Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem tímar og tíðir Jehóva þýða fyrir okkar daga

Það sem tímar og tíðir Jehóva þýða fyrir okkar daga

Það sem tímar og tíðir Jehóva þýða fyrir okkar daga

„Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ — MATTEUS 7:19.

1. Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva tók á sumum valdhöfum fortíðar?

 VITNISBURÐUR sögunnar er á þá lund að Jehóva geti ‚breytt tímum og tíðum, rekið konunga frá völdum og sett konunga til valda.‘ (Daníel 2:21) Á liðnum öldum rak hann frá völdum Faraó, Nebúkadnesar, Belsasar, Heródes Agrippa I og fleiri, þegar það þjónaði tilgangi hans. ‚En þetta tilheyrir allt ævafornri sögu,‘ kann einhver að segja. ‚Hvernig snertir það okkur?‘ Þessir atburðir snerta okkur mikið, því að í þeim felst mikilvægur lærdómur. Það sem við lærum af þessum atburðum er að Jehóva bindur enda á stjórn veraldarleiðtoga þegar upp rennur tími hans til þess. Þegar það þjónar tilgangi hans hefur hann sett til valda þá stjórnendur sem hann hefur valið.

2. Til hvers er nú upp runninn tími Jehóva?

2 Á okkar dögum er enn kominn tími Jehóva til að ‚reka konunga frá völdum og setja konunga til valda.‘ Hann hefur nú ‚sett til valda‘ þann konung, sem hann hefur útvalið, og mun bráðlega reka alla valdhafa heimsins frá völdum og afnema allt það heimskerfi sem þeir drottna yfir. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hafa, eins og Belsasar, ‚verið vegnir á skálum og léttvægir fundnir.‘ Nú er staða mála hin sama og var þegar þjónn Guðs Daníel sagði Belsasar: „Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda.“ (Daníel 5:26, 27) Þess vegna mun Jehóva á okkar dögum ‚knosa konunga á degi reiði sinnar og halda dóm meðal þjóðanna.‘ — Sálmur 110:5, 6.

‚Léttvægir fundnir‘

3, 4. Hvernig eru leiðtogar heimsins ‚léttvægir fundnir‘ á okkar öld að því er frið varðar?

3 Á hvaða hátt hafa þjóðaleiðtogar verið ‚fundnir léttvægir‘ eða ófullnægjandi með tilliti til þróunarinnar í heiminum? Þeir verða að taka á sig bróðurpartinn af sökinni á því sem hent hefur mannkynið á okkar tímum, tímum hörmunga og ógæfu sem ekki hefur áður þekkst. Til dæmis hafa aðeins frá 1914 fallið um hundrað milljónir manna í hinum ýmsum styrjöldum! Nú ógna kjarnorkuvopn öllu lífi á jörðinni. Á þessu augnabliki er kjarnorkuflaugum miðað á þéttbýlustu staði jarðarinnar og skotsveitirnar til reiðu.

4 Tímaritið Science komst að þessari ógnvekjandi niðurstöðu varðandi kjarnorkustyrjöld: ‚Verði kjarnorkuvopnum beitt í stórum stíl er líklegt að stærstur hluti jurta- og dýralífs á jörðinni verði aldauða. Ekki er hægt að útiloka gereyðingu mannkynsins.‘ Stjórnarerindreki í Evrópu sagði: „Tjónið yrði ekki talið í borgum heldur í heilum meginlöndum.“ Forseti ríkis í Rómönsku Ameríku sagði um varnarkostnaðinn: „Mannkynið siglir brothættu skipi sem gæti hæglega farist . . . Ef það sekkur gæti það tekið alla með sér.“ Og í japönsku dagblaði sagði: „Heimurinn [virðist] fjarlægari þeirri hugsjón [friði] en nokkru sinni fyrr í sögunni.“

5, 6. Hvernig er háttað efnahag margra þjóða og þjóðfélagshópa?

5 Þó eyða þjóðirnar sífellt meiru til hernaðarútgjalda. Kostnaðurinn er kominn upp í billjón (milljón milljón) bandaríkjadala á ári! Samkvæmt einni heimild eyðir heimurinn um fimmtugfalt hærri fjárhæð á hvern hermann en hvert barn á skólaaldri. Þá má nefna skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum sem segir að í það minnsta 450 milljónir manna í heiminum séu hungraðar og talan fari hækkandi. Önnur skýrsla segir að „ár hvert svelti 30 til 40 milljónir manna í hel“ í þróunarlöndunum. Þar segir líka að helmingur hinna deyjandi séu börn undir fimm ára aldri.

6 Embættismaður stjórnar í stóru Suður-Ameríkuríki segir að „fjörutíu prósent vinnuaflsins búi við algera örbirgð.“ Í öðru landi þar í álfu snertir atvinnuleysi í höfuðborginni 51 af hundraði vinnuaflsins. Í frétt um þetta ástand segir: „Meginland, þar sem búa 260 milljónir manna, er sokkið niður í sína dýpstu kreppu síðastliðinnar hálfrar aldar.“ Taktu síðan eftir þessum þrem fyrirsögnum úr dagblöðum mismunandi landa: „Fátækt kölluð ‚ógnvekjandi.‘ “ „Fátækt fer vaxandi.“ „Fátækt — sársaukafull reynsla.“ Voru þær frá þróunarlöndunum? Nei, þær voru hafðar eftir embættismönnum stjórnvalda í Kanada, Bandaríkjunum og Sambandslýðveldinu Þýskalandi. Já, jafnvel hinar svonefndu auðugu þjóðir eru sokknar í fen erfiðleika.

7. Hvað hefur verið sagt um glæpi og ofbeldi sem eru í algleymingi nú á dögum?

7 Í mörgum löndum endurspeglast þessi vandamál í holskeflu glæpa, ofbeldis og hryðjuverka. Sjúkdómavarnamiðstöðvar í Bandaríkjunum vekja til dæmis athygli á að ár hvert séu yfir 50.000 Bandaríkjamenn myrtir eða svipti sig lífi! Því sagði í ritstjórnargrein í The New York Times: „Menn hafa ekki lengur stjórn á málum.“ Í annarri ritstjórnargrein sagði: „Þetta eru tímar alþjóðlegs stjórnleysis.“ Þrátt fyrir margra alda tilraunir, reynslu og tækniframfarir eru leiðtogar veraldar ófærir um að fullnægja frumþörfum margra þegna sinna.

8. Um hvað ber mannkynssagan vitni?

8 Svo sannarlega staðfestir mannkynssagan, bæði fyrr og nú, að maðurinn getur ekki fundið lausnina upp á eigin spýtur. Forysta manna á sviði stjórnmála, efnahagsmála og trúmála getur aldrei tryggt þann frið, öryggi, hamingju, heilsu og líf sem við þráum og þörfnumst. Þess vegna verður þessi heimur að hverfa! Og hann mun hverfa því að Jehóva hefur ákveðið það. Svo mun verða eins og Biblían segir: „Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ — Lúkas 3:9.

Önnur ástæða fyrir dómi

9. Hvernig líta þjóðaleiðtogar almennt á tilgang Jehóva?

9 Hinn slæmi ávöxtur, sem þessi heimur og leiðtogar hans hafa borið, er ein ástæða til þess að Jehóva hefur vegið heiminn á vogarskálum, fundið hann léttvægan og mun eyða honum. En það liggur einnig önnur ástæða að baki því: Leiðtogar veraldar hafa ekki tekið Jehóva — hinn mikla skapara og drottinvald alheimsins — með í áætlanir sínar. Þeir hafa engan raunverulegan áhuga á tilgangi hans eða tímum og tíðum. Þess vegna segir 1. Korintubréf 2:8 réttilega um þá: „Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana [visku Guðs].“ Því ráðleggur Sálmur 146:3 okkur: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“

10, 11. (a) Hvað ættu þeir sem vilja kynnast Jehóva að vilja gera? (b) Hvað þekkja þjónar Guðs sem aðrir þekkja ekki?

10 Orðskviðirnir 3:5, 6 ráðleggja okkur þess í stað: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Þeir sem gera það munu ekki sitja í vonleysismyrkri þessa heims. Jehóva mun blessa þá með anda sínum þannig að þeir kynnist tilgangi hans, tímum og tíðum. Eins og Postulasagan 5:32 segir gefur Jehóva heilaga anda sinn „þeim, er honum hlýða.“

11 Þjónar Guðs þekkja því það sem stjórnendur þessa heims þekkja ekki. Þeir þekkja tilgang Jehóva, tíma hans og tíðir. Fyrra Pétursbréf 1:11 segir að til forna hafi þjónar Guðs ‚rannsakað til hvers eða hvílíks tíma andinn, sem bjó í þeim, benti.‘ Með því að andi Guðs gefur slíka vísbendingu gat Páll postuli sagt bræðrum sínum í trúnni: „Þér þekkið tímann.“ (Rómverjabréfið 13:11) Þar eð þjónar Jehóva nú á tímum hlýða honum sem stjórnanda opinberar heilagur andi hans þeim hvað líður tíma og tíðum frá hans sjónarhóli. Amos 3:7 segir: „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“

Enn önnur ástæða

12, 13. Nefnið aðra ástæðu fyrir því að þessi heimur og leiðtogar hans eru léttvægir fundnir í augum Jehóva.

12 Þetta leiðir okkur að enn annarri ástæðu fyrir því að þessi heimur og leiðtogar hans eru léttvægir fundnir og verða látnir víkja. Mundu hvað Faraó, Belsasar, Heródes og aðrir valdhafar til forna gerðu við þjóna Jehóva. Þeir voru þeim andsnúnir, ofsóttu þá og jafnvel drápu. Guð lét þessa valdhafa svara til saka fyrir það.

13 Eins er það núna. Margir af forystumönnum heimsins hafa staðið gegn, ofsótt og jafnvel drepið friðsama þjóna Jehóva. Þeir mæla jafnvel „gegn Hinum hæsta [og] kúga hina heilögu Hins hæsta.“ (Daníel 7:25; 11:36) En hin innblásna frásaga í Jesaja 54:17 segir: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, . . . þetta er hlutskipti þjóna [Jehóva].“ Því verða allir andstæðingar niðurlægðir eins og var til forna. Á hinn bóginn lofar Jehóva að þjónar hans muni bjargast og dafna.

Endalokin eru nálæg

14, 15. (a) Hvaða tímabili lifum við á og hvaða aðvörunum ættum við að hlýða? (b) Hvað nálgast óðfluga þrátt fyrir viðleitni þjóðaleiðtoga?

14 Hvað líður þá tímanum núna frá sjónarhóli Guðs? Núna standa yfir síðustu augnablik þessa heims. Sól hans er að ganga til viðar. Nóttin nálgast þennan heim óðfluga og veturinn er að skella á. Spádómar Biblíunnar eru óðum að uppfyllast og tímaáætlun Jehóva sýnir að við lifum nú ‚síðustu daga‘ ‚endis veraldar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3-14) Við þurfum því að taka til okkar aðvörun Jesú: „Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur.“ (Matteus 24:20) Þegar nótt eða vetur þessa heims rennur upp er um seinan að leita hylli Jehóva.

15 Tími Guðs til að binda enda á þennan heim, sem svívirðir Guð, nálgast óðfluga. Þegar hann rennur upp verða allir stjórnendur heimsins reknir harkalega frá völdum. Óháð því hversu einlægir þeir eru munu hin árangurslausu og vonlausu áform þeirra líða undir lok. Að vísu má vera að þeir reyni að uppörva þegna sína með friðarsamningum og ýmsum áformum um frið og öryggi, jafnvel með yfirlýsingum um ‚heilög ár‘; en hergangan til stríðs Guðs við Harmagedón verður ekki stöðvuð. — Opinberunarbókin 16:13-16.

16. Hverjum hefur Jehóva gefið vald yfir heiminum?

16 Mundu líka að Jehóva ekki aðeins ‚rekur konunga frá völdum‘ heldur líka ‚setur konunga til valda.‘ (Daníel 2:21) Hinar himnesku hersveitir, sem Jehóva mun nota til að fullnægja dómi sínum við Harmagedón, munu lúta forystu valdhafans sem hann hefur ‚sett til valda‘ yfir allri jörðinni. Það er trúfastur sonur hans, Kristur Jesús, sem núna er voldugur og dýrlegur á himnum. Opinberunarbókin 19:16 kallar hann ‚Konung konunga og Drottin drottna.‘ Daníelsbók 7:14 segir: „Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ — Sjá einnig Daníel 2:44.

17, 18. (a) Hvernig segir orð Guðs að fara muni fyrir þeim sem ekki viðurkenna hann og skipaðan stjórnanda hans yfir jörðinni? (b) Hver annar veit að skammur tími er eftir?

17 Á skýru máli segir spádómsorð Guðs hvernig fara muni fyrir þeim sem ekki viðurkenna Jehóva og skipaðan stjórnanda hans yfir allri jörðinni. Það segir: „Ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: ‚Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs, til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.‘ “ — Opinberunarbókin 19:17, 18.

18 Jeremía 25:33 lýsir þessu þannig: „Þeir sem [Jehóva] hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.“ Já, endalok alls hins spillta heimskerfis Satans eru nálæg. Og jafnvel hann veit það. Opinberunarbókin 12:12 segir að hann viti að hann hafi aðeins „nauman tíma“ eftir.

Leitaðu Jehóva núna

19. Hvaða hrífandi dagur og tíð mun renna upp eftir að þetta heimskerfi líður undir lok?

19 Hvað tekur við þegar nótt eða vetur heimskerfis Satans er liðinn? Þá kemur tími Jehóva til að láta renna upp bjartan, nýjan dag, hrífandi vor. Þá rennur upp tíminn til að hefja hina réttlátu nýju skipan Jehóva undir stjórn konungsins himneska, Krists Jesú. Í þeirri nýju skipan munu ofbeldi, ranglæti, þjáningar, sjúkdómar og dauði ekki vera til framar. Menn verða hafnir upp til fullkomleika og eiga fyrir sér eilíft líf. Þetta eru hrífandi framtíðarhorfur! — Sálmur 37:10, 11, 29; Opinberunarbókin 21:4.

20, 21. Hvernig leitar fólk af öllum þjóðum Jehóva stórum hópum?

20 En áður en þetta kerfi tekur enda og ný skipan tekur við er tíð Jehóva til að vinna þýðingarmikið starf í þágu auðmjúkra manna á jörðinni. Það er tími hans til að safna saman þeim sem vilja læra um hann, sem langar til að lúta vilja hans og lúta þeim konungi sem hann hefur valið. Með því að gera það öðlast þeir vernd Jehóva: „Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ — Orðskviðirnir 18:10.

21 Núna er fólk að gera þetta stórum hópum — í milljónatali. Það kemur úr öllum þjóðum jarðarinnar. Því er lýst í Sakaría 8. kafla, 20. og 21. versi: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga. Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: ‚Vér skulum fara til þess að blíðka [Jehóva] og til þess að leita [Jehóva] allsherjar!‘ “ Vers 23 bætir við: „Á þeim dögum [nú á okkar tímum] munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings [sem er smurður tilbiðjandi Jehóva] og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘ “

22. Hvað verðum við að viðurkenna ef við viljum lifa af reiðidag Jehóva?

22 Þess vegna skalt þú tilbiðja Jehóva með þjóð hans og forða þér á þann stað þar sem hann veitir öruggt hæli. Eignastu hlutdeild í þýðingarmesta starfi sem unnið er á jörðinni núna — því að safna saman og þjálfa þá sem lifa munu af Harmagedón og eiga í vændum þá hrífandi framtíð að rækta paradís á jörð og búa í henni að eilífu. Gerðu þér grein fyrir hvað líður tíma og tíðum og gerðu það sem Jesaja 55:6 hvetur til: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!“ Já, „leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — Sefanía 2:3.

Spurningar til upprifjunar

◻ Á hvaða vegu eru leiðtogar þjóðanna ‚léttvægir fundnir‘ í augum Guðs?

◻ Hvers vegna þekkja þjónar Jehóva tíma hans og tíðir en leiðtogar veraldar ekki?

◻ Hvers vegna verðskulda leiðtogar veraldar harðan dóm af hendi Guðs?

◻ Hvaða tími og tíð er upp runnin frá sjónarhóli Jehóva?

◻ Hvers vegna og hvernig ættum við að leita Jehóva núna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Margir sem iðka nú trú munu lifa af endalok þessa heims.