Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían — aðeins orð manna?

Biblían — aðeins orð manna?

Biblían — aðeins orð manna?

WILLIAM Tyndale gaf líf sitt fyrir það að reyna að gera Biblíuna öllum fáanlega. Marteinn Lúther lagði á sig gífurlegt erfiði til að þýða hana á þýsku. Fyrir fylgjendur Jóhannesar Kalvíns var hún „mælistika og prófsteinn alls sannleika.“ Já, sú var tíðin að fáir efuðust um að Biblían væri orð Guðs. Sú hefur einnig verið kennisetning rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

En nú eru viðhorfin breytt. Fáir lesa mestu metsölubók mannkynssögunnar og enn færri fara eftir henni. Rithöfundurinn James Barr endurómaði tilfinningar margra með orðunum: „Frásögn mín af tilurð biblíulegs boðskapar er frásögn af verki manna. Hann er yfirlýsing mannsins um trú sína. . . . Biblían ætti réttilega að kallast orð Ísraels, orð forystumanna hinna frumkristnu.“ — The Bible In the Modern World eftir James Barr.

Hver er orsök þessarar breytingar? Er Biblían orð Guðs eða orð einhverra manna? Skiptir það jafnvel einhverju máli nú á 20. öldinni?

Skiptir það einhverju máli?

Svarið við síðustu spurningunni er: Já, það skiptir máli. Hvers vegna? Vegna þess að Biblíunni er lýst sem ‚lampa fóta okkar og ljósi á vegum okkar.‘ (Sálmur 119:105) Enginn vafi er á að við höfum mikla þörf fyrir slíkt ljós núna. Verið er að eyðileggja hina fallegu reikistjörnu sem við byggjum. Milljónir manna svelta. Aðeins fáeinir sjá fram á bjarta framtíð því sjálfri tilveru mannkynsins er ógnað. Biblían býðst til að vísa okkur veg í gegnum þessa örðugu tíma til hamingjuríkrar og friðsællar framtíðar. Ef hún er í rauninni orð Guðs er hún einmitt það sem okkur vantar.

Hvers vegna efast þá svo margir um að Biblían sé orð Guðs? Svarið við þeirri spurningu hjálpar okkur að ganga úr skugga um hvort þessi bók er í raun orð Guðs eða ekki.

Hvað er orðið um trúna?

Hin nálega undantekningarlausa trú á Biblíuna varð á 17. og 18. öld fórnarlamb nýrra hugmynda og skoðana. Í Evrópu breiddist út efahyggja og veraldleg viðhorf. Allt var véfengt — stjórnkerfi, efnahagskerfi, skilningur á náttúrunni og trúarbrögðin. Biblían var engin undantekning.

Efasemdir gagnvart Biblíunni voru látnar opinskátt í ljós. Á 17. öld dró Pierre Bayle, sem verið hafði kaþólskrar trúar, í efa sögulegan áreiðanleika og tímatal Biblíunnar. Hugmyndir hans fengu góðan hljómgrunn, og á 19. öldinni náði efahyggjan fullum blóma í skóla hinnar æðri biblíugagnrýni. Þeir sem aðhyllast æðri biblíugagnrýni fullyrða að Biblían sé ekki það sem hún virðist vera. Þeir segja að Móse hafi ekki skrifað Mósebækurnar fimm; þær hafi verið teknar saman löngu síðar eftir heimildum sem skráðar hafa verið mörgum öldum eftir daga Móse. Hafi einhver spádómur uppfyllst hljóti hann að hafa verið skráður eftir „uppfyllingu“ sína. Jesajabók á því að vera verk fjölmargra manna tekið saman yfir nokkurra alda tímabil. Daníelsbók á að hafa verið skrifuð um árið 165 f.o.t.

Þýski biblíufræðingurinn David Friedrich Strauss er gott dæmi um þau áhrif sem hin æðri biblíugagnrýni hefur haft: „Erum við enn kristnir? Nei, sagði Strauss, að minnsta kosti ekki þeir okkar á meðal sem hafa tileinkað sér hina æðri biblíugagnrýni, því að við getum ekki lengur viðurkennt Biblíuna sem orð Guðs.“ — Religion and the Rise of Skepticism eftir Franklin L. Baumer.

Hinir nýju tímar veraldarhyggju höfðu líka í för með sér nýjar uppgötvanir á sviði vísinda. Sumar þeirra studdu Biblíuna en aðrar virtust stangast á við hana. Margir létu því telja sér trú um að Biblían væri úrelt. Sú tilfinning styrktist til muna um miðbik 19. aldar þegar þróunarkenningin náði vinsældum — kenning sem gengur algerlega í berhögg við sköpunarfrásögn 1. Mósebókar. Þorri vísindamanna og æðri biblíugagnrýnendur tóku þessari kenningu tveim höndum. Núna aðhyllast hana fjölmargir prestar og hún er kennd sem staðreynd í skólum.

Merkir allt þetta að vísindin hafi á einn eða annan hátt afsannað það sem Biblían segir? Hefur hin æðri biblíugagnrýni sýnt fram á að Biblían sé ekki orð Guðs?