Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hughreysting til ráðvandra manna

Hughreysting til ráðvandra manna

Hughreysting til ráðvandra manna

„Vegna ráðvendni minnar hefur þú haldið mér uppi.“ — SÁLMUR 41:12, NW.

1. Hvers vegna þarfnast þjónar Jehóva hughreystingar?

 RÁÐVANDIR vottar Jehóva þarfnast hughreystingar vegna þess að þeir eru ofsóttir. Að sjálfsögðu ættu þeir að búast við slíkum þrengingum því að Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Einkum núna þarfnast þjónar Jehóva hughreystingar. Hvers vegna? Vegna þess að þeim fyrsta sem var óráðvandur, Satan djöflinum, hefur verið varpað niður í næsta nágrenni jarðarinnar og hann hefur nauman tíma. Þess vegna gerir hann núna lokahríð gegn Guði og þjónum hans. — Opinberunarbókin 12:7-9, 17.

2. Hvað finnst kristnum mönnum um þjáningar trúbræðra sinna?

2 Sem þjónar Jehóva biðjum við innilega fyrir bræðrum okkar og systrum í þeim löndum þar sem starf okkar er bannað og þeim sem eiga yfir höfði sér eða verða að þola ofsóknir. (Postulasagan 12:1; 2. Þessaloníkubréf 1:4) Við berum virðingu fyrir kristnum mönnum sem þola trúfastir háð og illmælgi fráhvarfsmanna og annarra. (Matteus 5:11) Við berum djúpa umhyggju fyrir bræðrum okkar sem búa á trúarlega sundurskiptu heimili eða hafa ættingja sína á móti sér. (Matteus 10:34-36) Og við höfum innilega samúð með ráðvöndum mönnum sem eiga við að stríða heilsubrest eða langvinn veikindi. En hvers vegna eru allar þessar þjáningar? Og hvaða hughreystingu geta ráðvandir menn og konur hlotið?

Orsakir þjáninganna og athvarf okkar

3. Hver er tilgangur Satans með því að ofsækja okkur?

3 Djöfullinn neytir allra bragða til að reyna að ‚gleypa‘ kristna menn, annaðhvort með hjálp manna eða illra anda. (1. Pétursbréf 5:8) Já, Satan beitir ofsóknum og öðrum erfiðleikum til að freista þess að spilla sambandi okkar við Jehóva Guð, gera okkur óráðvanda honum. En erum við þá varnarlaus? Nei, svo sannarlega ekki!

4. Hverju geta ráðvandir menn treyst þegar þeim mæta ofsóknir og aðrir erfiðleikar?

4 Jehóva er hæli okkar og athvarf ef við leitum hjálpar hans í bæn. Þegar við erum ofsótt eða aðrir erfiðleikar mæta okkur getum við sárbænt hann eins og sálmaritarinn Davíð: „Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.“ (Sálmur 57:2) Sem ráðvandir menn megum við treysta að á sínum tíma muni Jehóva, hæli okkar, koma okkur til bjargar. Og við getum treyst honum jafn vel og Davíð þegar hann sagði í bæn til Guðs: „Vegna sakleysis [ráðvendni, NW] míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu.“ — Sálmur 41:13.

5. Hvaða eiginleika þurfa ofsóttir kristnir menn að hafa og hvaða von höfum við?

5 Þar eð prófraunir geta náð yfir nokkurt tímabil þurfum við samt sem áður að rækta með okkur þolgæði. Páll postuli hvatti kristna Hebrea til að ‚minnast fyrri daga, . . . hvernig þeir urðu að þola mikla raun þjáninga.‘ Skömmu síðar sagði hann: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ (Hebreabréfið 10:32-36) Fyrir smurða kristna menn felur fyrirheit Guðs í sér þá umbun sem eilíft líf á himnum er. ‚Múgurinn mikli‘ á í vændum eilíft líf í jarðneskri paradís. (Opinberunarbókin 7:9; Lúkas 23:43) Allir sem eru þolgóðir og ráðvandir allt til enda geta hlotið hjálpræði. — Markús 13:13.

6. Hvers vegna þurfa sumir meðal votta Jehóva sérstaklega á þolgæði að halda, og hvaða hjálp fá þeir?

6 Í ýmsum löndum hafa vottar Jehóva haft sérstaka ‚þörf fyrir þolgæði‘ um nokkurra áratuga skeið. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa þurft að inna sína heilögu þjónustu af hendi í erfiðu starfssvæði eða andspænis margvíslegum erfiðleikum, þar á meðal opinberu banni stjórnvalda. Vera má að þú hafir þurft að búa við slæma heilsu eða þola andstöðu frá fjölskyldu þinni vegna kristilegrar starfsemi þinnar. Slíkar þrengingar myndu koma þeim sem treysta einungis á mannlegan mátt til að gefast upp, en þær fá ekki stöðvað votta Jehóva vegna þess að ‚hjálp þeirra kemur frá Jehóva, skapara himins og jarðar.‘ — Sálmur 121:1-3.

7. (a) Hvaða tækifæri er samfara langvarandi prófraunum? (b) Hvers vegna getum við trúað því sem Páll sagði í Filippíbréfinu 4:13?

7 Sumt getur kallað á þolgæði þar til þetta heimskerfi líður undir lok. En langvarandi prófraunir gefa okkur tækifæri til að sanna ráðvendni okkar við Guð og gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Um leið gefur Jehóva okkur þann styrk sem þarf til að halda út í trúfesti. Páll postuli skrifaði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13) Þú getur treyst þessum hughreystandi orðum, því að þau sannast stöðuglega á ‚bræðrum okkar um allan heim.‘ — 1. Pétursbréf 5:9, 10.

Ráðvendi annarra hvetur okkur

8. Lýsið með dæmi hvaða blessun ráðvandir menn á trúarlega sundurskiptu heimili geta hlotið.

8 Það er okkur mikil hvatning að sjá ‚bræður okkar um allan heim‘ varðveita ráðvendni. Sumir þeirra hafa hlotið ríkulega umbun fyrir ráðvendni sína við Jehóva á sundurskiptu heimili. Þegar biblíunám var hafið með kaþólskri konu á Írlandi reis maðurinn hennar öndverður gegn því og hótaði að skilja við hana. Þrátt fyrir það hélt hún námi sínu áfram, og dag nokkurn gaf hún manni sínum eintak af bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Honum fannst mikið til um hina skýru og opinskáu efnismeðferð bókarinnar og myndskreytingu hennar. Innan skamms var hann líka farinn að nema Biblíuna með hjálp þessarar bókar. Hann hætti að reykja og skömmu síðar sögðu hjónin sig úr kaþólsku kirkjunni og eyðilögðu allar helgimyndir sínar. Ekki leið á löngu áður en konan lét skírast og hóf þátttöku í aðstoðarbrautryðjandastarfi, og maðurinn hennar tók góðum framförum í þjónustunni. Atvik af þessu tagi geta verið mikil hvatning þeim sem eru þolgóðir og ráðvandir á trúarlega sundurskiptum heimilum. — 1. Korintubréf 7:12-16.

9. Hvernig geta fatlaðir, ráðvandir menn hjálpað öðrum?

9 Aðrir hafa sýnt ráðvendni þrátt fyrir heilsubrest. Fatlaður kristinn maður á Bretlandseyjum, sem þarf að nota hjólastól, hefur mikla ánægju af þjónustu sinni. Hann segir: „Þótt ég hafi ekki getað stundað veraldlega vinnu frá 1949, hefur það þóknast Jehóva að nota mig öll þessi ár. Þau hafa því liðið fljótt. Mér hefur lærst að jafnvel mjög fatlaður maður getur gert mikið fyrir aðra. Við hjónin höfum verið ýmsum í söfnuðinum eins og nokkurs konar akkeri. Vegna kringumstæðna okkar erum við alltaf hérna og alltaf hægt að ná í okkur.“ Já, enginn fatlaður kristinn maður þarf að missa kjarkinn því að hann getur verið öðrum til uppörvunar.

10. Hvernig getum við hjálpað trúbræðrum okkar með því að vera ráðvönd og bugast ekki undir ofsóknum?

10 Ráðvandir menn bugast ekki þótt þeir séu ofsóttir. Bróðir einn, sem var hnepptur í fangelsi fyrir kristið hlutleysi sitt, sagði: „Barsmíðar . . . urðu fastur þáttur í lífi mínu og jukust bæði að tíðni og þunga. Máttur minn þvarr dag frá degi því að oft fékk ég ekkert að borða. Ég bað stöðugt til Jehóva og ég get sagt að hann yfirgaf mig ekki. Því meira sem ég var barinn, þeim mun minna fann ég fyrir því.“ Þótt þessi vottur Jehóva væri dæmdur í meira en tveggja ára fangelsisvist varðveitti hann hlutleysi sitt. (Jesaja 2:2-4; Jóhannes 15:19) Margir aðrir ráðvandir menn hafa tekið svipaða afstöðu. Enginn vafi er á að slík ráðvendni er hvetjandi dæmi sem getur hjálpað öðrum kristnum mönnum að vera trúfastir.

Hughreysting sem aldrei bregst

11. Hvernig fullvissar Ritningin okkur um að við munum fá hughreystingu?

11 Hér hafa aðeins verið talin fáein dæmi af þeim óteljandi sem sanna að Jehóva er með trúum þjónum sínum. Hann er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ (2. Korintubréf 1:3, 4) Já, „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ (Sálmur 46:2-4) Hversu hughreystandi er það ekki að vita að hann heldur okkur og öllum trúbræðrum okkar uppi í gegnum allar okkar þrengingar!

12. Hvaða áhrif hafði ráðvendni Páls á trúbræður hans?

12 Við getum látið það styrkja okkur þegar við sjáum kristna bræður okkar sýna Jehóva hollustu þrátt fyrir ýmiss konar erfiðleika. Sú varð raunin þegar aðrir veittu athygli trúfesti Páls postula. Hann skrifaði: „Það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. Því að það er augljóst orðið . . . og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.“ — Filippíbréfið 1:12-14.

13. Hvaða áhrif getur ráðvendni okkar haft?

13 Já, þegar við vitum að aðrir vottar um Jehóva varðveita ráðvendni við hann þrátt fyrir ofsóknir, þá styrkir það okkur til að vera trúfastir. Og eins er það þegar við sjálf varðveitum ráðvendni í gegnum prófraunir; þá hvetjum við aðra til að tala orð Guðs óttalaust. Og vissulega veitir það okkur fullnægju að vita að trúfesti okkar er öðrum til hvatningar og blessunar.

14. Á hvaða tvo vegu hughreystir Jehóva okkur?

14 Jehóva heldur okkur uppi með heilögum anda sínum. Meira að segja erum við ‚sælir þegar við erum smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir okkur,‘ eins og Pétur skrifaði. (1. Pétursbréf 4:12-16) Guð hughreystir okkur líka og trúbræður okkar, sem þjást, með því að svara bænum okkar. „Verið ekki hugsjúkir um neitt,“ skrifaði Páll, „heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Berð þú sams konar traust til hans sem „heyrir bænir“? — Sálmur 65:3.

Hughreysting frá orði Guðs

15. Nefndu dæmi um það sem Rómverjabréfið 15:4 talar um.

15 Hið heilaga orð Guðs er líka uppspretta mikillar hughreystingar eins og Páll postuli benti á: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun Ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Þegar við til dæmis lesum um undraverða frelsun Ísraelsmanna frá Egyptalandi eða um það hvernig Gyðingar hlutu vernd á dögum Esterar drottningar, styrkir það ekki traust okkar til Jehóva, hins óviðjafnanlega frelsara? Hvað um frásögnina af ráðvendni Jobs þrátt fyrir skelfilega ógæfu? Slíkar frásögur sýna vel hvernig þjónar Jehóva nú á tímum geta þolað þjáningar í þeim krafti sem Guð veitir. „Huggun Ritninganna“ getur svo sannarlega fyllt ráðvanda menn von og hugrekki.

16. Hvaða hughreystingu er að finna í 1. Pétursbréfi 5:6, 7 og 1. Korintubréfi 10:13?

16 En hvað þá ef við verðum niðurdregin vegna vandamála okkar? Tvímælalaust getur hughreysting Ritningarinnar veitt okkur öryggiskennd, hjálpað okkur að treysta á umhyggju Jehóva og dregið úr dapurleika okkar. Pétur postuli skrifaði: „Auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Já, Jehóva ‚ber umhyggju fyrir þér.‘ Hvílík hughreysting og hvatning! Ekkert getur gerst sem hann sér ekki eða ræður ekki við. Auk þess segir Páll postuli: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Sért þú staðráðinn í að vera ráðvandur getur þú treyst því!

17. Hvað annað getur líka hughreyst okkur?

17 Á erfiðum stundum getur það líka verið okkur hughreysting að nema orð Guðs og kristin rit, gefin út af ‚hinum trúa og hyggna þjóni,‘ og leita til hans í bæn í tengslum við það. (Matteus 24:45-47; Sálmur 119:105) Vingjarnleg og góð ráð öldunga í söfnuðinum út af Ritningunni geta líka hughreyst okkur. Meðal annars er ætlast til af þeim að ‚hughreysta ístöðulitla, taka að sér þá sem óstyrkir eru og vera langlyndir við alla.‘ — 1. Þessaloníkubréf 5:14.

18. Hvað getur hughreyst okkur ef við höfum litlu úr að spila?

18 Hvað getur hughreyst okkur ef við höfum litlu úr að spila? Víst er það mikil hughreysting að vita að í nýrri skipan Guðs verður gott húsnæði, meira en nóg af mat og önnur blessun af efnislegu tagi. (Sálmur 72:16; 2. Pétursbréf 3:13; samanber Jesaja 65:17-25.) En með kristilegu líferni komumst við nú þegar hjá því að sólunda fé í skaðlega ósiði svo sem reykingar, ofneyslu áfengis, fjárhættuspil og fleira af því tagi. Það fé, sem við það sparast, er hægt að nota til gagns fyrir fjölskylduna. Það að fylgja orði Guðs getur líka hjálpað okkur að gera okkur ánægð með það sem við höfum. Það gerði Páll því að hann sagði: „Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:6-8; Filippíbréfið 4:11, 12) Ef við einbeitum okkur að sérréttindum okkar í þjónustu Jehóva mun það veita okkur margvíslega blessun sem er sannur auður. — Orðskviðirnir 10:22.

19. Hvernig er hægt að umbera langvinn veikindi?

19 En hvað getum við gert ef við þurfum að þola langvinn veikindi? Þau er hægt að bera með hjálp Jehóva og hughreystingarinnar sem orð hans gefur. Til dæmis sagði sálmaritarinn Davíð: „Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum . . . [Jehóva] styður hann á sóttarsænginni.“ (Sálmur 41:2-4) Kraftaverkalækningar eiga sér ekki stað núna, en Jehóva gefur sjúkum kristnum mönnum þá visku og styrk sem þarf til að takast á við veikindi sín jafnhliða því að láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi í lífinu. — Matteus 6:33; 2. Korintubréf 12:7-10.

20. Hvernig er hægt að sigrast á sorginni samfara missi ástvinar?

20 Hvernig getum við borið þá sorg sem er samfara dauða ástvinar? Leita má hughreystingar í upprisuvon Biblíunnar. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) Þótt dauði ástvinar hryggi okkur erum við „ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.“ (1. Þessaloníkubréf 4:13) Upprisuvonin er ráðvöndum mönnum mikil huggun og hughreysting!

Treystu alltaf Guði huggunarinnar

21. Hvaða afleiðingar hefur þolgæði í ofsóknum oft?

21 Treystu alltaf að Jehóva, „Guð allrar huggunar,“ muni aldrei bregðast vígðum og drottinhollum þjónum sínum. (2. Korintubréf 1:3; Sálmur 94:14) Gott er einnig að muna að þær ofsóknir, sem kristnir menn þola, geta heiðrað eða vegsamað Guð. Ofsóknir vekja athygli á þjónum hans og prédikun þeirra um Guðsríki, og það verður oft til þess að þeim sem lofsyngja Jehóva fjölgar enn meir. — Samanber Postulasöguna 8:4-8; 11:19-21.

22. Hver ætti að vera óhagganleg afstaða okkar gagnvart ráðvendni?

22 Við skulum því, með Guðs hjálp, vera staðráðin í að láta ekki undan tilraunum Satans til að brjóta á bak aftur ráðvendni okkar. Megum við alltaf breyta í samræmi við trúna og halda áfram að treysta á Jehóva. Látum okkur aldrei yfirsjást á hversu marga vegu hann blessar, heldur uppi og hughreystir okkur öll sem erum þjónar hans. Megum við sanna hollustu okkar við hann og réttlát lög hans, styðja drottinvald hans. Munum líka að þetta snertir hvert og eitt okkar sem einstaklinga. Halt þú áfram að gera vilja Guðs og starfa með skipulagi Jehóva á þessum merku tímum. Fagnaðu þeim sérréttindum að mega gleðja hjarta Jehóva með því að vera honum trúfastur, og gleymdu aldrei að hann bregst aldrei í því að hughreysta sérhvern ráðvandan mann.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna þarfnast þjónar Jehóva sérstaklega hughreystingar?

◻ Hvers vegna ofsækir Satan kristna menn?

◻ Hvernig getur ráðvendni annarra hvatt okkur?

◻ Hvernig getum við látið orð Guðs hughreysta okkur?

◻ Um hvað erum við fullvissuð í 1. Pétursbréfi 5:6, 7 og 1. Korintubréfi 10:13?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Satan reynir að gleypa þjóna Jehóva en við erum ekki varnarlausir.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Jehóva svarar bænum ráðvandra manna. Biður þú reglulega?