Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Verið ekki fljótir að láta rugla dómgreind ykkar‘

‚Verið ekki fljótir að láta rugla dómgreind ykkar‘

‚Verið ekki fljótir að láta rugla dómgreind ykkar‘

„Við [biðjum] ykkur að vera ekki fljótir að láta rugla dómgreind ykkar eða komast í uppnám, hvorki við innblásin orð, munnlegan boðskap né bréf sem væri það frá okkur.“ — 2. ÞESSALONÍKUBRÉF 2: 1, 2, NW.

1. Hvaða ánægjulegar minningar höfum við frá þeim tíma þegar við fyrst kynntumst sannleikanum?

 LEIDDU hugann aftur til þess tíma þegar þú byrjaðir að læra sannleikann úr orði Guðs. Fannst þér hann ekki fagur, skynsamlegur og unaðslegur? Hjörtu okkar voru barmafull af þakklæti þegar við lærðum um Jehóva, hina háu eiginleika hans, mikla kærleika og miskunn! Við glöddumst þegar við eignuðumst samfélag við aðra sem voru sömu trúar, sýndu ósvikinn kristinn kærleika og lifðu eftir meginreglum Biblíunnar.

2. Hvað eigum við, þjónar Jehóva, í vændum, og í hvaða andlegu ástandi erum við?

2 Hversu þakklát vorum við ekki þegar við lærðum það að Jehóva mun bráðlega afmá sársauka, sorg og jafnvel dauða. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Að hugsa sér að lifa að eilífu á jörð sem verður paradís, við fullkomna heilsu og hamingju! Var það ekki næstum of gott til að geta verið satt? En það var satt. Það átti sér orð Guðs að bakhjarli. Okkur fannst það hrífandi! Vafalaust leið þér alveg eins og lærisveinunum þegar Jesús birtist þeim eftir upprisu sína. Þeir sögðu hver við annan: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ (Lúkas 24:32) Já, þegar við lærðum sannleikann og vígðum líf okkar Jehóva komumst við inn í andlega paradís. Hvílík blessun!

3. Hvernig reynir djöfullinn og aðrir andstæðingar að svipta okkur þeim gæðum sem við njótum í andlegri paradís Jehóva?

3 En að búa í andlegri paradís Jehóva má ekki taka sem sjálfsagðan hlut. Við komum af fúsu geði inn í þessa paradís og við getum gengið rakleiðis út úr henni (eða verið vikið út úr henni) ef við gerumst vantrúuð eða brjótum réttlát lög Jehóva. Að sjálfsögðu mun það ekki gerast ef við varðveitum sterkan ‚okkar fyrri kærleika,‘ ef við höldum áfram að meta að verðleikum allar ráðstafanir Jehóva til að halda okkur andlega sterkum. (Opinberunarbókin 2:4) En djöfullinn og aðrir andstæðingar sannrar guðsdýrkunar eru leiknir í því að blekkja. Við ættum aldrei að gleyma að þeir eru alltaf reiðubúnir að brjóta niður ráðvendni okkar ef þeir geta. Áróður þeirra er til þess gerður að veikja trú okkar, að kæla kærleika okkar til Guðs, að sá efasemdum í hugi okkar — já, að láta okkur finnast hin andlega paradís alls ekki vera nein paradís.

4. Hvað getur gerst ef við verðum veik í trúnni og leyfum alvarlegum efasemdum að gerjast með okkur?

4 Svo við tökum að láni kunnan málshátt gæti svo farið að okkur fyndist erfitt, kannski jafnvel ómögulegt, að sjá skóg paradísarinnar vegna þess að við einblíndum svo á hin ófullkomnu, mannlegu tré sem nú standa í henni. Hrifningin, sem greip okkur þegar við kynntumst sannleikanum, vonin sem við eignuðumst, kærleikurinn, sem við ræktuðum til Guðs og andlegra bræðra okkar, og kostgæfnin, sem við höfðum til þjónustu Jehóva, getur dvínað. Ef ekki eru stigin róttæk skref til að snúa við slíkri andlegri hnignun fer mönnum fljótlega að finnast hinar ástríku kröfur Guðs vera þjakandi; hin góða, heilnæma fæða frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ fer að virðast fyrirlitleg og bræðralag elskuríkra þjóna Jehóva virðist vera hópur óvina. Þá myndi eina ánægjan, raunar rangsnúin, koma af því að geta barið samþjóna sína með rógburði og hálfsannindum. — Matteus 24:45-51.

5. Hvernig gætum við beðið svipað tjón og Adam og Eva þegar þau voru rekin út úr paradísinni Eden?

5 Já, svo gæti farið að við ekki aðeins glötuðum þeim gæðum sem hin andlega paradís veitir núna, heldur það sem alvarlegra er, voninni um að lifa í hinni jarðnesku paradís. Við gætum misst af henni af sömu ástæðu og Adam og Eva glötuðu paradísinni Eden. Þau höfðu allt sem þau þurftu til að vera fullkomlega hamingjusöm. Þau hefðu getað lifað að eilífu. En skyndilega fór sjálfstæði — ný kenning — að vera þeim þýðingarmeira en hlýðnin við Jehóva og blessunin í Eden. Eva lét blekkjast. Þótt Adam léti ekki blekkjast leyfði hann kringumstæðunum, meðal annars sterkum áhrifum konu sinnar, að koma sér til að syndga líka. Þess vegna voru þau rekin út úr paradísinni til að eiga auma ævi þar til þau dæju. Þannig glötuðu þau bæði voninni um eilíft líf sjálfum sér til handa og gáfu afkvæmum sínum synd og dauða í erfðagjöf. (1. Mósebók 3:1-7, 14-19, 24; 1. Tímóteusarbréf 2:14; Rómverjabréfið 5:12) Hið svokallaða sjálfstæði varð þeim skelfilega dýrkeypt!

6. (a) Hvaða áhyggjur hafði Páll af sumum í söfnuðinum í Korintu? (b) Hvernig koma sömu áhyggjur í ljós í bréfinu til safnaðarins í Þessaloníku?

6 Páll postuli lét áhyggjur sínar í ljós þannig: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ (2. Korintubréf 11:3) Páli reyndist nauðsynlegt að skrifa bréf um ýmsar villukenningar sem voru í umferð á hans tímum. Í síðara bréfi sínu til safnaðarins í Þessaloníku skrifaði hann: „Við [biðjum] ykkur að vera ekki fljótir að láta rugla dómgreind ykkar eða komast í uppnám, hvorki við innblásin orð, munnlegan boðskap né bréf sem væri það frá okkur, um það að dagur Jehóva sé runninn upp. Látið engan ginna ykkur á nokkurn hátt.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:1-3, NW.

Hafðu engin samskipti við fráhvarfsmenn

7. (a) Hvaða spurningar koma upp ef við fáum fráhvarfsrit í pósti? (b) Hvers vegna er hættulegt að vera of öruggur með sjálfan sig þegar hugmyndir fráhvarfsmanna eiga í hlut?

7 Nú, hvað munt þú gera ef þú stendur frammi fyrir fráhvarfskenningu — lævísum rökum þess efnis að það sem þú, einn votta Jehóva, trúir sé ekki sannleikurinn? Hvað gerir þú til dæmis ef þér berst bréf eða eitthvert rit í pósti, þú opnar það og sérð samstundis að það er frá fráhvarfsmanni? Mun forvitni koma þér til að lesa það, svona rétt til að sjá hvað hann hafi að segja? Þú hugsar kannski jafnvel: ‚Það hefur ekki áhrif á mig; ég er nógu sterkur í sannleikanum. Og auk þess er ekkert að óttast ef við höfum sannleikann. Sannleikurinn þolir að vera prófaður.‘ Þessi hugsunarháttur hefur komið sumum til að næra huga sinn á hugmyndum fráhvarfsmanna og verða fórnarlömb alvarlegra efasemda. (Samanber Jakobsbréfið 1:5-8) Mundu því eftir aðvöruninni í 1. Korintubréfi 10:12: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“

8. Hvaða hjálp þurfa sumir að fá sem eru alteknir efasemdum?

8 Sumir, sem hafa orðið fórnarlömb efasemda hafa, með ástríkri hjálp umhyggjusamra bræðra, náð sér aftur eftir tímabil andlegra þjáninga og kvala. En þeir hefðu getað sparað sér þjáningarnar. Í Orðskviðunum 11:9 er okkur sagt: „Með munninum steypir hinn guðlausi [fráhvarfsmaðurinn, NW] náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.“ Júdas segir kristnum bræðrum sínum að vera ‚mildir við suma, þá sem eru efablandnir, og frelsa suma með því að hrífa þá út úr eldinum.‘ (Júdasarbréfið 22, 23) Páll ráðlagði umsjónarmanninninum Tímóteusi að ‚aga hógværlega þá sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum, þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:25, 26.

9. Hvernig fer fyrir þeim sem yfirgefa sanna guðsdýrkun?

9 Því miður hafa aðrir farið út í algjört svartamyrkur, jafnvel snúið aftur til villukenninga kristna heimsins. Pétur postuli segir frá sorglegu hlutskipti sumra sem gengu í sannleikanum en sneru síðan baki við honum. Hann sagði: „Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.“ Pétur segir því næst að þeir séu eins og hundur sem snýr aftur til spýju sinnar og þvegið svín sem fer aftur að velta sér upp úr leðjunni. — 2. Pétursbréf 2:20-22.

10. (a) Hvað segir Jehóva um það að hlusta á fráhvarfsmenn? (b) Hverju jafngildir það að lesa rit fráhvarfsmanna?

10 Að sjálfsögðu gætum við freistast til að spyrna við fótum þegar aðrir menn segja okkur: ‚Ekki lesa þetta‘ eða ‚Ekki hlusta á þetta.‘ En mundu að í þessu tilviki er það Jehóva sem segir okkur í orði sínu hvað við eigum að gera. Hvað segir hann um fráhvarfsmenn? „Sneiðið hjá þeim“ (Rómverjabréfið 16:17, 18), „ekki umgangast“ þá (1. Korintubréf 5:11) og ‚takið þá ekki á heimili ykkar og biðjið þá ekki vera velkomna.‘ (2. Jóhannesarbréf 9, 10) Þetta eru ákveðin orð, skýr fyrirmæli. Ef við sökum forvitni lesum rit sem við vitum að eru fráhvarfsrit, væri það ekki hið sama og að bjóða óvinum sannrar guðsdýrkunar inn á heimili okkar til að setjast þar niður með okkur og greina frá fráhvarfshugmyndum sínum?

11, 12. (a) Hvaða samlíking er gerð hér til að hjálpa okkur að skilja að við getum ekki leyft okkur að lesa rit fráhvarfsmanna? (b) Hvernig má líkja þessu við umhyggju Jehóva fyrir þjónum sínum?

11 Við skulum lýsa þessu með eftirfarandi dæmi: Hvað myndir þú gera ef syni þínum á táningaaldri bærust einhver klámrit í pósti? Ef hann hefði, vegna einhverrar forvitni, tilhneigingu til að lesa þau, myndir þú þá segja: ‚Allt í lagi, lestu þetta. Það gerir þér ekkert mein. Við höfum kennt þér frá blautu barnsbeini að siðleysi sé vont. Auk þess þarft þú að vita hvað er að gerast í heiminum til að sjá að það er í rauninni vont‘? Myndir þú tala þannig? Auðvitað ekki! Þess í stað myndir þú örugglega sýna honum fram á hversu hættulegt væri að lesa klámrit og krefjast þess að þau yrðu eyðilögð. Hvers vegna? Vegna þess að óháð því hve sterkur einhver er í sannleikanum mun það hafa áhrif á hug hans og hjarta ef hann nærir hugann á þeim rangsnúnu hugmyndum sem er að finna í slíkum ritum. Þrálát, röng löngun, sem gróðursett er í fylgsnum hjartans, getur með tíð og tíma vaxið upp í rangsnúna, kynferðislega matarlyst. Hvaða afleiðingar hefur það? Jakob segir að röng löngun fæði synd, þegar hún er orðið þroskuð, og að syndin leiði til dauða. (Jakobsbréfið 1:15) Hvers vegna þá að hleypa keðjuverkuninni af stað?

12 Nú, ef við göngum svona rösklega fram til að verja börnin okkar gegn klámi, megum við þá ekki búast við að okkar ástríki himneski faðir verndi okkur á svipaðan hátt gegn andlegum saurlifnaði, þar á meðal fráhvarfi? Hann segir: Haldið ykkur frá því!

13. Hvað getum við gert ef við erum spurð erfiðra spurninga úti á akrinum, byggðar á því sem fráhvarfsmenn hafa sagt eða skrifað?

13 En setjum sem svo að við séum að prédika fagnaðarerindið og einhver varpi fram spurningu eða mótbáru líkri þeirri sem andstæðingarnir gera. Ef sá sem spyr er ekki einlægur heldur vill einfaldlega koma af stað þrætu er auðvitað í flestum tilvikum best að slíta samtalinu og færa sig að næstu dyrum. En hvað er hægt að gera ef áhugasamur maður spyr þig í einlægni um einhverjar fullyrðingar fráhvarfsmanna? Í fyrsta lagi skalt þú spyrja hann hvað nákvæmlega hafi valdið óróa hans. Vera má að það séu aðeins eitt eða tvö atriði. Þá skalt þú halda þér við þau og svara út af Ritningunni, út af ritum Félagsins og því sem þú veist sjálfur vera satt og rétt um þetta mál. Þú þarft ekki að hugsa sem svo að þú verðir að lesa bók eða bækling, sem er fullur af rógi og hálfsannindum, til að hrekja falskar fullyrðingar og kenningar andstæðinganna.

Traust til Jehóva

14. Hvaða kærleiksríka umhyggju ber okkar himneski faðir fyrir okkur, og hvers vegna getum við treyst algerlega á hann?

14 Þegar við sækjum fram, byggjum upp trúna og höldum okkur uppteknum í þjónustu Guðsríkis getum við treyst Jehóva í þeirri fullvissu að hann, elskuríkur faðir okkar á himnum, vilji okkur það sem er best fyrir okkur. Guð kennir okkur og aðvarar. Hann gerir það í gegnum orð sitt og með skýrum fyrirmælum í gegnum hið sýnilega skipulag sitt. Ef við bæðum ástríkan föður um brauð og fisk myndi hann ekki gefa okkur stein eða höggorm. Guð mun ekki heldur hafa okkur að ginningarfíflum eða svíkja okkur. (Matteus 7:7-11) Þó mun Guð ekki hlífa okkur fullkomlega fyrir freistingum eða villandi lygum og áróðri djöfulsins. Hann segir sjálfur: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Já, Jehóva ‚kennir okkur það sem okkur er gagnlegt.‘ Hann segir okkur að halda okkur aðgreindum frá fráhvarfsmönnum og kenningum þeirra, og það er okkur vernd. Það hefur líf í för með sér fyrir okkur.

15. Hvernig varaði Páll postuli við því að sumir myndu reyna að draga lærisveinana á eftir sér?

15 Páll postuli aðvaraði kristna öldunga: „Úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:30) Ef við höldum áfram að hlusta á lævísar og táldrægar röksemdir getur ‚rangsnúin kenning‘ hljóðað eins og hún sé rétt. Því lengur sem Eva horfði á forboðna ávöxtinn og hlustaði á rangsnúnar röksemdir djöfulsins, þeim mun sannfærðari varð hún um að hann hefði á réttu að standa. Páll aðvaraði: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ (Kólossubréfið 2:8) Postulinn sagði einnig að ‚með blíðmælum og fagurgala blekktu fráhvarfsmenn hjörtu hrekklausra manna.‘ (Rómverjabréfið 16:17, 18; samanber 2. Korintubréf 11:13-15.) En sú staðreynd að fáeinir láta draga sig burt með þess háttar áróðri þýðir ekki að við verðum að fylgja þeim. Engu að síður verðum við að vera á varðbergi.

16. Hvaða aðvörun Ritningarinnar hjálpar okkur að standast tilraunir Satans til að blekkja og leiða fólk burt frá sannri guðsdýrkun?

16 Aðferðir djöfulsins hafa ekki breyst síðan í Edengarðinum. Hann beitir lævísum spurningum og höfðar til eigingjarnra hagsmuna. Pétur segir: „Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum . . . Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu.“ (2. Pétursbréf 2:1-3) Þessi uppspunnu orð eru látin hljóma eins og þau séu sönn og ósvikin. Í 2. Tímóteusarbréfi 2:14-19 undirstrikaði Páll nauðsyn þess að nota orð Jehóva til að leiðrétta, en hann varaði líka við því að nauðsynlegt væri að sniðganga fráhvarfsmenn sem færu með ‚innantómt mál er svívirti það er væri heilagt,‘ því að hann sagði að ‚lærdómur þeirra æti um sig eins og helbruni‘ eða drep.

17, 18. (a) Hvað er líkt með fráhvarfskenningum og helbruna eða drepi? (b) Hvernig aðvarar Pétur postuli okkur við þeim sem reyna að snúa okkur frá sannri guðsdýrkun? (c) Hvaða spurningum verður svarað í næstu námsgrein?

17 Svo sannarlega er þetta viðeigandi samlíking! Fráhvarfshugmyndir eru ekkert annað en andlegur dauði sem breiðist ört út, líkt og drep eða holdfúi. Og þar eð meðlimir safnaðarins eru eins og einn líkami er hætta á að aðrir geti sýkst. Ef ekki er hægt að lækna andlega þann sem breiðir út fráhvarfskenningar, með því að beita orði Guðs af kærleika en festu eins og græðandi smyrslum, getur verið einasta úrræðið að taka þennan lim af (gera hann rækan) til að vernda hina limi líkamans. (Samanber Títusarbréfið 1:10, 11.) Láttu ekki sýkjast af andlegu drepi! Varðveittu góða andlega heilsu með því að forðast að þú smitist af fráhvarfshugmyndum. Taktu til þín hin góðu ráð í 2. Pétursbréfi 3:17, 18: „Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar. Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“

18 En hvernig getum við verndað okkur gegn fráhvarfi? Hvernig getum við komið í veg fyrir að hjörtu okkar verði móttækileg fyrir fráhvarfshugmyndum? Þessar spurningar verða skoðaðar í greininni sem á eftir fer.

Manst þú?

◻ Hvernig gætum við misst af þeim gæðum sem við njótum í andlegri paradís Jehóva?

◻ Hvers vegna er það að lesa fráhvarfsrit líkt og að lesa klámrit?

◻ Hvað er hægt að gera ef við erum spurð um vissar fullyrðingar fráhvarfsmanna?

◻ Hvers vegna eru fráhvarfskenningar eins og drep í sári?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hyggilegt er að henda eða eyðileggja rit fráhvarfsmanna.