Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú réttlátur í augum Guðs?

Ert þú réttlátur í augum Guðs?

Ert þú réttlátur í augum Guðs?

MARGIR sjá lítinn tilgang í því að spyrja þannig. Þeir álíta mestu skipta að vera réttlátur í sínum eigin augum. ‚Gerðu það sem þér sýnist‘ er vinsæl lífsregla nú til dags. ‚Ekki finna til sektarkenndar‘ er önnur.

Þetta er ekki skoðun aðeins fáeinna unglinga sem eru gagnteknir þeirri lífshyggju að hver skuli hugsa um sjálfan sig fyrst og síðast. Í Frakklandi, þar sem 82 af hundraði landsmanna eru skírðir til kaþólskrar trúar, leiddi könnun árið 1983 í ljós að einungis fjórir af hundraði manna viðurkenna hugmyndina um synd. Í Bandaríkjunum er svipaða sögu að segja. Dr. Karl Menninger, oft nefndur „faðir amerískra geðlækninga,“ fann sig fyrir nokkrum árum knúinn til að skrifa heila bók um efnið „Hvað varð um syndina?“ (Whatever Became of Sin?) Í bókinni sagði hann: „Sem þjóð hættum við opinberlega að ‚syndga‘ fyrir um það bil 20 árum.“ Á bókarkápu sagði: „Orðið ‚synd‘ er næstum horfið úr orðaforða okkar.“

Hugtakið synd er raunar orðið svo óljóst í hugum margra að jafnvel þeir sem kalla sig kristna eiga erfitt með að skilgreina hvað synd sé.

Ýmsir bakþankar

Þrátt fyrir það að hugtakið synd hafi mikið til glatað merkingu sinni hefur ýmis þróun í heiminum komið fólki til að hugleiða málið betur. Ein sú þróun er hinn mikli fjöldi fóstureyðinga í mörgum þróuðustu löndum veraldar. Sum þessara landa hafa mjög frjálsa fóstureyðingalöggjöf, þótt þau eigi að teljast „kristin.“ Þessi stórfelldu fósturdráp hafa haft í för með sér viss viðbrögð sem hljóta að vera vandskýrð fyrir þá sem vísa því á bug að til sé nokkuð sem heitir synd.

Hvers vegna skyldu konur, sem láta lífsskoðanir sínar leyfa sér að eyða fóstri, vera gripnar sektarkennd eftir á, jafnvel svo sterkri að þær verði sinnisveikar? Meira að segja í kommúnistaríkinu Júgóslavíu „sýna rannsóknir að stór hluti kvenna, sem hafa látið eyða fóstri, á í aðlögunarörðugleikum.“ (The New Encyclopædia Britannica) Prófessor Henry Baruk, meðlimur frönsku læknaakademíunnar, segir þetta fyrirbæri stafa af því að brotið sé gegn „undirstöðureglu sem skráð er í hjörtu allra manna.“ Skráð af hverjum?

Annað nýlegt fyrirbæri, sem hefur verið mörgum umhugsunarefni, er hinn öri vöxtur samræðissjúkdóma út um allan heim. Ónæmistæring (AIDS), með sinni háu dánartíðni, hefur leyst úr læðingi flóðbylgju efasemda og angistar meðal margra sem álitu fjöllyndi í kynferðismálum frelsa fólk úr fjötrum úreltra banna. Hið háa verð, sem margir greiða fyrir „frelsi“ sitt í kynferðismálum, hefur komið sumum til að spyrja sig hvort ekki sé verið að refsa þeim fyrir spillingu. Frá hverjum ætti sú refsing að koma?

Slíkar áminningar um að maðurinn getur ekki sér að meinalausu virt siðferðisreglur að vettugi, hefur komið sumum hugsandi mönnum til að endurmeta viðhorf sín til syndar og ábyrgðar gagnvart Guði.

Kirkjurnar og syndin

„Synd þessarar aldar er missir allrar syndarvitundar.“ Píus páfi XII kvað svona fast að orði árið 1946. Augljóst er að ástand mála hefur versnað síðan. Í nýlegu plaggi sínu um synd og skriftir, nefnt „Sættir og skriftasakramenti,“ vitnar Jóhannes Páll páfi II í þessi orð forvera síns og harmar það sem hann kallar formyrkvun hugtaksins synd í þjóðfélagi sem orðið er óháð kirkju og trú.

Páfi minnti kaþólska presta, og kaþólska menn almennt, líka á að hópjátning og hópsyndafyrirgefning, tíðkuð í mörgum kaþólskum kirkjum núna, sé ekki nógu góð. Hann sagði að einstaklingsbundin játning sé „eina venjulega og eðlilega leiðin“ til að veita skriftasakramenti. Samkvæmt kaþólskum trúarsetningum er skriftasakramentið tengt góðum verkum sem sætta syndara við Guð.

Flestar mótmælendakirkjur neita því að menn þurfi að játa syndir sínar fyrir presti, skrifta. Þær halda því fram að nóg sé að játa syndir sínar fyrir Guði til að hljóta fyrirgefningu, en sumar aðhyllast þó almenna játningu og syndafyrirgefningu samfara „altarisgöngu.“ Margir mómælendur eru þeirrar skoðunar að trúin ein nægi til að réttlæta kristinn mann fyrir Guði.

Þessi mikli munur innan svokallaðra kristinna kirkna á kenningum varðandi skriftir, syndajátningu, skriftasakramenti og réttlætingu, eða þá hvernig standa megi réttlátur frammi fyrir Guði, gera margan manninn ringlaðan. Menn hafa óljóst á tilfinningunni að þeir ættu að gera eitthvað en vita ekki hvað það er.

Í greininni á eftir er rætt hvers vegna við höfum þörf á réttlætingu fyrir Guði, og skoðuð viðhorf kaþólskra og mótmælenda til „réttlætingar.“ Tvær aðrar greinar í blaðinu skýra hvað Biblían kennir um það að öðlast rétlætingu fyrir Guði og áhrif þess á þig.