Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifað fyrir vilja Guðs — nú og að eilífu

Lifað fyrir vilja Guðs — nú og að eilífu

Lifað fyrir vilja Guðsnú og að eilífu

‚Svo skuluð þér . . . ekki lifa framar í mannlegum fýsnum, heldur lifa tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.‘ — 1. PÉTURSBRÉF 4:​1, 2.

1, 2. (a) Hver eru viðbrögð margra við hugmyndinni um að beygja sig undir vilja einhvers annars? (b) Hvernig geta sumir í kristna söfnuðinum brugðist við því? (c) Hvaða spurningum er því varpað fram?

 HVERNIG orkar sú hugmynd á þig að láta Guð ráða yfir lífi þínu? Mörgum þykir jafnvel ógeðfelld tilhugsunin að þurfa að beygja sig undir vilja einhvers annars. Jafnvel í hinum svonefndu traustu og stöðugu þjóðfélögum er vaxandi uppreisnarhugur gegn yfirvaldi. Víða eru óeirðir, mótmælaaðgerðir, ólga og ofbeldi daglegt brauð. Hið fágaða yfirborð siðmenningarinnar er þunnt og brothætt. — 2. Tímóteusarbréf 3:​1-3.

2 Ólíkt þessu sýna vottar Jehóva að þeir lifa fyrir vilja Guðs, til dæmis með trúfesti sinni í starfinu hús úr húsi. En jafnvel innan kristna safnaðarins hefur stundum komið fyrir að einn og einn hafi látið anda sjálfstæðisins hafa áhrif á sig. Þeir láta sér kannski gremjast aga öldunganna. Fáeinir sýna ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ og hinu stjórnandi ráði óvirðingu. (Matteus 24:​45-47; Postulasagan 15:​2, 23) Því vaknar sú spurning hvers vegna við ættum að beygja okkur undir vilja Guðs. Hvers vegna ættum við að láta Guð ráða yfir lífi okkar?

Óeigingjarnt fordæmi Krists

3. Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur varðandi hugarfar okkar?

3 Pétur, sem hafði gengið í gegnum margt með Jesú, áleit mjög góða ástæðu fyrir því að lifa fyrir vilja Guðs í stað síns eigin. Hann skrifaði: „Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd, hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.“ — 1. Pétursbréf 4:​1, 2.

4. Hvernig sýndi Jesús undirgefni sína við föðurinn?

4 Hvers vegna þjáðist Jesús í holdinu? Vegna þess að hann studdi málstað föður síns í deilumálinu um drottinvaldið yfir alheiminum. Hann sannaði að Guð væri sannsögull og Satan lygari. Það gerði hann með því að láta Guð ráða yfir jarðlífi sínu, jafnvel þótt það endaði með píslarvættisdauða. — 2. Korintubréf 5:​14, 15.

5. Hvaða áskorun fyrir okkur er fólgin í fordæmi Krists?

5 Dauði Krists var þó í raun tjáning á kærleika Guðs. (1. Jóhannesarbréf 4:​10) Hvernig víkur því við? Dauði hans opnaði öllu mannkyni leið til að hljóta ríkulega blessun. (Rómverjabréfið 5:​8; 6:​23) En hve margir eru fúsir til að þiggja þessa blessun? Hve margir eru fúsir til að líkja eftir Kristi og fórna sínum eigin löngunum til að beygja sig undir vilja Guðs? — Hebreabréfið 13:​15, 17.

Blessun nú og í framtíðinni

6, 7. Hvaða blessun fylgir því að beygja sig undir vilja Jehóva?

6 Því á vel við, jafnvel nú á tímum, það boð sem Jehóva lét út ganga til Ísraelsþjóðarinnar fyrir 2700 árum: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:​17, 18; samanber 1. Mósebók 22:​18.

7 Jehóva kennir okkur það sem er okkur gagnlegt, og það fáum við með því að lifa fyrir vilja hans. Þetta gagn felst ekki aðeins í friði og réttlæti hér og nú. Það felur í sér eilíft líf og blessun eins og Jesús hét: „Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“ — Jóhannes 6:​40.

8. Á hvaða veg er loforð Jesú um upprisu hughreysting nú á dögum?

8 Þessi orð eru mikil hughreysting trúföstum kristnum mönnum nú á dögum sem komnir eru á efri æviár. Nú eru liðin 72 ár frá tímamótaárinu 1914. Heimur Satans hefur staðið lengur en margir bjuggust við. Meira að segja eru látnir sumir trúfastir kristnir menn sem væntu þess að sjá Harmagedón og upphaf nýrrar heimsskipanar meðan þeir væru á lífi. En samt sem áður hefur lífi þeirra, helgað því að gera vilja Guðs, ekki verið kastað á glæ. Jesús mun halda loforð sitt og reisa þá upp frá dauðum og veita þeim þá blessun sem eilíft líf er. — Jóhannes 5:​28, 29; 1. Korintubréf 15:​58.

Hugarfar Krists

9, 10. (a) Með hverju þurfum við að herbúast? (Filippíbréfið 2:​5-8) (b) Hvað er sérstakt í sambandi við gríska orðið sem þýtt er ‚hugarfar‘ í 1. Pétursbréfi 4:​1?

9 Hvað getur auðveldað okkur að beygja okkur undir vilja Guðs? Eftir orðum Péturs, sem í var vitnað í 3. tölugrein, verðum við að herklæðast „sama hugarfari“ og Jesús hafði. — 1. Pétursbréf 4:​1.

10 Pétur notar hér grískt orð sem kemur aðeins tvívegis fyrir í Grísku ritningunum — ennoia. Þótt sumir biblíuþýðendur þýði það „hugur“ er það ekki venjulega orðið um ‚huga‘ sem er nous. Þegar Pétri var blásið í brjóst að skrifa þetta hlýtur hann því að hafa haft eitthvert ákveðið atriði í huga með því að velja þetta sjaldgæfara orð. Grískufræðingurinn W. E. Vine segir að ennoia merki „tilgang, ætlun, áform.“ Greek-English Lexicon eftir J. H. Thayer skilgreinir það sem „tilfinninga- og hugsunarhátt.“

11. Hvað getum við lært af fordæmi Jesú varðandi það hvernig við lifum lífinu?

11 Hin fórnfúsa lífsstefna Jesú bar glöggt vitni um tilgang hans eða áform. Líf hans var ekki yfirborðslegt, helgað munaði og skemmtun. Hann vissi að hann hafði ekki fórnað sínu fyrra lífi á himnum til að sólunda fáeinum árum á jörðinni í eigingjörnum tilgangi. (Berið saman 1. Mósebók 6:​1, 2, 4 og Júdasarbréfið 6.) Því sagði hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra minn vilja, heldur vilja þess, er sendi mig.“ (Jóhannes 6:​38) Jesús var stefnufastur í hollustu sinni við málstað föður síns, tók hann alltaf fram yfir sinn eigin vilja, jafnvel fram í smánarlegan dauða. — Lúkas 22:​42.

12, 13. (a) Hvernig lét Jesús hugarfar sitt í ljós við Jakobsbrunn? (b) Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um“?

12 Jafnvel þegar Jesús var þreyttur og hungraður sýndi hann greinilega hvert var hugarfar hans gagnvart vilja föður síns. Einhverju sinni hvíldist hann við Jakobsbrunn meðan lærisveinar hans fóru að afla vista. Í stað þess að næla sér í verðskuldaðan blund þar til lærisveinarnir kæmu aftur lagði hann sig fram í að gera vilja Guðs. Hann gerði nokkuð sem var óvanalegt af Gyðingi — gaf sig á tal við samverska konu. Hann opnaði augu hennar svo að hún skildi orð hins sanna Guðs betur. Af því leiddi að „margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar.“ — Jóhannes 4:​6-26, 39-42.

13 Þegar lærisveinarnir komu aftur hvöttu þeir hann til að matast. Hverju svaraði hann? „Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um.“ Þeir skildu ekki hvað hann átti við fyrr en hann bætti við: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ Greinilegt er að Jesús hafði ánægju af því að lúta vilja föður síns. Það var eins og matur fyrir hann og veitti honum sams konar vellíðan og menn finna til eftir að hafa neytt lystugrar máltíðar. Ef við viljum njóta lífsfyllingar er ekkert betra sem við getum gert en að fylgja fordæmi Jesú Krists. — Jóhannes 4:​31-38.

Áhrifin af hugarfari Krists

14. Hvað þurfum við að hafa til að tileinka okkur hugarfar Krists? Lýsið með dæmi.

14 Hvaða áhrif ætti það að vera með sama hugarfari og Kristur að hafa á okkur? Ef við lærum að hugsa eins og Kristur munum við búa að krafti hið innra sem kemur okkur til að gera það sem Jesús hefði gert undir sömu kringumstæðum. (Lúkas 22:​42; Efesusbréfið 4:​23, 24) Þessi kraftur stafar ekki aðeins af óttanum við refsingu, svo sem aga frá öldungum safnaðarins, heldur því að við metum mjög mikils lög Jehóva og meginreglur. Við getum líkt þessu við mann sem hlýðir umferðarlögum aðeins þegar lögreglan er nálægt — hann lætur aðeins ytri áhrif stjórna gerðum sínum. En sá sem metur lífið að verðleikum, elskar náunga sinn og sér viskuna í því að hafa umferðarlög hlýðir þeim vegna þess að hann virðir þau. Hann býr yfir sterkri, innri hvöt. — Sálmur 51:​12.

15. (a) Hvað sannar að Jesús hafði kraft hið innra sem knúði huga hans? (Efesusbréfið 4:23) (b) Hvaða dæmi um ráðvendni bera vitni um hugarfar Krists meðal kristinna manna nú á tímum?

15 Jesús hafði þennan innri kraft sem knúði huga hans. Þess vegna var hann trúfastur vilja föður síns, meira að segja til dauða. Hann þoldi þjáningar án þess að kvarta eða kalla ofsækjendur sína öllum illum nöfnum. (1. Pétursbréf 2:​21-24) Stundum getum við, kristnir menn, þurft að þola svipað álag. Yfirvöld, andstæð starfi okkar, geta átt til að reyna að stöðva prédikunarstarf okkar og samkomur eins og gert var á Spáni í tíð Francos og ýmsum Evrópulöndum meðan hernám nasista stóð yfir. Fjölda bræðra og systra var misþyrmt í þeim tilgangi að reyna að fá þau til að ljóstra upp hvaða bræður færu með ábyrgð í söfnuðinum á staðnum. Þrátt fyrir ofsóknirnar stóðu langflestir fastir fyrir. (Sjá Árbók votta Jehóva 1978 bls. 171-2, 182-3; og Árbók votta Jehóva 1986 bls. 137-59.)

16. Nefnið dæmi um hvernig prófraunum við getum orðið fyrir. Hvernig getum við staðist þær?

16 Við getum orðið fyrir þrýstingi í tenglsum við kristið hlutleysi eða blóðgjafir. (Postulasagan 5:​29; 15:​28, 29) Þegar slíkt gerist kemur upp sú spurning hvort við lifum fyrir vilja Guðs eða manns. Sambland holdlegra langana og óheilnæmur félagsskapur getur verið alvarleg freisting fyrir okkur. Vera má að í skóla eða á vinnustað bjóðist okkur tækifæri til að reykja eða neyta fíkniefna án þess að nokkur annar í söfnuðinum viti af því. Og hvað um freistinguna að spila í happdrætti, eða fremja hjúskaparbrot eða saurlifnað? Veraldlegt andrúmsloft á vinnustað getur stuðlað að röngum hugsunarhætti og röngum verkum — nema því aðeins að við séum jafneinbeitt og Kristur í því að gera vilja Guðs. Hvað munt þú gera? Hefur þú kraft hið innra sem verkar þannig á huga þinn að þú fylgir sömu stefnu og Kristur við slíkar aðstæður? — Efesusbréfið 4:​17-20; 1. Jóhannesarbréf 2:​15, 16.

17, 18. (a) Hvað undirstrikar Pétur í sambandi við þá sem iðka synd? (b) Hvers er þörf til að standa á móti freistingum til að syndga?

17 Pétur undirstrikar af enn meiri ákveðni nauðsyn þess að gera vilja Guðs þegar hann segir: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun. Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður. En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða.“ — 1. Pétursbréf 4:​3-5.

18 Pétur kemur hér að mikilvægu atriði — þeir sem virða vilja Guðs að vettugi verða að standa honum reikningsskil. (Samanber Rómverjabréfið 14:​12 og Hebreabréfið 13:​17.) Páll kemst að svipaðri niðurstöðu í bréfi sínu til Kólossumanna þegar hann segir: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.“ Allir þeir sem stunda slíkt lifa vissulega ekki fyrir vilja Guðs heldur það að fullnægja óhreinum fýsnum sínum. Þó getur fólk rifið sig upp úr slíkri siðspillingu, því að Páll segir: „Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum.“ — Kólossubréfið 3:​5-7; Efesusbréfið 4:​19; sjá einnig 1. Korintubréf 6:​9-11.

Skildu hver vilji Guðs er

19. Hvernig sýna margir að þeir lifa fyrir vilja Jehóva? (Rómverjabréfið 12:1, 2)

19 Núna á síðustu árum 20. aldarinnar hafa yfir þrjár milljónir manna komist til skilnings á því hver sé vilji Guðs með þá. Af því leiðir að þeir prédika kostgæfilega fagnaðarerindið um Guðsríki. (Postulasagan 8:​12; Markús 13:​10) Þeir lifa ekki bara fyrir sjálfa sig eins og þorri manna gerir. Þeir vita að Guð mun bráðum binda enda á þetta spillta heimskerfi og þeir færa fórnir til að hjálpa öðrum að afla sér nákvæmrar þekkingar eins og Páll postuli ráðlagði: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja hver sé vilji [Jehóva].“ — Efesusbréfið 5:​15-17.

20, 21. (a) Hvernig ættum við að líta á þá gjöf sem lífið er? (Jakobsbréfið 4:​13-17) (b) Hvernig getum við forðast að láta þennan heim móta okkur?

20 Lífið er eins og glas af köldu, fersku vatni. Á fyrstu áratugum ævinnar teygar maðurinn hratt og djúpt af glasinu — þangað til hann fer að velta fyrir sér hversu mörg æviár séu eftir í „glasinu.“ Það er þó spurning sem enginn getur svarað. Sannarlega er því mikilvægt að hafa ábyrgðartilfinningu gagnvart Guði og náunga sínum! Hversu mikilvægt er ekki að taka tillit til vilja Guðs, ekki aðeins hins eigingjarna vilja sjálfs sín! — Matteus 7:​21, 24, 26.

21 Ekki er alltaf auðvelt að lifa fyrir vilja Guðs eins og við gerum, í heimi sem andi Satans drottnar yfir. (Opinberunarbókin 12:​9) Þrýst er á okkur úr öllum áttum til að reyna að móta okkur eftir vilja heimsins og hugarfari. Stundartíska og ýmiss konar æði getur jafnvel haft áhrif á suma í söfnuðinum, þannig að þeir fari að líta út eins og eftirmynd frægra stjarna úr heimi skemmtanalífsins. Því eiga vel við þau ráð sem Páll gaf: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“! — Rómverjabréfið 12:​2.

22. (a) Hver er vilji Guðs með okkur núna? (b) Hvernig getum við sýnt að við lifum fyrir vilja Guðs? (c) Hvaða blessun bíður þeirra sem lifa fyrir vilja Guðs?

22 Það er vilji Guðs að „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ sé prédikað um allan heim áður en hann bindur enda á núverandi heimsskipan. (Matteus 24:​14; Opinberunarbókin 14:​6, 7) Það gefur okkur enn ríkari ástæðu til að bregðast jákvætt við þörfinni fyrir fleiri þjóna orðsins í fullu starfi, svo framarlega sem kringumstæður okkar leyfa. Það er líka tilefni fyrir öldunga og safnaðarþjóna til að vera fúsir til að flytja til safnaða þar sem meiri þörf kann að vera fyrir hjálp þeirra. Og það er ærin ástæða fyrir sérhvern vott til að vera ósvikinn kristinn vottur — ekki vera aðeins kristinn að nafninu til heldur í raun að lifa fyrir vilja Guðs nú og að eilífu. Þú mátt vita að með því að gera það ert þú að ‚safna handa þér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, til að þú getir höndlað hið sanna líf.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:​19.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig sýndi Jesús að hann lifði fyrir vilja Guðs?

◻ Hvaða blessun geta þeir hlotið sem lifa fyrir vilja Guðs?

◻ Hvaða hugarfar hafði Kristur gagnvart því að gera vilja Guðs?

◻ Hvernig ætti ‚andi hugskotsins‘ að hafa áhrif á okkur?

◻ Hvaða viðhorf ættum við að hafa til lífsins?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 11]

Hlýðir þú lögum vegna virðingar fyrir þeim eða aðeins þegar lögreglan sér til?