Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna neita sumir prestar að skíra ungbörn?

Hvers vegna neita sumir prestar að skíra ungbörn?

Hvers vegna neita sumir prestar að skíra ungbörn?

ALAN og Sonia ætluðu að láta skíra litla barnið sitt og urðu meira en lítið undrandi þegar anglíkanski presturinn þeirra ekki aðeins neitaði að skíra barnið heldur ráðlagði þeim: „Gerið það sjálf.“ Hvers vegna brást hann þannig við? Vegna þess að hvorki Alan né Sonia sóttu reglulega kirkju. — The Christian Century, 3. - 10. júní 1981.

Færst hefur í vöxt að prestar hafi vísað frá foreldrum sem hafa viljað láta skíra börn sín — auðsætt merki þess að ýmsar kirkjudeildir eru að breyta afstöðu sinni til barnaskírnar. Við skulum líta á rómversk-kaþólsku kirkjuna sem dæmi. Eftir annað Vatíkanþingið endurskoðaði kirkjan helgisiði sína tengda barnaskírn. Haldið er áfram að skíra ungbörn, en núna eiga foreldrar fyrst að lýsa yfir að þeir muni ala barnið upp í kaþólskri trú. Páfagarður gaf út þessa yfirlýsingu: „Ef ekki liggur alvara að baki þessu loforði getur það verið ástæða til að fresta veitingu sakramentis; og ef það er alls ekki gefið ber jafnvel að synja sakramentis.“ — L’Osservatore Romano, „Leiðbeiningar um barnaskín,“ 1. desember 1980.

Það er langur vegur milli þessarar afstöðu og hinnar, sem áður var, þegar „kostgæfir trúboðar skírðu heiðin smábörn sem eftir voru skilin við vegarbrúnina,“ og þegar prestar „hvöttu foreldra til að fresta ekki að skíra barn sitt lengur en mánuð til að fremja ekki dauðasynd.“ — Haft eftir kaþólska prestinum Joseph F. Champlin í tímaritinu U.S. Catholic, apríl 1982.

Hvað býr að baki þessari afstöðubreytingu? Fyrst og fremst það að forystumenn kirkjumála hafa viðurkennt að skírn gerir fólk ekki kristið. Dvínandi kirkjusókn og guðsótti meðal skírðra kaþólikka er farin að valda forystumönnum kirkjunnar alvarlegum áhyggjum. „Hví skyldi kirkjan auka á vandann með því að skíra börn sem er nánast tryggt að verði ‚óvirkir meðlimir‘ þegar þau ná fullorðinsaldri?“ segir í grein í tímaritinu U.S. Catholic.

Þessi nýja harðlínustefna tengd skírninni leiðir einnig í ljós djúpstæðan ágreining meðal guðfræðinga. Eins og kaþólski rithöfundurinn Joseph Martos hefur bent á trúa margir prestar hreinlega ekki að barnaskírn eigi að vera „undraathöfn sem hefur ósýnileg áhrif á sálina.“ Í þeirra huga er það sjónarmið löngu úrelt.

Það er því ekkert undarlegt að fjölmargt einlægra kaþólskra manna skuli ekki vita hverju þeir eigi að trúa. Hefur kirkjan ekki alltaf kennt að óskírð börn ættu á hættu að lenda í hreinsunareldinum eða brennandi víti? Ef svo er, hugsa sumir, ætti þá undir nokkrum kringumstæðum að synja börnum um skírn? Þessar spurningar skipta miklu mái. Eins og kaþólski presturinn Vincent Wilkin hefur bent á eru þeir sem dáið hafa óskírðir „gríðarlegur fjöldi sem ógerlegt er að reikna út. Auðvelt er að ímynda sér að stærstur hluti mannkynsins hljóti að tilheyra þessum hópi.“

Við skulum því stuttlega líta nánar á barnaskírn frá sögulegum og biblíulegum sjónarhóli.