Gleðjum hjarta Jehóva með því að varðveita ráðvendni!
Gleðjum hjarta Jehóva með því að varðveita ráðvendni!
„Hvort sem við lifum eða deyjum tilheyrum við Jehóva.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 14:8, NW.
1, 2. (a) Hvers vegna eru vottar Jehóva staðráðnir í að varðveita ráðvendni sína við Guð? (b) Hvaða spurningar vakna?
ÞESSI orð Páls postula tjá vel tilfinningar hinna einu sönnu ráðvöndu manna núna á 20. öldinni! Ef við hljótum þau sérréttindi að lifa áfram og sjá hina núverandi illu heimsskipan eyðast fyrir augum okkar mun það vera okkur mikið fagnaðarefni! En ef við verðum að deyja fyrir þann tíma í þjónustu Guðs, þá það. Á hvorn veginn sem fer erum við staðráðin í að vera drottinhollir vottar Guðs okkar, Jehóva. Við munum varðveita ráðvendni okkar við hann. Hvers vegna? Vegna þess að hvort sem við lifum eða deyjum tilheyrum við Jehóva!
2 En hvað er ráðvendni? Hvaða kröfur gerir hún til okkar? Og skiptir það Guð í raun einhverju máli hvort við erum ráðvönd?
Ráðvendni og kröfur hennar
3. Hvað felst í því, samkvæmt Biblíunni, að varðveita ráðvendni?
3 Í orði Guðs táknar ráðvendni siðferðilegt heilbrigði og heilleika, það að vera ámælislaus og óaðfinnanlegur. Hún felur í sér ófrávíkjanlega hollustu við réttlætið. Ráðvendni felur meira að segja í sér órjúfanlega hollustu við persónu — við Jehóva Guð. Já, ráðvendni merkir að gera stöðuglega hinn háleita vilja Jehóva.
4. Hver var fyrsti óráðvandi einstaklingurinn og hvað fékk hann fyrstu hjónin til að gera?
4 Sá fyrsti sem varð óráðvandur var andavera sem leiddi fyrstu mannlegu hjónin út á braut uppreisnar gegn skapara sínum. Adam og Eva höfðu tækifæri til að sýna Jehóva ráðvendni sína með því að virða hömlur hans í sambandi við tré þekkingarinnar. En vegna þrýstings frá óvininum mikla og skírskotun hans til eigingirninnar gerðust þau óhlýðin. Hjörtu þeirra reyndust ekki gallalaus í því að halda reglur Jehóva, og þau varðveittu ekki ráðvendni við hann. — Sálmur 119:1, 80.
5. Hvaða deilumál kom upp við uppreisn Satans og hvernig sannar reynsla Jobs það?
5 Uppreisn Satans vakti upp deilumál um réttmæti drottinvalds Guðs yfir öllum sínum sköpunarverum, um rétt Jehóva til að krefjast fullrar hlýðni af þeim. Því varð spurningin um ráðvendni mannsins við æðsta vilja Guðs að þýðingarmiklum þætti deilunnar um drottinvaldið yfir alheiminum. Sönnun um það má sjá af því sem henti þjón Jehóva, Job, sem var maður réttlátur og ráðvandur, guðhræddur og grandvar. (Jobsbók 1:1) Job vék ekki af hinum rétta vegi Jehóva. Siðleysi var fjarri þessum ráðvanda manni. Hann var aldrei ranglátur í dómi né nískur við ekkjuna, munaðarleysingjann eða hinn fátæka. Job treysti ekki á efnislegan auð heldur treysti hann óhagganlega á hinn hæsta. (Jobsbók 31:7-40) Samt gaf djöfullinn í skyn að Job þjónaði Guði af eigingjörnu tilefni. Þótt Guð leyfði Satan að svipta Job öllum eigum sínum og jafnvel börnum mistókst erkisvikaranum að brjóta á bak aftur ráðvendni þessa heiðvirða manns. Jafnvel sársaukafullur sjúkdómur og gagnrýni falskra huggara máttu sín einskis, því að Job sannaði sig ráðvandan mann. — Jobsbók 1:6-2:13; 27:5, 6; 31:6; 42:8, 9.
6. Hvers er krafist af þeim sem ‚tilheyra Jehóva‘?
6 Menn hafa því þau óviðjafnanlegu sérréttindi að stuðla að upphafningu og helgun hins heilaga nafns Guðs. Hvernig þá? Með því að varðveita rávendni, sýna að þeir styðji drottinvald Jehóva yfir alheimi með hollustu. Hvers er þá krafist af okkur sem ‚tilheyrum Jehóva‘? Við verðum að þjóna Jehóva með hollustu og megum aldrei gleyma að hann er „Guð sem krefst algerrar hollustu.“ — 2. Mósebók 20:5, NW.
Við getum glatt hjarta Jehóva
7, 8. (a) Hvernig getum við varðveitt ráðvendni okkar við Guð fyrst við erum ófullkomnir? (b) Hvernig eiga Orðskviðirnir 27:11 við okkur ef við erum ráðvandir?
7 Þar sem við erum öll ófullkomin getum við auðvitað ekki uppfyllt réttláta staðla Guðs fullkomlega. Ráðvendni okkar merkir þess vegna ekki fullkomleika í orði eða verki. Þess í stað merkir hún að hjarta okkar sé heilt og hollusta þess óskipt. Þótt Davíð hafi drýgt alvarlegar syndir var því sagt að hann hafi gengið „í hreinskilni hjartans og einlægni.“ (1. Konungabók 9:4) Davíð tók við áminningum, breytti um stefnu og sannaði með því að hjarta hans var fullt af ósviknum kærleika til Jehóva. (Sálmur 26:1-12) Við getum líka látið í ljós slíkan kærleika, gert vilja Guðs og breytt ‚af ráðvöndu hjarta.‘ — Sálmur 78:72, NW.
8 Ráðvendni er möguleg aðeins með því að hafa sterka trú á Jehóva Guð og treysta skilyrðislaust á hann og mátt hans til að bjarga okkur. (Sálmur 25:21; 41:13) Það er ekki auðvelt að vera ráðvandur því að Satan djöfullinn — hinn mikli óvinur Jehóva og okkar — blindar hugi hinna vantrúuðu og „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9; 2. Korintubréf 4:4) En við getum, eins og Job, verið ráðvandir. Þótt við séum ófullkomnir getum við þannig glatt hjarta okkar elskuríka Guðs. Eins og Orðskviðirnir 27:11 orða það: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Til allrar hamingju getum við verið drottinhollir þjónar Jehóva sem gefa honum áhrifamikið svar við frýjunarorðum óvinarins. Það skiptir þess vegna máli hvort við erum ráðvönd eða ekki. Sem ráðvandir menn getum við glatt hjarta Jehóva. Og það er okkur sannarlega mikil gleði!
Löng röð ráðvandra manna
9. Nefnið suma af hinum mikla ‚fjölda‘ ráðvandra votta Jehóva og þær prófraunir sem þeir stóðust.
9 Í reyndinni eru vottar Jehóva nútímans hluti af langri röð ráðvandra manna sem teygir sig allt aftur til hins trúfasta Abels. Í henni eru karlar og konur svo sem Enok, Nói, Abraham, Sara, Ísak, Jakob, Jósef, Móse, Rahab, Gídeon, Barak, Samson, Jefta, Davíð og Samúel. Þar eru einnig þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó sem neituðu að dýrka líkneski sem Nebúkadnesar Babýloníukonungur hafði látið reisa, og var kastað í ofurheitan ofn. Líklega hafði Páll þá í huga þegar hann talaði um þá sem gátu ‚slökkt eldsbál.‘ Aðrir vottar Jehóva fyrir daga kristninnar voru ‚hæddir, húðstrýktir, fjötraðir, fangelsaðir, grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.‘ Sannarlega tökum við undir með Páli sem sagði: „Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið.“ Hversu hrífandi er ekki að vera umkringdur slíkum miklum „fjölda“ ráðvandra votta! — Hebreabréfið 11:1–12:1; sjá einnig Daníel 3. kafla.
10. Hvernig gladdi Páll postuli hjarta Jehóva?
10 Með því hugrekki og krafti, sem Guð gefur, þoldi Páll postuli sjálfur fangelsisvist, barsmíðar, skipbrot, margar hættur, svefnlausar nætur, hungur, þorsta, kulda, klæðaleysi og „oft dauðans hættu.“ (2. Korintubréf 11:23-27) Hann þoldi slíkar raunir þjónustunnar vegna, og í öllu þessu gladdi hann hjarta Jehóva sem hugdjarfur, ráðvandur maður. Það getum við líka gert.
11. Hvaða fordæmi gaf Jesús Kristur um ráðvendni?
11 Sá sem ber af í hópi ráðvandra manna er ‚höfundur og fullkomnari trúar okkar,‘ Jesús Kristur. Þegar djöfullinn freistaði hans í eyðimörkinni hélt hann fast við ráðvendni sína og sagði að lokum: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ Djöfullinn var bersýnilega magnþrota gagnvart slíkri einurð og yfirgaf Jesú. Þetta var ekki síðasta árás Satans á Jesú, en hann var þess vanmegnugur að brjóta á bak aftur ráðvendni sonar Guðs. ‚Vegna gleði þeirrar, er beið Jesú, leið hann þolinmóðlega á kvalastaur‘ og lét aldrei af ráðvendni sinni. Megum við alltaf fylgja hinu skínandi fordæmi hans og gleðja hjarta Jehóva sem ráðvandir menn. — Hebreabréfið 12:2, 3; Matteus 4:1-11.
12, 13. Hvaða prófraunir á ráðvendni sína gátu frumkristnir menn staðist?
12 Jesús sagði lærisveinum sínum: „Þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns.“ (Matteus 10:22) Sú hefur alltaf verið reynsla sannkristinna manna! Í bók sinni Christianity and the Roman Government segir E. G. Hardy: „Það kemur glöggt fram, bæði af bréfum Pliníusar og tilskipun Trajanusar, að hægt var að refsa kristnum mönnum fyrir nafnið eitt, það einfaldlega að játa kristni, án þess að sérstakir glæpir væru tilgreindir eða sannaðir á þá.“
13 Þessir frumkristnu menn gátu staðist gífurlega erfiðar prófraunir á ráðvendni sína í þeim krafti sem Guð gaf þeim! Til dæmis hefur verið sagt um þá: „Stundum voru þeir pyndaðir og kastað fyrir hungruð villidýr á leikvangi til að skemmta almenningi.“ En þrátt fyrir slíkar þjáningar hefur verið sagt að „ofsóknirnar hafi aðeins haft þau áhrif að styrkja trú þeirra og afla þeim margra nýrra trúskiptinga.“ (From the Old World to the New eftir Eugene A. Colligan og Maxwell F. Littwin, 1932, bls. 90, 91) Eins er það með ráðvanda votta Jehóva núna á 20. öldinni. Skósveinar djöfulsins hafa ekki haft roð við þeim.
14, 15. Hverjir eru ‚vottarnir tveir‘ og hvað máttu þeir þola árið 1918 og 1919?
14 Leiddu til dæmis hugann að því sem smurðir þjónar Jehóva, hinir táknrænu ‚tveir vottar,‘ urðu fyrir á árunum 1918 og 1919 þegar óvinir þeirra ‚bjuggu þeim tjón undir yfirskini réttarins.‘ (Opinberunarbókin 11:3, 7-10; Sálmur 94:20) J. F. Rutherford, sem þá var forseti Varðturnsfélagsins, og sjö samstarfsmenn hans voru hnepptir í fangelsi á röngum forsendum. Á þeim tíma voru ‚vottarnir tveir‘ drepnir að því er varðaði það að spá, og fjandmenn þeirra fögnuðu. Í bók sinni Preachers Present Arms segir Ray H. Abrams: „Athugun á málinu í heild [gegn Rutherford og félögum hans] leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að kirkjurnar og klerkastéttin hafi upphaflega staðið á bak við þá hreyfingu að útrýma [biblíunemendunum]. . . . Þegar fréttirnar af tuttugu ára refsidómum þeirra bárust ritstjórum trúarlegra blaða og tímarita fögnuðu nær öll þessi rit, bæði smá sem stór, atburðinum. Ég hef ekki getað fundið nein samúðarorð í neinum rétttrúnaðartímaritanna.“
15 Síðar var hinum átta biblíunemendum sleppt úr fangelsi og þeir fengu uppreisn æru, Satan og ginningarfíflum hans til mikillar skapraunar. Lífgaðir af anda Guðs stóðu nú ‚vottarnir tveir,‘ þessi litli her smurðra þjóna Guðs, á fótunum á nýjan leik sem boðberar Guðsríkis. (Opinberunarbókin 11:11) Og óvinir Jehóva hafa barist vonlausri baráttu gegn slíkum ráðvöndum mönnum alla tíð síðan.
16. Hvað sagði ungur maður sem varðveitti ráðvendni?
16 Við skulum taka sem dæmi hin hugrökku orð ungs manns sem hann skrifaði fjölskyldu sinni meðan hann beið dauðans af hendi nasista sem ofsóttu hann. Hann skrifaði: „Nú er komið fram yfir miðnætti. Ég hef enn tíma til að skipta um skoðun. En hvernig gæti ég orðið hamingjusamur aftur í þessum heimi eftir að hafa afneitað Drottni okkar? Það gæti ég ekki! En nú hafið þið vissu fyrir að ég yfirgef þennan heim í hamingju og friði.“ Er það yfirbugaður, veikgeðja, huglaus og óráðvandur maður sem þarna talar? Auðvitað ekki!
17. Hvaða áhrif hafði fangelsun á prédikunarstarf votta Jehóva í Sovétríkjunum?
17 Tilraunir til að brjóta á bak aftur ráðvendni þjóna Jehóva hafa haldið áfram. Til dæmis segir blaðamaðurinn Walter Kolarz, í bók sinni Religion In The Soviet Union, frá fjöldahandtökum votta Jehóva snemma árs 1951. Hann segir: „Vottarnir áætla sjálfir að alls 7000 manns hafi verið fluttir til Úralfjalla, Síberíu, Norðurslóða (Vorkúta) og Kasakstan.“ Hann bætir við: „Þetta voru ekki endalok ‚vottanna‘ í Rússlandi heldur aðeins upphaf nýs kafla í trúboðsstarfi þeirra. Þeir reyndu jafnvel að breiða út trú sína þar sem þeir höfðu viðdvöl á leið sinni í útlegðina. Sovéska stjórnin hefði ekkert betra getað gert til að útbreiða trú þeirra en að senda þá í útlegð. ‚Vottarnir‘ voru nú fluttir úr einangrun sinni í þorpunum út í stærri heim, jafnvel þótt það væri aðeins hinn hræðilegi heimur fanga- og þrælkunarbúða.“ Þar fundu þjónar Jehóva marga sem tóku fagnandi við hinum styrkjandi boðskap um Guðsríki. — Samanber Postulasöguna 11:19-21.
Eins og sigursæll her
18, 19. Hvernig er hægt að hrósa sigri sem ráðvandur maður?
18 Ofsóknir á hendur þjónum Guðs hafa haldið áfram fram á þennan dag. Hvernig er vottum Jehóva mögulegt að hrósa sigri sem ráðvandir menn? Við getum gert það vegna þess að við hlýðum orði Guðs og höfum ‚fengið skilningarvit okkar þjálfuð til að greina rétt frá röngu.‘ Sem drottinhollir vottar Jehóva látum við ‚ekki mótast eftir þessu heimskerfi heldur höfum endurnýjast í anda hugskots okkar.‘ Við veljum glaðir að gera það sem er rétt, það sem er þóknanlegt Jehóva, og hann gefur okkur sigur yfir fjendum okkar, bæði illum öndum og mönnum. — Hebreabréfið 5:12-14; Rómverjabréfið 12:1, 2.
19 Okkur sem ‚tilheyrum Jehóva‘ má líkja við sigursælan her. Að sjálfsögðu er hernaður okkar andlegur og við ‚styrkjumst í Drottni og krafti máttar hans.‘ Við höfum öll hin andlegu herklæði frá Guði og heilagur andi hans styður við bakið á okkur. Þess vegna getum við „staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:10-20; 2. Korintubréf 10:3,4) Já, og þess vegna munum við halda áfram að hrósa sigri sem ráðvandir menn.
20. Hvaða hjálp og fullvissu höfum við um að við getum varðveitt ráðvendni?
20 Við erum vissulega óvenjulegur her. Meðal okkar eru meira að segja „konurnar sem sigur boða . . . mikill her“! (Sálmur 68:12) Þótt við stöndum frammi fyrir ægilegum óvinum ‚eru þeir fleiri sem með okkur eru en þeir sem með þeim eru.‘ (2. Konungabók 6:16) Englarnir eru með okkur þegar við boðum jarðarbúum fagnaðarerindið. (Opinberunarbókin 14:6) Sem ráðvandir menn höfum við það traust að ‚engin vopn, sem smíðuð verða móti okkur, verði sigurvænleg.‘ — Jesaja 54:17.
21. Hvað heldur áfram þrátt fyrir ofsóknirnar sem við megum þola?
21 Enginn vafi leikur á því að herfylkingar berjast nú hvor gegn annarri. Hersveitir Satans eru staðráðnar í að stöðva vitnisburð okkar. Þess vegna verðum við að „berjast hinni góðu baráttu.“ (1. Tímóteusarbréf 1:18) Með hinn dýrlega gerða Jesú Krist sem foringja okkar og leiðtoga skulum við hver og einn þjóna sem „góður hermaður Krists Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Þótt að okkur sé sótt úr öllum áttum verðum við — og munum vegna óverðskuldaðrar náðar Jehóva Guðs — standa traustum fótum sem ráðvandir menn. Andlit okkar ljóma af gleði yfir hinni miklu aukningu sem við sjáum. Sífellt fleiri af ‚gersemum þjóðanna‘ koma nú inn til að fylla hús Jehóva af dýrð. (Haggaí 2:7) Þrátt fyrir ofsóknir — fangelsun, barsmíðar og bönn gegn starfi okkar í ýmsum löndum og ákafar tilraunir til að þagga niður í okkur — heldur hið mikla starf að gera menn að lærisveinum áfram og er í sókn. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
22. Hvað ættum við sem tilheyrum Jehóva að gera?
22 Hinn styrki lofsöngur um Jehóva fer stöðugt hækkandi. Núna þarf sérhver jarðarbúi að taka ákvörðun. Það eru mikil sérréttindi að við skulum mega útbreiða fagnaðarerindið og kenna þeim sem eru að taka við sannri guðsdýrkun! Megum við því, þegar hinum ‚mikla múgi‘ fjölgar, halda ötulir áfram sem hugdjarfir þjónar hins hæsta Guðs. (Opinberunarbókin 7:9) „Hvort sem við lifum eða deyjum tilheyrum við Jehóva.“ Við skulum því halda ótrauð áfram sókn okkar í bardaganum, stöðugt þakklát fyrir hin miklu sérréttindi okkar að gleðja hjarta Jehóva með því að varðveita ráðvendni!
GETUR ÞÚ SVARAÐ?
◻ Hvað er ráðvendni?
◻ Hvaða kröfur gerir ráðvendni til þjóna Jehóva?
◻ Hvernig má sýna fram á að ráðvendni okkar skiptir Guð máli?
◻ Hvernig sýndu sumir sig vera ráðvanda menn til forna?
◻ Hvernig geta vottar Jehóva verið ráðvandir nú á dögum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 11]
Þjónar Jehóva nú á dögum eru hluti af langri röð ráðvandra votta. Ert þú einn þeirra?
Enok
Sara
Jefta
Páll