Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lýstir réttlátir sem vinir Guðs

Lýstir réttlátir sem vinir Guðs

Lýstir réttlátir sem vinir Guðs

„‚Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður Guðs vinur.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 2:23.

1, 2. Hvernig er allt „bæði á jörðu og himnum“ sætt við Guð?

 „Í honum [Kristi] þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.“ (Kólossubréfið 1:19, 20) Þessi tilgangur Guðs að koma á friði og sáttum er nú að fullnast.

2 Það sem er á „himnum“ eru ekki andaverur, því að englar eru ekki endurleystir með blóði Krists. Hér er átt við menn sem eru keyptir með blóði lambsins til að vera ‚konungsríki og prestar‘ með Kristi á hinum ‚nýju himnum.‘ Auk þess hefur Jehóva nú um fimm áratuga skeið verið að koma á friði við það sem er „á jörðu,“ þá menn sem verða munu hluti hinnar réttlátu ‚nýju jarðar.‘ (Opinberunarbókin 5:9, 10; 2. Pétursbréf 3:13) Að „öllu“ skuli safnað þannig saman, bæði á jörð og himnum, gerist samkvæmt ‚vilja Jehóva og ákvörðun.‘ — Efesusbréfið 1:9, 10.

Tilgangur Jehóva með Adam, son sinn

3, 4. Hver var staða Adams frammi fyrir Guði og í hvaða skilningi var enn eftir að lýsa hann réttlátan?

3 Adam var skapaður sem fullkominn, réttlátur maður, sonur Guðs. (Lúkas 3:38) Réttlæti hans var ekki tilreiknað heldur áskapað. Með því að Adam var syndlaus fyrir augliti Jehóva þurfti ekki að „lýsa“ hann réttlátan. Svo lengi sem hann lyti réttmætu drottinvaldi Guðs stæði hann réttlátur frammi fyrir skapara sínum.

4 Adam hafði þó enn ekki sannað að hann varðveitti ráðvendni, og því var ekki búið að dæma hann verðugan réttarins til eilífs lífs á jörð. Til að svo gæti orðið þurfti hann um tíma að sýna Jehóva trúfesti og fastheldni við réttlætið. Hefði hann sýnt sig ráðvandan í prófraun hefði honum verið veittur réttur til að lifa eilíflega á jörðinni. Það hefði verið eins og Guð væri að lýsa Adam verðugan eilífs lífs. Til tákns um það hefði Jehóva vafalaust leitt hann að „lífsins tré“ og leyft honum að eta ávöxt þess. — 1. Mósebók 2:9, 16, 17; 3:22.

5. (a) Hverju tapaði Adam bæði fyrir sjálfan sig og afkomendur sína? (b) Hvaða von gaf Jehóva hinni mannlegu sköpun?

5 En Adam brást þegar hann var prófaður og missti þar með fullkomleika sinn, réttlæti og sonarrétt sjálfs sín og afkomenda sinna. (Rómverjabréfið 5:12) Þar af leiðandi voru allir afkomendur Adams fæddir fráhverfir Guði, að eðli til ranglátir. (Efesusbréfið 2:3; Rómverjabréfið 3:10) Hin mannlega sköpun var því „undirorpin fallvaltleikanum,“ þó „í von“ um frelsun frá synd og dauða sem gefin var þegar eftir uppreisnina í Eden. — Rómverjabréfið 8:20, 21; 1. Mósebók 3:15.

Lýstir réttlátir fyrir Kristi — hvernig?

6, 7. (a) Í hvaða mæli voru sumir menn lýstir réttlátir fyrir fórnardauða Krists? (b) Nefnið suma þjóna Jehóva fyrir daga kristninnar sem voru álitnir réttlátir.

6 Von mannkynsins um frelsun frá synd og dauða var undir því komin að hið fyrirheitna „sæði“ Guðs, eingetinn sonur hans, kæmi. (Jóhannes 3:16) Fyrir fórnardauða Krists áttu menn þess engan kost að hljóta „sýknun og líf“ eða verða „lýstir réttlátir til lífs.“ (Rómverjabréfið 5:18, Ísl. bi. 1981; NW) Þrátt fyrir það létu sumir í ljós trú á fyrirheit Guðs áður en Kristur greiddi lausnargjaldið fyrir mennina, og sýndu trú sína í verki. Þar af leiðandi fyrirgaf Jehóva þeim synd þeirra og viðurkenndi þá sem þjóna sína. Í kærleika sínum leit hann á þá sem tiltölulega syndlausa í samanburði við meirihluta mannkynsins, fjarlægt Guði. (Sálmur 32:1, 2; Efesusbréfið 2:12) Hann gaf þeim réttláta stöðu, lýsti þá réttláta að því marki sem viðeigandi var á þeim tíma.

7 Fyrir því fékk Abel „þann vitnisburð, að hann væri réttlátur.“ (Hebreabréfið 11:4) Nói „varð erfingi réttlætisins af trúnni.“ (Hebreabréfið 11:7) Þrátt fyrir bresti Jobs fékk hann þá umsögn að hann væri „ráðvandur og réttlátur.“ (Jobsbók 1:1, 22; 7:21) Pínehas var kostgæfur gagnvart sannri guðsdýrkun, og „honum var reiknað það til réttlætis.“ (Sálmur 106:30, 31; 4. Mósebók 25:1-13) „Fyrir trú“ og góðverk sín í þágu þjóðar Guðs var skækjan Rahab, sem ekki var ísraelsk, lýst réttlát. — Hebreabréfið 11:31; Jakobsbréfið 2:25.

Hvernig Abraham var tilreiknað réttlæti

8, 9. (a) Réttlæti hverra er aðalviðfangsefni Páls í bréfinu til Rómverja? (b) Að hvaða leyti eru ‚hinir heilögu‘ lýstir réttlátir í fyllri skilningi en Abraham?

8 Abraham verðskuldar að honum sé sérstakur gaumur gefinn. Tveir ritarar kristnu Grísku ritninganna nefna að hann hafi verið lýstur réttlátur. Báðir voru þeir kristnir menn á fyrstu öld, kallaðir til að vera hluti hinna 144.000 andlegu Ísraelsmanna. — Rómverjabréfið 2:28, 29; 9:6; Jakobsbréfið 1:1; Opinberunarbókin 7:4.

9 Í bréfi sínu til Rómverjanna heldur Páll því fram að þeir sem „heilagir eru samkvæmt köllun“ (1:7), bæði Gyðingar og heiðingjar (1:16, 17), séu réttlættir „af trú án lögmálsverka.“ (3:28) Í alllöngu máli (4:1-22) færir hann rök fyrir því og vitnar svohljóðandi í 1. Mósebók 15:6: „Abraham trúði [Jehóva], og það var reiknað honum til réttlætis.“ Í síðasta versi 4. kaflans segir Páll síðan að Jesús hafi verið „framseldur vegna misgjörða vorra [það er að segja ‚hinna heilögu‘ (Rómverjabréfið 1:7)] og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.“ Persónufornafnið ‚vér‘ getur ekki innifalið Abraham, því að hann dó löngu fyrir dauða Krists og upprisu. Þegar Páll talar í köflunum á eftir um þá sem eiga að „ríkja“ og að þeir séu réttlættir „til lífs“ til að geta orðið ‚synir Guðs‘ og „samarfar Krists,“ er hann augljóslega að tala um eitthvað allt annað en að Guð hafi tilreiknað Abraham réttlæti. — Rómverjabréfið 5:17, 18; 8:14, 17, 28-33.

10. Hvernig varpar Jakob ljósi á það í hvaða mæli Abraham var lýstur réttlátur?

10 Jakob nefnir líka Abraham sem dæmi til að sanna að trú þarf að eiga sér stuðning í guðrækilegum verkum. Eftir að hafa nefnt, með tilvitnun í 1. Mósebók 15:6, að Abraham hafi verið lýstur réttlátur, bætir hann við athugasemd sem hjálpar okkur að skilja hversu umfangsmikil réttlæting Abrahams var. Hann segir: „Ritningin rættist, sem segir: ‚Abraham trúði [Jehóva], og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður Guðs vinur.“ (Jakobsbréfið 2:20-23) Já, vegna trúar sinnar var Abraham lýstur réttlátur sem vinur Jehóva, ekki sem sonur er hefði lífsrétt sem fullkominn maður eða rétt til konungdóms með Kristi. Um réttlæti Abrahams er að finna athyglisverða athugasemd í bókinni Synonyms of the Old Testament eftir Robert Girdlestone: „Þetta réttlæti var ekki algert, það er að segja slíkt sem mælti með Abraham við Guð til réttmætrar arftöku sem sonur.“

Minnisbók Jehóva

11. Nöfn hverra eru skrifuð í minnisbók Jehóva og hvers vegna?

11 Hið takmarkaða réttlæti tilreiknað trúföstum körlum og konum fyrir daga Krists, var tákn hins raunverulega réttlætis og fullkomleika, tengdur eilífa lífinu, sem þeir geta hlotið á nýrri jörð Guðs. Sé mið tekið af lífshorfum þeirra má líta svo á að nöfn þeirra séu rituð í minnisbók. (Samanber Malakí 3:16; 2. Mósebók 32:32, 33.) Hún geymir nöfn þeirra sem Jehóva lítur á sem ‚réttláta,‘ manna sem hafa sýnt trú sína með verkum réttlætisins og eiga í vændum að hljóta eilíft líf á jörðinni. — Sálmur 69:29; Habakkuk 2:4.

12. Hvað þurfa hinir ‚réttlátu,‘ sem eru reistir upp, að gera til að varðveita nöfn sín í minnisbók Jehóva?

12 Nöfn þeirra eru þó enn ekki rituð í „lífsins bók“ sem Jehóva geymir. (Opinberunarbókin 20:15) Þegar þessir trúföstu karlar og konur fortíðarinnar koma fram á jörðinni í ‚upprisu réttlátra‘ munu þeir vafalaust taka með trú á móti ráðstöfun Jehóva til lífs sem felst í lausnarfórn Krists. (Postulasagan 24:15) Þeir verða þar með hluti af ‚öðrum sauðum‘ Jesú í félagi við ‚múginn mikla‘ sem hefur lifað af ‚þrenginguna miklu.‘ (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9, 14) Með því varðveita þeir nöfn sín í minnisbók Jehóva.

Álitnir réttlátir sem vinir Guðs og tryggð björgun

13. Hverjum er góði hirðirinn nú að safna saman og hvernig fá þeir nöfn sín skrifuð í minnisbók Jehóva?

13 Góði hirðirinn, Jesús Kristur, er núna að safna saman ‚öðrum sauðum‘ sem ekki eru af hinni ‚litlu hjörð‘ 144.000 ‚heilagra‘ sem ríkið á himnum er gefið. (Lúkas 12:32; Daníel 7:18) Þessir ‚aðrir sauðir‘ hlýða á rödd góða hirðisins. (Jóhannes 10:16) Þeir iðka trú á Jehóva og son hans. Þeir vígja Jehóva líf sitt á grundvelli lausnarfórnar Krists. Þeir eru skírðir „í nafni föður, sonar og heilags anda“ og gera sér ljósa nauðsyn þess að rækta ‚ávöxt andans.‘ (Matteus 28:19, 20; Galatabréfið 5:22, 23) Nöfn þeirra eru rituð í minnisbók Jehóva.

14. Hvað gefur hinum ‚öðrum sauðum‘ hreina stöðu frammi fyrir Jehóva en hvað þurfa þeir að biðja hann um?

14 Þessir ‚aðrir sauðir,‘ safnað á tíma endalokanna, munu mynda ‚múginn mikla‘ sem Jóhannes postuli sá í sýn eftir að hafa séð hina 144.000 meðlimi hins andlega Ísraels. (Opinberunarbókin 7:4, 9) Hann lýsti ‚múginum mikla‘ svo að hann hefði „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Vers 14) Vegna trúar sinnar á úthellt blóð lambsins er þeim tilreiknað réttlæti í nokkrum mæli. Það er táknað með hvítu klæðunum. Þeir standa hreinir frammi fyrir Jehóva og „þess vegna“ leyfir hann þeim að „þjóna honum dag og nótt í musteri hans.“ (Vers 15) Samt sem áður verða þeir dag hvern að játa syndir sínar fyrir Jehóva og biðjast fyrirgefningar í gegnum Jesú Krist. — 1. Jóhannesarbréf 1:9–2:2.

15. (a) Hvernig sýnir dæmisagan um sauðina og hafrana að hinir ‚aðrir sauðir‘ standa réttlátir frammi fyrir Guði? (b) Í hvaða mæli eru þeir lýstir réttlátir nú á tímum?

15 Í spádómi Jesú um ‚tákn nærveru sinnar,‘ sem felur í sér dæmisöguna um sauðina og hafrana, kemur líka vel fram að hinir ‚aðrir sauðir‘ eru vinir Guðs og standa jafnvel núna tiltölulega réttlátir frammi fyrir honum. Úr því að „sauðirnir“ gera gott leifum 144.000 „bræðra“ Krists, sem enn eru á jörðinni, hljóta þeir bæði blessun föður Jesú og eru líka kallaðir ‚réttlátir.‘ Eins og Abraham eru þeir álitnir eða lýstir réttlátir sem vinir Guðs. Réttlát staða þeirra merkir líka líf fyrir þá þegar „hafrarnir“ fara til „eilífrar glötunar“ eða afnáms. (Matteus 24:3–25:46) Þeir ‚koma úr þrengingunni miklu‘ sem verður endalok hins núverandi illa heimskerfis. — Opinberunarbókin 7:14.

Lyft upp til fullkomleika

16. Hvernig vitum við að múgurinn mikli er ekki lýstur réttlátur til lífs fyrir ‚þrenginguna miklu‘?

16 ‚Múgurinn mikli,‘ sem lifir af ‚þrenginguna miklu,‘ er ekki þá þegar lýstur réttlátur til lífs. Við sjáum það af því að kaflinn, sem talar um hann, segir líka: „Lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins.“ (Opinberunarbókin 7:17) Jafnvel þótt Guð hafi áður talið þá réttláta í samanburði við mannkynið í heild og litið á þá sem vini sína, þurfa þeir enn frekari hjálp til að hægt sé að lýsa þá réttláta til lífs.

17. (a) Hvað er átt við með ‚lækningu þjóðanna‘? (b) Hverjir þurfa að fá nöfn sín rituð í „lífsins bók‘?

17 Í þúsundáraríkinu mun lambið, Kristur Jesús, ásamt 144.000 meðkonungum sínum og -prestum, ‚lækna þjóðirnar‘ bæði andlega og líkamlega. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Slíkar ‚þjóðir‘ verða myndaðar af þeim sem lifa af þrenginguna miklu, börnum sem þeim kunna að fæðast eftir Harmagedón og þeim sem koma fram í ‚upprisu bæði réttlátra og ranglátra.‘ (Postulasagan 24:15) Hver sem iðkar trú á blóð Krists og vinnur ‚verk‘ í samræmi við það fær að lokum nafn sitt ritað í „lífsins bók.“ — Opinberunarbókin 20:11-15.

18. Í hvers konar ástand verða jarðarbúar komnir við lok þúsundáraríkisins?

18 Þegar lýkur þúsundárastjórn Krists hefur þeim sem hafa tekið á móti lausnarfórn Krists og lifað eftir stöðlum Jehóva verið lyft upp til fullkomleika. Þeir verða eins og Adam áður en hann syndgaði. Eins og var hjá honum verður hlýðni þeirra prófuð og reynd.

‚Dýrðarfrelsi‘ sem ‚Guðs börn‘

19. (a) Hvað gerist strax að þúsund árunum loknum? (b) Hvernig fer fyrir þeim sem ekki finnast skráðir í „lífsins bók‘?

19 Strax að loknu þúsundáraríkinu afhendir Kristur föður sínum fullkomið mannkyn. (1. Korintubréf 15:28) ‚Satan verður leystur‘ til að gera lokaprófun á mannkyninu. (Opinberunarbókin 20:7, 8) Standist menn ekki prófið finnast nöfn þeirra ‚ekki skráð í lífsins bók.‘ Í táknrænum skilningi verður þeim „kastað í eldsdíkið“ sem „er hinn annar dauði.“ — Opinberunarbókin 20:15; 21:8.

20. (a) Hverja mun Jehóva lýsa réttláta til lífs og hvers vegna? (b) Hvernig mun miskunnarrík ráðstöfun Jehóva til réttlætingar þá hafa þjónað tilgangi sínum?

20 Þeir sem reynast Jehóva drottinhollir fá nöfn sín rituð í „lífsins bók“ þaðan sem þau verða ekki afmáð. Ráðvendni þeirra er fullkomin og þeir eru verðugir þess að hljóta eilífan lífsrétt á jörðinni. Jehóva mun þá sjálfur lýsa þá réttláta í algerum skilningi. (Rómverjabréfið 8:33) Þeir eru þá orðnir réttlættir til eilífs lífs. (Opinberunarbókin 20:5) Guð mun taka sér þá fyrir jarðneska syni og þeir munu ganga inn til hins fyrirheitna „dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:20, 21) Friði og samlyndi hefur aftur verið komið á í alheiminum. Öllu hefur verið komið aftur í sátt við Guð, bæði því sem er „á jörðu og himnum.“ (Kólossubréfið 1:20) Hin miskunnsama ráðstöfun Jehóva til réttlætingar hefur þjónað tilgangi sínum. Sérhver sköpunarvera á himni og jörð mun þá geta svarað játandi spurningunni: „Ert þú réttlátur í augum Guðs?“ og bætt við: „Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.“ — Opinberunarbókin 5:13.

Um hina ‚aðra sauði‘ og stöðu þeirra frammi fyrir Guði:

◻ Hvers vegna var Adam ekki lýstur réttlátur?

◻ Í hvaða mæli voru Abraham og aðrir karlar og konur fyrir daga Krists lýst réttlát?

◻ Nöfn hverra voru skráð í minnisbók Jehóva?

◻ Í hvaða mæli eru hinir ‚aðrir sauðir‘ réttlátir núna, og hvenær verður þeim lyft upp til fullkomleika?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 18]

Með því að trúa á „blóð lambsins“ fá hinir ‚aðrir sauðir‘ að standa hreinir frammi fyrir Jehóva. Þeir eru þannig lýstir réttlátir sem vinir hans og til björgunar úr „þrengingunni miklu.“ Þeir öðlast fullkomleika við lok þúsundáraríkisins. Eftir lokaprófraunina verða þeir lýstir réttlátir til lífs.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Nöfn hinna réttlátu eru skráð í minnisbók Jehóva.

Abel

Job

Rahab

„Mikill múgur“ nútímans