Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við verið Jehóva „til þóknunar á allan hátt“?

Hvernig getum við verið Jehóva „til þóknunar á allan hátt“?

Hvernig getum við verið Jehóva „til þóknunar á allan hátt“?

FÁIR láta sig það miklu varða nú til dags hvort hugsanir þeirra, orð og athafnir eru Guði þóknanlegar! Jafnvel þeir sem segjast hugsa um slíkt virðast upp til hópa þjóna Guði fyrst og fremst með vörunum. Um mikinn meirihluta þeirra má segja: „Þeir eru Guði eigi þóknanlegir.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:15.

Sumum, sem játa sig kristna, finnst þeir Guði þóknanlegir svo lengi sem þeir ekki brjóti boðorðin tíu. En það er blekking! Fyrirmynd okkar, Jesús Kristur, sagði um Guð: „Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“ (Jóhannes 8:29) Já, hann þóknaðist föður sínum með því að gera vissa hluti. Jákvæðra athafna er krafist eins og sjá má af bæn Páls postula fyrir trúbræðrum sínum í Kólossu. Hann bað þess að þeir mættu ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fengju borið ávöxt í öllu góðu verki.“Kólossubréfið 1:9, 10.

En er í rauninni hægt að þóknast Jehóva „á allan hátt“? Þar eð kristnir menn eru ófullkomnir geta þeir ekki þóknast Guði fullkomlega. Samt sem áður geta þeir lagt sig fram um það í einlægni í því augnamiði að þóknast honum „á allan hátt.“ Þar eð Páll talaði um að ‚bera ávöxt í öllu góðu verki‘ felur það í sér jákvæð verk. Að sjálfsögðu getum við ekki hér greint frá öllum slíkum verkum. Þó getum við nefnt sitthvað til umhugsunar. Ef þau atriði gefa til kynna að við ættum á vissum sviðum lífsins að lagfæra eitt eða annað, þá megum við treysta að Jehóva muni blessa viðleitni okkar til að þóknast honum. Sannleikurinn er sá að til að þóknast Jehóva „á allan hátt“ þurfum við að gæta að hugsunum okkar, orðum og athöfnum.

Hvað um hugsanir okkar?

Orð Guðs segir okkur að ‚enginn skapaður hlutur sé honum hulinn heldur allt bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gjöra.‘ (Hebreabréfið 4:13) Hvorki menn né illir andar geta lesið hugsanir okkar, einungis Guð getur það. Úr því að svo er viljum við að jafnvel hugsanir okkar séu honum þóknanlegar. Við ættum því að spyrja okkur: Hvað finnst mér gaman að hugsa um þegar ég þarf ekki að beita huga mínum að því sem ég er að gera með höndunum? Hvert er það segulskaut sem segulnál hugans beinist sjálfkrafa að, ef svo má að orði komast?

Við gætum líka spurt okkur: Finnst mér gaman að byggja skýjaborgir og láta mig dreyma um fé, frægð eða upphefð vegna afreka minna? Hugsa ég neikvætt, svo sem að láta hugann dvelja við eitthvað sem gert hefur verið á móti mér, og fara yfir það í huganum aftur og aftur? Hef ég tilhneigingu til að láta hugsanir mínar snúast nálega stöðugt um kynlíf? Fylli ég huga minn sí og æ áformum og ráðagerðum um að afla mér fjár?

Nú skaltu hugleiða þetta: Getum við þóknast Jehóva „á allan hátt“ með því að fylla huga okkar slíkum hugsunum? Auðvitað ekki! Við ættum því að leita hjálpar Guðs í bæn til að reka þær burt og fylla hugann góðum, jákvæðum, heilnæmum, hreinum og elskuverðum hugsunum. (Filippíbréfið 4:8) Það er miklu betra fyrir okkur að aga hugann til að hugsa um það sem tengist tilbeiðslu okkar á Jehóva! Hugsaðu um ríki Guðs sem er svo nálægt. Rifjaðu upp ýmis atriði sem þú hefur nýlega lært úr orði Guðs. Íhugaðu þau mál sem fjallað verður um á næstu safnaðarsamkomu, sérstaklega þó þann þátt sem þú kannt að eiga í dagskránni. Íhugaðu hvernig þú getir tekið framförum í þjónustu þinni á akrinum. Hafðu í huga að þú ert framar öðru kristinn þjónn orðsins.

Sumum hefur verið hjálp í því að fara yfir ritningarstaði, sem þeir hafa lagt á minnið, svo og að raula fyrir munni sér söngva Guðsríkis. Einn kristinn maður setti saman lítið kvæði sem hann hafði oft yfir í huganum til að minna sig á að lúta vilja Guðs og gera í engu uppreisn gegn honum. Haltu áfram að biðja eins og Davíð konungur til forna: „Ó að . . . hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir augliti þitt“ — það er að segja, mættu vera þóknanlegar Jehóva. — Sálmur 19:15.

Hvað um orð okkar?

Davíð bað líka: „Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg . . . þú [Jehóva].“ (Sálmur 19:15) Eins og við lærum af Jakobsbréfinu 3:2-12 getur einungis fullkominn maður beislað tunguna algerlega. Við verðum samt sem áður að leggja okkur fram um að stjórna henni til að vera Jehóva „til þóknunar á allan hátt.“

Við tölum svo mörg orð á degi hverjum að við getum að sjálfsögðu ekki ætlað máli okkar að takmarkast við biblíuleg hugðarefni. En óháð því hvað við tölum um ætti okkur alltaf að vera hugleikið að þóknast Jehóva. Við vitum til dæmis að guðlast, klám eða ruddalegt og dónalegt tal getur tæplega þóknast okkar himneska föður. Við ættum því að forðast slíkt tal. — Efesusbréfið 5:3, 4.

Ef við viljum þóknast skapara okkar að öllu leyti í tali verðum við að gæta þess að hvorki rægja né tala niðrandi um aðra. Hægt ætti að vera að segja um okkur: ‚Hann talar eigi róg með tungu sinni, gjörir eigi öðrum mein og leggur eigi náunga sínum svívirðing til.‘ Jafnvel þótt við séum rangindum beitt ættum við að gæta þess að „lastmæla engum.“ — Sálmur 15:3; Títusarbréfið 3:2.

Okkur bjóðast góð tækifæri til að vera Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ við matarborðið! Að sjálfsögðu er það hvorki staður né stund fyrir reiðileg orð eða æsing. Til er svo margt gott sem tala má um! Einkum ættum við að vera vakandi fyrir slíkum tækifærum ef við erum gestkomandi hjá öðrum eða höfum fengið gesti til okkar. Oft er það hinn málglaðasti en ekki hinn þroskaði kristni maður sem ræður samræðunum. Átt þú von á kristnum gesti sem á að baki áralanga reynslu í fulltímaþjónustu? Er hann mjög vel heima í orði Guðs? Beittu þá hæverskum spurningum til að fá hann til að segja frá. „Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af,“ til gagns öllum viðstöddum. — Orðskviðirnir 20:5.

Til þess að vera Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ í tali okkar ættum við líka að vera vakandi fyrir tækifærum til að bera óformlega vitni um nafn Guðs og ríki. Stundum getur kristinn þjónn orðsins áorkað miklu með slíkum óformlegum vitnisburði. Helsta leiðin til að þóknast Jehóva í tali okkar, og vera um leið öðrum til blessunar, er þó sú að bera boðskapinn um Guðsríki hús úr húsi. — Postulasagan 20:20.

Til að orð okkar séu Jehóva „til þóknunar á allan hátt,“ þegar við tökum þátt í hinni kristnu þjónustu á akrinum, verðum við að kappkosta að gera eins vel og við getum í því að bera fram boðskapinn um Guðsríki. Þar eð okkur hefur verið treyst fyrir „fagnaðarerindinu“ viljum við, eins og Páll postuli, tala, „ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor.“ Og ekki má láta sér yfirsjást þá skyldukvöð að nota varir okkar til að játa trú okkar opinberlega á kristnum samkomum, þar sem við getum hvatt aðra til kærleika og góðra verka. — 1. Þessaloníkubréf 2:4; Hebreabréfið 10:23-25.

Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ í hegðun og verki

Til að geta verið Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ verðum við líka að gæta að daglegri hegðun okkar, þar á meðal því sem við gerum til afþreyingar. Já, jafnvel þegar við leitum afþreyingar megum við ekki gleyma að taka tillit til Guðs. Hljómar það öfgakennt? Alls ekki, því að Páll sagði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ Við verðum að hafa í huga þá aðvörun að „þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.“ Framar öllu öðru ætti því það sem við gerum til afþreyingar að vera heilnæmt. — 1. Korintubréf 10:31; Rómverjabréfið 8:8.

Við megum ekki láta okkur yfirsjást að gæta hófs í afþreyingu og eyða ekki of miklum tíma til hennar. Ef við eigum að vera Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ verðum við að halda afþreyingu innan hóflegra marka, eins og aukaatriði en ekki eitt af mikilvægari málum lífsins. Við ættum aldrei að stunda afþreyingu, hvort sem um er að ræða að horfa á sérstakt sjónvarpsefni eða stunda íþróttir, að því marki að hún gangi á hlut samkomusóknar eða reglulegrar þátttöku í þjónustunni á akrinum. — Matteus 6:33.

Að vera Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ felur einnig í sér að gera kristnum bræðrum okkar gott, eins og tækifæri leyfa og þörf krefur. Um það efni lesum við: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ Páll postuli sagði að sú góðvild, sem kristnir menn í Filippí sýndu honum, hafi verið ‚þekk fórn, Guði velþóknanleg.‘ — Hebreabréfið 13:16; Filippíbréfið 4:18.

Hvernig geta börn verið Jehóva „til þóknunar á allan hátt“ í breytni sinni? Páll sýnir fram á að mjög mikilvægur þáttur í því sé að hlýða foreldrum sínum „í Drottni.“ Hann segir einnig: „Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.“ — Efesusbréfið 6:1-3; Kólossubréfið 3:20.

Allir vígðir þjónar Guðs hafa notið svo mikillar ástar og góðvildar frá Jehóva og jarðneskri boðleið hans, að kærleikur og þakklæti ætti að koma okkur til að vera honum alltaf þóknanleg „á allan hátt.“ Kærleikur og þakklæti hefur í för með sér að við ‚látum ekki náð Guðs, sem við höfum þegið, verða til einskis.‘ (2. Korintubréf 6:1) Það að láta sér umhugað að þóknast Jehóva fullkomlega er líka hið rétta, því að hann er drottinvaldur alheimsins. Að vera Jehóva þóknanlegur „á allan hátt“ er líka það viturlegasta sem við gerum, því að það gagnar okkur bæði nú og gefur fyrirheit um hið komandi líf. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Já, við viljum gefa gætur að hugsunum okkar, orðum, hegðun og verkum. Með hjálp Jehóva mun okkur takast að gera það til að þóknast honum betur og betur. Og gefumst ekki upp að gera það. Fylgjum alltaf ráði Páls postula til kristinna manna í Þessaloníku: „Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:1.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Láttu ekki afþreyingu seilast inn á tíma sem ætlaður er til kristinna athafna.