Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

◼ Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að „vatnið,“ sem hann gæfi, yrði að „lind, sem streymir fram til eilífs lífs“?

Jesús sagði samverskri konu: „Hvern sem drekkur af þessu vatni [úr Jakobsbrunni] mun aftur þyrsta, en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“ — Jóhannes 4:13, 14.

Jesús beindi hér athyglinni fyrst og fremst að þeim andlegu gæðum sem sá maður fengi er tæki við orðum hans og yrði lærisveinn hans. Slíkur maður, sem hefur haldið áfram að afla sér nákvæmrar þekkingar um Jehóva og Jesú Krist og breytt eftir henni í trú, er í aðstöðu til að hljóta eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Jesús líkti þessu ferli í huga og hjarta mannsins við lind sem úr streyma andleg gæði sem styrkja stöðugt trú hans og stýra skrefum hans eftir veginum til eilífs lífs.

Þótt áherslan sé í Jóhannesi 4:14 lögð á þá blessun, sem einstaklingurinn sjálfur hlýtur, ber kristinn lærisveinn, sem ræður yfir gnótt þessara andlegu vatna, eðlilega í brjósti löngun til að deila þeim með öðrum. Hann vill að aðrir heyri boðskap kristninnar og fái sjálfir hið innra uppsprettulind sem lætur streyma fram blessun til eilífs lífs. Það að láta þennan boðskap berast til annarra virðist vera hugsunin að baki orðum Jesú í Jóhannesi 7:37-39: „ ‚Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig, — frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.‘ Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa.“

Knúnir áfram af krafti anda Guðs, sem postular Jesú og lærisveinar fengu frá og með hvítasunnunni árið 33, unnu þeir furðuverk í því að færa öðrum lifandi vatn. Andi Guðs gegnir líka þýðingarmiklu hlutverki í að hvetja lærisveina Jesú nú á dögum, bæði hinar smurðu leifar og ‚mikinn múg‘ ‚annarra sauða,‘ og gera þá hæfa til að færa þyrstu mannkyni lífgandi vatn með prédikun fagnaðarerindisins um ríki Guðs um allan heim. Hinir þyrstu verða því að koma til hans sem Guð notar til að miðla sannleiksvatni sem leiðir til eilífs lífs. — Matteus 24:14; 28:19, 20; Jóhannes 7:37; 10:16; Opinberunarbókin 7:9.