Biblían — hagnýt fyrir þig
Biblían — hagnýt fyrir þig
„HANN hefur sagt þér, maður, hvað gott sé,“ skrifaði guðsmaður fyrir liðlega 2700 árum. (Míka 6:8) En er það sem þá var sagt „gott“ eða hagnýtt fyrir okkur í heimi nútímans?
„Biblían var skrifuð löngu áður en menn vissu nokkuð um nútímasálarfræði og þroskaferli hins tilfinningalega þáttar kynhvatarinnar,“ segir dr. Chesen. „Jafnvel þótt riturum hennar hafi gengið gott eitt til gátu þeir ekki tekið tillit til þessara þýðingarmiklu atriða. Þegar hins vegar siðferði og/eða boðorð eiga í hlut hefur Biblían og þeir sem túlka hana margt að segja.“
Þetta sjónarmið ætti líklega rétt á sér ef Biblían ætti sér aðeins mannlega hugsun að baki. En eins og sýnt var fram á í Varðturninum þann 1. ágúst síðastliðinn er Biblían ekki orð manna heldur Guðs. Það er veigamikið atriði sem ekki má líta fram hjá. Hvers vegna? Vegna þess að þekking Guðs er ekki takmörkuð við tíma og kringumstæður, eins og þekking mannsins, og ekki breytingum undirorpin. Sem skapari mannkynsins veit Guð nákvæmlega hvernig við erum samsett og hvað er best fyrir okkur. Það var því vel við hæfi að postulinn sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
En hvað þá um þær stórkostlegu breytingar sem hafa átt sér stað á okkar tímum? Er það ekki útbreidd skoðun að við lifum á tímum frelsis og upplýsingar? Hefur ekki þjóðfélagið í heild slitið af sér marga hinna hefðbundnu fjötra? Að vísu er það rétt, en þrátt fyrir aukna þekkingu og það „frelsi“ sem menn hafa tekið sér á síðustu árum og áratugum, eru frumþarfir mannsins og eðli óbreytt. Hið innra er maðurinn sá sami og
fyrrum. Við höfum enn hvatir sem segja okkur að borða og drekka, sofa, eignast börn og tilbiðja, eins og forfeður okkar höfðu. Við höfum enn sem fyrr þörf fyrir ást og umhyggju og viljum vera hamingjusöm. Við höfum enn þörf fyrir að líf okkar hafi tilgang.Meginreglur Biblíunnar fást við þessar þarfir. Því eru kenningar hennar okkur til góðs, jafnvel nú á tímum. Og það sem meira er, árangurinn af því að fylgja ráðum Biblíunnar er langtum fremri nokkru því sem næst með öðrum hætti. Við skulum í stuttu máli athuga hvernig það á við um siðferði, efnahag og heilsufar.
Biblían og siðferði
Einhverjar stærstu breytingar okkar tíma hafa orðið á afstöðunni til siðferðis. Athafnir, sem áður voru taldar viðurstyggilegar, hafa nú hlotið viðurkenningu. Samfélagið fyrirlítur ekki lengur konur sem fæða börn utan hjónabands. Kynvillingar berjast fyrir „rétti“ sínum fyrir opnum tjöldum. Sú skoðun á miklu fylgi að fagna að enginn hafi rétt til að fetta fingur út í það samlíf sem tveir, fullvaxta einstaklingar velja sér. Og stöðlum Biblíunnar er hafnað sem Viktoríusiðferði.
En staðlar Biblíunnar voru til komnir löngu fyrir 19. öld þegar Viktoría drottning réð ríkjum á Englandi. Og enn sem fyrr eru þeir mannkyninu til góðs. Það hlýtur að vera augljóst þegar haft er í huga að samfara „nýja siðgæðinu“ hafa hjónaskilnaðir stóraukist, fóstureyðingar vaxið gífurlega og þunganir meðal unglingsstúlkna eru líkastar „farsótt.“ Ekki má heldur gleyma heilum sæg samræðissjúkdóma. Þetta eru dýr vandamál sem veikja þrótt manna og eru stundum banvæn. Væri ekki betra að fylgja ráðum Biblíunnar varðandi kynlíf, hreinleika og trúfesti í hjónabandi? — Orðskviðirnir 5:3-11, 15-20; Malakí 2:13-16; Hebreabréfið 13:4; 1. Korintubréf 6:9, 10.
Taktu sérstaklega eftir hvernig þetta sýnir sig í sambandi við einn ákveðinn sjúkdóm sem talað er um í eftirfarandi frétt í The New York Times: „ ‚Ónæmistæring heldur áfram að breiðast hratt út meðal áhættuhópanna, en ekki utan þeirra,‘ segir dr. David J. Sencer, yfirmaður heilbrigðismála í New Yorkborg. . . . Í áhættuhópunum eru kynvilltir karlmenn og karlmenn með kynhneigð til beggja kynja, fíkniefnaneytendur sem nota stungulyf; . . . þeir sem fá blóð úr sýktum blóðgjöfum og rekkjunautar eða börn þeirra sem hafa ónæmistæringu.“
Hvort er í raun skynsamlegra — nokkra mínútna óleyfileg nautn, oft samfara ótta og áhyggjum, eða hrein samviska og sjálfsvirðing? Hvort veitir varanlega hamingju og lífsfyllingu — stutt ástarsamband sem getur haft hörmulegar afleiðingar eða traust samband í hreinu hjónabandi sem Biblían mælir með?
Biblían og efnahagur
Fáir álíta sennilega Biblíuna kunna lausn á fjárhagsörðugleikum. Sé staðli hennar fylgt getur það þó verið talsverð búbót. Hvernig þá?
Orðskviðirnir 23:20, 21, 29, 30; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8.
Oft sólunda menn í óþarfa töluverðum hluta tekna sinna. Það að fylgja Biblíunni er mönnum hjálp til að nota efni sín skynsamlega. Óhóflegur drykkjuskapur er til dæmis oft orsök fátæktar. Milljónir manna hraða sér, þegar þeir hafa fengið útborgað, á næstu krá eða áfengisverslun. Oft eiga þeir ekki nóg, þegar þeir fara út þaðan, til að borga reikningana heima fyrir eða sjá fjölskyldu sinni fyrir viðunandi fæði. Stundum þurfa þeir að slá lán til að kaupa brýnustu nauðsynjar. Biblían fordæmir óhóflega áfengisnotkun og hvetur til hófsemi. —Hið sama er að segja um þá sem eru ánetjaðir tóbaki eða fíkniefnum. Slíkir ósiðir eru dýrir og erfitt að losa sig við þá! Eftirfarandi bréf til sálfræðingsins Joyce Brothers, sem birtist í New York Post, er dæmigert: „Ég byrjaði að neyta kókaíns vegna þess að það var gaman og flestir vina minna notuðu það um helgar. Nú er það farið að standa í vegi fyrir öllu sem gott má teljast í lífi mínu og ég á skelfilega erfitt með að hætta. Ég er tveggja barna móðir og hryllir við þeirri tilhugsun, að geti ég ekki hætt fljótlega muni það koma niður á þeim. Ég neyti þess tvisvar á dag og er skuldug upp fyrir haus. Ég er mjög óhamingjusöm.“
Annar fíkniefnaneytandi skrifaði: „Maðurinn minn og ég höfum bæði komist vel áfram í atvinnulífinu og höfum notað kókaín í þrjú ár. Það var stórkostlegt í byrjun, en núna er það farið að hafa meiri og meiri áhrif á okkur. Það er í rauninni farið að stjórna lífi okkar. Við erum orðin skuldug því að ávaninn er gríðarlega kostnaðarsamur. Við höfum bæði farið í mjög slæmar ‚ferðir.‘ Suma daga vilja skynvillurnar ekki hætta.“
Reykingar hafa líka slæm áhrif á efnahag fólks, þótt ekki sé í sama mæli og fíkniefnanotkun. Í frétt í tímaritinu Modern Office Technology sagði nýverið: „Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem nýlega voru birtar, er mun líklegra að þeir sem ekki reykja séu ráðnir í vinnu en reykingamenn sem eru jafnhæfir til starfsins. Könnunin var byggð á viðtölum við aðstoðarforstjóra og starfsmannastjóra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna . . . og leiddi í ljós að atvinnurekendur vilja langsamlega oftast ráða fólk sem ekki reykir.“ Hvers vegna? Vegna þess að samkvæmt könnun á vegum bandaríska þingsins auka reykingar kostnað þjóðarinnr vegna heilbrigðismála, og er þá einnig tekið mið af lækniskostnaði og skertum afköstum starfsfólks, um 2,6 milljarða króna á ári — jafnvirði rúmlega 80 króna á hvern seldan sígarettupakka!
Já, það eitt að fylgja ráði Biblíunnar um að ‚hreinsa sig af allri saurgun á líkama og sál,‘ er fjárhagsleg hjálp. (2. Korintubréf 7:1) Hið sama er að segja um þá sem halda sér frá fjárhættuspili í sérhverri mynd, eins og meginreglur Biblíunnar kveða á um. (Jesaja 65:11, 12; Lúkas 12:15) Auk þess eru þeir sem halda sér við meginreglur Biblíunnar mikils metnir af vinnuveitendum sínum fyrir heiðarleika, ráðvendni og iðjusemi. Það er ástæðan fyrir því að þeir eru yfirleitt meðal hinna fyrstu til að fá atvinnu og síðastir til að missa hana. — Kólossubréfið 3:22, 23; Efesusbréfið 4:28.
Biblían og heilsufar
Þar eð menn hafa náð svo langt á sviði lækninga og heilsugæslu má spyrja hvort ráð Biblíunnar á því sviði séu orðin úrelt. Raunin er sú að vísindamenn undrast oft
hve nákvæm og nútímaleg Biblían er í málum sem varða læknisfræði og heilsufar, þótt hún hafi verið skrifuð meðan hjátrú var í algleymingi og lítið sem ekkert var vitið um nútímalegar lækningaaðferðir eða þá sýkla og veirur.Þrátt fyrir hinar miklu framfarir læknisfræðinnar eru heilsufarsvandamál eigi að síður mörg og margvísleg. Ráð Biblíunnar stuðla hins vegar að bestu heilsu sem hugsast getur. Eins og þegar hefur verið nefnt er það að fylgja ráðum Biblíunnar okkur vernd fyrir mörgum heilsuspillandi athöfnum. Þau stuðla líka að því að bæta andlegt heilbrigði okkar. (Orðskviðirnir 14:30) Hún hjálpar okkur að forðast skaðleg viðhorf og tilfinningar og láta jákvæða og uppbyggjandi eiginleika koma í þeirra stað.
Taktu til dæmis eftir þessari ráðleggingu í Efesusbréfinu 4:31, 32: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum.“ Já, Biblían sýnir að okkur beri að afklæðast skaðlegum persónuleika og íklæðast nýjum, heilbrigðum, kristnum persónuleika. (Efesusbréfið 4:20-24; Kólossubréfið 3:5-14) Hún hjálpar okkur að þroska ávexti anda Guðs, ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Biblían sér okkur fyrir heilnæmri fæðu til að næra huga okkar og hjarta og vera í friði. — Orðskviðirnir 3:7, 8; 4:20-22; Filippíbréfið 4:6-8.
Þeir sem fylgja reglum Biblíunnar blandast auk þess ekki í glæpi, óeirðir, uppþot eða annað sem getur haft líkamstjón í för með sér. Þeir hafa góða samvisku sem stuðlar mjög að því að varðveita jákvæð viðhorf og góða líkamsheilsu. (1. Pétursbréf 3:16-18) Auk þess eiga þeir sem fylgja ráðum Biblíunnar hlýlegt og hamingjuríkt heimilislíf og friðsamleg samskipti við aðra.
Já, Biblían er gagnleg fyrir okkur nútímamenn. Milljónir manna, sem fylgja meginreglum hennar, eru lifandi vitnisburður þess. Þiggðu boð Biblíunnar um að reyna sjálfur meginreglur hennar. Vottar Jehóva munu fúslega hjálpa þér við það.