Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans

Ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans

Ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans

„Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum.“ — SÁLMUR 86:11.

1, 2. (a) Við hvað má líkja því hvernig Guð hefur séð fyrir manninum? (b) Hvernig lýsir Ritningin handaverkum Guðs og óstýrilæti mannsins?

 ÍMYNDAÐU þér að þú sért á gangi um hrjóstruga auðn gersneydda öllu lífi. Skyndilega kemur þú að fögru húsi. Það er búið loftræstikerfi, miðstöðvarhitun, vatnslögn og rafmagni. Kæliskápurinn og búrið er fullt af mat. Í kjallaranum er eldsneyti og gnægð annarra nauðsynja. Myndir þú halda því fram að það hefði dottið þar niður af einhverri tilviljun? Myndir þú ekki vera þakklátur ef eigandinn bæði þig að búa í húsinu og njóta alls sem í því er?

2 Nú, þessi unaðslega jörð, sem við búum á, er eins og þetta hús. Löngu áður en mannkynið var skapað útbjó Guð jörðina sem heimili okkar og sá fyrir öllu sem þyrfti til að okkur gæti liðið vel. (Jesaja 45:12, 18) Ættum við ekki að vera þakklát þessum örláta skapara? Það var hann sem innblés orð Biblíunnar í Hebreabréfinu 3:4: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ Það er sorglegt að eigingjarnir menn skuli hafa stórskemmt handaverk Guðs á jörðinni og séu að eyðileggja þau. — 5. Mósebók 32:3-5.

3. Hvað segir Biblían um örlæti Jehóva núna og í framtíðinni?

3 Jafnvel við andstæðinga sannleikans gat Páll postuli sagt um Guð: „Þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði.“ (Postulasagan 14:17) Jehóva getur blessað miklu ríkulegar þá sem þjóna honum í ráðvendni! Þótt erfiðleikar og álag þessara ‚síðustu daga‘ liggi þungt á okkur, höfum við þá stórkostlegu von að í náinni framtíð muni alvaldur Drottinn Jehóva búa þeim sem elska hann ríkulega veislu, og þerra tárin af sérhverri ásjónu. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; Jesaja 25:6-8.

Vitsmunir mannsins eru mikið undur

4. (a) Frammi fyrir hverju standa ýmsir sérfræðingar í tölvuvísindum ráðþrota? (b) Hvað segir Jeremía 33:2, 3 um hönnuð mannsheilans?

4 Um nokkurt árabil hafa vísindamenn verið að reyna að smíða tölvur sem gætu raunverulega hugsað. En nú viðurkenna þeir að þeir standi fastir við allra fyrsta skrefið. Hvernig þá? Nú, þeir játa að bygging mannsaugans hafi gert þá ráðþrota. Ef þeir geta ekki hermt eftir auganu, hvernig geta þeir þá byrjað að gera eftirmynd af heilanum, og hvernig gæti þeim nokkurn tíma tekist að líkja eftir hæfni hugans? Mannsheilinn er mikil furðusmíð! Á hverri sekúndu hellast yfir þetta líffæri 100 milljón upplýsingabitar sem þarf að greina í sundur, flokka niður og nota í lífi hugsandi veru. Flóknasta tölva kemst hvergi nærri í hálfkvisti við það! Hvílíkur vitnisburður um óviðjafnanlega visku hins elskuríka Guðs sem skapaði okkur! Við getum glaðst yfir því að skapari okkar, Jehóva Guð, skuli hafa gefið okkur gáfur og vitsmuni, og að við skulum geta notað heilann til að kynnast hinum ‚miklu hlutum og óskiljanlegu‘ sem hann opinberar okkur á sínum tíma og sinn hátt. — Jeremía 33:2, 3.

5. (a) Hvaða kraftaverk á sviði vaxtar á sér stað aðeins hjá mönnum? (b) Hvernig eiga orð Elíhús vel við?

5 Það kraftaverk, sem mannsheilinn er, hefst í móðurkviði þegar heilafrumurnar byrja að myndast aðeins þrem vikum eftir getnað. Þær margfaldast í stökkum, stundum með hraða sem nemur allt að fjórðungi úr milljón á mínútu. Eftir fæðingu þrefaldast heilinn að stærð á fyrsta æviári barnsins sem gerir hann gerólíkan heilanum í nokkru dýri, þar með töldum apanum. Innan skamms nær mannsbarnið tökum á tungumáli, getur rökhugsað og skilið siðferðileg mál og andleg verðmæti. Hvernig hefðu þessir hæfileikar nokkurn tíma getað þróast af skynlausum skepnum? Það var vel við hæfi að Elíhú skyldi segja um hinn mikla Guð okkar og skapara: „[Hann] fræðir oss meira en dýr merkurinnar og gjörir oss vitrari en fugla loftsins.“ — Jobsbók 35:10, 11.

6. (a) Hvernig gerir Ritningin grein fyrir hinni undursamlegu gerð mannsins? (b) Hvernig getum við notað þá hæfileika sem Guð hefur gefið okkur?

6 Þetta undraverk, vitsmunir mannsins, koma heim og saman við 1. Mósebók 1:27 sem segir: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Ættum við ekki að vera þakklát fyrir það hvernig Guð hefur gert okkur úr garði? Davíð var það. Hann lofaði Jehóva með þessum orðum: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín.“ (Sálmur 139:14) Ættum við ekki að lofa Guð af sama tilefni? Þar að auki getum við notað heilann og líkamann, sem Guð hefur gefið okkur, til að svara þeim ásökunum sem Satan hefur borið á Guð okkar. Við getum þjónað Jehóva sem ráðvandir menn. — Orðskviðirnir 27:11.

Haltu fast við sannleikann

7, 8. (a) Hvaða munur er á sannleika og kenningu? (b) Hvað segja þeir sem gerst þekkja um þróunarkenninguna? (c) Hvers vegna er trú á þróunarkenninguna best lýst sem trúgirni?

7 Sannleikurinn hlýtur að hrósa sigri! Við sem elskum Jehóva verðum að halda okkur fast við sannleikann og nota greind okkar og vitsmuni til að velja braut ráðvendninnar. Sá sannleikur að lífið sé skapað stendur öruggum fótum. Hann hefur staðið af sér allar prófraunir um þúsundir ára. Eftir rúmlega öld er hinum miklum ósannindum, kenningunni um þróun, í þann mund að verða lagt fyrir róða. Það er ekki aðeins okkar skoðun. Það er sameiginlegt álit margra lögfræðinga, víðsýnna vísindamanna, rannsóknarmanna og annarra sem eru vel að sér. Dagblaðið New York Times ræddi um þá hríð sem nú er gerð að „grundvallaratriðum þróunarkenningarinnar sem Darwin og fleiri lögðu“ og dró saman núverandi ástand mála með þessum orðum: „Allt er í uppnámi á þessu sviði.“ Vel upplýstur vísindamaður segir: „Við játum að gríðarstór göt eru í sönnunargögnunum að baki þróunarkenningunni. . . . Já, þróunarkenningin er aðeins kenning. Að trúa á þróun er því trúaratriði.“

8 En er trú á þróunarkenninguna í rauninni trúaratriði? Við myndum frekar segja að hún væri trúgirni. Trú byggist á traustum grunni. Hebreabréfið 11:1 segir okkur að hún sé „sannfæring“ um raunverulega hluti. Sönnunargögnin fyrir því að frásögn Biblíunnar sé byggð á raunveruleika og sé sannleikur eru yfirgnæfandi. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Rómverjabréfið 15:4) Á hinn bóginn, því meira sem þróunarfræðingar rannsaka málið, því fleiri mótsagnir grafa þeir upp sem þeir reyna að réttlæta fyrir hinum trúgjörnu.

Voru apamennirnir til?

9. Hve mikið er til af steingervingum apamanna og hvar eiga þeir best heima?

9 Á 130 ára leit að steingervingum týnda hlekkjarins milli apa og manns hafa þróunarfræðingar komið sér upp örlitlu safni beina. Að því er segir í tímaritinu Science Digest „mætti enn koma öllu áþreifanlegum sönnunargögnum um þróun mannsins fyrir í einni líkkistu og rúm væri fyrir meira!“ Það er vafalaust þar sem slík svokölluð sönnunargörn eiga heima — í líkkistu með kyrfilega negldu loki!

10. Hve heiðarlegar eru þær myndir sem gerðar hafa verið af apamönnum?

10 Að baki myndunum, sem finna má í bókum og tímaritum af apamönnum og eru notaðar til að styðja þróunarkenninguna, er ekkert annað en ímyndunaraflið og fáein lítil brot úr hauskúpu eða kjálkabeini. Til dæmis birtist þann 16. ágúst 1985 á fyrstu síðu The New York Times „mynd listamanns af amfípitekusi, fyrsta þekkta æðri prímata . . . sem maðurinn þróaðist af.“ Myndin sýnir loðið höfuð og hendur. Eftir hverju var myndin gerð? Greinin sagði: „Afturhluta kjálkabeins . . . ásamt brotinu af framhluta munnbeins sem fannst fyrir hálfri öld.“ En er í raun hægt að gera sér mynd af heilu höfði, með hári og öllu saman, eftir tveim svona beinabrotum? Greinin hafði eftir mannfræðingi við Harvard-háskóla að þessir steingervingar væru „ljósgeisli á myrku engi.“ En er hægt að leggja þetta að jöfnu við ljós?

11. Hvernig má heimfæra Jesaja 59:15 á hina svonefndu apamenn?

11 Sumir hefðu kannski kallað hauskúpu Piltdown-mannsins „ljósgeisla.“ Allra augu beindust að henni á leiksviði þróunarkenningarinnar í um fjóra áratugi, en árið 1953 var hún afhjúpuð sem samtíningur beinabrota, að hluta til úr skepnum og að hluta til úr mönnum, sem höfðu verið hengd saman í blekkingarskyni! Með orðum spámannsins Jesaja má segja um þessa ímynduðu apamenn: „Sannleikurinn er horfinn.“ — Jesaja 59:15.

Spádómleg hliðstæða

12. Hvaða viðurstyggðir sá Esekíel?

12 Hinn óguðlegi kristni heimur nútímans átti sér að fyrirmynd hina ótrúu Jerúsalemborg fortíðar. Það var árið 612 f.o.t. að alvaldur Drottinn Jehóva lét Esekíel sjá sýn. Hann flutti spámanninn frá Babýlon til Jerúsalem og þar, í forgarði musterisins, sá Esekíel viðurstyggileg tákn skurðgoðadýrkunar. Síðan lét Jehóva hann brjóta gat í vegginn og sagði við Esekíel: „Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi.“ Hvað sá hann? Í innri herbergjum tilbeiðsluhúss Jehóva voru „ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna.“ — Esekíel 8:1, 7-10.

13. (a) Hvaða hliðstæða er nú uppi í kristna heiminum? (b) Hvernig leit Jesús á sköpunarfrásögn Biblíunnar?

13 Ef við berum þessa sýn saman við það ástand sem ríkir meðal klerkastéttar kristna heimsins núna, sjáum við átakanlega hliðstæðu. Þessi ‚lögleysingi‘ hefur mestan part snúið baki við frásögn Biblíunnar af sköpuninni. (2. Þessaloníkubréf 2:3) Eða, eins og þessir fráhvarfsmenn á dögum Esekíels, þá reyna klerkarnir að bendla þróunarkenninguna við Biblíuna og segja að fyrstu kaflar 1. Mósebókar séu goðsögn eða líkingasaga. Þeir horfa fram hjá hinni viðteknu grundvallarreglu vísindanna að einfaldasta skýringin sé oft sú rétta, og segja að frásögn Biblíunnar sé of barnaleg fyrir sig. Hinir uppblásnu menntamenn þeirra heimta eitthvað flóknara og margbrotnara. Þeir upphefja sig yfir Jesú Krist er vísaði til hinnar bókstaflegu frásagnar 1. Mósebókar sem ‚sannleika.‘ — Jóhannes 17:17; Matteus 19:4-6.

14. Hvernig bregðast ‚öldungar‘ því að leiða hjarðir sínar og hvaða afleiðingar mun það hafa?

14 Í sýn sinni sá Esekíel „sjötíu menn af öldungum Ísraels húss“ viðhafa tilbeiðsluathöfn frammi fyrir þessum myndum „viðbjóðslegra orma og skepna.“ (Esekíel 8:10, 11) Þetta er sambærilegt við klerka nútímans sem fullyrða opinskátt að mannkynið hafi þróast af slíkum skepnum! Þessir ‚öldungar‘ ættu að leiða hjarðir sínar eftir vegi sannleikans. En á ekki lýsing Jesú í Matteusi 15:14 við þá? Jesús sagði: „Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“ Þeir geta fundið slíka gryfju á því ‚myrka engi‘ þar sem þróunarfræðingarnir fálma sig áfram.

15. Hvernig færa þróunarsinnaðir klerkar enn skýrari sönnur á að þeir séu hluti ‚lögleysingjans‘?

15 Þessu næst spurði Jehóva Esekíel: „Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ‚[Jehóva] sér oss ekki, [Jehóva] hefir yfirgefið landið.‘ “ (Esekíel 8:12) Klerkar, sem eru hallir að heimspeki manna, færa áþekkar sönnur á að þeir séu hluti af ‚lögleysingjanum.‘ Þeir hverfa frá lögum Guðs, þeirra á meðal 1. Mósebók. (Postulasagan 7:53) Þeir leiða hjarðir sínar út í svartamyrkur veraldlegrar hugsunar eins og hin ósannaða og ósannanlega þróunarkenning er hvað gleggst dæmi um. Þeir „elskuðu myrkrið fremur en ljósið,“ ljós sannleikans. — Jóhannes 3:19.

16. Hvað er líkt með ‚öldungunum‘ á dögum Esekíels og fjölmörgum klerkum nútímans?

16 Alveg eins og þessir öldungar Gyðinganna komu með falska tilbeiðslu sína inn í musterið í Jerúsalem, eins reyna falskir trúarleiðtogar nútímans að hafa á sér merkimiðann „kristinn maður.“ En trú á þróunarkenninguna fer ekki saman við kristna trú. Það að viðurkenna þessa kenningu hefur snúið mörgum manninum frá Guði. Hún á ekki lítinn þátt í einstaklingshyggju, ofbeldi og hryðjuverkum 20. aldarinnar er einstaklingar og þjóðir hafa snúist til fylgis við grundvallarreglu þróunarkenningarinnar um að „hinir hæfustu lifi af.“ Þróunarkenningin segir að maðurinn þurfi ekki að standa neinum skapara reikningsskap gerða sinna. (Rómverjabréfið 9:28) Mönnum hefur því fundist þeir frjálsir til að ‚gera það sem þeim sýnist‘ án þess einu sinni að leiða hugann að Guði.

17. Að hvaða leyti hafa þróunarsinnaðir prestar farið út í megna villu?

17 Trúarleiðtogar, sem viðurkenna þróunarkenninguna, eru í reyndinni að segja: „[Jehóva] sér oss ekki, [Jehóva] hefir yfirgefið landið.“ Þar eð þeir hafa tekið þessa heimspeki upp á arma sína finnst þeim þeir ekki þurfa að standa honum reikningsskap gerða sinna. Hugmynd þeirra um Guð er mjög óskýr vegna trúar þeirra á dularfulla, óskýranlega guðaþrenningu. Í samræmi við þetta sjónarmið vilja þeir helst losa sig við nafn hins eina sanna Guðs, Jehóva, með því að nefna það hvergi og afmá það vandvirknislega úr þeim biblíum sem þeir gefa út. Þeir eru hræddir við að ganga í berhögg við hina vinsælu, veraldlegu þróunarkenningu.

18. Hvaða reikningsskil bíða þróunarkenningarinnar og stuðningsmanna hennar?

18 Það hæfir vel sem Jehóva segir fyrir munn annars spámanns: „Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar, sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.“ (Jesaja 29:13, 14) Í síðasta lagi þegar dagur hinnar brennandi reiði Jehóva rennur upp mun hin svívirðilega þróunarkenning og þeir svonefndu kristnu menn, sem aðhyllast hana, þurfa að standa Guði reikningsskap gerða sinna. — Sefanía 3:8.

Málstað sannleikans þjónað

19. (a) Hvers vegna aðhyllast margir þróunarkenninguna? (b) Hverju fagna auðmjúkir menn núna?

19 Þetta er svo sannarlega guðlaus heimur! Fölsk trúarbrögð og vísindalegt stolt á villigötum hafa átt sinn þátt í að gera hann þannig. Fáránleikinn í kenningum ‚lögleysingjans,‘ klerkastéttar kristna heimsins, hefur gert marga fráhverfa trúarbrögðum. Sumir þeirra hafa gripið dauðahaldi í þróunarkenninguna eins og drukknandi maður grípur í það sem hendi er næst sér til bjargar. Aðrir hafa tekið þróunarkreddunni tveim höndum, vegna þess að guðleysi hennar virðist firra þá allri ábyrgð gagnvart skapara og Guði. (Samanber Rómverjabréfið 1:21-23.) En auðmjúkir, hógværir menn fagna því núna að læra um hinn alvalda Drottin Jehóva, um hinn ríkjandi konung Jesú Krist og um tilgang Guðs með ríki sitt sem brátt verður dýrlegur veruleiki. — Rómverjabréfið 16:20; 1. Korintubréf 15:25, 26.

20. (a) Hvaða dýrlegt fyrirheit er að rætast nú þegar? (b) Hvernig birtist það árið 1985? (c) Hvernig getur þú sýnt ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans?

20 Við, vottar Jehóva, getum fagnað því mikillega að vera sameinaðir út um alla jörðina í að prédika sannleikann af kappi! Andi Guðs starfar kröftuglega með skipulagi hans þannig að við sjáum nú þegar uppfyllast fyrirheitið: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Vitnisburðurinn, sem þjónar Jehóva gáfu um allan heim árið 1985, varð til þess að dreift var 339.351.170 biblíum og ritum til skýringar á Biblíunni á rúmlega 200 tungumálum. Það voru sérréttindi liðlega þriggja milljóna úr okkar röðum að taka þátt í þessari miklu prédikun „opinberlega og í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20) Megum við halda áfram að njóta ríkulegrar blessunar Jehóva er við kappkostum að varðveita ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans.

Hverju vilt þú svara?

◻ Hvaða undur mannsheilans benda til alviturs skapara?

◻ Hvers vegna er rangt að kalla það trú er menn aðhyllast þróunarkenninguna?

◻ Hversu sterk rök eru fyrir því að apamennirnir hafi í raun verið til?

◻ Hvernig má heimfæra Esekíel 8:7-12 á suma trúarleiðtoga okkar tíma?

◻ Hvaða árangri skilar ráðvendni í þjónustu við Guð sannleikans?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 19]

Lífið — varð það til fyrir þróun eða sköpun?

Bók með þessum titli kom út árið 1985 og var dreift í tengslum við mót votta Jehóva, „Ráðvandir menn,“ hringinn í kringum hnöttinn fram í ársbyrjun 1986. Hún er nú komin út á eftirfarandi tungumálum: dönsku, ensku, finnsku, frönsku, ítölsku, hollensku, japönsku, kínversku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Er heiðarlegt af listamönnum að gera myndir af apamönnum eftir fáeinum beinabrotum?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Vottar Jehóva hafa ‚fyllt jörðina‘ þekkingu á Jehóva.