Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían – bók handa öllu mannkyni

Biblían – bók handa öllu mannkyni

Biblían – bók handa öllu mannkyni

„SJÁ: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu.“

Hvers konar múgur er þetta? Hvað er hann að gera?

„Þeir,“ segir áfram, „höfðu pálmagreinar í höndum. Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Þetta er ekki æstur múgur í kröfu- eða mótmælagöngu. Þetta er hamingjusamur, glaður múgur sem orðið hefur sérlega ánægjulegrar lífsreynslu aðnjótandi. „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu . . . Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta . . . Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Boðskapur til alls mannkyns

Lýsinguna á þessum alþjóðlega ‚mikla múgi‘ er að finna í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbókinni, í 7. kafla, 9. til 17. versi. Með myndrænum hætti er okkur gefin framtíðarsýn þess tíma þegar hvorki kynþættir, tungumál né þjóðerni sundra mönnum heldur verða þeir sameinaðir í friði og eindrægni, lausir undan ótta og skorti. Það er kjarni hins einstaka boðskapar sem Biblían beinir til alls mannkyns.

Þér er kannski spurn hvað sé einstakt við þennan boðskap. Hafa ekki menn í öllum heimshornum verið að tala um frið og einingu? Jú, rétt er það. Hvaða maður með réttu ráði hefur ekki áhuga á heimsfriði á tímum sem þessum þegar spenna á alþjóðavettvangi stigmagnast vegna stjórnmálalegra deilna, kynþáttarbaráttu og átaka af efnahagslegum og trúarlegum orsökum? En löngu áður en til slíkra átaka kom á alþjóðavettvangi, löngu áður en tilvist mannkynsins var ógnað talaði Biblían um þá tíma þegar allt mannkynið skyldi njóta friðar og einingar undir einni stjórn, Guðsríki.

Heildarsýn allt frá byrjun

Allt frá byrjun horfir Biblían til alls heimsins þegar framtíð mannkynsins á í hlut. „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna,“ var fyrsta boðið sem Adam og Eva fengu frá skapara sínum, Jehóva Guði. (1. Mósebók 1:​28) Adam og Eva áttu ekki að vera ættfeður eins ákveðins kynþáttar eða þjóðar. Þau áttu að vera ættfeður alls mannkynsins. Páll postuli bar því vitni þegar hann færði Grikkjum í Aþenu boðskap Biblíunnar. Hann sagði þeim að Guð hefði ‚skapað af einum allar þjóðir manna og látið þær byggja allt yfirborð jarðar.‘ — Postulasagan 17:​26.

Við verðum að játa að sú hugmynd að líta á allt mannkynið sem bræður og systur var fjarri þorra manna á þeim tíma. Og þrátt fyrir öll hin fögru orð, sem nú heyrast um heimsfrið og bræðralag, er það staðreynd að kynþáttafordómar og þjóðernishyggja eru einhver mestu sundrungaröfl sem þjaka mannkynið. En Biblían er hafin yfir þessar hindranir sem aðrar. Hún talar til manna allra þjóða sem einnar stórrar fjölskyldu og um jörðina sem eitt stórt heimili alls mannkyns. Að þessu leyti er Biblían sannarlega bók handa öllu mannkyni.

Sú ætlun að allt mannkynið byggði jörðina sem ein, hamingjusöm fjölskylda hefði orðið að veruleika ef Adam og Eva hefðu verið Jehóva Guði hlýðin. En það fór á annan veg. „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað,“ segir Biblían okkur. — Rómverjabréfið 5:​12.

Í ljósi þessa er enginn kynþáttur eða þjóð æðri eða óæðri öðrum. Í þessu efni sem öðrum talar Biblían til alls mannkyns án fordóma eða vilfylgi. Hún segir einfaldlega að ‚allir hafi syndgað og skorti Guðs dýrð.‘ (Rómverjabréfið 3:​23) Þótt menn á vissum svæðum séu efnameiri, betur menntaðir og að öðru leyti betur settir en fólk á öðrum svæðum, er það þó svo að hvert sem við lítum sjáum við fólk standa frammi fyrir sömu frumvandamálum — veikindum, elli, ófullkomleika og dauða.

Loforð til gagns öllu mannkyni

Þótt mannkynið væri orðið ömurlega statt var það þó ekki eftir skilið án vonar. Á örlagastundu lét Jehóva Guð til sín taka og gaf því fyrirheit. Hann sagði við Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:​:18) Rétt er að nefna að þrjú af helstu trúarbrögðum veraldar — gyðingdómur, kristni og múhameðstrú — viðurkenna þetta fyrirheit sem hluta trúar sinnar. Biblían ein opinberar hvernig þetta fyrirheit nær fram að ganga skref fyrir skref, með frásögn sinni af samskiptum Jehóva Guðs við Abraham og afkomendur hans, þeirra á meðal Ísraelsþjóðina til forna.

Sumir taka síðasta atriðið óstinnt upp. Þeim finnst hér vera á ferðinni dæmigerð þjóðernisleg hlutdrægni eða fordómar. Af þeim orsökum vísa þeir Biblíunni á bug, eða í það minnsta stórum hluta Hebresku ritninganna, sem hreinum munnmælum ætluðum að upphefja einn ættbálk yfir aðra. En eru það heilbrigð rök? Hvers vegna sýndi Jehóva Abraham slíkt traust og gaf honum þetta loforð?

Biblían segir: „ ‚Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður Guðs vinur.“ (Jakobsbréfið 2:​23) Athyglisvert er að helgibók múhameðstrúarmanna, Kóraninn, bendir líka á trú sem ástæðuna fyrir því að Guð tók sér Abraham að vini. „Hver býr yfir betri trú en sá sem beygir sig algerlega undir Allah og gerir (öðrum) gott og fylgir trú Ibrahims [Abrahams], hins ráðvanda? Og Allah tók sér Ibrahim að vini.“ — SÚRA IV, vers 125 Holy Qur’an.

Hvað um Ísraelsmennina? Meira en 400 árum eftir að Guð gaf Abraham fyrirheitið sagði Móse þeim: „Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að [Jehóva] lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir. En sökum þess að [Jehóva] elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt.“ — 5. Mósebók 7:​7, 8.

Það var því ekki vegna þess að Abraham eða Ísraelsmenn væru af æðri kynstofni eða þjóðerni eða á nokkurn hátt betri en aðrar þjóðir að þeir voru útvaldir til sérstaks hlutverks. Þess í stað var það vegna kærleika Guðs og óverðskuldaðrar góðvildar sem hann sýndi þjónum sínum vegna trúar þeirra og góðra verka. Pétur postuli undirstrikaði það þegar hann sagði: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:​34, 35.

Þótt Jehóva Guð hafi eingöngu átt samskipti við Ísraelsþjóðina um skeið hafði hann því í raun velferð alls mannkynsins í huga. Biblían segir ekki frá samskiptum hans við Ísraelsmenn í því skyni að stuðla að þjóðernishyggju eða upphefja eina þjóð yfir aðra. Þess í stað er „allt það, sem áður er ritað, . . . ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:​4) Já, þessir atburðir lýsa kærleika Guðs og þolinmæði í tengslum við það að sú von rætist að allt mannkynið verði á ný sameinað í friði og hamingju. Hvernig verður þessi von að veruleika?

Stjórnsýsla til friðar

Páll greinir frá því að ‚Guð hafi sjálfur ákveðið að koma á fót stjórnsýslu, er fylling tímans kæmi, það er að safna aftur saman öllu í Kristi, því sem er á himni og því sem er á jörð.‘ (Efesusbréfið 1:9, 10, NW) Hver er þessi ‚stjórnsýsla‘?

Orð þetta er þýðing gríska orðsins oikonomia sem í frummerkingu sinni þýðir „ráðsmennska yfir heimili.“ Enda þótt mannkynið sé margsundrað stjórnmálalega, eftir kynþáttum, efnahag og trúarbrögðum, hefur Guð ákveðið að uppræta öll þessi sundrunaröfl og leiða allt hlýðið mannkyn saman á ný sem hamingjusama fjölskyldu er nái um allan heiminn. Hvernig mun hann gera það? Hann mun áorka því í gegnum Messíasarríkið í höndum sonar síns, Jesú Krists. — Sjá Daníel 2:​44; Jesaja 9:​6, 7.

Mitt í allri spennu og erfiðleikum heimsins hafa milljónir manna í öllum heimshlutum tekið á móti boðskap Biblíunnar um frið og sameiningu. Þeir hafa gengið fram eins og hinn ótaldi ‚mikli múgur‘ sem lýst er í Opinberunarbókinni. Táknrænt talað veifa þeir nú þegar pálmagreinum frammi fyrir hásæti Guðs, lofa og láta í ljós undirgefni við hann „sem í hásætinu situr,“ Jehóva Guð, ‚og lambið,‘ Jesú Krist. — Opinberunarbókin 7:​9, 10.

Höfðar þessi boðskapur til þín? Óháð kynþætti þínum, þjóðerni eða tungu getur þú orðið hluti að þessum alþjóðlega ‚mikla múgi,‘ með því að kynna þér gaumgæfilega og taka á móti boðskap Biblíunnar núna. Þú getur sagt með trúartrausti ásamt þessum múgi: „En eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:​13.

Já, svo sannarlega getur Biblían verið rétta bókin fyrir þig!

[Mynd á blaðsíðu 5]

Adam og Eva voru forfeður alls mannkynsins.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Abraham, sem yfirgaf heimaland sitt, öðlaðist velvild Guðs vegna trúar sinnar og réttra verka.