Hafðu yndi af orði Jehóva
Hafðu yndi af orði Jehóva
„Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli [Jehóva].“ — Sálmur 1:1, 2.
1. Hverjum hefur verið falið að kenna öðrum ‚það sem opinberað er‘?
MEÐ því að ‚það sem opinberað er‘ er svo lífsnauðsynlegt fyrir hjálpræði okkar hefur Jehóva oft tilnefnt ábyrga menn kennara hinna opinberuðu sanninda. (5. Mósebók 29:29) Í Ísrael gegndu prestar og Levítar þessu hlutverki. (3. Mósebók 10:8-11; 2. Kroníkubók 35:3) Ísraelskir foreldrar kenndu líka börnum sínum. (5. Mósebók 11:19; Orðskviðirnir 6:20) Á fyrstu öld okkar tímatals gegndu útnefndir öldungar hlutverki kennara í söfnuði smurðra kristinna manna, og brýnt var fyrir kristnum foreldrum að fræða börn sín. (Efesusbréfið 6:4; 1. Tímóteusarbréf 3:2; 2. Tímóteusarbréf 2:2) Þar að auki hvíldi sú ábyrgð á hverjum einstökum kristnum manni að kunngera opinberuð sannindi Jehóva þeim sem enn stóðu utan kristna safnaðarins. — Postulasagan 1:8.
2. Er nóg að láta aðra kenna sér orð Jehóva? Gefðu skýringu.
2 En er það nóg að láta aðra kenna sér orð Guðs? Nei. Eitt og sérhvert okkar ber ábyrgð á að nema það sem Jehóva hefur opinberað. Því skrifaði sálmaritarinn ísraelskum þjóðbræðrum sínum: „Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2) Pétur postuli hvatti líka samþjóna sína með þessum orðum: „Sækist [þroskið löngun, NW] eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis.“ — 1. Pétursbréf 2:2.
3. Hvert er viðhorf margra til náms og hvað getur því þurft að gera?
3 Hvernig lítur þú á biblíunám? Ef þú sækir reglulega kristnar samkomur heyrir þú vafalaust mörg ágæt erindi út af Biblíunni. Ef þú ert ‚alinn upp í sannleikanum,‘ eins og sumir orða það, hafa foreldrar þínir vafalaust kennt þér margt af því sem Jehóva hefur opinberað. En nemur þú Biblíuna líka sjálfur fyrir utan allt þetta? Ljóst er að sálmaritarinn hafði yndi af slíku námi, en vera má að þér finnist það ekki auðvelt. Þú ert ekki einn um það. Sú staðreynd að Pétri var blásið í brjóst að hvetja trúbræður sína til að ‚þroska löngun eftir orðinu‘ bendir til að einkanám sé ekki öllum eiginlegt. En við getum lært að njóta þess. Hvernig?
4. Hvaða dæmi sýnir að hægt er að láta einkanám höfða til sín?
4 Ef einhver skipaði þér að grafa djúpa gryfju í jörðina myndir þú tæplega kætast við tilhugsunina nema þú hefðir að eðlisfari ánægju af erfiðisvinnu. En ef þú fengir að vita að þarna væri fjársjóður falinn í jörð myndi þér líklega þykja verkið mun léttara! Þér gæti jafnvel þótt það spennandi því að þú ættir von á að rekast á hinn grafna fjársjóð. Eins er það með einkanám — það getur verið skemmtilegt og jafnvel spennandi ef þú hefur rétt viðhorf, jafnvel þótt þú hneigist ekki að námi. Þetta viðhorf er hægt að þroska með ýmsum hætti.
Þroskaðu með þér rétt viðhorf
5, 6. Nefnið dæmi um þá óviðjafnanlegu blessun sem opinberað orð Jehóva veitir okkur.
5 Fyrst og fremst ber okkur alltaf að hafa í huga hvílíkan fjársjóð við höfum í Biblíunni. Páll postuli sagði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ (Rómverjabréfið 11:33) Jehóva hefur verið að opinbera mönnum tilgang sinn skref fyrir skref á mörg þúsund ára tímabili, og þessi tilgangur vekur með okkur djúpa lotningu og blæs í brjóst von sem er jafn stórkostleg og hún er örugg. Þau heilræði um daglegt líf, sem Jehóva hefur látið skrá í Biblíuna, eru alltaf til blessunar þegar þeim er fylgt. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Enginn furða er að sálmaritarinn skyldi syngja: „Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra“! — Sálmur 119:130.
6 Enn fremur hefur Biblían að geyma hugsanir Guðs og með því að tileinka okkur þær nálægjumst við hann. (Jakobsbréfið 4:8) Okkur er líka boðið að kenna öðrum að vera lærisveinar Jesú. (Matteus 28:19, 20) Úr því að Biblían er okkar helsta verkfæri í þessu starfi þurfum við að nema hana til að kunna að nota hana vel. (Efesusbréfið 6:17; 2. Tímóteusarbréf 2:15) Það að fylla huga okkar biblíulegum hugðarefnum verndar okkur, því það hjálpar okkur að framganga í ráðvendni og forðar frá röngum hugmyndum og efasemdum sem veikja trú okkar. — Orðskviðirnir 4:5, 6; 20:7; Filippíbréfið 4:8.
7, 8. Hvers vegna erum við betur sett en þjónar Guðs í fortíðinni gagnvart ‚því sem opinberað er‘?
7 Hafðu líka í huga að við nútímamenn getum „ásamt öllum heilögum, skilið, hver sé breiddin, lengdin, hæðin og dýptin“ í sannleikanum á þann veg sem þjónar Guðs fyrrum gátu ekki. (Efesusbréfið 3:14-18, Ísl. bi. 1912) En mundu að Abraham yfirgaf heimaborg sína og bjó í tjöldum til æviloka, þótt hann fengi ekki að sjá fyrirheit Guðs rætast meðan hann lifði. (Hebreabréfið 11:8-10) Daníel bað um að fá að skilja sýnina sem hann hafði séð, en var sagt: „Orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur.“ (Daníel 12:8, 9) Sæðið, sem Abraham hlakkaði til, er nú löngu komið fram. Við lifum núna endalokatímann þegar merking margra af sýnum Daníels hefur bæst við skilning okkar á ‚því sem opinberað er.‘
8 Pétur postuli skrifaði: „Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast. . . . Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.“ (1. Pétursbréf 1:10, 12) Þar eð Jehóva hefur nú upplýst svo margt af því sem þessir spámenn fortíðar þráðu að vita, þá skulum við meta að verðleikum þessi sannindi en ekki líta á þau sem sjálfsagðan hlut.
9, 10. Hvaða dæmi ættu að hjálpa okkur að meta að verðleikum það frelsi sem við flest njótum til að nema Biblíuna?
9 Að íhuga þá baráttu sem sumir hafa þurft að heyja til að nema Biblíuna getur hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til biblíunáms. Á dögum Williams Tyndales var það skoðað sem glæpur á Englandi að selja, kaupa eða lesa þýðingu Grísku ritninganna á sinni eigin tungu. John Foxe, púrítanskur prédikari á 16. öld, segir frá því sem gerðist þegar maður, sem hafði nýlega tekið mótmælendatrú, reyndi að smygla nokkrum biblíum til Spánar. Hann var svikinn og brenndur á báli, og 800 af þeim sem höfðu keypt biblíurnar voru handteknir. Tuttugu létu lífið á glóandi teinum. Aðrir voru hnepptir í lífstíðarfangelsi, hýddir opinberlega eða gerðir að galeiðuþrælum. Fáeinir voru sýknaðir.
10 Á okkar tímum hafa vottar Jehóva líka stundum þurft að stofna sér í mikla hættu til að nema Biblíuna. Í fangabúðum eða fangelsum hafa þeir hætt jafnvel á dauðarefsingu fyrir að verða sér úti um biblíur. Trúboði, sem hnepptur var í einangrunarfangavist vegna trúar sinnar, skrifaði hjá sér alla ritningarstaði sem hann gat munað og fínkembdi síðan „trúmáladálka“ dagblaða til að finna einstök biblíuvers sem komu þar fyrir. Í fjöldamörg ár hafði hann engan annan aðgang að Biblíunni. Já, þegar Biblían er bönnuð leggja kristnir menn mikið á sig til að lesa hana. Ættum við að lesa hana af minna kappi þegar við þurfum ekki annað að gera en að rétta út hendina og taka hana niður af bókahillunni?
11. Ætti sú staðreynd að sama efnið er stundum rætt aftur og aftur að draga úr áhuga okkar á biblíunámi?
11 Sumir segja að þeir geti svarað spurningunum í Varðturninum fyrirhafnarlítið því að sama efnið sé stundum endurtekið. Þeir sjá því enga þörf á einkanámi. En við megum aldrei vanmeta gildi endurtekningar. Sálmaritarinn elskaði áminningar Jehóva og það ættum við líka að gera. (Sálmur 119:119, NW) Munum að heimurinn hellir yfir okkur áróðri sem einkennist af siðleysi og efnishyggju. Við þurfum því að styrkja hugi okkar með endurteknum áminningum frá Biblíunni.
Leggðu þig fram við að yfirstíga vandamál
12. Gefið nokkrar hagnýtar tillögur um hvernig hægt sé að finna tíma til biblíunáms.
12 Sá sem hefur rétt viðhorf til biblíunáms finnur oftast leið til að nema þótt ekki sé það alltaf auðvelt. Hann getur þurft að yfirstíga ýmis vandamál. Hvernig er til dæmis hægt í öllum önnum hversdagslífsins að finna sér tíma til einkanáms? Fyrsta skrefið til að leysa þetta vandamál er að gera sér grein fyrir að biblíunám er nauðsyn eins og þjónustan á akrinum og samkomusókn. (2. Tímóteusarbréf 4:15) Síðan getum við athugað hinn daglega vanagang til að finna rúm fyrir það. Sumum tekst að nema þegar þeir ferðast með almennum flutningatækjum. Sumir hlusta á upplestur úr bókum Biblíunnar af segulsnældum þegar þeir aka í bifreið eða vinna á heimilinu. Sumir nema í matarhléi sínu á vinnustað. Aðrir fara á fætur nógu snemma á morgnana til að geta numið um stund áður en störf dagsins hefjast, eða nota tíma að kvöldi eftir að börnin eru komin í háttinn. Oft þurfum við að kaupa okkur tíma til náms frá öðru — jafnvel á kostnað afþreyingar. (Kólossubréfið 4:5) Mörgum fer fljótlega að finnast að þeir þurfi ekki sérstaklega á þeirri afþreyingu að halda því að námið sjálft hjálpar þeim að slaka á.
13. Hvað getur hjálpað okkur að einbeita okkur?
13 Sumir eiga erfitt með að einbeita sér. Þeim finnst erfitt að hætta að hugsa um hin hversdagslegu vandamál og einbeita sér að biblíunámi. Hér getur bænin verið hjálp. Hvernig væri að byrja á því að þakka Jehóva fyrir það sem hann hefur opinberað og biðja um hjálp hans til að þú getir einbeitt þér að því og skilið gildi þess? (Filippíbréfið 4:6; 2. Tímóteusarbréf 2:7) Slík bæn er í fullu samræmi við vilja Jehóva með okkur. (1. Jóhannesarbréf 5:14) Sjálfsagi er líka ómissandi, einkum í fyrstu. (1. Korintubréf 9:25) Berojumenn rannsökuðu orð Guðs daglega. (Postulasagan 17:10, 11) Með því settu þeir okkur gott fordæmi. Ef við nemum reglulega fer okkur brátt að þykja það skemmtilegt, og líklega hlökkum við til þess svo að við þurfum ekki að neyða okkur til að nema.
14. Hvers vegna er æskilegt að nema Biblíuna í kyrrlátu umhverfi?
14 Viðeigandi umhverfi getur líka stuðlað að einbeitingu. Ísak fór út á akrana þegar hann vildi hugleiða málin fjarri ys og þys tjaldanna. (1. Mósebók 24:63) Að vísu getum við ekki öll fundið okkur jafnrólegan stað til náms og akurinn, en við getum oftast dregið verulega úr truflunum umhverfis okkur. Við höfum miklum mun meira gagn af námi á hljóðum og kyrrlátum stað heldur en fyrir framan opið sjónvarp eða með háværa tónlist glymjandi í eyrum okkar. Við komumst ekki alltaf hjá því að eitthvað trufli okkur, en oftast getum við fundið tiltölulega rólegan stað til náms.
15. Nefnið nokkrar óformlegar leiðir til að afla sér biblíuþekkingar.
15 Enn annað vandamál getur stungið upp kollinum: Sumir kunna ekki að nema. Nú til dags er ekki hægt að ganga að því sem gefnum hlut að börn læri í skóla hvernig þau eigi að bera sig að við nám, og þeir sem luku skólagöngu fyrir nokkru eru kannski komnir úr æfingu við að lesa og nema. En nám er í rauninni ekki svo erfitt. Það þarf ekki að vera flóknara en að lesa greinar sem vekja áhuga þinn í bókinni Aid to Bible Understanding eða að lesa í sjálfri Biblíunni. Það að athuga ákveðið viðfangsefni með hjálp Biblíunnar er líka nám. Hefur þú reynt að glugga í gamla árganga Varðturnsins eða Vaknið! og lesa greinar sem vekja athygli þína? Það er að vísu ekki nám sem krefst verulegrar einbeitingar, en það hjálpar þér að hafa meiri ánægju af orði Jehóva.
16. Hver ætti að vera tilgangur okkar með undirbúningi fyrir hið vikulega Varðturnsnám?
16 En hvað um formlegra nám, svo sem þegar þú býrð þig undir hið vikulega Varðturnsnám? Í slíku námi þarf nemandinn að hafa ákveðið markmið í huga. Hvers konar markmið? Sé hann að búa sig undir Varðturnsnámið ætti hann að vilja að hafa sem mest gagn af þeim „mat á réttum tíma“ sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur útbúið, og ætti líka að langa til að hjálpa öðrum með athugasemdum sínum á samkomunni. (Matteus 24:45) Hvernig getum við náð þessum markmiðum? Engar reglur eru til um það en hér kemur ein tillaga:
17, 18. (a) Gefið nokkrar tillögur um hvernig hægt er að undirbúa sig undir Varðturnsnámið. (b) Nefndu fleiri hugmyndir sem reynst hafa þér gagnlegar við einkanám. (Sjá neðanmálsathugasemd.)
17 Lestu fyrst í gegnum alla greinina, kannski skömmu eftir að þér berst nýtt tölublað Varðturnsins. Slíkur lestur þarf ekki að taka nema 20 mínútur, en hann gefur þér gott yfirlit yfir kjarna og markmið greinarinnar. Þegar að því kemur að nema greinina ítarlegar skalt þú setjast niður með Biblíuna þér við hlið og penna í hendinni. Lestu síðan fyrstu tölugreinina vandlega, gefðu gaum röksemdum hennar og hvernig hugmyndirnar eru mótaðar. Flettu upp öllum ritningarstöðum sem vísað er til en ekki vitnað í, og reyndu að koma auga á hvers vegna vísað er til þeirra. Lestu þessu næst spurninguna við greinina. Þegar þú hefur fundið svarið getur þú strikað undir fáein orð í greininni til að minna þig á svarið þegar Varðturnsnámið fer fram. Ef þú vilt getur þú skrifað stuttar athugasemdir á spássíu um ritningarstaði, sem þú flettir upp, atriði sem þú vilt athuga nánar og svo framvegis.
18 Þegar þú hefur farið í gegnum alla greinina með þessum hætti skalt þú renna yfir spurningarnar innan rammans í lok greinarinnar til að kanna hvort þú hafir komið auga á aðalatriðin. Getir þú ekki svarað einhverjum spurninganna skalt þú leita uppi svarið í greininni. Ef þú gerir þetta nokkrum dögum fyrir hið vikulega nám í Varðturninum er kannski gott fyrir þig að renna yfir greinina daginn áður en námið fer fram, til að rifja upp fyrir þér efnið. *
Þörfin á að hugleiða
19. Hvernig getur hugleiðing hjálpað okkur að byggja upp kærleika til orðs Jehóva?
19 Mundu að nám ætti að fela í sér hugleiðingu. Að nema án þess að hugleiða efnið er eins og að borða án þess að melta matinn. Íhugaðu því það sem þú ert að nema. Reyndu að tengja það öðru sem þú veist fyrir. Hvernig snertir það líf þitt? Hvernig getur þú notað það til að hjálpa öðrum? (Orðskviðirnir 15:28) Lærðu að gefa gaum smáatriðum. Talaðu við aðra um það sem þú hefur lært. Segðu frá því sem þú hefur tekið eftir. (Orðskviðirnir 27:17) Það mun líka hjálpa þér að hafa yndi af orði Guðs.
20. Lýsið hve mikils Davíð konungur mat opinberað orð Jehóva.
20 Davíð konungur mat orð Guðs mjög mikils. Hann skrifaði: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun. Ótti [Jehóva] er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði [Jehóva] eru sannleikur, eru öll réttlát. Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.“ — Sálmur 19:8-11.
21. Hvaða blessun uppskerum við ef við byggjum upp með okkur ósvikinn kærleika til þess sem Jehóva hefur opinberað?
21 Ef þú fylgir leiðbeiningum fyrsta sálmsins og nemur Biblíuna á reglulegum grundvelli getur þú líka lært að meta opinberanir Jehóva þannig. Það leiðir síðan til þess að þú fáir að njóta þeirrar blessunar sem þessi sálmur heitir þeim sem hafa yndi af orði Jehóva: „Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum. Því að [Jehóva] þekkir veg réttlátra.“ — Sálmur 1:3, 6.
[Neðanmáls]
^ Fleiri tillögur varðandi námstækni og undirbúning erinda er að finna í Handbók Guðveldisskólans sem gefin er út af Varðturnsfélaginu.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna er ekki nóg að láta aðra fræða okkur um orð Guðs?
◻ Hvaða blessun hljótum við þegar við nemum Biblíuna?
◻ Hvernig er hægt að finna tíma til að nema Biblíuna?
◻ Hvað getur hjálpað okkur til að einbeita okkur að námi?
◻ Hvaða markmið ættum við að hafa þegar við búum okkur undir Varðturnsnámið?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 29]
Fólk hefur dáið fyrir það að lesa Biblíuna.
[Myndir á blaðsíðu 30]
Okkur ber að taka okkur tíma til að íhuga orð Guðs — þótt við eigum annríkt.