Hvernig myndir þú velja bók handa öllu mannkyni?
Hvernig myndir þú velja bók handa öllu mannkyni?
EF ÞÚ gætir með einhverju móti gefið þér tíma til að lesa eina bók á viku myndir þú komast yfir rúmlega 3000 bækur á ævinni. Þótt það geti virst álitlegur skammtur er það samt ekki nema dropi í hafið þegar haft er í huga að árlega koma út liðlega tífalt fleiri nýir bókatitlar aðeins í Bandaríkjunum. Þá eru ekki meðtaldar þær þúsundir sígildra bókmenntaverka sem ætlast er til að sérhver menntaður maður hafi lesið.
Ljóst er að þegar bækur eiga í hlut á betur við nú en nokkru sinni fyrr 3000 ára gömul athugasemd sem hljóðar svo: „Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ — Prédikarinn 12:12.
En er nokkur bók svo verðmæt og þýðingarmikil að hún standi upp úr öllu þessu bókaflóði, bók sem sérhver maður ætti að lesa? Er til einhver bók sem er hafin yfir þjóðleg og menningarleg landamæri og tungumálatálma, bók sem með réttu mætti kalla bók handa öllu mannkyni?
Sú spurning hvað við eigum að lesa hefur meira en aðeins fræðilegt gildi, því að það sem við lesum hefur að lokum áhrif á hugsunarhátt okkar, verðmætamat og dómgreind. Þessi spurning hefur verið hugðarefni uppeldisfræðinga, foreldra og annarra bæði fyrr og nú. Gerður hefur verið aragrúi skoðanakannana og rannsókna á því hvaða rit sé mest um vert að lesa, og niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar.
Val sérfræðinganna
Árið 1890 lagði bókaútgefandi þessa spurningu fyrir marga af fremstu mönnum á sviði bókmennta í sinni tíð. Hann bað þá að nefna þær bækur sem þeir teldu hafa mest gildi. „Biblían, Shakespeare og Homer voru í langmestu uppáhaldi hjá bókmenntamönnum nítjándu aldar,“ segir í uppsláttarverki nokkru. „Og,“ bætir það við, „heiðurslistinn yrði svo til óbreyttur núna.“
Nýlegri skoðanakannanir hafa staðfest það. Í september árið 1982 greindi til dæmis tímaritið Time frá svörum átta kunnra prófessora, sagnfræðinga og bókavarða við spurningunni: „Hvaða fimm bækur ætti sérhver menntaður maður að lesa?“ Þótt sérfræðingarnir væru ekki fullkomlega á
einu máli mæltu fimm af þeim átta — ákveðinn meirihluti — meðal annars með Biblíunni. Tímaritið Psychology Today segir í umfjöllun um svipaða skoðanakönnun: „Af þeim 165 bókum, sem nefndar voru, fékk Biblían flest atkvæði: fimmtán. Engin önnur bók komst í námunda við hana.“Sérstaka athygli vekja niðurstöður almennrar skoðanakönnunar á vegum The Korea Times varðandi álit þeirra landsmanna, sem ekki töldu sig kristna, á hinum kristnu kirkjum. „Niðurstöðurnar sýna að kristnir menn eru eigingjarnari, fégráðugri og síður samviskusamir en þeir sem ekki eru kristnir,“ segir blaðið. En síðan segir: „Þrátt fyrir að trúna vanti mátu 70% aðspurðra Biblíuna mjög mikils.“
Besti kosturinn
Benda má á margar svipaðar skoðanakannanir sem sýna að Biblían hefur aftur og aftur verið valin sem sú bók er gnæfir yfir allar aðrar. Af ýmsum ástæðum hefur mönnum bæði fyrr og nú, í austri og vestri, þótt hún besti kosturinn meðal bóka.
En meira máli skiptir þó hvert viðhorf sjálfs þín er. Finnst þér Biblían orðin úrelt í heimi tækni og vísinda svo að hún sé lítils verð sem hjálp til að takast á við vandamál nútímans? Álítur þú Biblíuna hafa litla raunverulega þýðingu fyrir þig? Eða getur hugsast að Biblían hafi að geyma boðskap sem allir nútímamenn þurfa að heyra? Tekur hún á vandamálum sem blasa alls staðar við okkur nútímamönnum? Er hún í rauninni bók handa öllu mannkyni?