Jesú í framtíðinni þar sem þessir atburðir fyrstu aldar væru fyrirmynd hinnar meiri uppfyllingar. Hún hlaut að fela í sér meiri uppfyllingu á aðvörun Jesú um eyðingu Jerúsalem.

9 Þetta sést enn betur ef við skoðum hvernig aðvörun hans er skráð í hinum biblíubókunum tveim þar sem hana er að finna. Hjá Matteusi er umsátursherinn kallaður ‚viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standandi á helgum stað.‘ (Matteus 24:15) Í frásögn Markúsar er talað um „viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi.“ (Markús 13:14) Frásögn Matteusar segir að „viðurstyggð eyðingarinnar“ sé einnig nefnd í Daníelsbók. Orðið ‚viðurstyggð‘ kemur reyndar þrisvar fyrir í þeirri bók: Fyrst (í fleirtölu) í Daníel 9:27 sem hluti af spádómi er rættist þegar Jerúsalem var eytt árið 70, og síðan í Daníel 11:31 og 12:11. Samkvæmt tveim síðari ritningargreinunum átti að stilla ‚viðurstyggðinni‘ upp „á ákveðnum tíma“ eða við ‚endalokin.‘ (Daníel 11:29; 12:9) Við höfum frá 1914 lifað ‚tíma endalokanna‘ og því á aðvörun Jesú einnig við núna. — Matteus 24:15.

Val kristna heimsins

10, 11. Hvernig hafa atburðir á okkar öld líkst atburðum fyrstu aldar?

10 Á okkar öld hafa atburðirnir fylgt svipuðu mynstri og var á fyrstu öld. Núna, eins og þá, er að finna veldi sem ræður miklu á alþjóðavettvangi. Þetta er ensk-ameríska heimsveldið sem reynir af öllum mætti að þröngva upp á mannkynið sínum hugmyndum um frið og öryggi. Á fyrstu öldinni hafnaði Ísrael Jesú sem smurðum konungi Guðs. Árið 1914 hófst nærvera Jesú sem krýndur konungur Jehóva. (Sálmur 2:6; Opinberunarbókin 11:15-18) En þjóðirnar, þeirra á meðal þær sem mynda kristna heiminn, neituðu að viðurkenna hann. (Sálmur 2:2, 3, 10, 11) Í staðinn steyptu þær sér út í grimmilega heimsstyrjöld um drottinvaldið yfir heiminum. Trúarleiðtogar kristna heimsins — eins og leiðtogar Gyðinga — hafa gengið fram fyrir skjöldu í því að hafna Jesú. Frá 1914 hafa þeir unnið leynt og ljóst að því að láta til sín taka á vettvangi stjórnmálanna, og jafnframt verið andsnúnir prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. — Markús 13:9.

11 Eins og á dögum Jesú hefur þó fjöldi einstaklinga fagnandi viðurkennt konung Jehóva og útbreitt fagnaðarerindið um ríkið út um heiminn. (Matteus 24:14) Um þrjár milljónir votta Jehóva láta nú í ljós hollustu sína við ríki Guðs. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Þeir eru hlutlausir gagnvart stjórnmálum þessa heims og bera fullt traust til þeirra ráðstafana sem Jehóva hefur gert til að koma á friði og öryggi. — Jóhannes 17:15, 16; Efesusbréfið 1:10.

‚Viðurstyggðin‘ nú á dögum

12. Hver er ‚viðurstyggðin‘ á okkar tímum?

12 Hver er þá nú á tímum „viðurstyggð eyðingarinnar“? Á fyrstu öldinni birtist hún í mynd rómverskra hersveita sem sendar voru til að koma aftur á pax romana í Jerúsalem. Þjóðirnar, sem háðu fyrri heimsstyrjöldina, voru hins vegar sviptar tálvonum sínum um notagildi allsherjarstríðs til að koma á friði. Þær reyndu því nýja aðferð — alþjóðasamtök til varðveislu heimsfriðarins. Þessi samtök komu fram á sjónarsviðið árið 1919 sem Þjóðabandalagið og eru enn til undir heitinu Sameinuðu þjóðirnar. Þessi samtök eru „viðurstyggð eyðingarinnar“ á okkar tímum.

13, 14. (a) Hvernig hefur kristni heimurinn borið lof á ‚viðurstyggðina‘? (b) Hvers vegna var það skurðgoðadýrkun og í hvaða stöðu setti það ‚viðurstyggðina‘?

13 Athyglisvert er að skoða merkingu hebreska orðsins sjiqquts sem þýtt er „viðurstyggð“ hjá Daníel spámanni. Í Biblíunni er það einkanlega notað um skurðgoð og skurðgoðadýrkun. (1. Konungabók 11:5, 7) Með það í huga skulum við lesa nokkrar athugasemdir trúarleiðtoga um Þjóðabandalagið:

„Hvað er þessi hugsýn um heimssamtök mannkynsins . . . ef hún er ekki Guðsríki?“ „Þjóðabandalagið á rót sína í fagnaðarerindinu.“ (Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku.) „Fullyrða má að hvert einasta markmið og athöfn [Þjóðabandalagsins] sé uppfylling á vilja Guðs eins og hann var kunngerður í kenningu Jesú Krists.“ (Biskupar Englandskirkju) „Fundurinn mælir því með að allir kristnir menn styðji og biðji fyrir Þjóðabandalaginu sem einu færu leiðinni til að koma á [friði á jörð].“ (Allsherjarþing baptista, safnaðarkirkjunnar og öldungakirkjunnar á Bretlandi). „[Þjóðabandalagið] er eina skipulagða tilraunin sem hefur verið gerð til að hrinda í framkvæmd endurteknum óskum páfastólsins.“ — Bourne kardínáli, erkibiskup af Westminster.

14 Þegar þjóðirnar ekki aðeins höfnuðu ríki Guðs heldur settu líka á laggirnar sín eigin samtök til að koma á friði var það í reyndinni uppreisn. Þegar trúarleiðtogar kristna heimsins lögðu þessi samtök að jöfnu við ríki Guðs og settu þau í samband við fagnaðarerindið, sögðu þau vera ‚einu færu leiðina‘ til að koma á friði, var það hrein skurðgoðadýrkun. Þeir voru að setja Þjóðabandalagið á þann stað sem tilheyrir Guðsríki, ‚á helgan stað.‘ Svo sannarlega ‚stóð það þar sem ekki skyldi.‘ (Matteus 24:15; Markús 13:14) Og trúarleiðtogarnir halda áfram að styðja arftaka Þjóðabandalagsins, Sameinuðu þjóðirnar, í stað þess að benda mönnum á hið stofnsetta ríki Guðs.

Hættan sem ógnar kristna heiminum

15, 16. Í hvaða átt er samband kristna heimsins og þjóðanna, sem styðja ‚viðurstyggðina,‘ að þróast?

15 Þótt trúfélög kristna heimsins hafi tekið Þjóðabandalagið og arftaka þess fram yfir ríki Guðs hefur samband þeirra við aðildarríki þessara samtaka versnað. Það er ekki ósvipað því sem gerðist milli Gyðinga og Rómverja. Frá 1945 hefur sífellt fjölgað innan vébanda Sameinuðu þjóðanna ríkjum sem eru annaðhvort ókristin eða beinlínis andkristin, og það veit ekki á gott fyrir kristna heiminn.

16 Í fjölmörgum löndum eru auk þess tíðir árekstrar milli trúfélaga kristna heimsins og ríkisins. Í Póllandi er litið á kaþólsku kirkjuna sem andstæðing stjórnarinnar. Á Norður-Írlandi og í Líbanon hafa áhrif trúfélaga kristna heimsins orðið til þess að draga úr líkunum á friði og öryggi. Þar við bætist að trúfélög kristna heimins hafa getið af sér menn sem hvetja, eins og sílótar Gyðinga, til ofbeldis. Þannig hefur til dæmis Alkirkjuráðið, samtök mótmælendakirkna, stutt hryðjuverkasamtök með fjárframlögum, og kaþólskir prestar berjast í frumskógunum sem skæruliðar og eiga sæti í byltingarstjórnum.

17. (a) Hver er Jerúsalem okkar tíma? (b) Hvernig mun fara fyrir henni?

17 Tíminn á eftir að leiða í ljós hversu mikil spenna á eftir að verða milli trúfélaga kristna heimsins og þjóðanna, en atburðir fyrstu aldar hafa nú þegar gefið fyrirmynd af því hvernig endalokin verða. Eins og Jesús sá fyrir lögðu herir Rómar á fyrstu öld Jerúsalem í rúst eftir miklar þrengingar. Í samræmi við þessa spádómlegu fyrirmynd munu þjóðirnar, ásamt Sameinuðu þjóðunum, ráðast á og gereyða „Jerúsalem,“ það er að segja trúarbyggingu kristna heimsins. — Lúkas 21:20, 23.

Flýið til fjallanna

18. Hvað ættu auðmjúkir menn að gera þegar þeim verður ljóst að ‚viðurstyggðin‘ stendur „á helgum stað“?

18 Á fyrstu öldinni gafst kristnum mönnum tækifæri til að flýja eftir að ‚viðurstyggðin‘ hafði sýnt sig. Jesús ráðlagði þeim að flýja án tafar því að þeir vissu ekki hve lengi tækifærið stæði. (Markús 13:15, 16) Á sama hátt ættu þeir sem hafa auðmjúkt hjarta að flýja þegar í stað trúarlegt yfirráðasvæði kristna heimsins þegar þeim verður ljóst að ‚viðurstyggðin‘ stendur „á helgum stað.“ Andlegt líf þeirra er í hættu hvert það augnablik sem þeir dvelja þar, og hver veit hversu lengi tækifærið til að flýja mun standa þeim opið?

19, 20. (a) Hvað gerðu kristnir menn á fyrstu öld þegar þeir sáu Jerúsalem umkringda rómverskum her? (b) Hvað er nú táknað með ‚fjöllunum‘ og hvað ætti að koma auðmjúkum mönnum til að flýja þangað?

19 Í frásögn Lúkasar var kristnum mönnum þess tíma ráðið að flýja þegar þeir sæju „herfylkingar umkringja Jerúsalem.“ Eins og bent hefur verið á komu þessir herir árið 66, og tækifærið til að flýja rann upp sama ár þegar Cestíus Gallus hvarf á brott með her sinn. Eftir að kristnir menn voru flúnir hélt stríðið milli Gyðinga og Rómverja áfram þótt ekki væri það í nánd við Jerúsalem. Neró keisari sendi Vespasíanus til Palestínu og varð Rómverjum talsvert ágengt þar árið 67 og 68. Þá lést Neró og Vespasíanus tók þátt í baráttunni um það hver tæki við af honum sem keisari. Eftir að hann var gerður að keisara árið 69 sendi hann Títus, son sinn, til að ljúka stríðinu í Júdeu. Árið 70 var Jerúsalem lögð í rúst.

20 Kristnir menn biðu þó ekki svo lengi í Jerúsalem að þeir sæju allt þetta. Jafnskjótt og þeir sáu umsátursherinn koma í fyrra sinnið vissu þeir að borgin var í mikilli hættu. Eins er það núna að verkfærið, sem eyðir kristna heiminum, er komið fram á sjónarsviðið. Því eigum við, jafnskjótt og við skiljum í hvílíkri hættu kristni heimurinn er, að ‚flýja til fjallanna,‘ til guðræðisskipulags Jehóva þar sem hann hefur búið okkur hæli. Aðrir spádómar gefa okkur ekkert tilefni til að ætla að hlé gefist til flótta á milli þess að fyrst er ráðist á kristna heiminn þangað til honum er gereytt. Engin þörf verður heldur fyrir slíkt hlé. Viturlegt er af mönnum með auðmjúkt hjarta að flýja kristna heiminn nú þegar.

Jerúsalem og kristni heimurinn

21. Hvers vegna birtist ‚viðurstyggðin‘ í lok endalokatíma Jerúsalemborgar, en nú á okkar öld í byrjun endalokatíma þessa heimskerfis?

21 Ætti það að valda okkur heilabrotum að á fyrstu öldinni birtist ‚viðurstyggðin‘ rétt fyrir eyðingu Jerúsalem, en að á okkar tímum kom hún fram strax í upphafi endalokatíma þessa heims? Nei. Í báðum tilvikum birtist ‚viðurstyggðin‘ á þeirri stundu er Jehóva vildi að þjónar hans flýðu. Á fyrstu öldinni urðu kristnir menn að vera um tíma í Jerúsalem til að prédika þar. (Postulasagan 1:8) Það var ekki fyrr en árið 66, þegar eyðingin var yfirvofandi, að ‚viðurstyggðin‘ birtist sem aðvörun um að þeir skyldu flýja. En að vera „í“ Jerúsalem okkar tíma merkir að tilheyra trúarlegu valdasviði kristna heimsins. * Ógerlegt er að þjóna Jehóva á velþóknanlegan hátt í svo spilltu trúvilluumhverfi. Því kom ‚viðurstyggðin‘ fram á sjónarsviðið snemma á endalokatíma þessa heims sem aðvörun til kristinna manna um að flýja. Flóttinn út úr kristna heiminum er enn í gangi, því að hver maður fær aðvörun um að flýja jafnskjótt og hann gerir sér grein fyrir að ‚viðurstyggðin‘ stendur „á helgum stað.“

22. Hvað spurningum verður svarað í næstu grein?

22 Við kunnum að spyrja hvað verði til þess að sá óvænti atburður gerist að hervædd öfl innan Sameinuðu þjóðanna leggi kristna heiminn í rúst. Hvenær mun það gerast? Og hvernig getur það á einhvern hátt stuðlað að friði og öryggi á jörðinni? Við munum ræða þessar spurningar í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ Gera mætti svipaðan samanburð á borginni Babýlon, sem Gyðingar flúðu árið 537 f.o.t., og Babýlon hinni miklu nútímans sem kristnir menn eiga að flýja núna. — Jesaja 52:11; Jeremía 51:45; Opinberunarbókin 18:4.

Manst þú?

◻ Hvers vegna hlýtur spádómur Jesú um ‚viðurstyggðina‘ að eiga sér uppfyllingu á okkar tímum?

◻ Hver er ‚viðurstyggðin‘ núna og síðan hvenær hefur hún staðið „á helgum stað“?

◻ Hverju samsvarar Jerúsalem í spádómi Jesú núna?

◻ Hvernig hjálpar Lúkas 21:20, 21 okkur að skynja hversu áríðandi sé að flýja?

◻ Hver eru ‚fjöllin‘ sem auðmjúkir menn flýja til?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 21]

Þegar trúarleiðtogar kristna heimsins lögðu Sameinuðu þjóðirnar að jöfnu við ríki Guðs og settu í samband við fagnaðarerindið var það skurðgoðadýrkun.

[Mynd á blaðsíðu 19]

„Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — LÚKAS 21:20, 21.