Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

◼ Þar eð Sálmur 37:29 er í mörgum biblíuútgáfum þýddur: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur,“ er þá ekki einfaldlega átt við að Ísraelsmenn skyldu hafa varanlega búsetu í fyrirheitna landinu?

Nei, sá skilningur myndi takmarka þetta innblásna loforð umfram það sem réttmætt er. Sálmur 37 gefur réttlátum mönnum von um eilíft líf hér á jörðinni.

Í íslenskum biblíum bæði frá 1912 og 1981 er Sálmur 37:29 þýddur með þessum hætti. Eins og í fjölmörgum biblíuþýðingum á fjölda tungumála er hebreska orðið erets þýtt sem „land.“ Erets getur átt við afmarkað svæði eða umráðasvæði heillrar þjóðar, svo sem í samböndunum ‚Sínearland‘ eða ‚Egyptaland.‘ — 1. Mósebók 10:10, 11; 21:21; Sálmur 78:12; Jeremía 25:20.

Sálmur 37:11, 29 gefur því til kynna að Ísraelsmenn hefðu getað og hefðu átt að eiga varanlega búsetu í fyrirheitna landinu. Í samræmi við sáttmála Guðs við Abraham hefðu þeir getað búið varanlega á því svæði, sem Guð gaf þeim, og kynslóð eftir kynslóð notið blessunar hans þar. En það fór á annan veg því að Ísraelsmenn urðu ótrúir Guði. — 1. Mósebók 15:18-21; 17:8; 5. Mósebók 7:12-16, 22; 28:7-14; 31:7; Jósúa 21:43-45.

Biblían gefur okkur hins vegar enga ástæðu til að takmarka erets í Sálmi 37:11, 29 aðeins við það land sem gefið var Ísraelsmönnum.

Samkvæmt orðabókinni A Hebrew and English Lexicon of the Old Testament (útg. 1951 af Gesenius, Brown, Driver og Briggs) merkir erets: „1. a. jörð, öll jörðin (andstætt hluta hennar) . . . b. jörð, andstætt himni . . . c. jörð = jarðarbúar . . . 2. land = a. þjóðland, svæði . . . b. hérað, svæði . . . 3. a. jörð, yfirborð jarðar . . . b. jarðvegur, ræktunarjörð.“ Old Testament Word Studies eftir William Wilson segir um erets: „Jörðin í sínum víðasta skilningi, bæði byggileg og óbyggileg; með öðru takmarkandi orði notað um hluta af yfirborði jarðar, land eða ríki.“ Meginmerking hebreska orðsins er því hnötturinn, reikistjarnan jörð.

Þegar Sálmur 37:11, 29 var þýddur á grísku í Sjötíumannaþýðingunni, var hebreska orðið erets þýtt með gríska orðinu ge sem „táknar jörðina sem ræktanlegt land eða jarðveg.“ Ge er orðið sem Jesús notar í hinum merkingarþrungna spádómi í Matteusi 5:5: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“

Þegar Jesús vitnaði í loforðið í Sálmi 37:11 er óhugsandi að hann hafi aðeins haft í huga fyrirheitna landið. Smurðir fylgjendur hans verða himneskir konungar og prestar með honum og fá hlutdeild í yfirstjórn yfir allri jörðinni. (Opinberunarbókin 5:10) Á sama hátt munu hinir hógværu fá líf sem menn og eiga hlut í að breyta allri jörðinni í paradís. (Opinberunarbókin 21:4; 1. Mósebók 1:28) Við getum því öll hlakkað til þeirrar dýrlegu framtíðar þegar rætist fyrirheitið: „Því að hinir góðu munu erfa jörðina og búa á henni að eilífu.“ — Sálmur 37:29, Fenton.