Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva uppfyllir fyrirheit sín!

Jehóva uppfyllir fyrirheit sín!

Höfuðþættir biblíubókanna Esra 1:1-10:44

Jehóva uppfyllir fyrirheit sín!

FRELSUN! Endurreisn! Þessi boðskapur hlýtur að hafa yljað útlægum Gyðingum í Babýlon um hjartaræturnar! Eins og Guð hafði heitið voru Gyðingar aftur á leið til heimalands síns eftir 70 ára útlegð. (Jeremía 25:12; Jesaja 44:28-45:7) Hlutir, sem teknir höfðu verið úr musteri Jehóva, voru nú aftur á leið til síns rétta staðar. Hvílík gleðitíðindi!

Esrabók í Biblíunni hefst með þessum hrífandi atburðum. Fræðimaðurinn Esra skrifaði hana í Jerúsalem um árið 460 f.o.t., og nær hún yfir um það bil 70 ár frá því að Gyðingar eru leystir úr ánauðinni þar til lokið er byggingu annars musterisins og hreinsun prestastéttarinnar. (537-um 467 f.o.t.) Undirstrikað er með hvaða hætti Jehóva uppfyllir loforð sín. Bókin geymir líka dýrmætan lærdóm fyrir votta Jehóva nú á dögum.

Útlögum sleppt

Lestu Esra 1:1-3:6. Andi Jehóva blæs Kýrusi Persakonungi í brjóst að lýsa yfir: Musterið í Jerúsalem skal endurbyggt og tilbeiðslan á Jehóva endurvakin þar! Allir Ísraelsmenn mega eiga þátt í því. Þeim sem geta er frjálst að fara til heimalands síns til að vinna að endurreisninni. Hinir eru hvattir til að leggja örlátlega fram fé til verksins. Áhöldum fyrra musterisins, sem Nebúkadnesar flutti til Babýlónar, skal skilað. Undir forystu Serúbabels leggja næstum 50.000 upp í 1600 kílómetra ferð heim til Jerúsalem. Þeir endurreisa hið helga altari og færa Jehóva fórnir. Síðan, haustið 537 f.o.t., halda þeir laufskálahátíðina. Auðnarárunum 70 lýkur nákvæmlega á réttum tíma! — Jeremía 25:11; 29:10.

1:3-6 — Voru þeir Ísraelsmenn, sem eftir urðu í Babýlon, ótrúir?

Svo þarf ekki að vera þótt efnishyggja hafi í sumum tilvikum átt hlut að máli og ekki allir metið að verðleikum það sem var að gerast. Tilskipun Kýrusar krafðist þess ekki að allir sneru heim heldur var mönnum það í sjálfsvald sett. Elli, heilsubrestur eða fjölskylduábyrgð kann að hafa hindrað suma í að fara þessa ferð. En þeir áttu að styrkja þá sem gátu snúið heim.

1:8 — Hver var Sesbasar?

Að öllum líkindum var þetta opinbert nafn Serúbabels við kaldeisku hirðina. (Samanber Daníel 1:7.) Það sem Sesbasar er eignað er annars staðar eignað Serúbabel. (Esra 5:16; Sakaría 4:9) Báðum er gefinn titillinn „landstjóri.“ (Esra 5:14; Haggaí 2:21) Og í Esra 2:2 og 3:1, 2 er Serúbabel sagður forystumaður Gyðinganna og nafnið Sesbasar ekki nefnt, enda á það betur við.

2:61-63 — Hvað var úrím og túmím?

Talið er að þetta hafi verið heilagir hlutir notaðir til að leita með hlutkesti svars hjá Jehóva við spurningum. Arfsagnir Gyðinga herma að þeir hafi horfið þegar musterið var eyðilagt árið 607 f.o.t. Það styður þessa arfsögn að þeim sem töldu sig af prestaættum var meinað að eta af hinu háheilaga „þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmím.“ Engar heimildir eru þó til um notkun þeirra þá eða síðar.

Lærdómur fyrir okkur: Svipað er ástatt meðal votta Jehóva nú á tímum og þessara útlægu Gyðinga. Ekki geta allir verið boðberar í fullu starfi eða yfirgefið heimili sitt til að þjóna þar sem þörfin er meiri. Samt sem áður gera þeir allt sem þeir geta til að efla hag hreinnar guðsdýrkunar með sjálfviljaframlögum og með því að hvetja þá sem geta lagt meira starf af mörkum.

Andstaða

Lestu 3:7-4:24. Við mikinn fögnuð leggja hinir heimkomnu Gyðingar grundvöllinn að húsi Jehóva. En svo árum skiptir reyna óvinir að draga kjark úr musterisbyggjendunum. Að lokum sannfæra þeir konunginn um að verið sé að reisa að nýju ‚óeirðargjarna og vonda borg‘ og tekst að fá verkið stöðvað með konunglegri tilskipun. Bannið heldur gildi „þar til á öðru ríkisári Daríusar Persakonungs.“

3:12 — Hvers vegna grétu þessir menn?

Þessir menn voru svo gamlir að þeir mundu eftir hve dýrlegt musteri Salómons hafði verið á að líta. Það sem við þeim blasti núna — grundvöllurinn einn — var ekkert í samanburði við það. Líklega dró úr þeim kjark og þeir efuðust um að þeir megnuðu að ná fram aftur hinni fyrri reisn. — Haggaí 2:2, 3.

4:1-3 — Hvers vegna var boðinu um hjálp hafnað?

Assýríukonungur hafði flutt þessa menn, sem ekki voru Gyðingar, til landsins til að byggja það fólki, og þeir voru ekki sannir tilbiðjendur Guðs. (2. Konungabók 17:33, 41) Að þiggja hjálp þeirra hefði stofnað sannri guðsdýrkun í hættu og Jehóva hafði sérstaklega varað þjóð sína við sérhverju samneyti við önnur trúarbrögð. (2. Mósebók 20:5; 34:12) Auk þess kallar frásagan þessa menn „mótstöðumenn.“

Lærdómur fyrir okkur: Þegar þjónusta okkar við Guð mætir fjandskap ættum við að líkja eftir Gyðingunum sem þegar í stað söfnuðust saman „eins og einn maður.“ Að treysta á Jehóva og láta tilbeiðsluna á honum ganga fyrir styrkti þá til að vinna það verk sem þeim hafði verið falið. — Esra 3:1-12.

Musterið fullgert

Lestu 5:1-6:22. Spámennirnir Haggaí og Sakaría örva þjóðina til dáða og bygging musterisins heldur áfram af endurnýjuðum þrótti. Óvinirnir kvarta enn á ný þegar þeim tekst ekki að stöðva verkið. Daríus konungur kannar málið og finnur hina upphaflegu tilskipun Kýrusar. Bæði er mótstöðumönnunum skipað að ‚láta bygginguna í friði‘ og leggja auk þess fram efni til verksins! Við stöðuga hvatningu spámanna Jehóva er musterið fullgert árið 515 f.o.t. og vígt. Með fögnuði og gleði er það helgað Guði sem heldur fyrirheit sín!

5:5 — Hvers vegna stöðvuðu mótstöðumennirnir ekki byggingarstarfið?

Jehóva gætti trúrra þjóna sinna vandlega. (2. Kroníkubók 16:9) Andi Guðs styrkti öldungana og þeir neituðu að láta kúga sig með hótunum. Þeir vísuðu til hinnar gleymdu tilskipunar Kýrusar. Þar eð lög Persa voru óbreytanleg voru fjandmennirnir hræddir við að beita sér gegn konunglegri tilskipun. (Daníel 6:8, 15) Handleiðsla Jehóva var ljós og verkið hélt áfram

6:21 — Hverjir ‚skildu sig frá saurugleik hinna heiðnu þjóða‘?

Hér kann að vera um að ræða trúskiptinga sem farið höfðu heim með Gyðingum, Samverja sem voru fyrir í landinu eða jafnvel heimkomna Gyðinga sem höfðu látið heiðin áhrif spilla sér. (Samanber Esra 9:1.) Framsókn sannrar tilbeiðslu á Jehóva í Jerúsalem virðist hafa komið þeim til að gera þær breytingar í lífi sínu sem þurfti.

Lærdómur fyrir okkur: Kristnir öldungar nú á tímum ættu líka að leita leiðsagnar Jehóva. Hann gefur okkur það innsæi sem við þurfum þegar við stöndum frammi fyrir fjandmönnum okkar. — Sálmur 32:8.

Esra snýr heim

Lestu 7:1-8:36. Tíminn líður og árið 468 f.o.t. veitir Artahsasta konungur Esra „allar bænir hans“ svo að hann getur farið til Jerúsalem til að leggja hönd á plóginn. Skipun konungs hvetur alla fúsa Gyðinga til að snúa heim líka, og hann gefur silfur og gull til að afla megi alls sem þarf í húsi Jehóva. Esra er gefið umboð til að skipa dómendur og stjórnendur til að framfylgja bæði lögum Jehóva og konungs. Í fullu trausti á stuðning Guðs tekur Esra í sig kjark til að leggja í hina hættulegu för. Hann fer ekki fram á vopnaða fylgdarsveit; það gæti borið vott um að hann treysti ekki á hæfni Jehóva til að vernda þjóna sína. Með hjálp Guðs komast Gyðingarnir heilir á húfi á leiðarenda.

7:1, 7, 11 — Hver var þessi Artahsasta?

Hér er um að ræða Persakonunginn Atarxerxes I (Longimanus). Á tuttugasta ríkisári sínu veitti hann Nehemía leyfi til að fara til Jerúsalem og endurbyggja múra og hlið borgarinnar. (Nehemía 2:1-8) Sagnfræðingar lýsa þessum Atarxerxes sem góðgjörnum og örlátum í flestu. Sökum síns stóra framlags er hans getið í Esra 6:14 sem manns er hafi með tilskipun sinni stuðlað að því að musterisbyggingunni yrði lokið, enda þótt byggingu þess hafi í raun lokið um 47 árum fyrr. Sá Artahsasta sem stöðvaði endurreisnina er annar konungur. (Esra 4:7-23) Sá var Gaumata sem ríkti aðeins í átta mánuði árið 522 f.o.t. „Artahsasta“ virðist hafa verið titill þess sem í hásæti sat.

Lærdómur fyrir okkur: Esra setti þjónum Jehóva nú á dögum gott fordæmi. Hann var fær fræðimaður sem nam orð Guðs af kostgæfni, gaf hinum hæsta allan heiður af því sem áorkað var og var annara um vegsemd Jehóva en eigið öryggi. — Esra 7:27, 28; 8:21-23.

Þjóðin hreinsuð

Lestu 9:1-10:44. Esra kemst fljótt að raun um að margir „hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hafði verið vegna viðurstyggða þeirra.“ Gyðingarnir, þeirra á meðal prestar og levítar, hafa mægst við hina heiðnu Kanverja. Esra er agndofa. Hann leggur málið fyrir Jehóva í bæn og játar iðrunarfullur syndir þjóðarinnar. Undir forystu hans gerir þjóðin iðrun og strengir þess heit að senda hinar heiðnu eiginkonur burt. Á um það bil þrem mánuðum er þjóðin hreinsuð.

9:2 — Hvers vegna var slíkur hjúskapur syndsamlegur?

Endurreisn sannrar guðsdýrkunar stóð ógn af honum. (5. Mósebók 7:3, 4) Konur þessar voru ekki trúaðar og tilbáðu skurðgoð. Hjúskapur við þær hefði getað orðið til þess að Gyðingar hefðu samlagast heiðnu þjóðunum umhverfis og sönn guðsdýrkun horfið af jörðinni.

10:3, 44 — Hvers vegna voru börnin líka látin fara?

Lítil börn þurfa yfirleitt á mæðrum sínum að halda. Auk þess má vera að konurnar hefðu snúið aftur hefði börnunum verið haldið eftir. Sönn tilbeiðsla á Jehóva varð að ganga fyrir.

Lærdómur fyrir okkur: Eins og hinir trúföstu Gyðingar á tímum Esra halda vottar Jehóva sér fast við kröfur Guðs viðvíkjandi hjónabandi. Þeir gera sér ljóst að þeir eiga að ganga í hjónaband ‚aðeins í Drottni.‘ — 1. Korintubréf 7:39.

Jehóva hélt fyrirheit sitt um að láta endurreisa sanna guðsdýrkun í Forn-Jerúsalem. Eins mun hann uppfylla fyrirheit sitt um að láta hina hreinu tilbeiðslu ná út um allan heiminn. (Habakkuk 2:14) Verður þú í hópi dýrkenda hans þegar hinn mikli Guð, sem heldur fyrirheit sín, kemur á friði og hamingju hér á jörð? — Sálmur 37:10, 11; Opinberunarbókin 21:3, 4.