Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lýstir réttlátir „til lífs“

Lýstir réttlátir „til lífs“

Lýstir réttlátir „til lífs“

„Af réttlætis-verki eins [leiðir] réttlæting til lífs.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 5:18, Ísl. bi. 1912.

1. Hverja hungrar og þyrstir eftir réttlæti og hvernig verða þeir saddir?

 „SÆLIR eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.“ (Matteus 5:6) Svalað verður réttlætisþorsta þeirra sem „himnaríki“ tilheyrir, og einnig hinna sem „fá landið til eignar.“ (Matteus 5:10; Sálmur 37:29) Báðir hóparnir eiga hlutdeild í þeirri von sem Pétur postuli lét í ljós: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Já, Jehóva Guð hefur heitið réttlátri, nýrri, himneskri stjórn, „himnaríki,“ og réttlátri ‚nýrri jörð‘ eða mannfélagi á jörð sem verður paradís.

2. Hvaða samband er milli Jehóva, réttlætis og vonar okkar um friðsæla nýja skipan?

2 En hvað nákvæmlega ber okkur að skilja þegar talað er um réttláta nýja himna og réttláta nýja jörð? Það merkir að bæði hin nýja himneska stjórn og mannkynið á jörðinni, sem hún stjórnar, verða að viðurkenna mælikvarða Guðs á rétt og rangt. Jehóva er „bústaður réttlætisins.“ (Jeremía 50:7, NW) Réttlæti er sjálfur grundvöllur drottinvalds hans eða hásætis í alheiminum. (Jobsbók 37:23, 24; Sálmur 89:15) Til að friður geti ríkt í alheiminum verða sköpunarverur Jehóva að viðurkenna rétt hans til að setja staðla um réttlæti og ranglæti. Von okkar um réttláta nýja skipan er byggð á því að Jehóva haldi sér við staðla sína. — Sálmur 145:17.

3. Hvaða spurninga spyrjum við með hið algera réttlæti Jehóva í huga?

3 Sú spurning vaknar því hvernig hinn heilagi og réttláti Guð, Jehóva, geti átt samskipti við rangláta syndara. (Samanber Jesaja 59:2; Habakkuk 1:13.) Hvernig gat hann verið trúr sínum háleita réttlætisstaðli og samtímis valið úr hópi syndara þá sem eiga að fá hlut í hinni réttlátu stjórn, ‚nýju himnunum,‘ og viðurkenna sem vini þá sem verða hluti hinnar réttlátu ‚nýju jarðar‘? Til að svara því verðum við að skilja kenningu Biblíunnar um réttlætingu.

Miskunnarrík ráðstöfun

4. Hvers vegna er hið fallna mannkyn í stórri skuld við Guð, og hvers vegna getum við ekki losað okkur sjálf við hana?

4 Ritningin líkir syndum við skuldir. (Sjá Matteus 6:12, 14; 18:21-35; Lúkas 11:4.) Allir menn eru syndarar og því stórskuldugir við Guð. „Laun syndarinnar er dauði.“ (Rómverjabréfið 6:23) Þar sem Adam, forfaðir alls mannkynsins, ‚seldi‘ afkomendur sína „undir syndina“ gátu þeir ekkert gert til að losna undan þessari þjakandi skuld. (Rómverjabréfið 7:14) Aðeins dauði skuldarans gat fellt skuldina niður, „því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.“ (Rómverjabréfið 6:7) Engin góðverk á æviskeiði syndarans gátu endurkeypt það sem Adam hafði glatað, ekki einu sinni réttlætt hann frammi fyrir Guði. — Sálmur 49:8, 10; Rómverjabréfið 3:20.

5. Hvernig veitti Jehóva syndugu mannkyni lausn, án þess þó að víkja frá fullkominni réttvísi sinni?

5 Hvernig gæti Jehóva veitt föllnu mannkyni lausn án þess að víkja frá réttlætisstaðli sínum? Svarið undirstrikar visku Jehóva og óverðskuldaða gæsku. Páll postuli lýsir því fagurlega í bréfi sínu til Rómverja. Hann skrifar: „Þeir [syndarar] réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú. Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir, til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.“ — Rómverjabréfið 3:24-26.

6. (a) Hvernig var réttlætisstaðli Jehóva fullnægt með fórn Krists og hvað er Jehóva því fús til að gera? (b) Hvernig getur Guð tilreiknað þeim manni réttlæti sem hefur trú?

6 Í óverðskuldaðri gæsku sinni tók Jehóva við fórn Jesú í þágu afkomenda Adams. (1. Pétursbréf 2:24) Með því að Jesús var fullkominn maður jafngilti fórn hans því sem hinn fullkomni maður Adam hafði glatað, og keypti það til baka. (Sjá 2. Mósebók 21:23; 1. Tímóteusarbréf 2:6, NW.) Þar eð réttlætinu hefur verið fullnægt er Jehóva í kærleika sínum fús til að ‚feykja burt‘ eða ‚afmá‘ syndir færðar til skuldar ‚þeim sem trúir á Jesú.‘ (Jesaja 44:22; Postulasagan 3:19) Ef slíkur maður varðveitir trúfesti lætur Jehóva ekki nægja að ‚tilreikna honum afbrot hans‘ heldur tilreiknar honum auk þess réttlæti. (2. Korintubréf 5:19) Vegna þessarar miskunnsömu ráðstöfunar Guðs hafa ‚margir verið réttlættir.‘ (Rómverjabréfið 5:19) Að Guð lýsir mann syndlausan er ein hlið réttlætingar. (Postulasagan 13:38, 39) Hverjir hafa verið lýstir réttlátir í þessari heimsskipan?

144.000 „heilagir“

7. Á hvaða hátt var Kristur lýstur réttlátur og hvað varð þar með mögulegt?

7 Að sjálfsögðu þurfti Kristur sjálfur ekki að láta tilreikna sér réttlæti því að hann var raunverulega réttlátur. (1. Pétursbréf 3:18) Eftir að Jesús hafði sannað sig trúfastan allt til dauða sem fullkominn maður („hinn síðari Adam“) og eftir að hafa fórnað lífsrétti sínum á jörðinni, vakti faðir hans, Jehóva, hann upp frá dauðum. Jesús var „réttlættur í anda,“ það er að segja lýstur algerlega réttlátur af eigin verðleikum og reistur upp sem ‚lífgandi andi.‘ (1. Korintubréf 15:45; 1. Tímóteusarbréf 3:16) Með fórnardauða sínum lagði hann grundvöllinn að því að Jehóva gæti tilreiknað konum og körlum trúarinnar réttlæti. — Rómverjabréfið 10:4.

8, 9. (a) Hverjum er fyrst tilreiknað réttlæti og hvers vegna? (b) Hverjir mynda ‚nýju himnana‘ og hverju munu þeir ráða yfir?

8 Eðlilegt er að þeir sem Jehóva útvelur til að mynda hina réttlátu ‚nýju himna,‘ ríkisstjórnina undir forystu konungsins Jesú Krists, skuli fyrstir njóta fulls gagns af þessari miskunnsömu ráðstöfun í þessari heimsskipan. Daníelsbók lýsir athöfn á himnum þar sem Kristi, Mannssyninum, er fengið „vald, heiður og ríki“ til að „honum skyldu þjóna allir lýðir [á jörðinni], þjóðir og tungur.“ Síðan sér Daníel að ‚ríkið og valdið‘ er líka gefið ‚hinum heilögu Hins Hæsta,‘ Jehóva. — Daníel 7:13, 14, 18, 27; samanber Opinberunarbókina 5:8-10.

9 Opinberað er að „hinir heilögu,“ sem útvaldir eru til að ríkja með lambinu Jesú Kristi á himnesku Síonfjalli, séu 144.000 talsins, „út . . . leystir frá jörðinni.“ (Opinberunarbókin 14:1-5) Þeir mynda, ásamt Kristi, hina réttlátu ‚nýju himna‘ í nýrri heimsskipan Jehóva.

Tilreiknað réttlæti — hvernig og hvers vegna?

10. (a) Hvaða bók Biblíunnar talar ítarlegast um réttlætingu og til hverra var hún skrifuð? (b) Hverjir tengjast fyrst og fremst kenningu Biblíunnar um réttlætingu?

10 Sú bók Biblíunnar, sem vafalaust talar ítarlegast um það að Guð lýsi menn réttláta, er bréf Páls til Rómverja. Athyglisvert er að í bréfinu ávarpar hann þá sem „heilagir eru samkvæmt köllun.“ (Rómverjabréfið 1:1, 7) Það skýrir hvers vegna kenningin um ‚réttlætingu,‘ eins og Páll lýsir henni, er bundin hinum 144.000 ‘heilögu.‘

11. Hvert er samband trúar, verka og réttlætingar?

11 Kjarninn í röksemdafærslu Páls í Rómverjabréfinu er sá að hvorki Gyðingar né heiðingjar geti aflað sér réttlætis frammi fyrir Guði með verkum, hvorki verkum samkvæmt Móselögunum eða einfaldlega vegna virðingar fyrir eðlislægum siðferðislögum. (Rómverjabréfið 2:14, 15; 3:9, 10, 19, 20) Hægt er að lýsa Gyðinga og heiðingja réttláta aðeins vegna trúar á lausnarfórn Krists. (Rómverjabréfið 3:22-24, 29, 30) Leiðbeiningarnar í lokaköflum Rómverjabréfsins (12-15) sýna samt sem áður fram á að slík trú verður að eiga sér guðrækileg verk að baki, eins og Jakob líka útskýrir. (Jakobsbréfið 2:14-17) Slík verk eru einfaldlega sönnun fyrir að hinn réttlætti kristni maður hefur trú sem er forsenda fyrir því að Guð réttlæti hann.

12, 13. (a) Hvers vegna þarf að lýsa hina 144.000 ‚heilögu‘ réttláta? (b) Hvað gera þeir við þann lífsrétt sem þeir hljóta?

12 En hvers vegna er nauðsynlegt að kristnir menn, sem „heilagir eru samkvæmt köllun,“ séu lýstir réttlátir? Hér kemur til önnur hlið réttlætingarinnar, það er að segja að Guð lýsi mann verðugan lífs sem fullkominn mennskur sonur hans. Sökum þess hlutverks sem hinar 144.000 eiga að gegna á hinum réttlátu ‚nýju himnum,‘ verða þær að afsala sér tilkalli til og fórna sérhverri von um eilíft líf á jörðinni. (Sálmur 37:29; 115:16) Í þeim skilningi deyja þær fórnardauða. Þær ‚gangast undir sams konar dauða og Kristur.‘ — Filippíbréfið 3:8-11.

13 Í samræmi við meginreglu, sem sett var í Móselögunum, verður sérhver fórn borin fram fyrir Jehóva að vera gallalaus. (3. Mósebók 22:21; 5. Mósebók 15:21) Hinir 144.000 „heilögu“ eru kallaðir ‚réttlátir sem fullkomnir eru orðnir.‘ — Hebreabréfið 12:23.

Ættleiddir sem andlegir synir

14, 15. (a) Hvaða breyting verður hjá hinum 144.000 gagnvart syndinni? (b) Á hvaða hátt eru þeir vaktir upp til ‚nýs lífs‘?

14 Meðan þessir ‚réttlátu‘ eru enn í holdinu deyja þeir táknrænum dauða. Páll postuli útskýrir: „Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni? Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. . . . Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni. Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.“ — Rómverjabréfið 6:2-7.

15 Hinar 144.000 ‚heilagra,‘ sem aðeins eru litlar leifar af á jörðinni nú á tíma endalokanna, ‚deyja gagnvart syndinni‘ meðan þær enn eru á lífi sem menn. Eftir að ‚hinir heilögu samkvæmt köllun‘ deyja táknrænum dauða eru þeir vaktir upp til að „lifa nýju lífi.“ Þar eð Jehóva hefur lýst þá réttláta er honum nú fært að geta þá með anda sínum sem andleg „börn“ sín. Þeir ‚fæðast að nýju‘ og eru ættleiddir sem „Guðs börn.“ (Jóhannes 3:3; Rómverjabréfið 8:9-16) * Þeir verða andlegir Ísraelsmenn og fá aðild að nýja sáttmálanum. — Jeremía 31:31-34; Lúkas 22:20; Rómverjabréfið 9:6.

Erfingjar prestdóms og konungdóms

16. Erfingjar hvers verða hinir 144.000 ‚heilögu‘?

16 Sem ættleiddir andlegir „synir“ Guðs verða hinir 144.000 „heilögu“ líka ‚erfingjar.‘ (Galatabréfið 4:5-7) Páll skrifaði andagetnum trúbræðrum sínum: „En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:17) Hver er arfleifð Krists? Jehóva hefur gert hann að konungi og presti „að eilífu að hætti Melkísedeks.“ (Hebreabréfið 6:19, 20; 7:1) Jehóva smyr líka sem andlega presta hina andagetnu kristnu menn sem eru „samarfar“ Krists. (2. Korintubréf 1:21; 1. Pétursbréf 2:9) Eitt af lokamarkmiðum Jehóva með því að lýsa þá réttláta, er að þeir skuli síðar „lifa og ríkja vegna hins eina Jesú Krists.“ — Rómverjabréfið 5:17.

17. (a) Hvað þurfa smurðir kristnir menn að gera daglega þótt þeir séu lýstir réttlátir? (b) Hvernig hljóta þeir laun sín?

17 Meðan þessir smurðu kristnu menn eru enn á jörðinni verða þeir að berjast gegn syndugum tilhneigingum sínum, þótt þeir séu lýstir réttlátir. (Rómverjabréfið 7:15-20) Þeir hafa þörf fyrir blóð Krists til að hreinsa sig af sínum daglegu ófullkomleikasyndum. (1. Jóhannesarbréf 1:7; 2:1, 2) Þegar þeir eru trúfastir allt þar til jarðneskt líf þeirra tekur enda eru þeir, eftir að vera bókstaflega dánir, reistir upp „til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar“ sem hluti hinna réttlátu ‚nýju himna.‘ — 1. Pétursbréf 1:3, 4; 2. Pétursbréf 3:13.

‚Sköpunin bíður opinberunar Guðs sona‘

18, 19. (a) Hvers bíður „sköpunin“? (b) Hvernig ‚opinberast synir Guðs‘ og hvers vegna bíður „sköpunin,“ mennirnir, þess eftirvæntingarfullir?

18 Hvernig hefur allt þetta áhrif á þá sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, en eiga von um að erfa jörðina, og eru langt um fjölmennari en hinir 144.000 andlegu ‚synir Guðs‘? Um þá skrifar Páll postuli: „Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum . . . í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ — Rómverjabréfið 8:19-21.

19 Þessi ‚sköpun,‘ þeir menn, sem hafa von um að lifa eilíflega í paradís á jörð, ‚þrá,‘ bíða spenntir þess tíma — sem nú er nálægur — að konungurinn Jesús Kristur og hinir upprisnu ‚synir Guðs‘ ‚opinberist‘ með því að gereyða hinu núverandi illa heimskerfi og ríkja síðan sem konungar og prestar „um þúsund ár.“ (Opinberunarbókin 20:4, 6) Í þúsundáraríki Krists mun hin mannlega ‚sköpun verða leyst úr ánauð forgengileikans.‘

20. Hvað er rætt um í greininni á eftir?

20 Í greininni á eftir er fjallað um hvernig menn, sem búa á hinni réttlátu ‚nýju jörð,‘ munu að síðustu hljóta ‚dýrðarfrelsi Guðs barna,‘ og hvernig kenning Biblíunnar um réttlætingu snertir þá nú þegar.

[Neðanmáls]

^ Ítarlega umræðu um ‚endurfæðingu‘ er að finna í Varðturninum þann 1. febrúar 1982, bls. 18-28.

Þegar Guð lýsir menn réttláta —

◻ Hvað á Biblían við með réttlátum nýjum himni og réttlátri nýrri jörð?

◻ Hvers vegna þarf mannkynið að komast í rétt samband við Jehóva?

◻ Hvernig var réttlætisstaðli Jehóva fullnægt?

◻ Hvers vegna eru hinar 144.000 fyrstar til að hljóta réttlætingu, og hvað gera þær við þann lífsrétt sem þær hljóta?

◻ Hvað erfa hinar 144.000 með Kristi?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 11]

Réttlæting á sér tvær hliðar:

1) Guð lítur á einstaklinginn sem syndlausan.

2) Guð lýsir þann einstakling fullkominn og verðugan eilífs lífs á jörðinni.

Hinir 144.000 smurðu kristnu menn eru lýstir réttlátir á báða vegu. Þeir fórna lífsrétti sínum sem menn og eru getnir sem andlegir ‚synir‘ kallaðir til að vera konungar og prestar með Kristi á hinum nýju ‚himnum.‘