Jehóva, Guð tíma og tíða
Jehóva, Guð tíma og tíða
„Öllu er afmörkuð stund.“ — PRÉDIKARINN 3:1.
1, 2. (a) Hvernig eru menn sér meðvitandi um tímann? (b) Hvernig yrði daglegt líf manna ef við gætum ekki mælt tímann?
TÍMINN gegnir mjög stóru hlutverki í daglegu lífi okkar. Þegar klukkan sýnir að degi er tekið að halla og sól er að ganga til viðar vitum við að nóttin er í nánd. Þegar dagatalið sýnir að haust er komið, við sjáum hitastig fara lækkandi viku eftir viku og laufið falla af trjánum, þá vitum við að veturinn er í nánd. Tákn og ummerki staðfesta þannig það sem klukkur og dagatöl segja okkur.
2 Ef við gætum ekki greint tíma og tíðir myndi hálfgert stjórnleysi ríkja í daglegu lífi manna. Hugsaðu þér til dæmis hvernig gengi að láta mörg hundruð flugvélar lenda áfallalaust á fjölförnum flugvelli, ef engin leið væri til að mæla tímann til að tímasetja hvenær þær skyldu lenda! Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig íbúum milljónaborgar gengi að mæta til vinnu á réttum tíma ef þeir hefðu ekkert til að mæla tímann með!
3. Hver er höfundur tíma og tíða?
3 Hver er höfundur tíma og árstíða? Það er skapari alheimsins, Jehóva Guð. Fyrsta Mósebók 1:14 segir: „Guð sagði: ‚Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns til að marka tíðir, daga og ár.‘ “
Þýðingarmeiri tímar og tíðir
4-6. (a) Hvað er þýðingarmeira en að þekkja tíma og tíðir mannlegra athafna? Hvers vegna? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja?
4 Þótt manninum sé þýðingarmikið að kunna skil á tímum og árstíðum er þó annað langtum þýðingarmeira: Hvað líður tímum eða tíðum frá sjónarhóli Guðs? Prédikarinn 3:1 segir: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ Þótt þetta sé svo frá mannlegum bæjardyrum séð er það ekki síður mikilvægt séð frá bæjardyrum skaparans. Hann hefur ákveðna tíma og tíðir til að láta tilgang sinn verða. Ef við ekki samstillum líf okkar þeirri staðreynd, þá mun það að síðustu reynast okkur gagnslaust að haga lífi okkar eftir klukkum eða dagatölum.
5 Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hefur ákveðinn tilgang með jörðina og hið mannlega sköpunarverk á henni; ella hefði hann ekki skapað það. Ef við ekki samstillum líf okkar þeim tilgangi er ekki rúm fyrir okkur innan hans. Og tilgangur hans mun örugglega ná fram að ganga á þeim tíma sem Guð hefur ákveðið. Hann segir: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.
6 Við þurfum því að spyrja: Hvað líður tíma eða tíðum frá sjónarhóli Jehóva? Hvernig falla þjóðir þessa heims inn í tímaáætlun hans? Já, og hvernig fellur þú inn í hana? Hefur þú samstillt líf þitt tilgangi og tímaáætlun Guðs?
Uppfyllir þessi heimur tilgang Guðs?
7. Hvert er viðhorf flestra trúarlega sinnaðra manna en hvers vegna er það rangt?
7 Mörgum finnst að tilgangur Guðs hljóti að ná til sín því að þeir segjast trúa á Guð. En ef þú bæðir þá að sýna þér frá Guðs eigin orði hver þessi tilgangur sé, þá geta þeir það ekki. Þeir fara sínu fram eins og þeim sýnist en samt finnst þeim að Guð hljóti einhvern veginn að hafa velþóknun á þeim. Flestir veraldarleiðtogar hafa haft svipuð viðhorf í aldanna rás. Þeim hefur fundist að Guð væri að láta tilgang sinn rætast fyrir þeirra tilverknað, óháð því hvað þeir gerðu. En þeir geta ekki heldur greint frá hver tilgangur Guðs sé.
8. Hvers vegna er óskynsamlegt að álíta að skaparinn geti staðið með valdhöfum og þjóðum þessa heims?
8 Kemur það fram í Biblíunni að Guð styðji við bakið á þessum heimi, þar á meðal valdhöfum hans og þeim sem tilheyra einhverjum trúarbrögðum? Íhugaðu þetta: Máttur Guðs er ógurlegur. Með honum skapaði hann alheiminn með milljörðum vetrarbrauta og í hverri þeirra eru margir milljarðar stjarna. (Sálmur 147:4) Auk þess er viska Guðs óendanleg. Ef Guð, með öllum sínum mætti og visku, styddi þjóðirnar, ætli þær hefðu þá mátt þola svona mikið ofbeldi, stríð, óréttlæti og þjáningar í svona margar aldir? Mundi Guð leiða forystumenn þjóðanna og milljónir þegna þeirra út í stríð til að drepa aðra þjóðaleiðtoga og milljónir þeirra þegna sem segjast líka láta Guð stjórna gerðum sínum? Er það rökrétt?
9. Hvert segir orð Guðs verða að vera andlegt ástand sannra þjóna hans?
9 Biblían segir okkur í 1. Korintubréfi 14:33 að ‚Guð sé ekki Guð truflunarinnar heldur friðarins.‘ Enn fremur segir Jehóva þeim sem eru í sannleika þjónar hans: „Ég áminni yður . . . að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ (1. Korintubréf 1:10) Ef einhverjir meðal þjóna Guðs fylgja ekki þessum staðli, hvað þá? Rómverjabréfið 16:17 fyrirskipar: „Ég áminni yður um, . . . að hafa gát á þeim er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.“ Sundrung og árekstrar þjóða og trúarbragða eru glöggt merki þess að Guð stendur ekki með slíkum þjóðum, trúarleiðtogum og fylgismönnum þeirra.
10, 11. Hvaða ritningargreinar sýna hver styður við bakið á valdhöfum og þjóðum þessa heims?
10 Hver stendur þá með þeim? Fyrsta Jóhannesarbréf 3. kafli, 10. til 12. vers segir: „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn.“ Fyrsta Jóhannesarbréf 4. kafli, 20. vers segir: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ Jesús gaf því þá reglu sem er að finna í Jóhannesi 13:35: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“
11 Sérð þú eitthvað líkt með þeim kærleika og einingu, sem verður að vera meðal sannra þjóna Guðs, og þeirri stefnu sem leiðtogar þjóðanna og fólk almennt hefur fylgt um aldaraðir? Á okkar öld einni hefur trúarlega sinnað fólk slátrað öðru trúarlega sinnuðu fólki í tugmilljónatali. Oft hafa menn af sama trúfélaginu drepið hver annan! Það er augljós sönnun þess að Guð hefur ekki staðið með þeim. Þess í stað sýnir orð Guðs að þeir hafi átt sér að baki engan annan en Satan djöfulinn. Þess vegna gat Jóhannes postuli sagt: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Já, Satan djöfullinn er „Guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4) Hann er aflið á bak við leiðtoga þessa heims og þegna þeirra, því að verk þeirra sýna að þeir geta ekki verið þjónar Guðs.
Tilgangur Jehóva fyrir auðmjúka menn
12, 13. Hver er tilgangur Guðs með jörðina og mennina?
12 Þegar Jehóva skapaði mennina var ætlun hans samt sem áður sú að öll jörðin yrði paradís lík Edengarðinum, byggð fullkomnu, sameinuðu, hamingjusömu fólki. (1. Mósebók 1:26-28; 2:15; Jesaja 45:18) Uppreisnargjarnir menn og illar andaverur hafa ekki fellt þennan tilgang úr gildi. Með því að Jehóva er Guð tíma og tíða mun tilgangur hans auk þess ná fram að ganga á þeim tíma sem hann hefur ákveðið. Hann mun ekki leyfa stjórn manna, sem er óháð honum, að halda áfram að berjast gegn tilgangi hans, fram yfir þann tíma sem hann hefur afmarkað.
13 Jesús treysti skilyrðislaust á tilgang Guðs með jörðina. Hann sagði illvirkja sem sýndi nokkra trú á hann: „Þú munt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, NW) Það var hin komandi jarðneska paradís. Alllöngu fyrr hafði Jesús sagt: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Hér hafði Jesús líklega í huga það sem stendur í Sálmi 37:11: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“
14. Hvers konar fólk mun erfa jörðina?
14 Hverjir eru það sem munu fá jörðina til eignar? Sálmur 37:34 segir: „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ Vers 37 og 38 bæta við: „Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.“ Þeir sem fá jörðina til eignar verða því að kynnast Jehóva, trúa fyrirheitum hans og vera, með því að hlýða lögum hans, ráðvandir og hreinskilnir í hans augum. Fyrsta Jóhannesarbréf 2:17 orðar það svona: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“
15. Hvaða eitt mikilvægt atriði þarf að gerast til að meiriháttar breyting verði til batnaðar í heiminum?
15 En til að þessar breytingar verði þarf að snúa algerlega við því ástandi sem nú er á jörðinni. Til dæmis mun það hafa í för með sér að allt það stjórnkerfi, sem nú er á jörðinni, verður þurrkað út, því að stjórn manna hefur aldrei komið á þeim skilyrðum sem æskileg eru. En slíkar breytingar, sem jörðin mun nötra undan, eru fullkomlega á færi Jehóva. Til dæmis segir Biblían: „Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda.“ — Daníel 2:21.
Andstæðingum rutt úr vegi
16, 17. (a) Hvernig tók Jehóva á Faraó sem stóð gegn tilgangi hans? (b) Hvernig var spádómsorð Jehóva staðfest?
16 Íhugaðu hvað Jehóva hefur gert við volduga þjóðhöfðingja og konungaættir í fortíðinni, einkum þá sem hafa reynt að standa í vegi fyrir tilgangi hans. Þeir hafa verið knosaðir og feykt út í veður og vind eins og ryki, og heimsveldi þeirra hafa horfið af sjónarsviðinu. Sem dæmis má nefna Faraó í Egyptalandi sem hneppt hafði þjóð Guðs í þrælkun. En Jehóva hafði ákveðinn tilgang með þjóna sína og sendi Móse til að segja Faraó að sleppa þjóð sinni lausri. Þess í stað svaraði Faraó drembilega: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum?“ Hann bætti við: „Ég þekki ekki [Jehóva], og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara.“ — 2. Mósebók 5:2.
17 Jehóva gaf Faraó mörg tækifæri til að skipta um skoðun. En aftur og aftur þrjóskaðist Faraó við eins og fram kemur í 2. Mósebók 11:10. Enginn fær þó staðið gegn mætti Jehóva. Þegar tíminn var kominn drekkti hann Faraó og herliði hans í Rauðahafinu. Önnur Mósebók 14:28 segir: „Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af.“ Þjónar Jehóva hlutu hins vegar vernd og frelsi og það gerðist nákvæmlega á þeim tíma sem spádómsorð Jehóva hafði sagt fyrir. Það var við lok 400 ára tímabils sem hinn trúfasti Abraham hafði talað um öldum áður.
18. Hvað gerði Jehóva við Nebúkadnesar í Babýlon og hvers vegna?
18 Þá er að nefna Nebúkadnesar konung í Babýlon. Hann fór að gorta af mætti sínum og afrekum eins og væri hann guð. En Daníelsbók 4:31 segir að ‚áður en orðin hafi verið liðin af vörum konungs hafi komið raust af himni: „Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér.“ ‘ Jehóva sagði honum að hann yrði að lúta jafnlágt og dýr merkurinnar uns, eins og 32. vers segir, „þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.“ Þannig fór það nákvæmlega á þeim tíma sem Jehóva hafði ákveðið.
19. Hvers vegna hlaut Babýlon og stjórnandi hennar, Belsasar, bágan dóm af hendi Jehóva?
19 Að síðustu skal nefndur síðasti konungurinn í Babýlon, Belsasar. Það var í stjórnartíð hans að upp rann tími Jehóva til að láta þetta tröllaukna heimsveldi falla. Hvers vegna? Vegna þess að Babýloníumenn héldu þjónum Jehóva föngnum og svívirtu Jehóva. Fimmti kafli Daníelsbókar greinir frá því að Belsasar hafi haldið mikla veislu og boðið til hennar þúsund stórmennum sínum. Síðan segir að Belsasar hafi boðið að „sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu [musteri Jehóva] í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim.“ (Daníel 5:2, 3) Taktu eftir hvað gerðist þessu næst: „Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.“ (Daníel 5:4) Með því að drekka af hinum helgu kerjum, sem notuð höfðu verið við tilbeiðsluna á Jehóva, hæddu þeir og svívirtu Jehóva. Með því að tilbiðja falsguði sína voru þeir að tilbiðja Satan.
20, 21. Hvaða boðskap flutti Daníel Belsasar og hvernig rættist hann?
20 En á sama augnabliki átti sér stað atvik sem gerði mönnum hverft við. Fingur birtist af mannshendi sem skrifaði á vegg hallarinnar! Konungurinn varð svo hræddur að hann gerðist „litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.“ (Daníel 5:6) Enginn af trúarlegum ráðgjöfum Belsasars skildi skriftina, og því var kallað á Daníel, þjón Jehóva, til að þýða hana. Daníel tilkynnti konunginum að boðskapurinn væri frá Jehóva, og hann var þessi: „Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; . . . þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; . . . ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.“ — Daníel 5:26-28.
21 Þessa sömu nótt réðust herir Meda og Persa inn í borgina um hlið sem höfðu verið skilin eftir opin af einhverju kæruleysi. Daníelsbók 5:30 segir: „Á hinni sömu nóttu var Belsasar . . . drepinn.“ Með falli Babýlonar opnaðist þjónum Jehóva leið til að snúa aftur heim, nákvæmlega 70 árum eftir að útlegð þeirra hafði hafist. Það var nákvæmlega samkvæmt tímaáætlun Jehóva eins og hún er opinberuð í Jeremía 29:10.
22, 23. Hvernig tók Jehóva á Heródesi Agrippa I konungi sem var andsnúinn kristnum mönnum á fyrstu öld?
22 Á fyrstu öldinni var Heródes Agrippa I konungur síðasti stjórnandinn í Palestínu sem þá var hluti Rómaveldis. Heródes lét varpa Pétri postula í fangelsi og ofsótti aðra kristna menn. Hann lét meira að segja drepa postulann Jakob. (Postulasagan 12:1, 2) Heródes lét einnig halda skylmingaleiki, þar sem menn voru myrtir, og aðrar heiðnar skemmtanir. Allt þetta afsannaði fullyrðingu hans um að hann væri tilbiðjandi Guðs.
23 En þá rann upp tími Jehóva til að taka þennan andstæðing af lífi. Postulasagan 12:21 til 23 segir okkur: „Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu. En lýðurinn kallaði: ‚Guðs rödd er þetta, en eigi manns.‘ “ Hvað gerðist svo? Biblían segir: „Jafnskjótt laust engill [Jehóva] hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.“ Hér er enn eitt dæmi um að Jehóva ‚reki konunga frá völdum‘ eins og Daníel 2:21 hafði sagt.
24. Um hvað bera slíkir sögulegir atburðir vitni?
24 Slíkir sögulegir atburðir bera því vitni að Jehóva ákveði þá tíma og tíðir þegar tilgangur hans á að rætast. Þau sýna einnig glögglega að hann er vissulega bæði fær um og nógu máttugur til að láta rætast þann tilgang sinn að breyta þessari jörð í paradís þar sem „réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er svona þýðingarmikið að kunna skil á tímum og tíðum Jehóva?
◻ Hvers vegna stendur Guð ekki með valdhöfum og þjóðum þessa heims?
◻ Hvers konar fólk mun erfa hina komandi paradís á jörð?
◻ Hvernig hefur Jehóva sýnt hæfni sína til að steypa valdhöfum sem standa gegn honum?
[Spurningar]