Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn guðsdýrkun hrósar sigri

Sönn guðsdýrkun hrósar sigri

Höfuðþættir biblíubókanna Nehemía 1:1–13:31

Sönn guðsdýrkun hrósar sigri

Sönn guðsdýrkun hrósar sigri vegna einurðar og óhagganlegs trausts til Jehóva. Þetta er kjarni Nehemíabókar. Hún geymir lifandi frásögu af því er múrar Jerúsalem voru endurbyggðir undir hugrakkri forystu Nehemía.

Frásögn bókarinnar nær yfir örlagaríkt tímabil þegar hinar 70 vikur ára fram til komu Messíasar áttu að hefjast. (Daníel 9:24-27) Fyrsta versið og það að út í gegnum frásöguna er talað í fyrstu persónu, sýnir greinilega að Nehemía var ritarinn. Bókin er framhald Esrabókar og tekur upp þráðinn um tólf árum eftir að frásögn Esra lýkur.

Lestur þessarar frásögu sýnir okkur hve undursamlega Jehóva stýrir atburðum svo að vilji hans nái fram að ganga. Við veitum líka athygli hvernig hann styrkir og hughreystir drottinholla þjóna sína.

Neyð Jerúsalem

Lestu Nehemía 1:1-2:20. Nehemía, byrlari Persakonungs, kemst að því að múrar Jerúsalem eru enn niðurbrotnir og að landsmenn „eru mjög illa staddir.“ Þetta fær mjög á Nehemía og hann úthellir hjarta sínu fyrir Jehóva í heitri bæn. Konungur veitir athygli hryggð hans, og þar með gefst Nehemía tækifæri til að fara til Jerúsalem og sjá um að borgarmúrinn sé endurreistur.

1:1 — Hvaða ár var þetta?

Þetta var á 20. ári Artasasta konungs (Longimanus). (2:1) Þar eð kíslev (nóvember-desember) kemur á undan nísan (mars-apríl) í frásögunni virðast Persakonungar hafa talið stjórnarár sín frá hausti til hausts, eða frá þeim tíma þegar þeir settust í hásætið. Áreiðanlegar sagnfræðiheimildir og uppfylltir biblíuspádómar benda á að 20. ríkisár Artasasta hafi verið árið 455 f.o.t. Frásögn Nehemía hefst því haustið 456 f.o.t., og tilskipunin um endurbyggingu múra Jerúsalem var gefin vorið 455 f.o.t.

2:4 — Var þetta örvæntingarfull bæn gerð í skyndingu?

Nei, því að Nehemía hafði um þó nokkurn tíma talað „bæði daga og nætur“ um ástand Jerúsalem í bænum sínum. (1:4, 6) Þegar honum gafst tækifæri til að segja Artasasta konungi frá löngun sinni til að endurreisa múra Jerúsalem bað hann aftur, og endurtók þar með það sem hann hafði gert oft áður. Jehóva svaraði bæn hans þannig að honum var falið að endurbyggja borgarmúrana.

Lærdómur fyrir okkur: Nehemía leitaði handleiðslu Jehóva. Þegar við þurfum að taka alvarlegar ákvarðanir ættum við líka að vera „staðfastir í bæninni“ og breyta samkvæmt handleiðslu Jehóva. — Rómverjabréfið 12:12.

Múrinn endurreistur þrátt fyrir samsæri

Lestu 3:1-6:19. Þegar endurreisn múrsins hefst hæða óvinirnir og spotta. Síðar hóta þeir að ráðast á Gyðingana. Nehemía lætur engan bilbug á sér finna og hvetur verkamennina: „Minnist [Jehóva], hins mikla og ógurlega.“ Helmingur þeirra stendur vörð vopnaðir lensum og bogum, en hinn helmingurinn vinnur að múrhleðslunni með vopnin til reiðu. Þrátt fyrir hótanir og fleiri samsæri ljúka Gyðingar endurbyggingu múrsins á 52 dögum!

3:5 — Hver voru þessi „göfugmenni“?

Þeir voru framámenn Gyðinga meðal íbúa eða fyrrverandi íbúa borgarinnar Tekóa sem lá um 16 kílómetra suður af Jerúsalem. Þessi „göfugmenni“ virðast hafa verið of stolt til að auðmýkja sig og vinna undir stjórn umsjónarmanna sem Nehemía skipaði. — Samanber Jeremía 27:11.

4:17 — Hvernig unnu þeir með annarri hendinni?

Steinsmiðirnir hafa orðið að vinna með báðum höndum. Þeir voru gyrtir vopnum við lend sér. (4:18) Burðarmennirnir gátu auðveldlega haldið á vopni í annarri hendi og borið mold eða grjótmulning á öxl sér eða höfði. — 1. Mósebók 24:15, 45.

5:7 — Hvers vegna var okur rangt?

Það var skýlaust brot á lögmáli Jehóva. (3. Mósebók 25:36; 5. Mósebók 23:19) ‚Skuldakrafan‘ („hundraðið,“ NW) hefði jafngilt tólf af hundraði á ári væri hún greidd mánaðarlega. (5:11) Fólkið var þá þegar í miklum nauðum vegna hungursneyðar og þungrar skattbyrði Persa. (5:3, 4) Samt sem áður lögðu hinir ríku miskunnarlaust vexti á fátæka bræður sína.

6:5 — Hvers vegna „opið bréf“?

Trúnaðarbréf voru oft sett í vandlega innsiglaða poka. Vera má að Sanballat hafi hugsað sér að vera móðgandi með því að senda „opið bréf.“ Þar eð aðrir gátu lesið ásakanirnar í ‚opnu bréfi‘ má vera að hann hafi vonast til að Nehemía kæmist í svo mikið uppnám, að hann yfirgæfi Jerúsalem og kæmi á hans fund til að bera af sér ásakanirnar. Einnig getur hugsast að Sanballat hafi vonast til að bréfið myndi vekja slíka skelfingu að Gyðingar létu af verkinu.

Lærdómur fyrir okkur: Við ættum ekki að líta á erfiðisvinnu sem ósamboðna virðingu okkar, og ekki halda að okkur höndum eins og ‚göfugmennin‘ frá Tekóa. Þess í stað ættum við að leggja okkur fram eins og hinir almennu Tekóamenn sem lögðu af mörkum tvöfalt meira en þeim var ætlað. — Nehemía 3:5, 27.

Sönn guðsdýrkun endurlífguð

Lestu 7:1–10:39. Allt verkið er gert í einum tilgangi: Að endurreisa sanna guðsdýrkun. Eftir að manntal hefur verið tekið kemur fólkið saman til að heyra Esra og Levítana lesa og skýra lögmálið. Eftir að hafa aukið þannig skilning sinn heldur það fagnandi laufskálahátíð. Fólkið fastar og játar syndir sínar og skref eru stigin til að leiðrétta það sem aflaga hefur farið.

7:6 — Hvers vegna ber skrám Nehemía og Esra ekki saman?

Báðum frásögunum ber saman um að alls hafi farið heim 42.360, auk þræla og söngvara. (Esra 2:64, 65; Nehemía 7:66, 67) Þó ber ekki saman tölum um fjölda hinna heimkomnu af einstökum fjölskyldum. Líklegast er að Esra og Nehemía hafi notað hvor sína aðferð við samantekt skránna. Til dæmis gæti hugsast að annar hafi talið saman þá sem skráðir voru til heimfarar, en hinn hafi talið þá sem í raun sneru heim. Sumir prestar, svo og hugsanlega fleiri, voru ófærir um að færa sönnur á ætterni sitt. (7:64) Það skýrir ef til vill hvers vegna heildarsumma skrárinnar nær ekki tölunni 42.360.

8:8 — Hvernig var lögmálið ‚útskýrt‘?

Auk skýrrar framsagnar og áherslna útlistuðu Esra og aðstoðarmenn hans lögmálið og heimfærðu meginreglur þess á þann veg að fólk skildi þær betur. Biblíurit og samkomur votta Jehóva þjóna líka því hlutverki að ‚útskýra‘ orð Guðs.

9:1 — Hvers vegna klæddust Ísraelsmenn hærusekk og jusu mold yfir höfuð sér?

Það að klæðast hærusekk — dökkri flík ofinni úr geitahári — var tákn sorgar. Það að ausa mold eða ösku yfir höfuð sér eða líkama táknaði líka djúpan harm eða auðmýkingu. (1. Samúelsbók 4:12; 2. Samúelsbók 13:19) Gyðingar gerðu það til að tjá hryggð sína og að þeir viðurkenndu í auðmýkt syndir sínar. Þeir skrifuðu síðan undir játningu og gerðu „fasta skuldbindingu.“ (9:38) Á sama hátt verðum við í auðmýkt að viðurkenna og játa syndir okkar ef við eigum að vernda samband okkar við Guð. — 1. Jóhannesarbréf 1:6-9.

10:34 — Var kveðið á í lögmálinu um viðarfórnir?

Nei, en mikinn við þurfti til að halda eldi logandi á altarinu. Svo virðist sem ekki væru nægilega margir musterisþjónar, sem meðal annars voru „viðarhöggsmenn,“ meðal hinna heimkomnu, en þeir voru ekki Gyðingar að ætterni. (Jósúa 9:23, 27) Til að tryggja nægan eldivið var ákveðið með hlutkesti hvaða ætt skyldi útvega eldivið á ákveðnum tíma.

Lærdómur fyrir okkur: ‚Gleði Jehóva‘ var afleiðing aukins skilnings á orði Guðs, þess að heimfæra það á sjálfan sig og lúta guðræðislegri forystu. (8:10) Vottar Jehóva gera sér líka ljóst hversu mikilvægt einkanám er, regluleg samkomusókn og þjónusta á akrinum til að viðhalda gleði.

Múrarnir vígðir

Lestu 11:1–12:47. Til að Jerúsalem geti haldið áfram að vera miðstöð sannrar guðsdýrkunar þarf íbúum hennar að fjölga. Sumir bjóða sig fram til að flytja til borgarinnar, en auk þess er varpað hlutkesti um að einn maður af hverjum tíu, sem býr utan hennar flytjist þangað. Við vígslu múranna er farið í skrúðgöngu og fögnuður manna er mikill. Færðar eru miklar fórnir og fagnaðarlætin heyrast langt að.

11:2 — Hvers vegna voru sjálfboðaliðarnir ‚blessaðir‘?

Einhver kostnaður og óþægindi fylgdu því að fara frá erfðagóssi sínu og flytjast til Jerúsalem. Þeir sem bjuggu í borginni þurftu ef til vill líka að horfast í augu við ýmsar hættur. Við slíkar aðstæður þótti mönnum vafalaust lofsvert að einhverjir skyldu bjóða sig fram af sjálfsdáðum, og báðu þess eflaust að Jehóva blessaði þá.

12:27 — Hvenær var múrinn vígður?

Hleðslu múrsins lauk 25. dag sjötta mánaðarins, elúl, árið 455 f.o.t. og Ísraelsmenn söfnuðust saman þar strax í næsta mánuði. (6:15; 8:2; 9:1) Vígslan fór sennilega fram strax eftir það sem hámark hins gleðiríka atburðar.

Lærdómur fyrir okkur: Hinn fúsi sjálfboðaandi og lofgjörð til Jehóva með söng og tónlist gladdi menn mjög. Á mótum og við önnur tækifæri bjóða vottar Jehóva fram þjónustu sína öðrum til gagns og syngja Guði lof af heilu hjarta.

Þjóðin hreinsuð

Lestu 13:1-31. Þegar Nehemía snýr aftur eftir ferð sína til persnesku hirðarinnar, verður hann skelfingu lostinn yfir því sem gerst hefur í fjarveru hans. Hann lætur þegar til skarar skríða að bæta það sem aflaga hefur farið.

13:3 — Hverjir voru þessir ‚útlendingar‘?

Hér virðist átt við „útlendinga“ svo sem Móabíta, Ammoníta og þá sem voru Ísraelskir í aðra ættina. (13:1, 2) Þetta má ráða af því að áður höfðu Gyðingar sent burt bæði útlendar konur sínar og syni þeirra. (Esra 10:44) Nú höfðu Gyðingar aftur tekið sér erlendar konur, og það útheimti að þessar konur og börn þeirra væru útilokaðar frá samfélaginu, landinu og þar með þeim sérréttindum að tilbiðja Jehóva með fólki hans. — Nehemía 13:23-31.

Lærdómur fyrir okkur: Gyðingum var hrösunargjarnt á vegi dyggðarinnar og það er okkur fordæmi til viðvörunar. Við þurfum að vera vökul á verði okkar gegn efnishyggju, spillingu og fráhvarfi frá trúnni.

Aftur og aftur undirstrikar Nehemíabók þá meginreglu að „ef [Jehóva] byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis.“ (Sálmur 127:1) Meginlexía bókarinnar er að það sem við gerum heppnast aðeins ef við höfum blessun Jehóva. Sú blessun er undir því komin að við látum sanna guðsdýrkun hafa forgang fram yfir annað í lífi okkar.