Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fornleifafræðingur sem mat Biblíuna mikils

Fornleifafræðingur sem mat Biblíuna mikils

Fornleifafræðingur sem mat Biblíuna mikils

„STOÐUNUM hefur verið kippt undan síðustu efasemdunum um að Ritningin hafi borist okkur næstum eins og hún var rituð.“ Á bls. 53 í bók Biblíufélagsins Varðturninn, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, er vitnað í þessi orð Sir Fredericks Kenyons, sem er að finna á bls. 289 í bók hans The Bible and Archæology frá árinu 1940. Hvers vegna komst Kenyon að þessari niðurstöðu? Vegna þess að papýrusrit, sem nýlega höfðu fundist, voru dagsett svo nálægt þeim tíma er Ritningin varð til að hann gat lýst tímanum þar á milli sem „hverfandi.“ Samt sem áður sýndu þessi papýrusrit engin umtalserð frávik frá nýlegri handritum. Það staðfesti að síðari tíma texti, sem Biblían hafði verið þýdd eftir, væri „ósvikinn og almennt heill og óskertur.“

Einn votta Jehóva hefur nokkuð athyglisvert að segja um þennan nafntogaða fornleifafræðing: „Sir Frederick Kenyon átti allmörg af ritum Félagsins, því að í gegnum árin voru það sérréttindi mín að senda honum ýmsar bækur og eiga bréfaskipti við hann. Ég kynntist honum snemma árs 1936. . . . Það var bók eftir dr. Kenyon sem upplýsti mig um uppruna Biblíunnar. Ég skrifaði honum og sagði honum frá því. Nokkru síðar barst mér bók hans The Story of the Bible með eftirfarandi áritun: ‚Með bestu kveðjum frá höfundi, F. G. Kenyon, þann 1. maí 1937.‘

Eftir að hafa fengið bókina ‚The Truth Shall Make You Free,‘ gefin út af Félaginu okkar, skrifaði hann mér: ‚Markmið ykkar er hið sama og mitt; að telja fólk á að lesa og trúa Biblíunni, en þið höfðið til langtum stærri hóps. Bækur mínar eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem er órótt yfir því sem þeim hefur verið sagt um niðurstöður biblíugagnrýni og uppgötvana, en ykkar bækur tala til alls konar fólks af öllum stéttum. Ég óska ykkur alls hins besta í starfi ykkar.‘

Síðar skrifaði hann mér viðvíkjandi tveimur öðrum af ritum Félagsins og minntist aftur á sameiginlegt markmið okkar, ‚að hvetja fólk til að lesa Biblíuna og lesa hana með skilningi.‘ Hann bætti við: ‚Það gleður mig að heyra að bækur ykkar skuli ná mikilli útbreiðslu í mörgum löndum heims.‘ . . .

Árið 1948 gaf Sir Frederick út bókina The Bible and Modern Scholarship sem svar við bók dr. Barnes, biskups í Birmingham, sem hafði lýst hlutum Biblíunnar sem ‚þjóðsögu,‘ þeirra á meðal þeim sem varða endurlausn vegna Krists Jesú. Í inngangsorðum bókarinnar segir dr. Kenyon: ‚Ítarleg athugun á bók biskups hefur sannfært mig um að hún sé ekki lýsing á niðurstöðum nútímalegrar fræðimennsku, heldur þess í stað endurlífgun þeirrar biblíugagnrýni, sem var í tísku fyrir um 70 árum, og sniðgangi nánast algerlega árangurinn af rannsóknum síðustu 50 ára.‘ Um bók sína sagði Kenyon: ‚Ég álít tímabært . . . að endurvekja traust manna til Biblíunnar sem leiðarvísi til sannleikans og grundvallar mannlegrar breytni. . . . Ég get einungis vonað að [þessi bók] megi verða einhver hjálp þeim sem horfa til kristninnar sem einustu vonar okkar ringlaða heims, og til Biblíunnar sem hins trausta grundvallar kristinnar trúar.‘

Þessi heimsfrægi biblíufræðimaður, sem hafði látið svo vingjarnleg orð falla um rit votta Jehóva, var auðmjúkur og vinsamlegur maður. . . . Árið 1889, eftir að hafa sýnt afburðahæfileika við nám sitt í Oxford, réðst hann til British Museum sem aðstoðarmaður við handritadeildina. Síðar var hann gerður að aðstoðarbókaverði handritadeildar og árið 1909 tók hann við starfi forstöðumanns og aðalbókavarðar við British Museum. Á fyrri hluta síns langa embættisferlis beindist áhugi hans fyrst og fremst að biblíuhandritum og fundi nýrra papýrushandrita. Sem forstöðumaður bar hann síðar ábyrgð á fornleifarannsóknum í Karkemish og Úr. Eftir að hann lét af störfum átti hann þátt í feng handritsins Codex Sinaiticus og birtingu Chester Beatty-papýrushandritanna sem átt hafa þátt í að sýna fram á áreiðanleika Grísku ritningana.

Að lokum er við hæfi að vitna í bók hans The Story of the Bible: ‚Biblían segir sögu manna auk þess að eiga sér innblástur frá Guði að baki. Hún segir athyglisverða sögu sem allir ættu að þekkja er meta Biblíuna. . . . Það er hughreystandi að samanlögð niðurstaða allra þessara uppgötvana og allra þessara rannsókna skuli styðja sannanirnar fyrir því að Ritningin sé áreiðanleg, og þá sannfæringu okkar að við höfum undir höndum hið sanna orð Guðs nánast í upprunalegri mynd.‘ “