Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gefið djöflinum ekkert færi!

Gefið djöflinum ekkert færi!

Gefið djöflinum ekkert færi!

„Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:26, 27.

1. Hvernig lýsti Pétur djöflinum en hvernig fullvissaði hann okkur um að við fengjum vernd?

 ILLSKEYTT villidýr laumast um í leit að bráð. Það er haldið óseðjandi löngun í að gleypa kristna menn. Pétur aðvarar: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni . . . En Guð allrar náðar . . . mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.“ — 1. Pétursbréf 5:8-10.

2. (a) Hvað getur dregið úr vörnum okkar gegn árásum Satans? (b) Hvers vegna getur sá sem fellur frá trúnni engum um kennt nema sjálfum sér? (c) Hvaða veikleiki opnaði djöflinum leið til að koma því inn í hjarta Júdasar Ískaríots að svíkja Jesú?

2 Við megum vera viss um að djöfullinn og útsendarar hans, bæði djöflar og menn, eru reiðubúnir að færa sér í nyt sérhverja alvarlega efasemd, sérhvern alvarlegan galla í persónuleika okkar, sérhverja vanrækslu af okkar hálfu í að halda okkur sterkum í trúnni. En orð Jehóva fullvissar okkur um að djöfullinn muni ekki geta gleypt okkur ef við stöndum fastir fyrir gegn honum. (Jakobsbréfið 4:7) Enginn fellur frá trúnni af því að það hafi verið óumflýjanlegt. Engum er fyrirfram ætlað að ganga af trúnni. Þar eiga hlut að máli hvatir hjartans. Að vísu sagði Jóhannes að sumir hafi ‚komið úr vorum hópi en ekki heyrt oss til,‘ en svo fór fyrir þeim vegna þess að þeir annaðhvort kusu sjálfir að falla frá eða höfðu rangt tilefni frá upphafi þegar þeir komu inn í skipulag Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 2:19) Júdas Ískaríot hafði gott hjarta þegar hann var útvalinn til að vera einn hinna tólf postula Jesú, en djöfullinn einbeitti sér að veikleika hans sem var ágirnd. Jafnvel fyrir kvöldið sem Jesús var svikinn hafði „djöfullinn . . . þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú.“ — Jóhannes 13:2.

3. Hvað gæti haft þau áhrif að einstaklingur yrði fráhvarfi að bráð?

3 Sá sem spillist gerir það vegna þess að hann lætur eigingjarnar hugmyndir, metnaðarmál sín og þrár, þá félaga og það umhverfi sem hann velur sér, móta hugsun sína og ráða því hvaða stefnu vilji hans tekur. Páll talar um menn sem ‚eitt sinn voru orðnir upplýstir og höfðu smakkað hina himnesku gjöf, en höfðu síðan fallið frá.‘ (Hebreabréfið 6:4-6) Ef við erum ekki stöðugt á varðbergi getur djöfullinn beitt slóttugum áróðri sínum á þann veg að hjörtu okkar verði opin fyrir fráhvarfshugmyndum. En hvernig fer djöfullinn að því að gera mann að líklegri bráð, að fórnarlambi fráhvarfs?

4. Hvað getur gerst ef við leyfum beiskju, gremju og aðfinnslum að búa í hjörtum okkar?

4 Hann hefur augun opin fyrir beiskju, gremju og aðfinnslusemi. Slíkar tilfinningar geta vaxið og orðið svo sterkar að lítið rúm verði eftir fyrir kærleika og þakklæti. Kannski grefur eitthvert óleyst vandamál um sig og kemur manni til að finnast hann réttlættur í því að halda sér frá hinum lífsnauðsynlegu kristnu samkomum. Með því að vera í slíku hugarástandi um nokkurt skeið ‚gefur hann djöflinum færi.‘ (Efesusbréfið 4:27) Hann einblínir á mannlegan veikleika bróður síns, í stað þess að fyrirgefa honum „sjötíu sinnum sjö,“ og notfærir sér ekki hinar erfiðu kringumstæður til að fullkomna kristna eiginleika. (Matteus 18:22) Ef hann er í því hugarástandi og einhver kemur til hans og gefur í skyn að skipulag Jehóva sé kúgunargjarnt eða setji allt of margar hömlur, eða jafnvel að það fari með rangt mál í sambandi við vissar mikilvægar kenningar, gæti hjarta hans verið móttækilegt fyrir þessum rakalausu fullyrðingum. Það er því sannarlega nauðsynlegt að leyfa ekki beiskju og gremju að vaxa með okkur! Láttu ekki sólina setjast yfir reiði þína. Láttu þess í stað kærleikann birtast í sem fyllstri mynd í lífi þínu.

5. (a) Hvernig getur stolt eða það að bregðast ókvæða við leiðbeiningum verið hættulegt? (b) Hvaða hlut á auðmýkt í því að vera sterkur í trúnni?

5 Að hvaða öðru ástandi hjartans og hugans er djöfullinn að leita? Nú, það má nefna stolt, sjálfsálit, þá tilfinningu að við njótum ekki þeirrar virðingar eða stöðu sem okkur finnst við eiga að hafa. Allt þetta eru gildrur sem djöfullinn leggur. (Rómverjabréfið 12:3) Ef þú færð ráð eða ert jafnvel áminntur fyrir einhverja ranga breytni eða viðhorf, getur það líka verið kjörið tækifæri fyrir djöfulinn til að koma þér til að spyrja þig hvort þú tilheyrir réttu skipulagi. Vertu því auðmjúkur, vertu eins og ‚hinn minnsti.‘ Leyfðu ekki stolti eða sjálfsáliti að koma þér til að missa fótfestu þína í trúnni. — Lúkas 9:48; 1. Pétursbréf 5:9.

6, 7. (a) Hvernig birtist óþolinmæði sem djöfullinn er fljótur að færa sér í nyt? (b) Hvað á sá að gera sem brestur visku?

6 Óþolinmæði er annað sem djöfullinn hefur vakandi auga fyrir. Stundum finnst okkur að gera ætti einhverjar breytingar; við viljum skjóta afgreiðslu og tafarlaus svör. ‚Það þarf að leysa þetta vandamál núna eða ég er farinn. Ég verð að fá svar við þessari spurningu á stundinni, annars fer ég ekki feti lengra. Harmagedón og nýja heimskerfið hafa verið „á næsta leiti“ svo árum skiptir. Ég er þreyttur á að bíða.‘ Þú mátt vera viss um að djöfullinn er reiðubúinn að sá frækornum efasemda og uppreisnar í akur þar sem slík óþolinmæði ríkir. Þörf er þolgæðis og trúar. — Hebreabréfið 10:36, 39.

7 Jakob sagði: „Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant. Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá [Jehóva].“ (Jakobsbréfið 1:4-8) Láttu ekki djöfulinn gera þig að tilvonandi fráhvarfsmanni með því að vera óvægilega óþolinmóður, að efast um fyrirheit Guðs! Vertu þolinmóður, þakklátur og bíddu Jehóva. — Sálmur 42:6.

8. Hvernig opnar uppreisnarhugur djöflinum leið til að lokka kristinn mann til að slíta af sér öll biblíuleg bönd?

8 Hvað annað notar djöfullinn til að reyna að snúa okkur burt frá sannleikanum? Hefur hann ekki alltaf reynt að kveikja uppreisn, að koma þjónum Jehóva til að vera gagnrýnir á þá sem gegna forystunni? ‚Öldungarnir skilja þetta hreinlega ekki; þeir eru of gagnrýnir, of kröfuharðir,‘ kunna sumir að segja. Hægt er að ganga skrefi lengra og segja að hið stjórnandi ráð eða aðrir ábyrgir bræður hindri frelsi samviskunnar og „réttindi“ einstaklingsins til að túlka Ritninguna. En mundu eftir hinum auðmjúku orðum Jósefs: „Er það ekki Guðs að túlka?“ (1. Mósebók 40:8, NW) Og spáði ekki Jesús um þessa síðustu daga að til yrði skipulag smurðra manna, ‚hinn trúi og hyggni þjónn,‘ sem yrði treyst fyrir að útbýta andlegri fæðu á réttum tíma? (Matteus 24:45-47) Varastu þá sem reyna að ota fram sínum eigin gagnstæðu skoðunum. Varaðu þig líka á þeim sem vilja sleppa af sér öllum hömlum eða þeim sem lofa frelsi og fullyrða að vottar Jehóva séu þrælar! Pétur sagði um falskennara: „Þeir heita [öðrum] frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.“ — 2. Pétursbréf 2:19.

9. Hver eru dæmigerð viðhorf þeirra sem gagnrýna þá sem með forystuna fara?

9 Hvað gengur þeim venjulega til sem gagnrýna Félagið eða þá sem taka forystuna? Er það ekki oft þannig að einhver heimfærsla á Ritningunni hefur áhrif á þá persónulega? Í stað þess að samlaga sig heilnæmum kenningum og leiðbeiningum vilja þeir að skipulagið breyti sér. Við skulum lýsa þessu með fáeinum dæmum:

10. Hvernig er hægt að ‚gefa djöflinum færi‘ með því að vilja vera öfgafullur í klæðaburði eða útliti?

10 Bróðir vill fá að klæðast óvenjulegum fötum eða vera óvenjulegur í útliti. Öldungunum finnst hann ekki gott fordæmi og veita honum ekki viss sérréttindi svo sem að kenna frá ræðupallinum. Hann fyllist gremju, fullyrðir að aðrir séu að reyna að taka frá sér sitt kristna frelsi. En hvað býr á bak við slík rök? Er það ekki venjulega yfirlæti, óstýrilæti eða fremur barnaleg löngun til að hafa sitt fram? Þótt þetta virðist fremur smávægilegt atriði gæti sá sem þannig hugsar ‚gefið djöflinum færi.‘ En kærleikur og hógværð mun koma okkur til að vera prúðmannlega og viðeigandi til fara. Við ættum að vilja láta allt sem við gerum verða til þess að efla fagnaðarerindið en ekki þóknast sjálfum okkur. — Rómverjabréfið 15:1, 2; 1. Korintubréf 10:23, 24.

11. Hvað gæti legið að baki efasemdum um boð Jehóva um að halda sér frá blóði?

11 Tökum annað dæmi. Af og til getum við heyrt einhvern véfengja að bann Biblíunnar við neyslu blóðs eigi við blóðgjafir. En hvað býr á bak við slíkar hugmyndir? Er það ótti — óttinn við að glata hugsanlega sínu núverandi lífi eða lífi ástvinar? Er vonin um upprisu ekki nægilega sterk? Trúfastir kristnir menn leita ekki færis á að útvatna lög Guðs eða komast að einhverri málamiðlun. Að halda sér frá blóði til að næra líkamann er jafnmikilvægt og að halda sér frá saurlifnaði og skurðgoðadýrkun, en allt var þetta fordæmt í einum og sama úrskurði postulanna í Jerúsalem samkvæmt leiðbeiningu heilags anda. — Postulasagan 15:19, 20, 28, 29.

12. Hvers vegna ætti misskilin hollusta ekki að koma okkur til að brjóta ákvæði Biblíunnar um að forðast félagsskap við burtræka?

12 Ein fullyrðing þeirra sem gagnrýna er sú að skipulagið sé of strangt í því að skera á félagsleg tengsl við burtræka. (2. Jóhannesarbréf 10, 11) En hvers vegna hugsa þeir sem gagnrýna þannig? Eiga þeir náin fjölskyldutengsl eða röng hollustutengsl við vin sem þeir taka fram yfir hollustu við Jehóva og staðla og kröfur hans? Hugsaðu líka um það að áframhaldandi félagsleg mök við burtrækan einstakling, jafnvel náinn ættingja, geta komið hinum villuráfandi til að hugsa með sér að lífsstefna hans sé ekki svo slæm, og það getur valdið honum enn meira tjóni. En sé honum meinað um slíkan félagsskap getur það vakið með honum þrá eftir því sem hann hefur glatað og löngun til að eignast það á nýjan leik. Vegur Jehóva er alltaf sá besti og það er okkur til verndar að fylgja honum. — Orðskviðirnir 3:5.

13. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til opinberrar prédikunar hús úr húsi?

13 Einhver gæti ranglega fullyrt að prédikunarstarf hús úr húsi eigi sér ekki biblíulegan stuðning. En stafar það af því að hann hefur nú þegar andúð á þessu þýðingarmikla verki og er að leita að afsökunum fyrir því að taka ekki þátt í því? Kærleikur til Guðs og náungans ætti að koma okkur til að sjá hversu brýnt þetta björgunarstarf er. Eins og á öðrum sviðum er þolgæðis þörf. Páll postuli talaði um sitt eigið þolgæði í því að ‚bera vitni fyrir Gyðingum og Grikkjum‘ þegar hann kenndi opinberlega og hús úr húsi. (Postulasagan 20:18-21) Ættum við ekki, í stað þess að kvarta, að fylgja drottinhollir góðu fordæmi hans? Líttu á þær þúsundir sem safnað hefur verið inn í hina ‚einu hjörð‘ vegna blessunar Jehóva yfir starfinu hús úr húsi! (Jóhannes 10:16) Og gleymum ekki þeirri þjálfun og ögun sem við fáum þegar við förum hús úr húsi til að færa fólki fagnaðarerindið, og hvernig trú okkar styrkist. — Samanber Postulasöguna 5:42; 1. Tímóteusarbréf 4:16.

14. Hvernig heldur þú að við ættum að bregðast við þegar gagnrýnendur saka votta Jehóva um að vera falsspámenn?

14 Að síðustu mætti nefna það sem Félagið hefur birt í fortíðinni um tímatal. Sumir andstæðingar fullyrða að vottar Jehóva séu falsspámenn. Þeir segja að tilgreindir hafi verið vissir dagar og ár en að ekkert hafi gerst. Enn á ný spyrjum við: Hvað gengur þessum gagnrýnendum til? Eru þeir að hvetja þjóna Guðs til að halda vöku sinni eða eru þeir að reyna að réttlæta sig fyrir að hafa sjálfir orðið syfjaðir og aðgerðarlausir? (1. Þessaloníkubréf 5:4-9) Og það sem enn meira máli skiptir, hvað gerir þú ef þú heyrir slíka gagnrýni? Ef einhver efast um að við lifum núna á „síðustu dögum“ þessa heimskerfis, eða hugsar kannski með sér að Guð sé svo miskunnsamur að hann muni ekki láta svona margar milljónir manna deyja í ‚þrengingunni miklu,‘ þá hefur hann þegar búið hjarta sitt undir að hlýða á slíka gagnrýni. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 24:21.

15. Hvað sannar að vottar Jehóva eru ekki falsspámenn heldur hafa trú á orði Guðs og öruggum fyrirheitum þess?

15 Já, það er staðreynd að við höfum af og til orðið að endurskoða og breyta þeim tíma sem við í eftirvæntingu okkar töldum réttan. Vegna ákefðar okkar höfðum við vonast eftir hinni nýju skipan fyrr en tímaáætlun Jehóva leyfði. En við sýnum trú okkar á orð Guðs og áreiðanleg fyrirheit þess með því að boða öðrum boðskap þess. Og þótt við þurfum að endurskoða skilning okkar örlítið gerir það okkur ekki að falsspámönnum né breytir þeirri staðreynd að við lifum á hinum „síðustu dögum,“ og að brátt mun ‚þrengingin mikla‘ dynja yfir og ryðja brautina jarðneskri paradís. Hvílík flónska væri það að láta sér finnast að sannleikurinn í heild sinni sé vafasamur af því að vonir okkar þurftu að taka einhverjum breytingum! Augljóst er að Jehóva hefur notað og heldur áfram að nota sitt eina skipulag þar sem ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ gegnir forystunni. Okkur er innanbrjósts eins og Pétri sem sagði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ — Jóhannes 6:68.

16, 17. (a) Hvernig hjálpa orð Jesú í Matteusi 7:15-20 okkur að þekkja það skipulag sem Jehóva hefur blessað? (b) Hvaða góða ávexti bera sannir þjónar Jehóva í lífi sínu?

16 Aðeins í hinni andlegu paradís Jehóva, meðal votta Jehóva, getum við fundið þann fórnfúsa kærleika sem Jesús sagði mundu einkenna sanna lærisveina sína. (Jóhannes 13:34, 35) Falsspámenn eru afhjúpaðir vegna sinna slæmu ávaxta, en Jesús sagði að góð tré skyldu þekkjast af sínum góðu ávöxtum. (Matteus 7:15-20) Og hvílíkan ávöxt höfum við ekki í hinni andlegu paradís! Undraverð aukning á sér stað í nálega hverju landi. Núna eru yfir 3.000.000 hamingjusamra þegna Guðsríkis um allan hnöttinn og þeir eru lifandi sönnun um að Jehóva á sér þjóð á jörðinni.

17 Vegna þess að Jehóva fræðir votta sína bera þeir ávexti kristninnar í lífi sínu. (Jesaja 54:13) Aðeins þjónar Jehóva hafa algerlega sagt skilið við babýlonskar hjátrúarhugmyndir. Aðeins þeir eiga sér skipulag sem heldur sér fullkomlega við það sem orð Guðs segir um siðleysi, fóstureyðingar, drykkjuskap, þjófnað, skurðgoðadýrkun, kynþáttafordóma og annað sem heimurinn iðkar eða keppir eftir. Þeir eru hinir einu sem hlýða því boði að prédika fagnaðarerindið um ríki Jehóva. (Matteus 24:14) Guðs eigið orð bendir á að vottar Jehóva séu einasta skipulag manna sem nýtur blessunar hans!

18. Hvert ætti að vera viðhorf þjóna Jehóva þegar þeir standa frammi fyrir fráhvarfskenningum?

18 Já, við erum fullvissir um að ykkur öllum, sem gangið trúföst og þolgóð veg kristninnar, finnst sannleikur Jehóva enn þá fagur og unaðslegur — í enn fyllri mæli en þegar þið heyrðuð hann fyrst. Verum því öll staðráðin í hjörtum okkar að snerta aldrei það eitur sem fráhverfir andstæðingar vilja að þú dreypir á. Fylgdu því viturlega en ákveðna boði Jehóva að sneiða algerlega hjá þeim sem vilja blekkja þig, leiða þig á villigötur, beina þér út á brautir dauðans. Ef við elskum Jehóva Guð okkar af öllum huga, hjarta, sálu og mætti og náungann eins og sjálfa okkur, þá verður ekkert rúm eftir þar sem fráhvarfshugmyndir geta komist að. (Matteus 22:37-39) Við munum ‚ekki gefa djöflinum neitt færi‘ og alls ekki langa til að leita neitt annað. Við munum ‚ekki vera fljótir að láta rugla dómgreind okkar‘ vegna einhverra villukenninga. — 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.

19. Hvaða lífsstefna mun tryggja að ‚enginn geti haft af okkur hnossið‘ sem er hið eilífa líf?

19 Við skulum alltaf meta að verðleikum þau sérréttindi okkar að vera núna hluti af andlegri paradís Jehóva þar sem við njótum svo margvíslegrar og ríkulegrar andlegrar blessunar. Við vitum hverjir hafa orð eilífs lífs. Við skulum halda nánu samfélagi við þá sem eru ósviknir, drottinhollir bræður okkar og systur í trúnni. Megum við halda áfram að njóta sömu gleðinnar og fullnægjunnar og þegar við fyrst kynntumst sannleikanum, þess fullviss að okkar bíði þau verðlaun sem eru eilíft líf í nýrri skipan Jehóva. Eins og Páll komst svo vel að orði: „Látið þá ekki taka af yður hnossið“! — Kólossubréfið 2:18.

Getur þú svarað?

◻ Hvers vegna getum við sagt að engum séu ætluð þau örlög að yfirgefa trúna?

◻ Hvernig getur reiði, stolt og óþolinmæði opnað djöflinum aðgang að hjarta okkar?

◻ Hvað býr venjulega á bak við gagnrýni á heilræði þeirra sem með forystuna fara?

◻ Hvaða ávöxtur, sem vottar Jehóva bera, sannar að þeir eru eina skipulagið sem Jehóva notar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Með því að hafna leiðbeiningum getum við ‚gefið djöflinum færi.‘

[Mynd á blaðsíðu 29]

Stolt getur leitt til þess að við föllum og fáum ekki risið við aftur.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Önnum kafnir og hamingjusamir þjónar Jehóva gefa djöflinum og fráhvarfshugmyndum ekkert færi.