Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er auga þitt „heilt“?

Er auga þitt „heilt“?

Er auga þitt „heilt“?

„Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.“ MATTEUS 6:​22.

1. Hvernig má segja að augað sé eitt af undrum sköpunarverksins?

 SJÓNIN er yfirleitt álitin dýrmætasta og þýðingarmesta skilningarvitið — ekki síst af þeim sem hafa hana ekki lengur. Vísindamenn segja okkur að á hverri sekúndu fari tíu milljón milljón ljósagnir í gegnum sjáaldur augnanna. Þegar þær ná sjónhimnu augans taka við þeim hundrað milljónir skynfruma sem nefnast stafir og keilur. Fyrir áhrif ljóssins senda þessar taugafrumur síðan rafboð til heilans. Þar tekur stór hluti hinna hundrað þúsund milljón taugunga til við að lesa úr þeim upplýsingum, sem borist hafa, og ákveða hver viðbrögðin þurfi að vera. Allt tekur þetta aðeins brot úr sekúndu. Augað er sannarlega slíkt dæmi um hina vitibornu sköpun sem vekur hjá okkur djúpa lotningu. — Sálmur 139:​14.

2. Hvaða þættir sjónskynjunarinnar eru vísindamönnum enn ráðgáta?

2 Þótt vísindamenn viti töluvert mikið um líffræðilega starfsemi augans og heilans vita þeir lítið um það hvernig og hvers vegna við bregðumst sem raun ber vitni við því sem við sjáum. Til dæmis skilja menn ekki til fulls hvers vegna einn maður er hrifinn af bláum lit en annar hrifnari af rauðum, eða hvers vegna mismunandi litir hafa mismunandi áhrif á okkur. Samband sjónar og viðbragða er mönnum óráðin gáta. En Jehóva Guð, hönnuður augans, og sonur hans og samverkamaður, Jesús Kristur, þekkja vel hina flóknu gerð mannsaugans og vita hvernig augað hefur áhrif á athafnir okkar og líf.

„Lampi líkamans“

3. Hvernig er augað „lampi líkamans“?

3 Jesús sagði að ‚augað væri lampi líkamans.‘ (Matteus 6:​22) Lampi er notaður til að lýsa upp myrkan stað til að við vitum hvar við erum, hvað við eigum að gera, hvaða leið við eigum að fara og svo framvegis. Með því að hleypa ljósi inn í líkamann gegna augun sama hlutverki og lampi. Þau gera okkur kleift að vera í náinni snertingu við umheiminn og bregðast við honum með vitlegum og markvissum hætti, í stað þess að fálma í myrkri, hnjóta og ef til vill meiða okkur.

4. Hvaða áhrif hefur ástand augans á okkur?

4 Ástand augans ræður þó miklu um það í hvaða mæli það getur þjónað okkur sem lampi líkamans. Af þeirri ástæðu hélt Jesús áfram: „Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.“ (Matteus 6:​22, 23) Af þessu má sjá hin gífurlegu áhrif sem augað hefur á alla lífsstefnu okkar, annaðhvort til góðs eða ills.

Áhrif augans

5. Hvaða hlutverki gegndi augað þegar Satan freistaði Evu?

5 Fyrsta konan, Eva, er skýrt dæmi um þau áhrif sem augað getur haft á breytni mannsins. Athugum frásögn Biblíunnar af fundi hennar við blekkingameistarann Satan djöfulinn. (2. Korintubréf 11:​3; 1. Tímóteusarbréf 2:​14) Satan gaf í skyn að ‚augu hennar myndu upp ljúkast‘ ef hún aðeins virti að vettugi boð Guðs og tæki og æti ávöxtinn af „skilningstrénu góðs og ills.“ Hvað gerði hún? Biblían segir: „Konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks.“ Hún leyfði augunum að gæla við það sem henni var bannað. Það var vísvitandi misnotkun augans. Hverjar urðu afleiðingarnar? „Þá tók hún af ávexti þess og át.“ — 1. Mósebók 2:​17; 3:​4-6.

6. Hvernig hefur augað áhrif á verk okkar?

6 Eflaust var þetta ekki í fyrsta skipti sem Eva sá ‚skilningstréð góðs og ills‘ eða ávöxt þess. En nú var eitthvað nýtt að gerast. Núna var tréð „fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks.“ Löngun og girnd eru til jafnaðar ekki eiginleikar augans heldur hjartans. En það sem augað sér magnar löngun og girnd hjartans, svo mjög að athafnir fylgja oft í kjölfarið. Hvað Evu varðaði höfðu slíkar athafnir hörmulegar afleiðingar fyrir hana og mann hennar, Adam, svo og alla ófædda afkomendur þeirra, meðal annars okkur. — Rómverjabréfið 5:​12; Jakobsbréfið 1:​14, 15.

7. Hvaða hlutverki gegndi augað þegar Satan reyndi þriðja sinni að freista Jesú, og hvernig lyktaði því?

7 Til að sýna fram á að gerlegt sé að standa á móti hverjum þeim áhrifum til ills, sem kunna að berast inn um augun, væri gott að líta á Jesú Krist sem dæmi. Enn sem fyrr var sami freistarinn, Satan, á ferðinni. Í þriðju tilraun sinni til að tæla Jesú frá því að gera vilja Guðs ‚tók djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall og sýndi honum öll ríki heims og dýrð þeirra.‘ Veitum því athygli að Satan gerði Jesú ekki bara munnlegt tilboð um allt vald og vegsemd heimsins í skiptum fyrir tilbeiðsluathöfn. Hann ‚sýndi honum‘ þetta, færði sér í nyt hin sterku áhrif augans. En þar eð Jesús lét ekki þetta freistandi tilboð draga til sín athygli augna sinna, heldur hafði í brennidepli samband sitt við himneskan föður sinn, Jehóva, tókst honum að ónýta slóttuga ráðagerð Satans. — Matteus 4:​8-10.

8. Hvaða lærdóm má draga af því sem henti Evu og Jesú?

8 Hvað getum við lært af undanfarandi dæmum? Í fyrsta lagi að það sem við beinum augum okkar að getur magnað góðar eða slæmar langanir hjartans. Það getur leitt til verka sem eru sjálfum okkur og öðrum annaðhvort til blessunar eða bölvunar. Í öðru lagi er ljóst að Satan hefur mesta dálæti á auganu sem leið til að blekkja fórnarlömb sín. Af öllum ‚vélráðum,‘ sem Satan notar til að leiða mannkynið á villigötur, virðist þessi skírskotun til augans vera eitthvert það öflugasta. — 2. Korintubréf 2:​11.

9. Hvað gerir Satan til að magna „fýsn augnanna“ nú á dögum?

9 Satan beitir enn í dag sömu aðferðum og vélráðum í því skyni að draga alla menn frá því að gera vilja Guðs. Satan notar það sem glitrar og glóir í heiminum til að ýta undir „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (1. Jóhannesarbréf 2:​16) Auglýsingaaðferðir viðskiptaheimsins eru skýrt dæmi um þetta. Eru ekki áhrifaríkustu auglýsingarnar einmitt þær sem höfða til sjónskynjunarinnar? Hin óteljandi, litskrúðugu auglýsingaspjöld og ljósaskilti, glæstar myndir í dagblöðum og tímaritum, snjallar sjónvarpsauglýsingar — og þær stóru summur sem eytt er í gerð þeirra og birtingu — ber allt vitni þeirri staðreynd að auglýsingar eiga sér að baki þá hugmynd öðrum fremur að örva „fýsn augnanna“ hjá neytandanum.

10. Hverju er viðskiptaheimurinn í raun að koma á framfæri?

10 Það er mismunandi hvort þessar auglýsingar örva ímyndunaraflið eða ekki. Óbeint er þó verið að auglýsa ekki aðeins neysluvörur heldur líka ákveðinn lífsstíl. Mjög oft er vara þannig auglýst að þeir hamingjusömu, fallegu, áhrifamiklu og vel stæðu noti hana. Þar með er sá boðskapur fluttur að ef neytandinn noti þessa vöru sé hann sjálfkrafa í einhverjum þessara flokka. Auglýsendur vita að jafnskjótt og einhver hefur tileinkað sér ákveðinn lífsstíl þarf ekki mikið til að láta hann tileinka sér þær neysluvenjur sem honum fylgja. Í ljósi þessa er viturlegt af vígðum kristnum mönnum að lifa eftir ráðum Hebreabréfsins 13:​5! Þar lesum við: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið.“

Varðveittu augað „heilt,“ ekki „spillt“

11. Útskýrðu orðin „heilt“ og „spillt“ eins og Jesús notaði þau um augað.

11 Með því að við stöndum daglega frammi fyrir svona mörgu sem getur gripið athygli augans er auðskilið hvers vegna Jesús hvatti okkur til að halda auganu ‚heilu‘ en ekki ‚spilltu.‘ (Matteus 6:​22, 23) Hvað merkir það? „Heilt“ er hér þýðing gríska orðsins haplous sem hefur grunnmerkinguna stefnufesta eða það að vera helgaður ákveðnum tilgangi. „Spillt“ er aftur þýðing gríska orðsins poneros sem hefur merkinguna slæmur, einskis nýtur, illur. ‚Heilt auga‘ lætur því ekki allt sem er að gerast umhverfis trufla sig eða koma sé út af sporinu heldur einbeitir sér að aðeins einum hlut. ‚Spillta augað‘ er aftur á móti óáreiðanlegt, hvikult, slóttugt og ágjarnt; það dregst að hinu skuggalega og dimma.

12. Greindu frá samhengi og merkingu þess sem Jesús sagði.

12 En hvað ætti augað að hafa í brennidepli til að ‚allur líkaminn sé bjartur‘? Svarið er að finna í samhengi orðanna. Í versunum á undan talar Jesús um ‚fjársjóði á jörðu‘ og ‚fjársjóði á himni.‘ Hann segir að ‚hvar sem fjársjóður okkar sé, þar sé og hjarta okkar.‘ Síðan, eftir að hafa rætt um augað, leggur hann enn á ný áherslu á nauðsyn þess að vera stefnufastur og segir: „Enginn getur þjónað tveimur herrum,“ Guði og auðæfunum. Í versunum á eftir ræður hann okkur heilt um daglegar nauðsynjar og lýkur með þessari hvatningu: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:​19-34.

13. Að hverju ættum við að einbeita auganu til að ‚allur líkaminn sé bjartur‘? Hvers vegna?

13 Hvað getum við ráðið af þessu? Jesús er að tala hér um markmið í lífinu, benda á hversu fánýtt sé að eltast við efnislega hluti og hvaða blessun það sé að rækta með sér áhuga á andlegum málum. Greinilega er hann að segja okkur að ‚allur líkami okkar verði bjartur‘ ef við beinum augunum markvisst að hagsmunum Guðsríkis. Hvers vegna? Vegna þess að ef við látum það vera markmið okkar að gera vilja Guðs munum við leitast við að endurspegla hið dýrlega fagnaðarerindi á öllum sviðum lífsins. Við getum þá bæði hlakkað til bjartrar framtíðar og verið lausir frá hinum myrku og leyndu hlutum sem koma fram í lífi þess sem helgar sig eigingjörnum markmiðum. — 2. Korintubréf 4:​1-6.

14. Hvernig leiðir það til ‚myrkurs‘ að einbeita auganu að efnislegum auði?

14 Páll postuli gaf orðum Jesú enn meira vægi þegar hann sagði: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:​9) Þetta eru fjarri því að vera innantóm orð! Fjölmiðlarnir eru fullir frétta af stjórnmálamönnum, embættismönnum, bankamönnum, framkvæmdastjórum og fleirum sem hafa orðið uppvísir að fjárdrætti og fjársvikum að upphæð „minnst 200 milljarðar dollara [um 8 billjón krónur] árlega“ aðeins í Bandaríkjunum, að því er segir í frétt nokkurri. ‚Freistingin‘ í að verða ríkur hefur ‚snarað‘ fjölmarga áður heiðvirða borgara og breytt þeim í afbrotamenn. Við viljum sannarlega forðast að ‚sökkva niður í tortímingu og glötun,‘ kynnast af eigin raun því ‚myrkri‘ sem Jesús varaði við. — Sjá Orðskviðina 23:​4, 5.

15, 16. (a) Hvaða aðra „fýsn augnanna“ verðum við að forðast? (b) Hvernig eiga ráðin í Orðskviðunum 27:20 við hér?

15 En eiga þeir einir sem vilja verða ríkir á hættu að ganga í myrkri? Nei, því að „fýsn augnanna“ tekur til margra fleiri hluta. Rifjaðu upp orð Jesú í Matteusi 5:​28: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Auðvitað má líka heimfæra þessa aðvörun á það að leyfa augunum að virða fyrir sér efni sem er til þess gert að vekja eða örva rangar fýsnir og langanir.

16 Þá er að nefna áhyggjurnar af mat, drykk og klæðnaði sem Jesús talaði um. (Matteus 6:​25-32) Enda þótt þetta sé nauðsynlegt getur óhófleg löngun í að hafa alltaf það nýjasta, dýrasta og eftirsóttasta þrælbundið huga okkar og hjarta. (Rómverjabréfið 16:​18; Filippíbréfið 3:​19) Jafnvel þegar afþreying, tómstundagaman, íþróttir, líkamsrækt og svo framvegis á í hlut verðum við að gæta jafnvægis og varast að láta stundartísku og keppikefli heimsins hrífa okkur með sér. Á öllum þessum sviðum væri hollt fyrir okkur að hafa í huga hin viturlegu orð í Orðskviðunum 27:​20: „Dánarheimar og undirdjúpin eru óseðjandi, svo eru og augu mannsins óseðjandi.“ Víst er um að við þurfum að iðka sjálfstjórn svo að við stefnum okkur ekki í voða andlega með því að reyna að fullnægja augum okkar.

Sú blessun að varðveita auga sitt „heilt“

17. Hvernig hefur það að varðveita auga sitt „heilt“ hjálpað sumum að þjóna hagsmunum Guðsríkis?

17 Þeir sem hafa varðveitt auga sitt „heilt“ og einblínt á fyrirheit Guðs um ríkið hafa hlotið margs konar blessun frá Jehóva. Reynslufrásagnir fólks úr ýmsum heimshornum og af ýmsum þjóðfélagsstigum lýsa því vel. Lestu eftirfarandi frásögur:

 Þegar ég þjónaði þar sem þörfina var meiri í Kólumbíu í Suður-Ameríku, þurfti ég að lifa á hér um bil 100 dollara (rúmlega 4000 krónur) tekjum á mánuði. Ég var byrjuð sem brautryðjandi en í mánaðarbyrjun datt ég og ökklabraut mig. Sjúkrakostnaðurinn, sem af því leiddi, gekk mjög nærri efnum mínum, og ég átti ekki von á að fá meira fé fyrr en í mánaðarlok. Það var komið að þeim tíma þegar ég var vön að leggja mitt af mörkum til Ríkissalarins, en ef ég gerði það ætti ég ekkert eftir til að kaupa matvörur næstu vikuna. Eftir að hafa hugleitt málið í nokkra daga ákvað ég að ég yrði að greiða framlag mitt til Ríkissalarins, svo að ég lét peningana í baukinn. Morguninn eftir fékk ég bréf frá systur í Bandaríkjunum sem hafði heimsótt mig í Kólumbíu. Bréfinu fylgdu kólumbískir peningar sem hún hafði átt eftir að ferðinni lokinni. Það var nákvæmlega sama upphæð og ég hafði látið í baukinn.

 Ki starfrækir lækningastofu í Taechun í Kóreu. Síðdegis á heitum þriðjudegi buðu þrír samstarfsmenn hans honum með sér niður á strönd. Boðið var freistandi en Ki vissi að hann myndi ekki ná tímanlega í safnaðarbóknámið það kvöld ef hann þægi boðið. Hann afþakkaði því. Nokkrum mínútum seinna var komið með samstarfsmennina þrjá til baka til læknastofunnar — dána! Þeir höfðu lent í umferðarslysi rétt eftir að þeir yfirgáfu stofuna. Ki var auðvitað harmi sleginn en þó glaður yfir því að fastheldni hans við áralanga venju sína skyldi hafa haldið í honum lífinu. — Hebreabréfið 10:​24, 25.

18. Hvernig er hægt að kenna börnum að varðveita auga sitt „heilt“?

18 Jafnvel börn geta lært að einbeita sér að hagsmunum Guðsríkis eins og eftirfarandi frásaga ber vitni:

 Þegar við heyrðum frá tveim gestum að bræður í þrem söfnuðum á Filippseyjum þyrftu að leggja fram þúsund dollara [um 40.000 krónur] fyrir hvern söfnuð — sem var umtalsverð fjárhæð fyrir þá — til að endurbyggja Ríkissal sinn sem hafði brunnið, ákváðum við hjónin að við vildum leggja eitthvað af mörkum. Við áttum fjögur börn á aldrinum fjögurra mánaða til sex ára. Í hverri viku, þegar maðurinn minn fékk útborgað, keypti hann silfurdollar handa hverju barni. Hann skipti peningunum til að hvert barn fyrir sig gæti séð hve mikið það hefði. Við nefndum líka sumt af því sem þau langaði til að eignast. En svarið var alltaf hið sama — þau vildu gefa bræðrunum peningana.“ Börnin sendu 99 dollara og með þeim lítið bréf. Bræðurnir á Filippseyjum voru svo snortnir af kærleika þeirra og örlæti að margir táruðust þegar bréfið var lesið.

19. Hvað verðum við að hafa í brennidepli ef við viljum eiga bjarta framtíð í vændum?

19 „Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.“ (Orðskviðirnir 4:​25) Það er viturlegt af okkur að hlýða þessu ráði og láta ekki augun reika, ella kynnum við að leiðast afvega! „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir,“ ráðlagði Páll. „Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ Hann bætti við: „Reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ (Efesusbréfið 5:​15-17) Ef við gerum það megum við vera þess fullviss að okkur takist að varðveita auga okkar „heilt,“ og við getum horft með trúartrausti til bjartrar framtíðar — eilífs lífs í fyrirheitinni nýrri skipan Guðs. — Samanber 2. Korintubréf 4:​17, 18.

Getur þú útskýrt?

◻ Hvernig er augað „lampi líkamans“?

◻ Hvernig getur augað haft áhrif á verk okkar eins og Eva og Jesús eru glögg dæmi um?

◻ Hvernig höfðar Satan til ‚fýsnar augnanna‘ nú á dögum?

◻ Hvað verðum við að gera til að varðveita augað „heilt“?

◻ Hvað ættum við að einblína á núna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Það sem við beinum augum okkar að getur magnað löngun hjartans.