Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti að láta skíra ungbörn?

Ætti að láta skíra ungbörn?

Ætti að láta skíra ungbörn?

Litla barnið líkist tæplega syndara. Þó er tilgangur þessa aldagamla siðar sá að þvo burt syndir. Skírnarvotturinn afneitar þrívegis Satan og verkum hans. Presturinn tekur síðan upp lítið ílát og dreypir þrívegis örlitlu vatni úr því á enni barnsins og segir: „Ég skíri þig í nafni föðurins, sonarins og hins heilaga anda.“

Í NÆRFELLT tvær árþúsundir hafa ungbörn verið skírð með helgiathöfn áþekkri þessari. Foreldrar lýsa skírninni oft sem mjög áhrifamikilli athöfn. En á þessi siður sér grundvöll í orði Guðs? Jafnvel guðfræðingar kaþólskra viðurkenna að svo sé ekki. — Sjá New Catholic Encyclopedia, 2. bindi, bls. 69.

Ef þú lest Postulasöguna í Biblíunni kemst þú fljótt að raun um að hjá frumkristnum mönnum var skírn ætluð þeim sem voru færir um að ‚ljá eyru orðum‘ með skilningi og ‚gera iðrun.‘ (Postulasagan 2:14, 22, 38, 41) Þess er tæplega hægt að krefjast af ungbarni! Að vísu talar Biblían um að heil heimili, svo sem heimili Kornelíusar, hafi látið skírast, * en jafnvel þá var skírnin fyrir þá sem „orðið heyrðu“ en ekki ungbörn. — Postulasagan 10:44-47.

Erfðavenja komin frá Guði eða mönnum?

Með því að Páfagarður getur ekki bent á biblíulegan grundvöll fyrir barnaskírn kemst hann svo að orði: „Litið er á þann sið að skíra ungbörn sem aldagamla hefð.“ En var það Jesús Kristur sem kom þeirri hefð á? Nei, því að barnaskírn náði ekki útbreiðslu fyrr en alllöngu eftir dauða postulanna. Við lok annarrar aldar sagði Tertúllíanus kirkjufaðir: „Látið [börn] verða kristin þegar þau eru orðin fær um að þekkja Krist.“

Páll postuli hafði samt sem áður varað við því að koma myndi sá tími „er menn þola ekki hina heilnæmu kenning.“ (2. Tímóteusarbréf 4:3) Eftir að postularnir dóu og gátu ekki lengur ‚aftrað‘ fráhvarfi fóru óbiblíulegar hugmyndir og siðir að síast inn í kristna guðsdýrkun. (2. Þessaloníkubréf 2:6) Þeirra á meðal var barnaskírn. Þó var barnaskírn undantekning frekar en regla allt fram á fimmtu öld. Þegar þar var komið sögu komu upp hatrammar deilur sem breyttu kristna heiminum svo að ekki varð aftur snúið.

Það var breskur munkur að nafni Pelagíus sem hleypti þessari deilu af stað. Hann hafði gert sér ferð til Rómar og var steini lostinn yfir spillingunni sem hann sá þar meðal svokallaðra kristinna manna. Hann afréð þá að hvetja menn til að „leggja sig betur fram siðferðilega.“ Maðurinn getur ekki kennt ‚erfðasyndinni‘ um veikleika sína, sagði Pelagíus. „Allt hið góða og allt hið illa . . . eru hlutir sem við gerum, ekki meðfætt.“ Kenning Pelagíusar varð fljótt á hvers manns vörum í kristna heiminum.

En svo var ekki lengi. Kirkjuleiðtogar litu á þetta fráhvarf frá ‚erfðasyndinni‘ sem trúvillu. Og óafvitandi gekk Pelagíus rakleiðis í gildru þeirra með því að aðhyllast barnaskírn sem þá var orðin algeng. Biskup að nafni Ágústínus sá þetta sem himinhrópandi mótsögn. ‚Ef nauðsynlegt er að skíra ungbörn,‘ sagði Ágústínus, ‚hvað um þá sem sem ekki eru skírðir?‘ Það virtist rökrétt niðurstaða að þeir myndu lenda í eldum helvítis þar eð þeir voru óskírðir. Þegar það virtist ljóst greiddi Ágústínus kenningu Pelagíusar banahögg: Hvað annað en ‚erfðasyndin‘ gat skýrt að óskírð ungbörn hlytu slíka fyrirdæmingu?

Kenning Pelagíusar féll um sjálfa sig og var síðar lýst trúvilla á kirkjuþingi í Karþagó. ‚Erfðasyndin‘ varð jafnómissandi þáttur kaþólskrar trúar og skriftirnar. Kirkjunni var nú beint á þá braut að gangast fyrir fjöldatrúhvarfi — oft með þvingunum — til að bjarga fólki frá ‚eldum helvítis.‘ Barnaskírn breyttist úr algengri venju í opinbert verkfæri til hjálpræðis — verkfæri sem mótmælendatrúin átti eftir að taka í arf.

‚Við landamæri helvítis‘

Kenning Ágústínusar vakti ýmsar spurningar sem ákaflega erfitt var að svara. Hvernig gat Guð kærleikans látið saklaus ungbörn þjást í helvíti? Fengju óskírð ungbörn sömu refsingu og forhertir syndarar? Ekki hefur verið auðvelt fyrir guðfræðinga að gefa svör við því. Kaþólski presturinn Vincent Wilkin segir: „Sumir hafa talið óskírð ungbörn fara rakleiðis í loga helvítis, aðrir talið að þau brynnu ekki í eldinum heldur hitnaði aðeins svo að þeim liði mjög illa; enn aðrir hafa dregið úr óþægindunum í helvíti eins og frekast er unnt . . . Sumir hafa sett [börnin] í jarðneska paradís.“ *

Vinsælasta kenningin hefur þó verið sú að sálir óskírðra ungbarna séu geymdar í „limbus.“ Orð þetta merkir bókstaflega „jaðar“ (svo sem til dæmis á klæði) eða „landamæri“ og er látið lýsa svæði sem á að vera við landamæri helvítis, stundum nefnt forgarðar vítis. Kenningin um forgarða vítis er einkar þægileg fyrir guðfræðinga, því að hún mildar í það minnsta þá ógnvekjandi hugmynd að ungbörn þjáist í vítislogum.

En eins og sérhver kenning manna hefur þessi sína annmarka. Hvers vegna er ekki minnst á hana í Ritningunni? Geta börn komist út úr forgörðum vítis? Og hvers vegna ættu saklaus börn að þurfa að fara þangað yfirleitt? Svo sem skiljanlegt er tekur kirkjan það skýrt fram að kenningin um forgarða vítis sé „ekki opinber kenning kaþólsku kirkjunnar.“ *New Catholic Encyclopedia.

Aftur blásið lífi í deilurnar

Um aldaraðir héldu kaþólskir sér í meginatriðum við sjónarmið Ágústínusar og ‚vernduðu‘ börn sín gegn limbus með því að skíra þau. En síðan á sjötta tug þessarar aldar hafa deilurnar um barnaskírn gosið upp að nýju. Kaþólskir fræðimenn eru farnir að láta í ljós alvarlegar efasemdir um að barnaskírn sé biblíuleg. Aðrir játa að þeir geti hvorki fallist á hugmyndir Ágústínusar um helvíti né forgarða vítis.

Í fyrstu varð íhaldssömum kirkjuleiðtogum þó ekki haggað. Árið 1951 flutti Píus páfi XII ræðu fyrir hópi ljósmæðra. Hann staðfesti þá trú að „náðarstaðan á dauðastundinni sé alger forsenda fyrir hjálpræði“ og hvatti ljósmæður til að skíra nýburann sjálfar ef líklegt virtist að hann myndi deyja. „Ekki má bregðast að þið veitið þessa náðarþjónustu,“ hvatti hann. Árið 1958 gaf Páfagarður einnig alvarleg fyrirmæli um að „ungbörn skyldi skíra svo skjótt sem auðið er.“

En deilurnar gusu upp á nýjan leik eftir hið kunna annað Vatíkanþing. Óvænt reyndi kirkjan að taka hvorki afstöðu með íhaldssömum né frjálslyndum guðfræðingum. ‚Skírn er alger forsenda fyrir hjálpræði,‘ sagði þingið. En svo undarlega sem það hljómar áttu þeir líka kost á hjálpræði „sem án eigin sakar þekkja ekki fagnaðarerindið um Krist.“ *

Eftirleikur þessa varð sá að kirkjan endurskoðaði skírnarathöfnina. Meðal annars varð prestum nú heimilt að neita að skíra barn ef foreldrar þess hétu ekki að ala það upp í kaþólskri trú. Var kirkjan nú fyrir fullt og allt búin að snúa baki við kenningu Ágústínusar? Sumir töldu svo vera og fóru að efast um nauðsyn barnaskírnar.

Þá gaf Páfagarður út leiðbeiningar um barnaskírn. Í þeim sagði: „Kirkjan . . . þekkir enga aðra leið en skírnina til að tryggja börnum eilífa hamingju.“ Biskupar fengu fyrirmæli um að ‚leiða þá sem viknir eru frá hefðbundinni venju aftur til hennar.‘ En hvað um börn sem deyja óskírð? „Kirkjan getur einungis treyst á miskunn Guðs þeim til handa.“

Barnaskírn og barnið þitt

Vafalaust er margt einlægra kaþólskra manna ráðvillt út af öllu þessu. Samt sem áður finnst kannski mörgum, óháð kaþólskri kenningu, að skírnin gefi börnum að minnsta kosti góða byrjun á vegi trúarinnar. En er það svo? Kaþólsk móðir segir: „Ég á tvö lítil börn, bæði skírð sem hvítvoðungar, og ég sé ekki minnsta vott ‚náðar‘ í fari þeirra; fremur hið gagnstæða.“

Það að skíra lítið barn kemur að engu gagni til að byggja upp með því trú. Í raun er það brot á boði Jesú um að ‚fara og gera menn að lærisveinum og skíra þá.‘ (Matteus 28:19) Skírn er tilgangslaus nema sá sem skírður er sé nógu gamall til að vera lærisveinn. Að vísu á barnaskírn sér ‚aldagamla hefð‘ en fordæmdi ekki Jesús þá sem ‚ógilda orð Guðs með erfikenningu sinni‘? — Matteus 15:6.

Biblían hvetur því foreldra til að fræða börn sín um andleg mál „frá blautu barnsbeini.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) Vottar Jehóva taka því alvarlega hvatningu Biblíunnar um að ala börnin sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Oft er það gert með reglulegu biblíunámi allrar fjölskyldunnar. Slíkir foreldrar kenna börnum sínum að sækja og taka þátt í kristnum samkomum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þeir hvetja börn sín til að ‚játa‘ trú sína opinberlega. (Rómverjabréfið 10:10) Með tíð og tíma finna börnin kannski í hjarta sér hvöt til að vígja sig Jehóva Guði og láta það í ljós með skírn í vatni. Þessi háttur er Biblíunni samkvæmur og mun merkingarþrungnari en skírn ómálga barns.

Ef kristið barn skyldi deyja áður en það skírist þurfa foreldrar þess ekki að óttast að það brenni í eldum vítis eða sé geymt í forgörðum þess. Biblían kennir að hinir dánu séu meðvitundarlausir. (Prédikarinn 9:5, 10) Foreldrar geta leitað hughreystingar í fyrirheiti Jesú um að ‚sú stund komi, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram‘ með von um eilíft líf í endurreistri paradís. (Jóhannes 5:28, 29; Lúkas 23:43) Þessi von Biblíunnar veitir margfalt meiri hughreystingu en hinar breytilegu — og ruglingslegu — erfikenningar manna.

[Neðanmáls]

^ Greinilegt er að stundum eru börn undanskilin þegar Biblían notar orðið „heimili.“ Til dæmis talar Títusarbréfið 1:11 um að fráhvarfsmenn ‚kollvarpi heilum heimilum.‘ — Sjá einnig 1. Samúelsbók 1:21, 22.

^ Ágústínus taldi að óskírð ungbörn „fengju mildustu fordæmingu allra.“

^ Þegar kirkjuþing á 18. öld reyndi að lýsa kenninguna um forgarða vítis sem „Pelagíusar-arfsögn“ gaf Píus páfi VI út páfabréf þar sem hann fordæmdi kirkjuþingið fyrir trúvillu. Þótt páfi hafi ekki beinlínis ljáð kenningunni fylgi hélt páfabréfið henni lifandi.

^ Kaþólski guðfræðingurinn Tad Guzie kallaði hina nýju afstöðu kirkjunnar „heldur fáranlegan sakramentisgeðklofa þar sem vatnsskírn er nauðsynlegt fyrsta stig hjálpræðis fyrir ungbörn, en lokastig lengra ferlis fyrir alla aðra.“

[Tafla á blaðsíðu 7]

Meginatriði úr sögu barnaskírnar

Ártal (e.o.t.) Atburður

Um 193 .. Tertúllíanus færir rök fyrir

fullorðinsskírn.

253 .. Kirkjuþingið í Karþagó lýsir yfir að

‚ekki skuli skíra ungbörn strax.‘

412-417 .. Orðadeila milli Pelagíusar og

Ágústínusar um ‚erfðasyndina.‘

417 .. Kirkjuþingið í Karþagó fordæmir kenningu

Pelagíusar sem villutrú. Barnaskírn verður

föst hefð kaþólskrar trúar.

1201, 1208 .. Innósentíus páfi III aðhyllist

barnaskírn í ritum sínum.

1545-1563 .. Kirkjuþingið í Trent lýsir „fordæmdan“

hvern þann sem afneitar barnaskírn.

1794 .. Páfabréfið Auctorem Fidei fordæmir

Jansenista-kirkjuþingið sem kallaði

kenninguna um forgarða vítis villutrú.

1951 .. Píus páfi XII leggur áherslu á nauðsyn

barnaskírnar með því að hvetja ljósmæður til

að skíra börn í neyðartilfellum.

1958 .. Páfagarður lýsir yfir að ‚skíra skuli ungbörn

svo skjótt sem auðið er.‘

1963-1965 .. Annað Vatíkanþingið lýsir yfir að hjálpræði

sé mögulegt án skírnar. Fyrirskipar að

barnaskírn skuli endurskoðuð.

1980 .. Páfagarður staðfestir að barnaskírn skuli

stunduð með því að segja að kirkjan ‚þekki

enga aðra leið til að tryggja börnum eilífa

hamingju.‘