Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían — hagnýt fyrir okkar tíma?

Biblían — hagnýt fyrir okkar tíma?

Biblían — hagnýt fyrir okkar tíma?

ÞESSI heimur hefur breyst stórkostlega á enni öld. Svo örar hafa breytingarnar verið að bækur um tæknileg efni eru oft úreltar skömmu eftir að þær koma út. Einna hröðust hefur þróunin verið á sviði vísinda og tækni. Þótt menn hafi byrjað að vinna úr hugmyndinni að baki tölvunni fyrir um það bil 150 árum, er það ekki fyrr en nýverið að tölvur hafa komist í almenna notkun. Nú eru þær notaðar á öllum sviðum, allt frá því að skjóta á loft og stjórna geimflaugum til þess að stemma af heimilisbókhaldið. Þróunin hefur verið ótrúlega hröð, svo hröð að erfitt hefur verið að fylgjast með henni.

Breytingarnar hafa margar hverjar verið mannkyninu til góðs. Nefna má framfarir á sviði fjarskipta, samgangna og læknavísinda, og tæki og tól sem spara mönnum vinnu og erfiði. Til dæmis er oft hægt nú til dags að bjarga stórsködduðum fingri eða hönd, sem áður varð að teljast töpuð, með aðgerð undir smásjá. Við getum flogið yfir á hinn helming hnattarins á aðeins hluta úr degi sem fyrr á tímum hefði tekið mánuði með þeirra tíma samgöngutækjum. Í samanburði við lífið eins og það var fyrir hundrað árum — þegar hvorki voru til bifreiðar, útvarpstæki, kvikmyndir, kæliskápar, þvottavélar, vítamín, fúkalyf, bóluefni né hundruð annarra hluta sem teljast sjálfsagðir núna — lifum við sannarlega breytta tíma.

En framfarir hafa ekki allar verið mannkyninu til blessunar. Beislun kjarnorkunnar er til dæmis alvarleg ógnun lífi og heilsu mannkynsins, einkum vegna þess hve hættuleg geislavirkni er. Útbreidd efnamengun, afleiðing iðnaðar, ógnar okkur líka. Fíkniefni og notkun þeirra eyðileggur líf margra.

Eftirtektarverðust er sú breyting sem orðið hefur á lífsmynstri fólks. Iðnvæðing og umskiptin frá sveitamenningu til borgarmenningar hafa sundrað fjölskyldunni. Meira en nokkru sinni fyrr finnst fólki það frjálst og óháð, og er það einkum áberandi meðal kvenna og barna. Lausn úr fjötrum fyrri lífshátta hefur breytt svo lífsmátta manna og afstöðu til samfélagslegra verðmæta, að hún er vart þekkjanleg miðað við það sem heimurinn hafði þekkt um þúsundir ára.

Biblían er óbreytt

Hvert er þá hægt að snúa sér til að finna vegvísi? Hvar er að fá heilræði sem eiga við nú á dögum? Sérfræðingar í kennslumálum eru sífellt að endurskoða aðferðir sínar og kennslubækur til að halda í við breytingarnar í heiminum. Prestar og atvinnuráðgjafar sníða ráð sín eftir því sem er vinsælt og almennt viðurkennt á hverjum tíma.

Á hinn boginn hefur Biblían verið óbreytt um þúsundir ára. Meira að segja geymir hún strangar aðvarnir um að hvorki bæta við né taka nokkuð burt af því sem í henni er skrifað. (Orðskviðirnir 30:5, 6; Opinberunarbókin 22:18, 19) En er hægt að viðurkenna Biblíuna sem hagnýtan leiðarvísi í heimi nútímans?

Sumir svara því neitandi. „Enginn myndi mæla með að notuð yrði kennslubók frá 1924 til efnafræðikennslu núna; svo mikið hafa menn lært í efnafræði síðan,“ segir dr. Eli S. Chesen í bók sinni Religion May Be Hazardous to Your Health (Trúarbrögð geta verið hættuleg heilsu þinni). Hann heldur áfram: „Eins hafa menn lært mikið í félagsfræði, heimspeki og sálfræði síðastliðnar árþúsundir. Þrátt fyrir það er Biblían (sem hefur margt að segja um þessi efni) notuð sem heimildarrit og sjaldan endurskoðuð.“

Hann bætir við: „Ég undrast það alltaf þegar ég heyri fólk tala um það ‚kraftaverk‘ að Biblían skuli vera óháð tíma og hvernig hún sé jafnþrungin merkingu núna og hún var þegar hún var skrifuð. Það er ekki ósvipað og undrun manns yfir ‚nákvæmni‘ stjörnuspáfræðinnar. Biblían hefur haft svo sterk áhrif að fáum dettur nokkurn tíma í hug að endurskoða hana eða losa sig við hana.“

En er Biblían orðin úrelt, eða eru ráð hennar enn hagnýt og nothæf fyrir okkur?