Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

◼ Hvers vegna hafa vottar Jehóva gert ræka fyrir fráhvarf einstaklinga sem játa eftir sem áður trú á Guð, Biblíuna og Jesú Krist?

Þeir sem hreyfa slíkum mótmælum benda á að mörg trúfélög, sem segjast kristin, láti andóf innan sinna vébanda óátalið. Jafnvel prestar lýsa sig stundum ósammála meginkenningum kirkju sinnar en halda þó stöðu sinni. Í nálega öllum kirkjudeildum kristna heimsins er að finna nýguðfræðinga og bókstafstrúarmenn sem eru algerlega á öndverðum meiði um innblástur Ritningarinnar.

Slík dæmi réttlæta þó engan veginn að við gerum slíkt hið sama? Hvers vegna? Mörg þessara trúfélaga leyfa sundurleitar skoðanir meðal klerka og leikmanna, vegna þess að þau telja sig ekki geta verið viss um hvað sé biblíulegur sannleikur. Þau eru eins og hinir skriftlærðu og farísearnir á dögum Jesú sem voru ófærir um að tala af myndugleika eins og hann. (Matteus 7:29) Auk þess eiga samkirkjuleg viðhorf víða fylgi að fagna og því neyðast kirkjufélög til að láta skoðanaágreining sér í léttu rúmi liggja.

Slík afstaða á sé enga stoð í Biblíunni. Jesús gekk ekki til liðs við neina af sértrúarhópum Gyðingdómsins. Þeir sem fylgdu þessum hópum sögðust trúa á Guð sköpunarinnar og Hebresku ritningarnar, einkanlega lögmál Móse. Samt sem áður sagði Jesús lærisveinum sínum að ‚varast kenningu farísea og saddúkea.‘ (Matteus 16:11, 12; 23:15) Taktu líka eftir hversu fast Páll postuli kveður að orði: „En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.“ Páll endurtók þetta síðan í áhersluskyni. — Galatabréfið 1:8, 9.

Sundurleitar skoðanir og andófsviðhorf geta ekki samrýmst sannri kristni. Páll postuli lætur það í ljós í 1. Korintubréfi 1:10: „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ Í Efesusbréfinu 4:3-6 segir hann enn fremur að kristnir menn eigi að ‚kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins.‘ Hann heldur áfram: „Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skín, einn Guð og faðir allra.“

Átti að ná og viðhalda þessari einingu á þann hátt að hver og einn læsi Biblíuna út af fyrir sig, drægi sínar eigin ályktanir og færi síðan að kenna þær? Nei, alls ekki! Fyrir milligöngu Jesú Krists gaf Jehóva í þessum tilgangi ‚suma sem postula, suma sem trúboða, suma sem hirða og kennara. . . . þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska.‘ Já, með hjálp slíkra þjóna orðsins yrði hægt að ná fram slíkri einingu í kenningu og starfi. — Efesusbréfið 4:11-13.

Það segir sig sjálft að meira þarf til en aðeins trú á Guð, Biblíuna, Jesú Krist og svo framvegis til að geta verið viðurkenndur félagi votta Jehóva. Hinn rómversk-kaþólski páfi og hinn anglíkanski erkibiskup af Kantaraborg játa báðir trú á Guð, Biblíuna og Jesú Krist, en þó tilheyra þeir ekki sömu kirkju. Enginn getur kallað sig vott Jehóva með því aðeins að játa trú af því tagi.

Sá sem vill vera viðurkenndur félagi votta Jehóva þarf að viðurkenna hinar sönnu kenningar Biblíunnar í heild, þar á meðal þau biblíulegu trúaratriði sem vottar Jehóva einir halda fram. Hver eru þau?

Til dæmis að hið mikla deilumál, sem mannkynið stendur frammi fyrir, varði réttmæti drottinvalds Jehóva, og að það sé ástæðan fyrir að hann hefur leyft illskuna svona lengi. (Esekíel 25:17) Að Jesús Krsitur hafi verið til áður en hann fæddist sem maður og sé undirgefinn himneskum föður sínum. (Jóhannes 14:28) Að til sé ‚trúr og hygginn þjónn‘ á jörðinni núna sem ‚settur er yfir allar jarðneskar eigur Jesú,‘ og að sá þjónn sé tengdur hinu stjórnandi ráði votta Jehóva. (Matteus 24:45-47) Að árið 1914 hafi heiðingjatímarnir endað og ríki Guðs verið stofnsett á himnum, svo og að síðari nærvera Krists hafi hafist þá. (Lúkas 21:7-24; Opinberunarbókin 11:15-12:10) Að einungis 144.000 kristnum mönnum verði umbunað með lífi á himnum. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Að Harmagedón, sem er stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda, sé í nánd. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21) Að þá taki við þúsundáraríki Krists sem muni endurreisa paradís um alla jörðina. Að fyrstur muni njóta þessarar paradísar hinn ‚mikli múgur‘ ‚annarra sauða‘ Jesú sem nú er til. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9-17; 21:3, 4.

Á það sér biblíulegt fordæmi að taka svona harða afstöðu? Já. Páll skrifaði um suma samtíðarmenn sína: „Lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus. Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna. (2. Tímóteusarbréf 2:17, 18; sjá einnig Matteus 18:6.) Ekkert bendir til að þessir menn hafi ekki trúað á Guð, Biblíuna og fórn Jesú. En í þessu eina grundvallaratriði, það er að segja hvað þeir kenndu um tíma upprisunnar, stimplaði Páll þá réttilega sem fráhvarfsmenn er trúfastir kristnir menn skyldu engin mök eiga við.

Á svipaðan hátt kallaði Jóhannes postuli andkrista þá sem trúðu ekki að Jesús hefði komið í holdinu. Vel má vera að þeir hafi trúað á Guð, Hebresku ritningarnar, Jesú sem son Guðs og svo framvegis. En í þessu eina atriði, að Jesús hefði í raun komið í holdinu, voru þeir annarrar skoðunar og því kallaðir ‚andkristar.‘ Jóhannes segir um þá sem hafa svona afbrigðileg sjónarmið: „Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn. Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.“ — 2. Jóhannesarbréf 7, 10, 11.

Ef kristinn maður (sem segist trúa á Guð, Biblíuna og Jesú) heldur fram fölskum kenningum og iðrast ekki, kann að reynast nauðsynlegt samkvæmt slíkri fyrirmynd Biblíunnar að víkja honum úr söfnuðinum. (Sjá Títusarbréfið 3:10, 11.) Ef einhver hefur aðeins efasemdir eða er ekki nægilega upplýstur um eitthvert atriði munu hæfir þjónar orðsins auðvitað hjálpa honum á kærleiksríkan hátt. Það er í samræmi við hvatningarorðin: „Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum.“ (Júdasarbréfið 22, 23) Því er ekki með réttu hægt að saka hinn sannkristna söfnuð um að vera stífur og kreddufastur. Hins vegar leggur hann mikið upp úr þeirri einingu, sem hvatt er til í orði Guðs, og vinnur að henni.